Leita í fréttum mbl.is

Loforð eða von um bóluefni

David Baltimore sinnir skyldu sinni sem Nóbelsverðlaunahafi, og leggur hlutlægt mat á baráttu okkar við HIV. David sem vann verðlauning 1975 ásamt Renato Dulbecco og Howard Temin, fyrir rannsóknir á áhrifum veira á krabbamein og kerfi frumunnar. Framlag Davids var skilgreining á víxlrita úr HIV veirunni. Víxlriti er ensím sem notar RNA mót og nýmyndar DNA, sem er óvenjulegt í frumum, sem venjulega nota DNA sem erfðaefni og RNA sem millistig í nýmyndun prótína.

Hann benti nýlega á að þrátt fyrir 25 ára (ekki 20! mbl.is) rannsóknir værum við enn fjarri því lækningu á HIV, sérstaklega myndun bóluefnis. Lykilvandamáli er að HIV veiran, sem veldur sjúkdómnum alnæmi er herjar á ónæmiskerfi okkar, þróast innan líkama okkar. Hröð þróun veirunnar gerir henni kleift að sleppa undan varnarkerfum líkamans, og að endingu að yfirvinna þau.

Í grein árið 1986 sagði hann að það væru allavega 10 ár í bóluefni gegn HIV, og hefur ítrekað þá skoðun í öðrum greinum síðan. Hann staðhæfir að þetta eigi enn við ("I still think that an Aids vaccine is at least 10 years away,") en að það sé raunhæfur möguleiki á að mynda bóluefni gegn HIV.  ("You are quite within bounds to say, well if it's been 10 years away for the last 20 years does that really mean that it's never going to happen? And there are people saying now that it will never happen.") Hann viðurkennir einnig að það séu vísindamenn sem séu mjög efins um að það sé hægt að mynda bóluefni gegn HIV, að öllum líkindum vegna þess hversu hratt veiran þróast.

Hann ver sína ályktun, á þeim grundvelli að hið gangstæða sé neikvæð afstaða, sérstaklega þar sem mjög mikið sé í húfi. ("I'm not prepared to say that because I don't want to take a pessimistic stance. I want to take an optimistic stance and say this is too important to give up on.") Orð Baltimores hafa eðlilega vakið eftirtekt, og eru flestum holl.

Þessi umræða vekur samt upp spurningu um ábyrgð og hlutverk vísindamanna. Við rannsökum veröldina og viljum skilja hvernig stjörnur, eldfjöll og frumur virka. En það er einnig krafa á að rannsóknir hafi hagnýtt gildi, bæti líf og líðan fólks. Vissulega hafa margar vísindalegar framfarir skilað sér t.d. í læknavísindum, en það er erfitt að ákvarða hvaða grunnþekking hefur hagnýtt gildi, sérstaklega fyrirfram. En við verðum að varast að gefa fólki falska von, hvað þá ígildi loforðs um lækningu.

Samt sem áður leyfa vísindamenn sér oft að tilgreina mögulegan ávinning af rannsóknum sínum. Ef þú ert að rannsaka HIV, þá gæti þekkingin þín leitt til þróunar bóluefnis...svona óbeint, eftir 3, 30 eða 300 ár. Þegar samkeppnin um athygli, fjármagn og nemendur er orðin mjög hörð, þá hafa sumir vísindamenn freistast til að blása meira vægi í ályktanir sínar en efni standa til, og bendla rannsókninar við einhvern sjúkdóm sem margir þjást af. Hversu oft heyrir maður um framfarir í krabbameinsrannsóknum, sem reynast síðan ómerkileg hliðarspor þegar upp verður staðið. Þetta er almennt vandamál, fyrir 10 árum var möguleikum genalækninga ("gene-therapy") hampað sem allra meina bót, en nú er ljóst að slíkar aðferðir eru ekki raunhæfar. Vissulega er það mennskt að hafa rangt fyrir sér, en maður verður líka að hafa dug til að játa slíkt.

Helsti kostur vísinda, sá að þau eru stunduð af greindu og skapandi mannfólki*, gæti einnig verið fagsins veiki hlekkur.

 *(við vitum ekki til þess að fulltrúar annara tegunda, allavega á jörðinni, beiti hinni vísindalegu aðferð)


mbl.is Engin lækning fundin þrátt fyrir 20 ára baráttu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband