Leita í fréttum mbl.is

Apar hér og menn þar

Hryggdýr eru allstaðar.

Í kjölfar útgáfu bókar Darwins um uppruna tegundanna áttaði fólk sig á því að við tilheyrðum dýraríkinu og þróunartré lífs á jörðinni. Næstu tvær spurningar voru, hvaða tegund er nærskyldust manninum og hvenær varð maðurinn til í þróunarsögunni? Nátengd er spurningin, hvar varð maðurinn til (ef ekki í Eden í Hveragerði)?

Á öld Darwins fundust steingervingar af mönnum, m.a. í Neanderdal í Þýskalandi, sem bentu til þess að menn væru upprunnir í Evrópu. Samanburður við núlifandi apategundir, benti hinsvegar til að simpansar væru okkar nánustu ættingjar. Louis Leaky var einn þeirra sem beindu leitinni að uppruna mannsins til Afríku, og síðan hafa hrannast upp beinagrindur og gögn sem sýna að langmestur fjölbreytileiki manntegunda hafi verið í Afríku. Sannarlega hafa sumar tegundirnar dreifst til Evrópu og Asíu, en landfræðilega mynstrið er nokkuð skýrt.

Steingervingasagan byggir á því að finna bein, aldursgreina þau og lýsa eiginleikum lífveranna sem þau komu úr. Með því t.d. að bera saman tennur eða kjálka úr ólíkum manntegundum er hægt að sjá hvernig breytingar hafa orðið á höfuðkúpu ættingja okkar og forfeðra.

Gögnin sýna líka að þróun mannsins er ekki eins og vöxtur trés, eða framvinda í sögu. Maðurinn er bara ein grein á stóru ættartré eða runna fjölmargra manntegunda, þar sem oft voru nokkrar - misjafnlega skyldar tegundir - lifandi á jörðinni á hverjum tíma. Þetta sést vel á mynd frá Open University í Stóra bretlandi af ættartré mannapa.

s182_10_003i_967229.jpg

Erfðafræðileg gögn benda jafnvel til þess að fyrir ekki nema 50.000 árum hafi verið þrjár manntegundir á jörðinni, allar skyldar Homo sapiens. Neanderdalsmenn voru ein þeirra og Denisovamennirnir hin, og mögulegt er að þær hafi verið fleiri. Denisovamenn eru nefndir eftir helli í Altai fjöllunum við landamæri Rússlands og Kína, og var útbreiðsla þeirra líklega á svæðinu þar um kring. Greining á DNA úr jarðsýnum, ekki bara úr beinum, sýnir að Denisovafólkið var í Asíu fyrir a.m.k. 170.000 árum.

En spurningin um uppruna mannsins veltur líka að miklu leyti á því hvað er nútímamaður? Flestir þróunafræðingar eru á því að maðurinn, sú tegund sem við þekkjum sem Homo sapiens, hafi orðið til fyrir um 200.000 árum. Hinar manntegundirnar, neanderdalsmenn og denisovamenn aðskildust frá okkur fyrir rúmlega tvöföldum þeim tíma. Engu að síður gátu tegundirnar þrjár æxlast og átt frjó afkvæmi. Það sést á því að nútímamenn utan Afríku eru flestir með 1-3% af genum sínum frá mönnum eða Denisovamönnum. Við leggjum áherslu á það í kennslu í mannerfðafræði, í umræðu um kynþætti og samhengi við mannkynbótastefnu nasistanna, að erfðafræðilega "hreinustu" menn jarðar séu Afrískir!

Nýleg rannsókn í Plos One bendir til þess að einn af forfeðrum (eða náskyldur ættingi) mannsins þekktur sem Graecopithecus hafi lifað í Evrópu. Ættartré byggt á tanngarði og öðrum eiginleikum tannbeina styður þetta líkan. Spurningin er vitanlega hvort að Graecopithecus sé forfaðir eða ættingi, og hvort að grein hans hafi orðið útdauð eða hafi getið af sér undravirkin sem liggja á netinu og lesa um eigin uppruna (okkur þeas)?

Eins og sagði í upphafi benda nær öll fyrirliggjandi gögn til þess að nánustu forfeður okkar og við séum upprunin í Afríku. Ein rannsókn kollvarpar því ekki, en ef fleiri gögn, sérstaklega Graecopithecus styðja þessa tilgátu er e.t.v. tími til að endurskoða þetta atriði í þróunasögu mannsins.

En þróunarsagan breytist ekki við það, þótt að frændi vor eða lang...afi skipti um heimilisfang. 

Ítarefni:

Smithsonian  Louis Leakey: The Father of Hominid Hunting

Arnar Pálsson 5. mars 2010 Óslitið tré lífsins

Arnar Pálsson 20. maí 2009 Hlekkur í ættarrunnanum

Arnar Pálsson 28. mars 2010 kynslóð fram af kynslóð

Fuss J, Spassov N, Begun DR, Böhme M (2017) Potential hominin affinities of Graecopithecus from the Late Miocene of Europe. PLoS ONE 12(5): e0177127. https://doi.org/10.1371/journal.pone.0177127


mbl.is Maðurinn upprunninn í Evrópu?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband