Leita í fréttum mbl.is

Ólíkir eineggja tvíburar

Tvíburar falla í tvo flokka, eineggja og tvíeggja. Tvíeggja tvíburar verða til þegar tvö egg frjóvgast í sama tíðarhring, og koma sér fyrir í legi móður. Eineggja tvíburar verða til þegar eitt frjóvgað egg myndar tvo fósturvísa. Lögmál erfða sýna að tvíeggja tvíburar deila jafn mörgum genum og venjuleg systkyni (50%). En eineggja tvíburar eru frábrugðnir, því þeir deila erfðamengi frjóvgaða eggsins, og eru því eins (100% genanna eru þau sömu).

Við vitum samt að eineggja tvíburar eru ekki nákvæmlega eins í útliti, og dæmi eru um að annar tvíburinn fær sjúkdóm sem hinn sleppur við. Oftast er umhverfi eða tilviljun kennt um.

En, þetta er ekki alveg svona einfalt. Við vitum að lífverur eru samansettar úr tvennskonar frumum, kímlínufrumum og sómatískum. Kímlínan eru frumur sem koma til með að mynda kynfrumurnar, og þær frumur fara í gegnum t.t.l. fáar skiptingar. Sómatísku frumurnar hins vegar skipta sér margfallt oftar og mynda alla aðra vefi, húð, lungu, taugar og þess háttar. Krabbamein verða til vegna þess að breytingar verða í slíkum sómatískum frumum, t.d. geta skemmdir í erfðaefni lungnafrumna leitt til æxlisvaxtar og lungnakrabbameins.

Nýlega birti hópur við háskólann í Birmingham Alabama, niðurstöður sem sýna að eineggja tvíburar eru ekki með eins erfðaefni (í American Journal of Human Genetics). Þeir beittu nýlegri tækni hefur finnur grófar breytingar í erfðamengjum, t.d. úrfellingar af heilum genum, eða svæði sem hafa margfaldast ("copy number variation" upp á ensku, skammstafað "CNV"). Niðurstöðurnar sýna að eineggja tvíburar eru fjarri því að vera með eins erfðamengi, t.d. geta heilu genin verið dottin út. Einnig var sýnt fram á að mikill munur getur verið á milli vefja, t.d. lungna og tauga (sem eru sómatískar frumur), þar sem sum gen vantar í ákveðna vefi en ekki aðra. Þetta getur náttúrulega útskýrt hvers vegna annar tvíburi getur fengið sjúkdóm, en hinn ekki. Hópurinn bar saman eineggja tvíbura, þar sem annar einstaklingurinn var með einhvern sjúkdóm en hinn ekki, og stundum fundust breytingar í þeim sjúka sem gætu tengst sjúkdóminum. Slíkt er auðvitað bara vísbending, sem auðvitað þarf að prófa með stærri rannsóknum.

Borðlagt er að eineggja tvíburar séu ekki með 100% eins erfðamengi. En hver rétta talan er (t.d. 99.999% eða 99.998%), er ekki alveg ljóst. Eins og við vitum úr erfðafræðinni og rannsóknum á þróun, þá geta örlitlar breytingar vegið ansi þungt.

Ítarefni, vísindasíða New York Times


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunna-Polly

Sæll

er það rétt að eineggja tvíburarfæðing sé ekki ættgeng en tvíeggja sé það?

Gunna-Polly, 11.3.2008 kl. 14:15

2 Smámynd: Arnar Pálsson

Gunna-Polly

þetta er mjög skemmtileg spurning, og virðist sem eitthvað sé til í þessu. Ég hef ekki lesið mér til um það ítarlega en vísa í tvö svör af vísindavefnum um tvíbura, sem fjalla ítarlega um þessa og skyldar spurningar.

Arnar Pálsson, 11.3.2008 kl. 15:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband