Leita í fréttum mbl.is

Erfðamengi inflúensuveirunnar

Influensu veirur eru sérstaklega duglegar í vinnunni, og kunna að koma sér áfram. Frá sjónarhorni veirunnar er ekkert athugavert við það að fjölga sér, sýkja fleiri einstaklinga og stökkbreytast. Allt er þetta eðlilegur hluti af lifinu. Ef við ímyndum okkur að inflúensuveirur hafi meðvitund og siðferðisvitund er allt eins líklegt að þær meti það þannig að líf þeirra skipti meira máli en hýslanna og haldi sínu striki (rétt eins og manninum virðist ekkert heilagt í leit sinni að lifibrauði og lífsgæðum).

Það sem gerir inflúensuveirur sérstaklega hættulegar er geta þeirra til að stela og skiptast á erfðaefni. DNA er erfðaefni flestra lífvera nema hvað nokkrar fjölskyldur veira nota RNA, sem er stökkbreytist hraðar en DNA. Auðvitað er inflúensu veiran með RNA erfðaefni, sem eykur þróunarhraða hennar. Að auki er erfðaefni hennar í 8 bútum (litningum) sem getur leitt til skipta á erfðaefni, ef veirur af tveimur gerðum (t.d. úr svíni og manni) smita sama einstakling. 

Þannig getur orðið til ný veiruafbrigði sem ónæmiskerfi okkar (og svínanna) þekkja eigi svo gjörla. Ef sama veiruafbrigði smitast á milli manna og leikur hýsla sína grátt er voðinn vís.

Þannig geta stökkbreytingar og endurröðun erfðaefnis gefið af sér nýjar gerðir lífvera. Og ef þessar gerðir lífvera starfa vel í umhverfi sínu, t.d. sýkja menn hratt og rækilega þá aukast þær í tíðni og breiðast út (frá sjónarhorni veirunnar "dafna"). Þetta er nokkuð sem þróunarkenning Darwins spáir fyrir um og dæmi um hagnýtt gildi grunnvísinda (jafnvel þó þau falli ekki að trúarskoðunum allra borgaranna).

Þróunarkenningin segir okkur líka að það er ekki veirunni í hag að drepa alla hýslanna sinna. Faraldrar eins og inflúensan lúta þróunarlegum lögmálum, og það gerist nær alltaf að dánartíðni lækkar eftir því sem faraldurinn gengur lengur. Það er vitanlega ekki huggun þeim sem eiga um sárt að binda en þróun veirufaraldra er alltaf á þessa leið, eins og Ian Sample rekur í grein í the Guardian.

Góðu fréttirnar eru þær að veirulyfin Tamiflu og Relenza virka gegn veirunni, en lyfin þarf að taka í upphafi sýkingar. Þannig að ef tilfelli greinist þá eru allri ættingjar og þeir sem í snertingu við viðkomandi settir á kúr, til að hindra frekara smit.

Slæmu fréttirnar eru þær að ekki eru allir jarðarbúar jafn vel í stakk búnir fyrir svona farldur og vestræn ríki (t.d. Ísland). Mestar líkur eru á að veiran breiðist til landa sunnan miðbaugs með mjög óhugnanlegum afleiðingum. Spurning er hvort maður hætti ekki að borða kleinur og sendi andvirðið til Afríku fyrir flensulyf.

Ítarefni

Robin McKie við the Guardian ræðir þróun svínaflensu.

Einn af pennum Livescience.com Robert Roy Britt, ræðir um þróun veirunnar.

Landlæknisembættið er með ágætis síðu um hefðbundnar influensuveirur, og sérsíðu um svínaflensuveiruna.


mbl.is Ekki venjuleg svínainflúensuveira
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Þetta er bara mjög ískyggilegt. Það er viðbúið að veirufjandinn geri mikinn skurk og stökkbreytist í gríð og erg sjálfri sér til hagsbóta.

Sigurður Þór Guðjónsson, 28.4.2009 kl. 18:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband