Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, október 2009

Svar GSK og geðfræðsluverkefni

Í framhaldi af umræðu um geðsjúkdóma og þunglyndislyf.

GSK á íslandi hefur sent frá sér tilkynningu þar sem lögð er áhersla á  að lyf eru ekki eina lausnin við þunglyndi, heldur þurfi meðferð einnig að koma til.

Rétt er að minna á að SSRI-lyfin  sem um ræðir eru ekki lausn á þunglyndi, sbr rannsóknir.

Geðfræðsla getur hjálpað, bæði þeim sem þjást að sjúkdómnum og illa upplýstum og stundum fordómafullum almenningi.

„Hvað eigum við að gera ef þau ráðast á okkur“? Þessa spurningu fékk kennari þegar hann undirbjó bekkinn sinn fyrir heimsókn frá fulltrúum Geðfræðslunnar

Þannig hefst grein Steindórs Erlingssonar í Fréttablaði dagsins (14. október 2009). 


Áframhaldandi litningaendar

Við gerðum nóbelsverðlaunin í læknisfræði árið 2009 að umræðuefni fyrir viku.

Um þau var fjallað í spegli gærdagsins (12 október 2009). Heyra má viðtal við Zophonías O. Jónsson dósent í sameindalíffræði, á vef Rúv.

Bendi einnig á athyglisvert viðtal við Carol Greider í  New York Times, þar sem hún lýsir því að hafa einangrað telómerasavirknina, á jóladag 1984. Hennar fyrsta verk þegar hún kom heim var að skella Bruce Springsteen á fóninn og dansa eins og brjálæðingur.


Bæklingurinn dreginn til baka

SSRI-þunglyndislyfin eru lítið betri en lyfleysa, en engu að síður hefur framleiðandinn Glaxosmith-Kline dreift bæklingum þar sem notagildi lyfjanna er hampað og lítið gert úr aukaverkunum þess.

Barátta Steindórs J. Erlingssonar hefur skilað þeim árangri að landlæknir hefur nú fengið því framgengt að bæklingur með þessum rangfærslum hefur verið fjarlægður.

Ef þið verðið þess var að þessi bæklingur, frá árinu 2000, sé ennþá stillt út hafið þá vinsamlegast samband við landlækni.

Embætti landlæknis þyrfti helst að ganga lengra og senda út opinbera tilkynningu, því leit á google með "landlæknir" og "þunglyndislyf" gaf leiðbeiningar frá 2004 um notkun þessara lyfja fyrir þunglynd börn og ungmenni.

Þegar fréttasíða landlæknis er könnuð er ljóst að ekki hefur verið fjallað um þetta mál á síðustu 3 mánuðum (H1N1 er þar fyrirferðamest).

Ég vil árétta að leiðin sem Steindór fór er heppilegasti kostur þeirra sem vilja veita læknum og heilbrigðiskerfinu aðhald og knýja fram raunverulegar breytingar.

Ítarefni,

Frétt Morgunblaðsins í heild sinni á heimasíðu Steindórs J. Erlingssonar

og pistlar um þetta efni byggðir á skrifum hans

þunglyndislyf og léleg tölfræði, framhald um þunglyndislyf og lyfjarisa og nú síðast geðröskun og lyfleysa


mbl.is Alvarlegar rangfærslur fyrirtækis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Styttist í jarðsöguna

24. október næstkomandi mun Ólafur Ingólfsson jarðfræðingur og Ingibjörg Svala Jónsdóttir líffræðingur flytja erindi um steingervinga og þróun lífs.

Erindið er hluti af fyrirlestraröð í tilefni 200 ára afmælis Charles Darwin og þess að 150 ár eru liðin frá útgáfu Uppruna tegundanna.

Efni fyrirlestursins verður kynnt hér bráðlega.


mbl.is Risa-risaeðlufótspor í Frakklandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er síþreyta vegna veirusýkingar?

Síþreyta (chronic fatique syndrome) er reglulega dulafullur sjúkdómur. Hingað til hefur enginn þáttur fundist sem eykur líkurnar á sjúkdómnum.

Lombardi og félagar birtu í síðustu viku grein sem sýnir að ákveðin víxlritaveira (retrovirus) úr nagdýrum (xenotropic murine leukemia virus-related virus: XMRV) finnst í stórum hluta einstaklinga með síþreytu (67%), en rétt um 4% einkennalausra.

Veira þessi hefur einnig verið bendluð við blöðruhálskirtilskrabbamein i músum, og í því samhengi er forvitnilegt að tíðni krabbameina virðist vera hærri hjá einstaklingum með síþreytu.

Reyndar hefur því áður verið haldið fram að tilteknar veirur valdi síþreytu, en þær kenningar hafa verið hraktar. Vísindasamfélagið er því eðlilega tortryggið á niðurstöðu Lombardi og félaga. Það er þó XMRV tilgátunni til stuðnings að niðurstöður annars rannsóknarhóps undir stjórn Johns Coffin (flott nafn ekki satt!) eru á sama veg.

Því miður er á þessu stigi fullsnemmt að spá fyrir um mögulega meðferð og smitleiðirnar eru óþekktar.

Ítarefni:

Lombardi o.fl 2009 Detection of an Infectious Retrovirus, XMRV, in Blood Cells of Patients with Chronic Fatigue Syndrome October 8, 2009 Science DOI: 10.1126/science.1179052

Umfjöllun Sam Kean í Science Chronic Fatigue and Prostate Cancer: A Retroviral Connection? Science 9 October 2009: ol. 326. no. 5950, p. 215 DOI: 10.1126/science.326_215a

Pistill Denise Grady í New York Times  Virus Is Found in Many With Chronic Fatigue Syndrome

 


Óður til fáránleikans

Fimmfætt kind gekk inn á barinn Húllumhúbla, pantaði sér gulrótasafa og fékk það svar að eyðublað 313 hafi ekki verið rétt útfyllt.

Samkvæmt einni mest lesnu grein á vef New York Times þessara viku, þá skerpir bull gáfur. Greinin heitir "how nonsense sharpens the intellect" og var rituð af Benedict Carey.

Það er til fólk sem rannsakar bull, eða til að vera nákvæmari, hvaða áhrif bull hefur á huga fólks.

Eitt af því sem fólk hefur tekið eftir er að ef fólki finnst því vera ógnað, skerpist á þeim grunngildum sem það hefur. Ef við leyfum okkar beina tilvitnun í grein Careys (tengillinn er á ítarefni á Pubmed):

After thinking about their own inevitable death, they become more patriotic, more religious and less tolerant of outsiders, studies find. When insulted, they profess more loyalty to friends — and when told they’ve done poorly on a trivia test, they even identify more strongly with their school’s winning teams.

Travis Proulx og Steven J. Heine halda því fram að þessi hegðun sé afleiðing þess hvernig heili okkar hefur þróast. Samkvæmt þeim hefur verið valið fyrir heilum sem geta spáð fram í tímann, t.d. með því að sjá mynstur í atferli eða umhverfi.

Hvar passar fáránleikinn inn í þá mynd?

Travis og Steven halda því fram að hugurinn hafi tvær leiðir til að takast á við áföll eða mótsagnir. Ein væri sú að herðast í trúnni (á fótboltaliðið eða Búddalíkneskið) en hin væri sú að hugsun viðkomandi verði skarpari (hann verði meðvitaðari um umhverfið og getan til að greina mynstur batni).

Nýjasta rannsókn þeirra gekk út á að tveir hópar (20 nemenda) fengu tvær mismunandi sögur til aflestrar. Önnur var fáránleikasagan sveitalæknirinn eftir Kafka (the country doctor) en hin hefðbundin mótsagnalaus texti. Að lestri loknum fengu nemendurnir að spreyta sig á þraut sem gekk út á að greina mynstur í röð tákna. Þeir sem lásu söguna eftir Kafka stóðu sig betur en hinir.

Ályktunin sem þeir draga er að hugsun nemendanna sem lásu mótsagnakenndu söguna hafi skerpst, að það hafi kviknað á einhverjum stöðvum sem gerðu þá móttækilegri og skarpari.

Fyrir aðdáendur hins óvænta og fáránlega, er þetta góð tíðindi og hey fyrir hugann.


Erindi: vörn gegn veirum

Á morgun föstudaginn 9 október fer fram doktorsvörn um varnir gegn veirum. Stefán Ragnar Jónsson hefur rannsakað ensímið APOBEC3, sem stuðlar að niðurbroti RNA erfðaefnis t.d. úr retroveirum. Veiran hefur varnir gegn árásum þessa prótíns, sem er prótínið Vif, sem stuðlar að niðurbroti á APOBEC prótínum. Algengt er að finna slíka þróunarlega togstreitu á milli varna hýsils og vopnabúrs veira og sýkla.

Aðalleiðbeinandi Stefáns er Valgerður Andrésdóttir sameindaerfðafræðingur, sem vinnur á Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum. Fyrirlesturinn verður í Öskju (stofu 132) kl 14:00. Sjá nánar á vef HÍ og úrklippu úr fréttatilkynningu hér að neðan:

Lífverur hafa frá örófi alda þróað með sér varnir gegn retróveirusýkingum. Dæmi um slíkt eru APOBEC3 próteinin en þau eru fjölskylda af-aminasa sem einungis er að finna í spendýrum. Mörg þessara próteina geta hindrað retróveirur með því að af-aminera cýtósín í úrasil í erfðaefni veirunnar meðan á víxlritun stendur. Lentiveirur, m.a. HIV hafa þróað mótsvar við þessu, próteinið Vif (virion infectivity factor) sem stuðlar að niðurbroti APOBEC3 próteina. Í þessu verkefni voru APOBEC3 gen og prótein klaufdýra (nautgripa, kinda og svína) klónuð og virkni og sértækni þeirra athuguð. APOBEC3 prótein klaufdýra gátu hindrað eftirmyndun HIV-1 og reyndust ónæm fyrir áhrifum Vif próteins HIV-1.

Raðgreining erfðamengja manna og músa hefur leitt í ljós mikinn mun í fjölda APOBEC3 gena milli dýrategunda, frá einu í músum til sjö í mönnum. Leitað var í DNA söfnum sem innihéldu litninga DNA klaufdýra og APOBEC3 gen þessara tegunda fullraðgreind. Reyndust kindur og nautgripir hafa þrjú APOBEC3 gen en svín tvö. Þessar niðurstöður benda til þess að sameiginlegur forfaðir klaufdýra hafi haft þrjú APOBEC3 gen og þriðja genið hafi tapast snemma í þróun suidae ættkvíslarinnar.


Náttúrustofuþing

Úr fréttatilkynningu:

Náttúrustofuþing 2009
 
Þann 8. október næstkomandi munu Samtök Náttúrustofa á Íslandi (SNS) standa fyrir  náttúrustofuþingi. Þetta er í fimmta skipti sem slíkt þing er haldið í tengslum við ársfund félagsins.
Að þessu sinni sér Náttúrustofa Reykjanes í Sandgerði um undirbúning þingsins og verður það haldið í Samkomuhúsinu í Sandgerði. Dagskráin hefst klukkan 09.30 með ávarpi umhverfisráðherra og stendur til 17:00 eins og meðfylgjandi dagskrá sýnir.

Þingið er öllum opið, bæði á allt þingið eða einstaka fyrirlestra.

Meðal þess sem fjallað verður um er

Alvarleg áhrif B-vítamínsskorts meðal fugla: Gunnar Þór Hallgrímsson

Hvernig hefur Morsárjökull það eftir berghlaupið 2007?: Þorsteinn Sæmundsson

Hvað er líkt með mýi?: Þóra Hrafnsdóttir


Merkilegustu korn

Ríbósómin eru ein ótrúlegustu fyrirbæri sem finnast í frumum. Þau eru samsett úr tveimur ögnum, sem eru aftur samsettar úr nokkrum RNA sameindum og fjölda prótína. Þau eru prótínverksmiður frumunar, og eru sem slíkar lífsnauðsynlegar. Ótrúlega mikill hluti orku og hráefna frumunnar fer í að mynda og viðhalda ríbósómum. Af heildarmagni RNA í frumum eru rRNA sameindirnar (sem mynda ríbósómin) um helmingur.

Það er einnig merkilegt að RNA sameindirnar í ríbósómum gegna hvötunarvirkni, eiginleika sem í lífverum er nær eingöngu bundinn við prótín. Það er vísbending um að snemma í sögu lífsins hafi RNA verið ríkjandi sameind. Eins og Guðmundur Eggertsson rakti í erindi sínu á laugardaginn og í bók sinni, þá er líklegt að RNA hafi komið snemma fram á sjónarsviðið, en síðan hafi prótínmyndun og DNA fylgt í kjölfarið. 

Ríbósómin eru elsta, flóknasta og nákvæmasta örtæknivél jarðarinnar.

Mér finnst ákaflega gaman að bæði nóbelsverðlaunin í ár fari til fólks sem hefur rannsakað prótín-RNA flóka. Blackburn,  Greider og Szostak fengu á mánudaginn verðlaunin í læknisfræði fyrir rannsóknir sínar á litningaendum og telómerasa.

Ég veit ekki hvernig efnafræðingarnir bregðast við þessum tíðindum. Í fyrra voru efnafræðiverðlaunin veitt fyrir GFP og núna fyrir ríbósómin, sem hvorutveggja liggja á mörkum lífefnafræði og líffræði. Það hlýtur að vera fullt af framúrskarandi efnafræðirannsóknum. Ástæðan fyrir þessum úthlutunum er að hluta til sú að nóbelsverðlaunin eru bara veitt fyrir ákveðnar fræðigreinar, t.d. eru engin verðlaun ekki í líffræði, jarðfræði eða umhverfisfræði. Það er ágætt að rifja upp að hagfræðiverðlaunin voru seinni tíma viðbót bankamanna í skandinavíu.

Ítarefni

Sjá fréttatilkynningu Nóbelsnefndarinnar.

Svar Sigríðar H. Þorbjarnardóttur á vísindavefnum við spurningunni, hvernig myndast prótín í líkamanum?

Svar Guðmundar Eggertssonar á vísindavefnum við spurningunni, hvernig varð fyrsta genið til? Hefði það getað komið utan úr geimnum?


mbl.is Nóbelsverðlaun fyrir rannsóknir á ríbósómum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband