Leita í fréttum mbl.is

Hræðist ríkisstjórnin vísindi og fræði?

Á miðöldum var myrkur í mannheimum. Fólk þjáðist af sjúkdómum, fáfræði og næringarskorti, auk þess að vera undir hæl valdatéttar landeigenda, auðmanna og trúarpostula. Upplýsingin braut þessa hlekki, færði mannlegt samfélag til betri vegar, meðal annars með því að geta af sér hin fjölbreytilegustu vísindi og fræði.

Mikilvægata afurð upplýsingarinnar er ekki þekkingin, heldur aðferðirnar sem við getum beitt til að afla þekkingarinnar. Aðferðirnar eru bæði yfirveguð og hófstillt orðræða (samtal) en einnig vísindaleg nálgun og hugsun. Hér erum við ekki að tala um mælitæki eða verkfæri, heldur skipulagða og agaða hugsun, næma á rök og tilfinningar sem gerir okkur kleift að rannsaka allt frá lömunarveiki og alzheimer til sálarlífs Njáls og Bergþóru. Þannig lærum við um mannlegt eðli og líðan, sjúkdóma og fjarlægja hnetti.

Heimur nútímans tekur breytingum og þannig er mál með vexti að vísindi og fræði eiga undir högg að sækja. Það hefur slæmar afleiðingar fyrir bæði þekkingarleitina og samfélag manna.

Hérlendis hafa Háskólar lengi verið undirfjármagnaðir, kennaramenntun er ekki metin að verðleikum, ráðleggingar fræðimanna því miður of oft hundsaðar, og umræða um þjóðþrifarmál því miður oft ómarkviss eða hreinlega afvegaleidd af pólitískum ástæðum.

Kristján Leósson eðlisfræðingur skrifaði grein á vísir.is um mikilvægi vísinda, og setur í samhengi við íslenskt samfélag (Hræðist forsætisráðherra „ægivald vísindalegrar kennisetningar?“). Hann segir m.a.

Síðastliðinn laugardag fjölmenntu vísindamenn og áhugafólk um vísindi í göngur til stuðnings vísindunum í hundruðum borga um allan heim. Tilgangurinn var að vekja athygli á mikilvægi vísinda og ákvarðanatöku sem byggir á sannreyndum upplýsingum sem grunnstoð í nútímasamfélagi, grunnstoð mannlegs frelsis, öryggis og velsældar. Síðustu misserin hafa vísindamenn, menntastofnanir og rannsóknastofnanir sums staðar átt undir högg að sækja, m.a. í Bandaríkjunum, Tyrklandi og Ungverjalandi en Vísindagangan átti þó ekki síður erindi við stjórnvöld hér á landi sem virðast hafa einsett sér að draga markvisst úr háskólamenntun og almennt minnka vægi vísinda í samfélaginu.

Þegar niðurstöður vísindarannsókna hugnast mönnum ekki er oft reynt að gera vísindamenn hjákátlega og ýja að því að niðurstöður þeirra séu marklausar. Fyrsti flutningsmaður áfengisfrumvarpsins svokallaða, Teitur B. Einarsson, ræddi á Alþingi í febrúar sl. niðurstöður lýðheilsurannsókna sem vörðuðu líkleg áhrif frumvarpsins. Samkvæmt þingmanninum er „...oft varasamt að fella alla mannlega hegðun undir einfalda tölfræðilega samantekt og draga víðtækar ályktanir út frá einfaldri samlagningu og deilingu.“ Þingmaðurinn útskýrði mál sitt frekar og sagði „Tökum sem dæmi eftirfarandi fullyrðingu, svona til að létta aðeins lundina: Að meðaltali hefur homo sapiens eitt eista. [...] Það er auðvitað rétt tölfræði ef bæði kynin eru sett í mengið og stuðst við einfalda deilingu en það hefur augljóslega enga þýðingu og er fullkomlega marklaust.“

...

Það kom því talsvert á óvart þegar málefni Vísinda- og tækniráðs voru, með  forsetaúrskurði frá 11. janúar síðastliðnum samkvæmt tillögu Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra, færð frá honum sjálfum til Mennta- og menningarmálaráðuneytis. Þeirri veigamiklu breytingu fylgdi enginn rökstuðningur né var hún kynnt vísindasamfélaginu eða borin undir það. Nú í kjölfar Vísindagöngunnar er því e.t.v. við hæfi að forsætisráðherra skýri fyrir áhugasömum hvort hann telji málefni vísinda skyndilega ekki þess eðlis að þau kalli á miðlæga samhæfingu, hvort málaflokkurinn þurfi ekki lengur þann sess í stefnumótun stjórnvalda sem ofangreindur forveri hans lagði áherslu á, eða hvort löggjafar- og framkvæmdavaldið eigi hreinlega að forðast „ægivald vísindalegrar kennisetningar“ eins og samflokksmaður hans leggur áherslu á.

Vísindin eru að sjálfsögðu ekki fullkomin, frekar en nokkurt annað mannlegt kerfi. Vísindi eru heldur ekki trúarbrögð. Traust vísindi eru byggð upp af stöðugri sjálfsgagnrýni og eru í stöðugri þróun. Ef stjórnmálamenn, sérhagsmunaaðilar eða aðrir telja sig þar hafa fundið réttlætingu fyrir því að kasta megi vísindunum til hliðar eða leitast við að gera þau léttvæg þá eru þeir komnir á hættulega braut. Margir telja e.t.v. háskólamenntun og vísindi fyrst og fremst vera „fjárfestingu til framtíðar“, nokkurs konar lottómiða sem við getum valið að kaupa eða kaupa ekki. Vissulega er menntun fjárfesting til framtíðar en hér er svo miklu meira í húfi. Vísindin eru grundvöllur upplýstrar ákvarðanatöku. Vísindin eru liður í almannavörnum, með vöktun á mengun og náttúruvá. Vísindin tryggja að við göngum ekki um of á takmarkaðar náttúruauðlindir okkar en opna á sama tíma ný tækifæri til frekari verðmætasköpunar í atvinnugreinum sem byggja á slíkum auðlindum. Staða vísinda og tækni er lykilþáttur í alþjóðlegri samkeppnishæfni landsins. Vísindarannsóknir eru atvinnugrein sem dregur milljarða inn í þjóðarbúið ár hvert. Vísindin leitast við að skýra ástand heimsins og stöðu okkar í honum. Vísindin varðveita menningu og tungumál. Vísindin lækna fólk.

Vel mælt Kristján.

visindaganga.jpg

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hræðilega þróun hvernig menn misnota orðið vísindi í pólitískum tilgangi. Virkilega ógeðfellt. 
Smáborgarar að notfæra sér svona hluti. Algjörlega ótækt. 

Arnar Bj. (IP-tala skráð) 28.4.2017 kl. 19:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband