21.4.2017 | 13:02
Gæsamatur finnst á Íslandi
Erfðafræðingar eiga nokkrar uppáhaldslífverur, t.a.m. vann Gregor Mendel með sykurbaunir og Thomas H. Morgan með ávaxtaflugur. Tilraunalífverur í erfðafræði eiga það flestar sammerkt að hafa stuttan kynslóðatíma, vera auðveldar í eldi og frekar smávaxnar. Helsta tilraunalífvera plöntuerfðafræðinga er gæsamatur (Arabidopsis thaliana), smávaxin planta sem finnst í Asíu, Evrópu og Ameríku.
Hingað til hefur gæsamatur ekki fundist hérlendis, ekki frekar en ávaxtaflugur. En nýlega uppgötvaðist stofn gæsamatar í fyrsta skipti á Íslandi. Tegundin fannst í maí 2015 á jarðhitasvæði við Deildartunguhver. Eintökum var safnað til þurrkunar og þeim síðan komið fyrir í plöntusafni AMNH á Akureyri þar sem þau fengu númerið VA21379. Blómknöppum og laufblöðum var einnig safnað á staðnum fyrir litningagreiningu og raðgreiningu erfðamengis.
Litningarannsóknir staðfesta auðkenni tegundarinnar, plönturnar frá Deildartungu eru gæsamatur. Raðgreining erfðamengis íslensku sýnanna var borin saman við gagnasafn, sem inniheldur 1001 stofn gæsamatar víðsvegar að úr heiminum. Engar vísbendingar eru um að íslenski stofninn sé uppruninn frá Norður-Ameríku. Íslensku sýnin eru skyldust þeim sænsku en skyldleikastuðinn er lágur. Niðurstaðan er að þótt plöntur sem fundust á Íslandi séu skyldari stofnum frá Skandinavíu en stofnum annars staðar frá, er ekki alveg ljóst hvaðan þær eru ættaðar.
Rannsóknina framkvæmdu Kesara Anamthawat-Jonsson prófessor við Líf- og umhverfisvísindadeild og Hjörtur Þorbjörnsson við Grasagarð Reykjavíkur og samstarfsmenn þeirra við Rannsóknastöðvar í Brno Tékklandi og Gregor Mendel stofnunina í Vín.
Niðurstöður rannsóknarinnar voru birtar í hinu íslenska búvísinda og náttúrufræðitímariti IAS.
Greinin er opin á netinu: Icelandic accession of Arabidopsis thaliana confirmed with cytogenetic markers and its origin inferred from whole-genome sequencing.
Mynd af gæsamat er úr skrá Náttúrufræðistofnunar Íslands.
Gæsamatur nefnist ný planta | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Vísindi og fræði | Facebook
Nýjustu færslur
- Eru virkilega til hættuleg afbrigði veirunnar sem veldur COVI...
- Grunnrannsóknir eina aðferðin til að skapa nýja þekkingu og e...
- Lífvísindasetur skorar á stjórnvöld að efla hlut Rannsóknasjó...
- Eru bleikjuafbrigði í Þingvallavatni að þróast í nýjar tegundir?
- Hröð þróun við rætur himnaríkis
- Leyndardómur Rauðahafsins
- Loftslagsbreytingar og leiðtogar: Ferðasaga frá Suðurskautsla...
- Genatjáning í snemmþroskun og erfðabreytileiki bleikjuafbrig...
- Fjöldi og dreifing dílaskarfa á Íslandi
- Staða þekkingar á fiskeldi í sjó
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.