Leita í fréttum mbl.is

Uppruni tegunda á Íslandi

Allt síðan rit Darwins Uppruni tegundanna kom út 1859 má segja að rannsóknir á tegundamyndun myndi í vissum skilningi kjarna þróunarfræðinnar. Hugtakið tegund er enda sá mælikvarði breytileika og þróunar sem er flestum tamur. Rannsóknir á tegundamyndun miða að því að skilja hvað hefur leitt til aðskilnaðar tegunda annars vegar og hinsvegar hvað viðheldur aðskilnaði á milli nýrra tegunda eða stofna sem hafa aðskilist að hluta.

 

Rannsóknir á íslenskum ferskvatnsfiskum geta skipt miklu máli til að auka þekkingu okkar á þróun fjölbreytileika, afbrigðamyndun og á fyrstu skrefum tegundamyndunar. Á Íslandi eru ferskvatnskerfin ung og tegundafátæk. Á hinn bóginn er fjölbreytileiki búsvæða ferskvatnslífvera óvenjulega mikill á Íslandi vegna eldvirkni og sérstakrar jarðfræði landsins. Svo virðist sem samspil þessarar tegundafátæktar og fjölbreytilegra búsvæða hafi leitt til þess að mikill fjölbreytileiki hefur þróast innan tegunda á þeim stutta tíma síðan ferskvatnskerfin voru numin. Þennan mikla fjölbreytileika íslenskra ferskvatnsfiska má nýta til að prófa tilgátur um tilurð tegunda.

 

Guðbjörg Ásta Ólafsdóttir (forstöðumaður Rannsóknaseturs HÍ á Vestfjörðum) og Bjarni K. Kristjánsson (dósent við Háskólann á Hólum) hafa rannsakað fjölbreytileika íslenska ferskvatnsfiska, sérstaklega á skyldleika afbrigða, samspil vistfræðilegra þátta og tilurð tegunda.

 

Þann 5 desember (kl 13:00) mun Guðbjörg halda erindi um uppruna tegunda á Íslandi. Fyrirlesturinn verður í stofu 132 í Öskju, náttúrufræðihúsi HÍ. Erindið er hluti af fyrirlestraröð sem fram fer haustið 2009 í tilefni þess að 200 ár eru liðin frá fæðingu Charles Darwin. Dagskrá má nálgast á darwin.hi.is. Erindið er öllum opið og verður flutt á íslensku.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband