26.5.2008 | 11:33
Bakteríurnar og görnin
Er næsta ævintýri á eftir sögunni um býflugurnar og blómin. Hvorutveggja eru dæmi um samþróun, þar sem tvær tegundir lífvera aðlagast hvor annarri. Með býflugum þróuðust betri sjón og munnpartar, á meðan blómin juku framleiðslu á sætuefnum og jafnvel lendingarmerkjum sem einungis eru greinileg á sjónsviði flugnanna. Mörg fleiri dæmi um samþróun eru þekkt, líka um bakteríur sem vinna mjög náið með öðrum lífverum. Talið er að slík samþróun hafi leitt til samlífs og síðan samruna eins og t.d. þegar heilkjörnungar öðluðust hvatberana. Hvatberarnir eru líffæri inn í frumum sem eiga uppruna sinn í bakteríuríkinni. Maður þarf að þvo sér nokkuð lengi til að losna við þær "bakteríur" af höndunum.
Frétt Reuters skýrir frá nýlegum rannsóknum á fjölbreytileika örvera og tilgátum sem spruttu af þeim niðurstöðum. Segre og félagar birtu grein í Genome Research sem sýnir fram á fjölbreytileika baktería á húð manna. Húð okkar er nefnilega þakin bakteríum sem flestar eru meinlausar (Nicolas Wade ræðir þetta í frétt á vefsíðu New York Times). Það er einungis í undantekninga tilfellum að bakteríurnar snúast gegn líkamanum og reyna að brjótast inn. Ávinningurinn er töluverður því líkaminn eru eins og risastór rjómaterta, sem bakterían getur fjölgað sér í að vild. Vissulega eru varnakerfi til staðar, bæði áunnið ónæmi og meðfætt (innate immunity), sem berja á bakteríum og öðrum sýklum ef þeir reyna að brjótast í gegnum húðina eða slímhimnur. (Michael Zasslof flutti fyrirtaks erindi um meðfædda ómæmiskerfið við líffræðiskor HÍ í síðustu viku - vonandi gefst mér tími til að ræða það hér).
Mikilvægasta lexían er sú að örverur eru ekki endilega hættulegar, við vitum að meltingarvegur okkar fullur af bakteríum sem eru ekki skaðlegar og virðast hjálpa til við niðurbrot fæðu og jafnvel stuðla að þroskun þarmaveggjana. Sýklalyf drepa ekki eingöngu sýkjandi örverur heldur einnig þær sem búa með okkur í bróðerni.
Fyrr á öldum var hreinlæti ábótavant og þegar í ljós kom að margir sjúkdómar voru afleiðing örverusmits var rekinn áróður fyrir snyrtimennsku. Af þeim orsökum voru bakteríur gerðar að Grýlu, þrátt fyrir að örverufræðingar hafi lengi vitað hveru meinlausar og gagnlegar þær eru.
Jeff Gordon við Washington Háskóla í St. Louis (forsíður eru af vefsíðu hans) hefur gengið svo langt að halda fram að bakteríurnar hafi mótað og hvatað þróun spendýra. Þessi tilgáta er kveikjan að fyrirsögn Reuters fréttarinnar sem mbl.is snaraði (án þess þó að keyra villupúka, því þróun er misrituð í titli pistilsins). Af ágripi greinarinnar í Science að dæma (öll greinin er ekki aðgengileg nema með áskrift) röktu Gordon og félagar þróun baktería sem finnast í görnum nokkura spendýra. Þeir álykta að þróunartré bakteríana fylgi þróunartré spendýranna, sem sýnir að tegundirnar hafi þróast saman um tugmilljóna ára skeið.
Þessar niðurstöður eru mjög forvitnilegar en samt engin sönnun fyrir því að bakteríur hafi stuðlað að þróun spendýra. Því miður er vegurinn frá snjallri tilgátu að staðhæfingu ansi stuttur, sérstaklega í fréttamiðlum. Blessunarlega eru bakteríur yfir umræðuna hafin og verða búnar að skipta sér 24 sinnum áður en dagurinn er úti.
Bakteríur stuðluðu að þóun spendýra | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 17:08 | Facebook
Nýjustu færslur
- Eru virkilega til hættuleg afbrigði veirunnar sem veldur COVI...
- Grunnrannsóknir eina aðferðin til að skapa nýja þekkingu og e...
- Lífvísindasetur skorar á stjórnvöld að efla hlut Rannsóknasjó...
- Eru bleikjuafbrigði í Þingvallavatni að þróast í nýjar tegundir?
- Hröð þróun við rætur himnaríkis
- Leyndardómur Rauðahafsins
- Loftslagsbreytingar og leiðtogar: Ferðasaga frá Suðurskautsla...
- Genatjáning í snemmþroskun og erfðabreytileiki bleikjuafbrig...
- Fjöldi og dreifing dílaskarfa á Íslandi
- Staða þekkingar á fiskeldi í sjó
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.