Leita í fréttum mbl.is

Fíll á LSD og aðrar bilaðar "tilraunir"

Vísindamenn safna þekkingu um veröldina með því að prófa og reyna að afsanna tilgátur. T.d. fann Newton lögmál sem lýsir aðdráttarfli jarðar og snúningi himintungla, sem ekki hefur tekist að hrekja (Einstein sýndi seinna að lögmál Newtons er sértilfelli af afstæðiskenningunni).

Þessi aðferð hefur nýst okkur vel í þekkingarleit, en samt kemur fyrir að fólk framkvæmir sérkennilegustu tilburði, sem það sannfærir sjálfan sig um að séu vísindalegar tilraunir. Nýleg samantekt Ian Sample á tíu slíkum "tilraunatilburðum" birtist nýlega á vefsíðu the Guardian.

Fyrst ber að nefna Warren Thomas, framkvæmdarstjóra dýragarðsins í Lincoln Park í Oklahoma city og fílinn Tusko. Warren ákvað að athuga áhrif LSD á stórt spendýr, og skaut skammti af efninu inn í vesalings fílinn. Skammturinn var 3000 sinnum stærri þeir en menn taka til að komast í vimu, og fór að öllum líkindum beint inn í blóð fílsins.

Áhrifin létu ekki á sér standa, Tusko óð um í nokkrar mínútur með ranablæstri og látum, hné síðan niður og dó. Warren og félagar sendu síðan nótu til Science, þar sem þeir leiða líkur að því að fíllin sé viðkvæmur fyrir áhrifum LSD ("It appears that the elephant is highly sensitive to the effects of LSD"). Tilraun þessi er náttúrulega ekkert til að hrópa húrra fyrir, illa skipulögð (skammturinn augljóslega of stór) auk þess sem leiða má rök fyrir því að tilraunadýrið hafi fengið ómannúðlega meðferð. Einnig má finna að því að tilraunin var ekki endurtekin. Vísindin ganga út á endurtakanlegar tilraunir, og rannsóknir með einu sýni eru vart verjanlegar.

Annað dæmi í greininni fjallar um Stubbins Ffirth sem ákvað 1804 að drekka ferska ælu úr sjúklingum sem þjáðust af gul hitasótt (yellow fever) til að sýna fram á að sjúkdómurinn væri ekki smitandi. Honum til lífs var sú staðreynd að gul hitasótt smitast með mýbiti (mosquito bite) í gegnum blóðrás, en ekki með öðrum vessum.

Reyndar eru til mýmörg dæmi um að fólk hafi reynt að sýkja sjálfan sig, til að sýna fram á að sjúkdómar séu smitandi. Magnaðasta dæmið sem ég man eftir er Barry J. Marshall sem ásamt J. Robin Warren sem einangruðu og skilgreinu Helicobacter pylori. Baktería þessi veldur magasári, og Barry ákvað að innbyrða lifandi rækt af henni, og fékk heiftarlega iðrakveisu í kjölfarið. Aðdragandi tilraunarinnar og frekari rannsóknir þeirra félaga er lýst af Barry á mjög skemmtilegan hátt í pistli sem birtist 2005, árið er þeim félögum voru veitt Nobelsverðlaun í læknisfræði.

Pistillinn í the Guardian lýsir fleiri tilraunum með ákaflega takmarkað vísindalegt gildi, sem best er lýst sem biluðum. En það verður að viðurkennast að mannskepnan virðist hafa gaman að bilun, eins og þá hugmynd að fljúgandi spaghetti skrímsli hafi skapað veröldina. En spurning er hvort okkur sé gagnlegt að framkvæma allar þær biluðu tilraunir sem okkur dettur í hug, eða trúa á heilaga bilun sem sannleik.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband