Leita í fréttum mbl.is

Gen á glámbekk

Frá árinu 1996 þegar Íslensk Erfðagreining kom fyrst fram á sjónarsviðið hafa margir rætt um öryggi erfðaupplýsingar, hættuna á mismunun og friðhelgi einkalífsins. Bandaríkjaþing samþykkti nýverið lög (reyndar ófullkomin) sem banna mismunun á grundvelli erfðaupplýsinga. Hættan á að tryggingafyrirtæki og óprútnir einstaklingar nýti sér erfðaupplýsingar er raunveruleg, eins Mannvernd leggur áherslu á.

Sífellt meira magn erfðaupplýsinga er nú aðgengilegt á netinu. Í fyrra birtist grein um erfðamengi Craig Venters, forstjóra Celera genomics sem tók þátt í raðgreiningu erfðamengis mannsins. Erfðamengi Venters var lagt í opna gagnagrunna, fyrir hvern sem er að rýna í. Á sama hátt var erfðamengi James Watsons, sem er þekktastur fyrir líkan af byggingu DNA ásamt Francis Crick, raðgreint og gert opinbert. Vísindamenn verða að gera niðurstöður sínar og gögn aðgengileg fyrir aðra, því annars getur reynst erfitt að sannreyna niðurstöður þeirra og ályktanir. Fjöldi gagnagrunna fyrir líffræðileg gögn eru starfandi, með raðir erfðamengja, prótín styrk í krabbameinum, fjöldi þorska í hafinu, og tíðni sjúkdóma eftir löndum og svo mætti lengi telja.

Erfðamengin tvö frá Celera og Hugo voru byrjunin; mengi Venters, Watsons og óþekkts asísks kaupsýslumanns næst í röðinni. Holskeflan er að hefjast, fleiri einstaklingar setja upplýsingar um erfðamengi sín á netið, sjá til dæmis http://www.personalgenomes.org/ og grein í New York times eftir Amy Harmon "Taking a Peek at the Experts’ Genetic Secrets".

Mannerfðafræðingar hafa fundið þúsundir stökkbreytinga sem auka líkur á sjúkdómum, bæði fátíðum heilkennum og algengari krankleika. En áhrif breytinganna eru mjög misjöfn, sumar breytingar hafa 100% sýnd, sem þýðir að allir sem erfa gallan fá sjúkdóm, en miklu algengara er að stökkbreytingar auki líkur á sjúkdómi um einhver prósent (5, 10, 50). Það að vera með breytingu sem eykur líkurnar á sykursýki um 50% er því fjarri því að vera stóri dómur.

Vandamálið er ekki upplýsingarnar heldur vanþekking fólks á líkindafræði og erfðum. Hættulegast er ef við dæmum aðra vegna eigin fávisku...sem er auðvitað endurtekið þema í mannkynssögunni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Orgar

Hér er sannleikurinn um Kára

bylting-strax.blog.is

Orgar, 22.10.2008 kl. 12:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband