Leita í fréttum mbl.is

Glatað matskerfi

Vísindamenn vinna fyrir launum sínum, með kennslu, rannsóknum og þáttöku í stjórnun og stefnumótun. Háskólar og stofnanir sem taka sig alvarlega, í löndum sem taka sig alvarlega, hafa kerfi til að hvetja vísindamenn til rannsókna. Þeim er umbunað fyrir að ná í styrki, sinna rannsóknum, og finna upp eitthvað nýtt um veröldina. Leiðin til að meta það er oftast sú að setja upp stigakerfi, sem metur framlag t.d. einkaleyfi, vísindagreinar og bækur.

Hérlendis höfum við í Háskóla Íslands búið við gamalt og gallað stigakerfi. Eftir nokkura ára vandasamt starf í vísindanefnd voru kynntar breytingatillögur, sem áttu að færa kerfið nær því sem alvöru Háskólar erlendis hafa. Tillögurnar voru mikið framfaraskref, en forsetar fræðasviða Háskóla Íslands eyðilögðu þær.

Ég var að enda við að skrifa undir eftirfarandi áskorun.

Ágæti samstarfsmaður

Síðastliðinn fimmtudag samþykkti háskólaráð nýjar reglur að vinnumati, án nokkurrar undangenginnar umræðu um þær í háskólasamfélaginu. Í þessum nýju tillögum var í veigamiklum atriðum ákveðið að hundsa faglegar tillögur sem Vísindanefnd Háskólans hafði lagt fram. Við viljum með þessum tölvupósti hvetja þig til að skrifa undir mótmæli við þessari ákvörðun á vefsíðunni:

 

http://www.petitiononline.com/matskerf/petition.html

Vísindanefnd HÍ vann í rúmlega tvö ár að nýjum vinnumatsreglum, þar sem eitt af aðalmarkmiðunum var að leiðrétta þá ágalla sem vinnumatskerfi Háskólans hefur haft til þessa. Í greinargerð Vísindanefndar með tillögum sínum sagði m.a. “Fyrsta aðalmarkmið Stefnu Háskóla Íslands 2006-2011 fjallar um framúrskarandi rannsóknir og um það segir svo: „Háskóli Íslands ætlar að efla hágæðarannsóknir sem standast alþjóðleg viðmið á fjölbreytttum sviðum vísinda og fræða. Til þess þarf að stórefla doktorsnám og auka samstarf við aðra háskóla, rannsóknastofnanir og fyrirtæki.” Sérstaklega var tekið fram í stefnunni að til þess að ná markmiðum Háskóla Íslands í rannsóknum skyldi auka vægi ISI greina í vinnumatskerfinu og veita aðalhöfundi fleiri stig en meðhöfundi. Í tillögum vísindanefndar var m.a. vægi fjölhöfundagreina aukið og framlag aðalhöfundar metið að verðleikum. Með tillögum nefndarinnar fylgdi ítarleg greinargerð með faglegum rökstuðningi (sjá viðhengi).

 

Háskólaráð og háskólaþing fólu rektor og fræðasviðsforsetum Háskólans að útfæra tillögur vísindanefndar frekar og hafa nýjar tillögur þeirra skyndilega verið samþykktar af háskólaráði, án nokkurrar umræðu í haskólasamfélaginu. Þessar tillögur virða að vettugi mikilvæga þætti sem vísindanefnd lagði til í útfærslu sinni, þætti sem snúa að fjölhöfundagreinum og birtingu ISI greina almennt. Þessu var breytt án faglegs rökstuðnings (sjá meðfylgjandi tillögur rektors og fræðasviðsforseta). Í nýjum vinnumatsreglum eru m.a. eftirfarandi gallar sem gera tillögurnar óásættanlegar að okkar mati:

 

* Framlag aðalhöfundar fjölhöfundagreina er ekki metið umfram framlag meðhöfunda.

* Vægi þess að birta í virtustu tímaritum er sáralítið borið saman við birtingu í tímariti með mun minna vísindalegt vægi (og þetta verður raunar öfugt vægi þegar meðalhöfundafjöldi er tekinn með í myndina þar sem almennt eru fleiri höfundar á greinum í virtustu tímaritunum, sjá meðfylgjandi töflu).

* Vægi minniháttar vísindaframlaga, t.d. erinda og birtinga ætlaðar staðbundnum hópum, er enn verulegt.

* Geysilegt misvægi er í mati á hágæðavinnu mismunandi fræðasviða þar sem útgáfa bókar frá bestu forlögum getur gefið 100 rannsóknarstig á meðan aðalhöfundarbirting í virtustu vísindaritum gefa að jafnaði u.þ.b. 5 stig þegar tekið er tillit til meðalfjölda höfunda.

Í meðfylgjandi viðhengjum eru nýsamþykktar tillögur um nýjar vinnumatsreglur og tillögur Vísindanefndar.

 

Við vonum að þú sjáir þér fært að skrifa undir mótmælin. Það tekur stutta stund.

 

Eiríkur Steingrímsson,  Ingibjörg Harðardóttir, Snorri Þór Sigurðsson, Ólafur S. Andrésson, Magnús Karl Magnússon og Guðmundur Hrafn Guðmundsson

 

Ég hvet alla vísindamenn sem er annt um rannsóknir til skrifa undir.
Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband