Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2010

Einbeiting framtíðar

Maður finnur hversu unaðslegt það er fara í gönguferð í fjörunni, fjarri tölvupósti, farsímum og bloggi. Vitanlega er maður orðin háður beinni nettengingu, sístreymi frétta og slúðurs. Ég á stundum erfitt með að halda einbeitingu við lestur á bókum eða greinum, svo vanur er maður orðin sífelldri truflun frá internetinu.

Er ekki eðlilegt að maður óttist um kynslóðina sem nú vex úr grasi, sem finnst eðlilegt að geta sent SMS á kamrinum, lesið blogg í bílnum, og flett fésbókinni í bókabúð? Ég held að ákveðin einsemd sé fólki holl, að vera einn með hugsunum sínum geti hjálpað fólki að skilja langanir sínar og leysa vandamál. Auðvitað eru mennirnir félagsverur sem þarfnast samneytis, örvunar, léttúðar og ertingar (í þessari röð :). En það má á milli sjá.

Ég tek eftir því að fæstir nemendurnir sem lesa fyrir próf í Öskju, eru bara með opna bók eða glósur. Meirihlutinn er með kveikt á tölvunum, og samskiptarás opna.

Maður hlýtur að spyrja hvernig fólki gangi að einbeita sér.

Að því rituðu hlít ég að líta í eigin barm og klippa á streng minn við netið (allavega fram yfir helgi). Góðar stundir.


mbl.is Vonleysi án upplýsingatækni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tólf þátta DNA

Einu sinni tilheyrði ég opnu leynifélagi, sem innihélt nokkra meistaranema á tilraunastofu Guðmundar Eggertssonar og Sigríðar H. Þorbjarnardóttur á Líffræðistofnun Háskólans. Á milli þess sem við klónuðum gen og einangruðum prótín, erfðabreyttum bakteríum og hreinsuðum DNA þá horfðum við á kvikmyndir byggðar á skelfilega lélegum vísindaskáldskap og auðvitað X-files í sjónvarpinu (mörkin á milli "Attack of the killer tomato" og Fox Mulder eru mjög óljós í minningunni!).

Eitt snilldaratriðið í X-files var þegar þau rákust á lífsýni, og auk þeirra 4 basa sem finnst í DNA allra lífveru fundu þau ....Fimmta basann. Þetta var næstu því jafn skemmtilegur þáttur og þegar Mulder og Scully fundu fjölskylduna í Vestur Virginíu sem var öll örkumluð vegna galla í hoxgenunum (já og innræktunar!).

Það er eitt að bulla til að skemmta fólki, það er annað að bulla til að hafa af því pening (og jafnvel stefna lífi þess í hættu).

Ég fékk í morgun ábendingu um nýja vöru/lýgi sem gæti allt eins verið framleidd af X-files genginu. 

12 stranded DNA

Medical science has established that we have 2 strands of DNA and 10 strands of “junk” DNA, but they have not understood the purpose of that “junk” DNA. Recent information has revealed its higher purpose; supporting a multidimensional consciousness, our natural state. Realigning, reconnecting and activating our 10 strands of junk DNA (aka the DNA Recoding or RRA Process) is the process by which we attain that state. When we are multidimensional, our physic abilities are reawakened and we have developed a second neural network at the etheric level. This second neural network is what allows us to live in multiple dimensions at once. We can hear, see and communicate with others in these dimensions.

Úr pistlinum Recoding To 12 Strand DNA Sequence And Entering Into The Photon Belt

Hvað í þessari málsgrein stenst nánari skoðun?

Jú, DNA er tvíþátta.

Allt hitt er 100% þvottekta, hreinræktaður, kristaltær ÞVÆTTINGUR.

Þetta er dæmi um svikabull, þar sem stokkað er saman fræðiorðum, nýaldarfrösum og jákæðum lýsingarorðum, til þess að hafa af fólki fé.

Áþekkur pistill: Lausnin er komin


Sara og Marteinn í nærmynd

Tveir af nemendum okkar voru í viðtali hjá Leifi Hauksyni í Samfélaginu í nærmynd nú í morgun.

Marteinn lauk BS prófi í lífefnafræði og Sara prófi í BS prófi í líffræði. Þau eru bæði að ljúka við meistaraverkefni við HÍ, í sameindaerfðafræði og eru á leið í framhaldsnám í Heidelberg.

Eins og rætt var um í samfélaginu í nærmynd:

 

Á vorin standa margir námsmenn á krossgötum þar sem þeir velja sér framhaldsnám. Og stundum liggur leiðin þangað sem þeim hefði aldrei dottið í hug áður fyrr. Við ræddum  við tvö íslensk ungmenni þau Söru Sigurbjörnsdóttir og Martein Þór Snæbjörnsson sem eru á leið í doktorsnám í lífvísindum, þau afrekuðu það að komast að í einni öflugustu rannsóknarstofnun Evrópu á sviði sameindalíffræði. Og hvað skyldu þau ætla að rannsaka?    


Ógn við okkur sjálf

Slysið sem varð á olíuborpalli BP (British petroleum) í Mexíkóflóa nýverið dregur aldelis dilk á eftir sér. 700.000 lítrar olíu leka út á hverjum degi, og rekur flekkinn í átt að strandsvæðum Lousiana fylkis.

Olíuslys eru ekkert smámál, heldur með sóðalegustu fyrirbærum sem maðurinn getur valdið. Exxon-Valdes slysið í Alaska olli meiriháttar mengunarslysi og litlu mátti muna að strand olískips við stóra kóralrifið við Ástralíu ylli ámóta hörmungum (Meðvitund um náttúruna).

Eins og rætt var um á degi umhverfisins (Líf á eldfjallaeyju) eru áhrif mannsins á umhverfi okkar margþætt og oftast neikvæð. Við sækjum að umhverfinu úr öllum áttum, með mengun (súrt regn, PCB, þungmálmar, plasti), eyðingu ósonlagsins, gróðurhúsalofttegundum, eyðingu skóga og vistkerfa og svo mætti lengi telja. Afleiðingarnar eru margvíslegar, en flestar koma þær sér illa fyrir okkur sjálf (eða börnin okkar og barnabörn). 

Lífstíll okkar leiðir til aukinnar mengunnar, með því að nota heimilisbíl drifinn af bensíni erum við samsek um þau umhverfispjöll sem verða í olíuiðnaði. Með því að hjóla, ganga eða taka strætó getum við dregið úr þessari ógn. Hvert og eitt erum við ekkert nema krækiber í helvíti, en ef öll krækiberin standa saman þá getum við gert kraftaverk (eða góða sultu).


mbl.is Fimmfalt meira af olíu að leka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Meðvirka genið

Í mörgum fjölskyldum, betri eða verri eftir því hvernig á það er litið, finnast meðvirkir einstaklingar. Þeir fyrirgefa sínum nánustu sérvisku og stundum fordóma, laga hegðun sína að þeirra til að halda friði. Björn Harðarsson skilgreinir meðvirkni á Vísindavefnum:

Meðvirkur einstaklingur er einstaklingur sem er "háður" öðrum einstaklingi eða einstaklingum. Þeim meðvirka finnst hann eða hún vera fastur/föst í sambandi, sem einkennist af misnotkun og stjórnsemi. Þetta eru oft einstaklingar sem hafa lélegt sjálfstraust og þurfa stöðugt á stuðningi og viðurkenningu annarra að halda, til að geta liðið vel.

En geta gen verið meðvirk? Vitanlega hafa gen ekki tilfinningalíf og geta ekki misnotað sjálfan sig. En áhrif sumra gena, strangt til tekið afbrigða ákveðinna gena, geta verið "háð" öðrum genum. Þetta er það sem erfðafræðingar kalla samvirkni eða "epistasis".

Nýlega birtist grein í tímaritinu Genetics eftir Ian Dworkin og félaga. Þeir skoðuðu áhrif stökkbreytingar í geninu scalloped, sem raskar þroskun vængs ávaxtaflugunnar. Þeir sáu að áhrifin voru mjög misjöfn eftir því i hvaða einstaklingi hún fannst.

wing_and_a_mutation.jpgBreytingin hafði mjög sterk áhrif á einstaklinga af Oregon stofni (miðmyndin) á meðan áhrifin voru mun vægar á einstaklinga úr stofni sem kallast Samarkand (hægra megin). Eðlilegur vængur er sýndur vinstra megin til samanburðar. Þetta sýnir á afgerandi hátt að áhrif meiriháttar breytingar á geninu geta oltið á öðrum genum í erfðamengi einstaklingsins.

Hví ættum við að hafa áhuga á slíku?

Jacque Monod sagði "það sem á við um E.coli á einnig við um fílinn" og við það getum við bætt að það sem á við um fluguna á einnig við um manninn. Þetta er ekki orðaleikur heldur líffræðilegur raunveruleiki.

Genið rhomboid, sem kemur m.a. að þroskun stoðæða í vængjum ávaxtaflugunnar, á sér hliðstæðu í bakteríum. Galla í rhomboid geni flugunnar má bæta upp með því að setja samsvarandi gen* úr bakteríu inn í staðinn.

Líffræðingar nýta sér þessa eiginleika til að finna gen sem taka þátt í þroskun og líffræði mannsins. Nýlegt dæmi er rannsókn Dr. Marcotte á genum sem tengjast Waardenburg heilkenni (syndrome - WS). WS er vegna galla á fari taugakambsfruma (neural crest cells) sem leiða til margvíslegra galla (m.a. heyrnaleysis og hvítra bletta í hári og húð). Dr. Marcotte og félagar sáu að nokkur gen sem tengjast þessum sjúkdómi vinna saman í plöntu (Arabidopsis thaliana - vorskriðnablómi). Í plöntunni eru genin nauðsynleg fyrir skynjun á þyngdarafli (gravity sensing). Þeir fundu fleiri gen í plöntunni sem tengjast þessu ferli og spurðu sig næst hvort að þau tengdust fari taugakambsfruma í hryggdýrum. Sú var raunin.

Það þýðir að gen sem tengjast skynjun á þyngdarafli í plöntum, geta hjálpað okkur að skilja heyrnaleysi í mönnum. 

Það er algerlega frábært.

*Samsvarandi þýðir að þau eru svipuð, en ekki alveg eins, kannski 70% amínósýranna eru eins.

Ítarefni:

Tina Hesman Saey - Mutation effects often depend on genetic milieu: other genes at least as important as environment, study shows. Science news, April 13th, 2010.

Ian Dworkin og félagar Genomic Consequences of Background Effects on scalloped Mutant Expressivity in the Wing of Drosophila melanogaster Genetics, Vol. 181, 1065-1076, March 2009

Björn Harðarson. „Hvað er meðvirkni, hvernig getur hún birst og hvað er til ráða?“. Vísindavefurinn 12.1.2002. http://visindavefur.is/?id=2043. (Skoðað 28.4.2010). 

Carl Zimmer The Search for Genes Leads to Unexpected Places New York Times, April 26, 2010.

Kriston L. McGary og félagar Systematic discovery of nonobvious human disease models through orthologous phenotypes PNAS


Frábært skref fyrir snáka

Mér finnst fátt stórkostlegra en þær margvíslegu og fjölbreyttu lífverur sem búa jörðina. Það eina sem tekur því fram er maðurinn, og þá sérstaklega forvitin manneskja. Það að fylgjast með börnum að sjá dýr eða framandi plöntur í fyrsta skiptir er stórkostlegt. Ég mun ætíð (ef Alzheimer og félagar leyfa) muna birtuna og gleðina í rödd sonar míns þegar hann hrópaði "Elephant" í fyrsta skipti sem hann sá fíl. Við bjuggum í Chicago á þessum tíma og nutum þeirra forréttinda að hafa þar tvo dýragarða (Lincoln park Zoo, Brookfield Zoo), grasagarð (Chicago botanical garden), vatna og sjávarlíffræðisafn (Shedd Aquarium), vísinda og tæknisafn (Museum of Science and Industry), og náttúruminjasafn (American Museum of Natural History).

bangsaslagur.jpgMyndina tók Arnar Pálsson í dýragarðinum í Kaupmannahöfn.

Á Íslandi vantar fleiri tækifæri fyrir borgarbúana til að upplifa náttúruna, sérstaklega skepnur sem ekki búa hérlendis. Við finnum það sérstaklega þegar við í líffræðinni opnum tilraunastofurnar, eins og á Háskóladaginn og á degi umhverfisins.

Náttúruminjasafn Kópavogs, önnur minni söfn úti á landi og Húsdýragarðurinn eru helstu athvörf náttúruþyrstra. Að örðum ólöstuðum þá hefur starfsfólk húsdýragarðsins staðið sig mjög vel, sérstaklega með því að búa til fiska og vísindatjaldið.

Það verður mjög gaman að koma og vitja um eðlurnar og snákana.


mbl.is Eðlur og snákar í Húsdýragarðinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vísindadagar Keldna og fyrirlestur um stofngerð í vatnasviði

Næstkomandi föstudag (30 apríl 2010) verður nóg um að vera. Haldnir verðar vísindadagar Keldna (rannsóknarstöð Háskóla Íslands í meinfræði) og Michael Morrissey heldur fyrirlestur um stofngerð lífvera sem búa í ákveðnu vatnasviði.

Vísindadagana setur Katrín Jakobsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra kl 8:45:

Starfsmenn Tilraunastöðvarinnar og nemendur í rannsóknanámi verða með fyrirlestra um ýmis verkefni í príon-, veiru, bakteríu-, sníkjudýra-, sameinda- og ónæmisfræðum.

Auk þess verður veggspjaldasýning en þar verða kynnt fjölbreytileg verkefni á sömu fræðasviðum. Fyrirlesararnir, sem skýra frá rannsóknaniðurstöðum og túlka þær, eru margir hverjir með áratuga reynslu af vísindastarfi. Auk þess eru yngri vísindamenn, s.s. nemendur í rannsóknanámi, með kynningu á verkefnum sínum en hlutur þeirra í starfi Tilraunastöðvarinnar hefur farið vaxandi á síðastliðnum árum.

Fjallað verður um þær fjölþættu rannsóknir sem stundaðar eru á Keldum. Meðal þess sem rætt verður er þróun sérvirka ónæmiskerfisins inflúensu í svínum og áður ókunnar tegundir sníkjudýra á Íslandi.

Sama dag, kl. 10:00, mun Michael Morrissey halda fyrirlestur í boði Líffræðistofnunar sem kallast The population genetics of dendritic systems, sem gæti útlagst sem stofnerfðafræði árkerfa. Viðfangsefni hans er erfðabreytileiki í lífverum sem byggja vatnakerfi.

Meginhugmyndin er sú að greinótt uppbygging vatnasviða, þar sem ár og lækir sameinast í einn stofn, getur leitt til frávika frá hefðbundnum líkönum um breytileika í stofnum. Ástæðan er sú að einstaklingar æxlast ekki handahófskennt innan vatnasviðs, heldur eru meiri líkur á að lífverur í einni á æxlist við aðra einstaklinga í sömu á. Eftir því sem ég kemst næst mun Michael ræða þetta vandamál og afleiðingar þess.

Ágrip úr erindi hans fylgir fyrir þá sem heimavanir eru í stofnerfðafræði:

Nearly all freshwater landscapes are dendritically arranged. This dendritic arrangement is a result of variation in elevation, and this variation in elevation is bound to promote asymmetric migration. Population-genetic models of asymmetric migration in dendritic metapopualtions yield very different results than more classic genetic models of spatial variation in genetic parameters.  Generally, asymmetric migration erodes genetic variation, except in dendritic landscapes, where asymmetric migration can greatly promote the maintenance of genetic variation.  Feed-back processes within dendritic systems can even promote the maintenance of genetic variation in otherwise isolated populations, i.e. headwaters.  I will present theoretical results in the context of novel empirical predictions and the need to re-evaluate perceptions of the consequences of variation in genetic diversity from a conservation context.

Fyrirlesturinn verður haldinn í stofu N-131 í Öskju og hefst kl. 10:00.


Erindi: Fortíð, nútíð og framtíð lundastofns Vestmannaeyja

Fortíð, nútíð og framtíð lundastofns Vestmannaeyja er titill erindis Erps Hansen, líffræðings við Náttúrustofu Suðurlands. fraticulaartica_sigridurrutfranzdottir.jpg

Lundinn (Fratercula arctica) var ljósmyndaður af Sigríði R. Franzdóttur (copyright).

Ágrip erindisins (úr fréttatilkynningu):

Hlýskeið í sjónum sunnan og suðaustan við Ísland hófst 1996, metveiði í lunda var 1998 en síðan hefur veiðin verið á niðurleið. Samskonar mynstur er einnig að finna í lundaveiði í Færeyjum. Á síðustu 20 árum hefur orðið stofnhrun í sjófuglastofnum sem éta sandsíli við Ísland og Færeyjar. Varpárangur lunda í Vestmanneyjum hefur t.d. verið slæmur a.m.k. síðan 2005 sem tengdur er mikilli fækkun í sandsílastofninum. Í erindinu eru kynntar niðurstöður samstarfsverkefnis sem beinist að skýringum á gagnvirkum breytingum milli lunda- og sandsílastofnanna við Vestmannaeyjar. Ábúðarhlutfall, varpárangur, tímasetning varps og aldurshlutföll lunda í veiði hafa verið vöktuð síðan 2007 og verða niðurstöður skýrðar. Fjallað verður um tilgátuna um að lundaveiði endurspegli „fæðubundna átthagatryggð ungfugla“ eða magni 1-árs síla. Þessi tilgáta býður m.a. upp á túlkanir á langri lundaveiðisögu í samhengi við hafrænar breytingar fyrr og nú. Einnig verður fjallað stuttlega um yfirstandandi úrvinnslu á lífslíkum og árgangahlutföllum lunda byggt á merkingagögnum frá 1953.

Erindið er á vegum Hins íslenska náttúrufræðifélags og verður flutt mánudaginn 26. apríl kl. 17:15 í stofu 132 í Öskju, Náttúrufræðihúsi Háskóla Íslands.Aðgangur er öllum heimill og ókeypis. 

Viðbót:

Í kvöld er síðan 5 þátturinn í þáttaröð BBC um lífið. RÚV sýnir þættina kl 20:10 á mánudögum og eru með vinsælasta sjónvarpsefni landsins. 

Það hittir skemmtilega á að þátturinn í kvöld fjallar einmitt um fugla. Af vef RÚV:

Aðlögunarhæfni fugla er einstök. Þeir geta flogið ótrúlega hratt og langar vegalengdir í einu og svo blundar líka í sumum þeirra drápseðli. Þeir geta hlaupið á vatni þegar ástin kallar og byggt sér flókin og fíngerð hreiður. Í þættinum er flogið með fuglum og ótrúlegt háttalag þeirra skoðað. Við sjáum freigátufugla, svífum með lambagömmum, dönsum með þúsund flamingóum í vötnum Afríku og fylgjumst með sérkennilegum tilburðum, kólibrífugla goða og laufskálafugla í tilhugalífinu. [undirstrikun mín]

Drápseðli er ekkert ónáttúrulegt, það er eðlilegur hluti af náttúrunni. Við þurfum á því að halda til að afla okkur fæðu, t.d. að drepa dýr og rífa upp plöntur!

Líf á eldfjallaeyju

Dagskrá fyrir alla fjölskylduna í máli og myndum um jarðfræði og líffræðilega fjölbreytni Íslands. 

Laugardagur 24. apríl frá k. 10.30 -15.00.

Staðsetning, Askja, náttúrufræðihúsi Háskóla Íslands.
 
Íslands er draumaland jarðvísindamannsins með Atlantshafshrygginn og heitan reit undir landinu sem valda mikilli gosvirkni sem skapar nýtt land og umbylta því gamla. Gosið í Eyjafjallajökli er nýjasta birtingarmynd náttúruaflanna.

Líffræði landsins á fáar hliðstæður. Þrátt fyrir að eyjan hafi verið þakin jökli fyrir 12000 árum, er samt mikil fjölbreytni í lífríkinu. Fjölbreytileiki náttúrunnar er auðlind, sem sjá má meðal annars í nytjastofnum og lífríki hafsins.

Jarðfræði og líffræði Íslands tvinnast stöðugt saman; Hlaup undan jöklum búa til stóra sanda, vistkerfi lands og hafs verða fyrir áhrifum af eldgosum, og í hraunjöðrum finnast ævafornar lífverur sem lifðu ísöldina af.

Fjölmargir sérfræðingar Háskóla Íslands á sviði náttúru- og jarðvísinda munu segja frá í máli og myndum í samfelldri dagskrá, ljósmyndir og kvikmyndir sýndar, rannsóknastofur í Öskju verða opnar og fjölbreytnin höfð í fyrirrúmi.

Líf á eldfjallaeyju er dagskrá (sjá neðar) í tilefni af Degi umhverfisins og Degi jarðar, sem Sameinuðu þjóðarinnar hafa sérstaklega tileinkað líffræðilegri fjölbreytni árið 2010. Dagskráin í Öskju stendur frá klukkan 10:30 til 15 laugardaginn 24. apríl og er ætluð öllum aldurshópum.

Öll erindi sem flutt verða eru stutt og aðgengileg. Aðgangur er ókeypis og allir hjartanlega velkomnir.

  • Inngangur um líffræðilega fjölbreytni - Guðmundur I. Guðbrandsson
  • Fjölbreytileiki nytjastofna: dýrmætasta auðlindin? - Guðrún Marteinsdóttir
  • Mörg andlit íslenskra ferskvatnsfiska - Sigurður S. Snorrason
  • Hryggleysingjar í sjó við Ísland - útbreiðsla og fjölbreytileiki - Jörundur Svavarsson
  • Verndun íslenskra votlenda - Gísli Már Gíslason
  • Eldgos - Björn Oddsson
  • Áhrif ösku á fólk - Kristín Vala Ragnarsdóttir
  • Verndun og fjölbreytni flóru Íslands - Ólöf Birna Magnúsdóttir
  • GPS mælingar á eldfjöllum - Sigrún Hreinsdóttir
  • Eldgos - Björn Oddson
  • Líffræðilegur fjölbreytileiki og dagur jarðar - Hrund Ólöf Andradóttir
  • Örverur hér og þar - Ólafur S. Andrésson
  • Erfðabreytileika innan tegunda á Íslandi - Snæbjörn Pálsson

Ljúgandi hræddur

Maður sér fyrir sér skelfingu lostna frummenn, hríðskjálfandi í norðanæðingi, virða fyrir sér öskumökkinn, eldingarnar og sjónarspilið. Maður getur svo sem alveg fyrirgefið þeim að hafa reynt að útskýra þetta á einhvern hátt, segja börnum sínum að þetta hafi verið geðveikur guð eða æstur ári. Hver veit nema á slíkir atburðir hafi orðið kveikja ótrúlegri sagna biblíunnar og annara trúarrita?

En mér er illskiljanlegt hvernig fólk í nútímanum getur verið svo fáfrótt um grundvallaratriði eins og eldgos. Veit Gaddafi um bráðið berg, landrek, setlög? Heldur hann kannski að jörðin sé flöt?

Hann virðist samt gera sér grein fyrir því að ekki sé allt með feldu:

Hann er jafnframt sagður hafa harmað hve Arabar væru skammt komnir í vísindaþróun.  

Ég veit ekki hvað þarf til kippa Gaddafi úr dróma fáfræðinnar. Vísindi eru ekki einkamál vesturlandabúa, fræðimenn frá öllum heimshornum hafa lagt sín lóð á vogarskálarnar og byggt upp þekkingu á eldgosum.

Upphlaup Gaddafi er ekki einstak, fyrir skemmstu var fyrirlestur "náttúrvættasérfræðings" sem hélt því fram að eldgos væru

...leið náttúrunnar til að vara mannskepnuna við og láta óánægju sína í ljós. Með þessum umbrotum er hún að segja okkur eitthvað og vara okkur við að fara yfir ákveðin mörk.

... Vasey segir að vitneskja mannfólksins um náttúruvættir standi djúpum rótum. Þannig hafi hún fylgt mannkyninu gegnum alla mannkynssöguna og um allan heim. Fyrr á tímum hafi fólk átt náið samstarf við þær; leitað til þeirra þegar reist voru hof, borgir byggðar og vegir lagðir. Vasey hyggst í dag meðal annars svara þeirri spurningu hvers vegna náttúruvættir hrinda náttúruhamförum af stað.

Er það eðlilegt viðbragð að spinna upp yfirnáttúrulegar skýringar þegar ofsamáttur náttúrunnar birtist okkur?

Með öðrum orðum, förum við að ljúga þegar við verðum hrædd?


mbl.is Öskuskýið var heilög refsing
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband