Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2010

Líf á flúor

Gosið í Eyjafjallajökli minnir okkur á þá staðreynd að við erum hluti af náttúrunni. Eldgos, flóð, fellibylir og farsóttir eru eðlilegur hluti af náttúrunni. Við lítum oft á okkur sem yfir náttúruna hafin, eða að hún komi okkur ekki við.

Við lifum á eldfjallaeyju. Lífríki Íslands hefur mótast af sögu eyjarinnar, eldvirkninni og ísöldunum.*

Skilningur á náttúrunni gefur okkur færi á að verja okkur fyrir hamförum af hennar völdum. Jarðfræðingarnir eru orðnir mjög góðir í að skilja eldfjöll, og í það minnsta vara okkur við gosum og flóðum af þeirra völdum. Líffræðingar og læknar vita að aska og flúor getur skaðað lífverur.

Fólk hefur eðlilega áhyggjur af flúormengun í öskunni frá Eyjafjallajökli. Áhrif flúors virðast aðallega vera á heilsu beina. Flúor bindur kalk, og of hár styrkur af því í líkama dýra leiðir til skemmda á beinum:

Dæmi eru um það hér á landi að nautgripir, sem fengu drykkjarvatn í fjósið úr volgri laug með 10-11 ppm af flúor hafi orðið haltir og heilsutæpir eftir fáa mánuði. Þeim batnaði, þegar þeir fengu á ný vatn ómengað af flúor.  (af vísindavefnum)

Kalk er einnig boðsameind í frumum og er nauðsynlegt fyrir starfsemi tauga og vöðva. Flúor í of miklum mæli getur því skaðað lífverur á nokkra vegu. Flúor hefur líka skaðleg áhrif á fiska og hryggleysingja, sérstaklega ferskvatns lífverur.

Vonandi ná bændur að bjarga bústofni sínum og ræktar landi. Gróður og villt dýr undir Eyjafjöllum og í Mýrdal munu að endingu hrista af sér öskuna, einhver afföll eru óhjákvæmileg. Ég óttast sérstaklega um brekkubobbana. Samkvæmt Einari Árnasyni hurfu bobbarnir úr Vestmannaeyjum við gosið þar, líklega því askan eyðilagði búsvæði þeirra.

*Það verður opinn dagur í Öskju, náttúrufræðihúsi HÍ, laugardaginn 24 apríl í tilefni dags umhverfisins. Þar verður fjallað um eldgos, lífríki landsins og hægt að skoða hvalbein, fugla, fiska og pöddur. Dagskrá frá 11-15 fyrir alla fjölskylduna.bobbi_ap.jpg

Mynd af Bobba, Arnar Pálsson copyright, tekin 2009 í vesturbæ Reykjavíkur.

Ítarefni:

Af vísindavefnum:

Hver eru helstu áhrif flúors á manninn?

Vísindavefurinn: Hvaða efni eru snefilefni?

Hver eru helstu einkenni bráðrar flúoreitrunar í skepnum?

Myndir Erlings Ólafssonar af sniglum og bobbum.

Camargo JA. Fluoride toxicity to aquatic organisms: a review. Chemosphere. 2003 Jan;50(3):251-64.


mbl.is Aukið flúormagn í öskunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Líffræðilegur fjölbreytileiki

Sameinuðu þjóðirnar og fleiri aðillar standa fyrir alþjóðlegu ári líffræðilegrar fjölbreytni 2010. Vefsíða verkefnisins er The International Year of Biodiversity.

Af þessu tilefni verður fjallað um Líf á eldfjallaeyju á degi umhverfisins (það verður opið hús í Öskju Náttúrufræðihúsi HÍ - fólk getur komið og fræðst um eldgos, fiska og plöntur, og skoðað sýnasafn líffræðinnar og lært um sjálfbærni).

En hvað er líffræðilegur fjölbreytileiki ? Hann birtist í:

fjölda tegunda

mun á milli tegunda

breytileiki innan tegunda og stofna

fjölbreytni vistkerfa og búsvæða lífvera

Hérlendis eru ekki margar tegundir á landi, en fjölbreytnin er umtalsverð í hafinu. Hafið er hin minnst könnuðu svæði jarðar, hulin og leyndardómsfull.

arcticpycnopodia.jpg

 

crossota_935425.jpg

Í gangi eru nokkur stór verkefni sem miða að því að kanna fjölbreytileika sjávarlífvera. hérlendis hafa Jörundur Svavarsson og samstarfsmenn unnið að BIOICE (á ensku) verkefninu og fundið fjöldan allan af framandi lífverum. Jörundur og Pálmi Dungal eru höfundar bókarinnar LEYNDARDÓMAR SJÁVARINS VIÐ ÍSLAND, sem er regulega skemmtileg, ríkulega myndskreytt og fræðandi.

Myndir af vefsíðunni: Census of Marine Life.

Skyldir pistlar:

Fjölbreytileiki sjávarlífsins

Fyrsta fréttin um líffræðilega fjölbreytni


mbl.is Huliðsheimur afhjúpaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dagur umhverfisins - líf á eldfjallaeyju

Umhverfisráðuneytið heldur utan um dagskrá í tilefni dags umhverfisins (kallað Earth day erlendis).

Margt snjallt er á döfunni - það sem við í HÍ bjóðum upp á er opið hús laugardaginn 24 apríl undir yfirskriftinni:

Líf á eldfjallaeyju

Líf á eldfjallaeyju. Líffræðileg fjölbreytni Íslands, náttúra og náttúruöfl, auðlindir og umhverfi, dýr og plöntur, vatn, eldur og ís. Sérfræðingar Háskóla Íslands á sviði náttúru- og jarðvísinda segja frá í máli og myndum, rannsóknastofur verða opnar og fjölbreytni í fyrirrúmi. Dagskrá fyrir alla fjölskylduna frá kl. 11-15.

fraticulaartica_sigridurrutfranzdottir.jpgMynd og copyright Sigríður R. Franzdóttir.

Nánari upplýsingar fylgja.


Sediba á 60 mínútum

Einn uppáhalds fréttaþátturinn minn er 60 minutes á CBS sjónvarpsstöðinni. Bob Simon fjallaði um fundinn á Australopithecus sediba í þætti þann 11 apríl.

Hægt er að horfa á umfjöllunina á vef CBS. og lesa frétt CBS Fossil Find New Branch in Human Family Tree?

60m_discovery.pngUmfjöllunin er mjög fræðandi, maður fær að sjá hellinn sem beinin fundust við, og röntgenmyndir af steingervingnum. Tennurnar á honum eru ótrúlega vel varðveittar. Lee Berger aðal vísindamaðurinn í rannsókninni, gerir mikið úr því að einstaklingarnir tveir sem fundust hafi líklega tilheyrt sama hópi, og mögulega verið skyldir. Mér þykir hann vera að teygja sig töluvert í þeirri túlkun. Einnig er ég ekki sáttur við staðhæfingar fréttamannsins um að Sediba hafi verið beinn forfaðir nútímamannsins.

He's being called "Sediba," which means "source," and he stands somewhere on the road between ape and human. 

Það er möguleiki að Sediba sé milliform, á "veginum á milli apa og manns" en það er mun líklegra að hann sé einn af ættingjum okkar, en svo sannarlega merkilegur ættingi.

Leiðrétting á orðalagi eftir ábendingu Drekans, sbr athugasemdir:

Mér þykir hann vera að teygja sig töluvert í þeirri túlkun, sem og er ég ekki sáttur við staðhæfinar um að Sediba hafi verið beinn forfaðir nútímamannsins. 

Var breytt í:

Mér þykir hann vera að teygja sig töluvert í þeirri túlkun. Einnig er ég ekki sáttur við staðhæfingar fréttamannsins um að Sediba hafi verið beinn forfaðir nútímamannsins. 

Þakkir:

Til Vilhjálms fyrir að benda mér á umfjöllunina og senda meðfylgjandi mynd.

Ítarefni:

9 ára drengur fann nýja manntegund

og vagga mannkyns

Um milliform og týnda hlekki.

Hlekkur í ættarrunnanum

Óslitið tré lífsins


Athugasemdir Arnþórs

Fyrir nokkru birtist skýrsla frá nokkrum starfsmönnum Hagfræðistofnunar HÍ (Gunnar Haraldsson, Kristófer Gunnlaugsson, Daða Má Kristófersson, Ragnar Árnason og Svein Agnarsson) um hagfræðileg áhrif hvalveiða. Niðurstaða hennar var sú að hvalveiðar væru hagkvæmar, en nokkrir agnúar voru á skýrslunni sem gefa tilefni til að draga þá niðurstöðu í efa.

Við ræddum áður gagnrýni Hilmars Malmquist á þau stofnalíkön sem liggja til grundvallar niðurstöðu hagfræðinganna (Efnisleg gagnrýni).

9. apríl 2010 birtist grein eftir Arnþór Garðarsson Athugasemdir við skýrslu Hagfræðistofnunar á vísir.is.

Þar gagnrýnir hann skýrslu hagfræðinganna, fyrst með vistfræðilegum rökum:

Hér er byggt á afránslíkani sem kynnt var fyrir alllöngu (Gunnar Stefánsson, Jóhann Sigurjónsson og Gísli A. Víkingsson, J. Northw. Atl. Fish. Sci., 22 (1997), 357-370). Líkanið er ofureinföldun sem hefur ekki hlotið stuðning og virðist óþarfi að nudda höfundum upp úr því eftir mörg ár, en skrýtið er að sjá það nú afturgengið og endurselt stjórnvöldum í hagfræðilegum umbúðum. ...

Hann bendir einnig á það sem hann kallar "pólitíska dulúð"

Nokkurrar pólitískrar dulúðar gætir í skýrslu Hagfræðistofnunar þegar rætt er um rétt Íslendinga til að stunda hvalveiðar. Til dæmis segir (bls. 11) „ ... snerta hvalveiðar almennt grundvallarrétt þjóðarinnar til að nýta á sjálfbæran hátt auðlindir sínar. Þær hafi jafnframt menningarlegt gildi á grundvelli aldalangrar sögu sinnar..." Hér er látið í það skína að viðkomandi hvalategundir séu auðlind okkar en ekki fjölþjóðleg auðlind, farstofnar sem margar þjóðir eiga hlutdeild í. Menningarlegt gildi byggt á aldalangri sögu er líka óútskýrt. Er kannski átt við súrsað rengi? Sömu óljósu staðhæfingar virðast koma aftur fyrir í skýrslulok (bls. 53): „ ... Bent hefur verið ... fyrr í skýrslunni á þær stóru átakalínur sem hér er verið að verja ...". - Hverjar eru þessar stóru átakalínur og í hverju felast varnirnar?

Síðan bendir Arnþór á að "keyptar" skýrslur eru vandamál fyrir háskólasamfélagið í heild. Mér finnst að "keyptar" álitsgerðir séu blettur á Háskóla Íslands.

Skýrsla Hagfræðistofnunar er sýnilega afleiðing margvíslegra kerfisgalla sem Íslendingar hafa komið sér upp á undanförnum áratugum í sjálfumglaðri einangrun. Kerfisgallarnir eru mjög lífseigir þrátt fyrir nýleg áföll. Því mætti í lokin benda á fáein atriði sem betur þurfa að fara ef við ætlum að nýta vísindaþekkingu í þágu betra mannlífs:

1) Nýleg lög um háskóla hafa ekki bætt rannsóknir á Íslandi. Þau þarf að endurskoða með það að markmiði að draga úr áhrifum svokallaðs atvinnulífs en auka þátttöku vísindamanna.

2) Þegar starfsmenn við rannsóknastofnanir Háskóla Íslands hyggjast gera fræðilegar skýrslur um efni sem eru utan við faglega þekkingu þeirra ber þeim að afla viðeigandi sérfræðiþekkingar.

3) Ekki er við hæfi að gefin séu út fræðileg rit og skýrslur án þess að fyrir liggi gagnrýni ótengdra sérfræðinga (sjálfstætt jafningjamat). Kaupendum slíkra verka, hvort sem eru ráðuneyti, stofnanir eða fyrirtæki, ber að afla slíks mats áður en til þess kemur að nýta niðurstöðurnar.
Hvernig getum við gefið fræðilegt álit með einni hönd ef við þiggjum fúlgur með hinni? Markmið siðareglna er að koma í veg fyrir hagsmunaárekstra. Miðað við þá gagnrýni sem fram kom í skýrslu rannsóknanefndar þurfum við einnig að hafa kerfi sem refsar fólki sem "selur" sitt álit (sérstaklega ef það gerir það í nafni háskólasamfélagsins).

Börn og geðlyf

Börn og unglingar eru framtíðin. Það segir sitthvað um samfélag hvernig það fer með framtíð sína. Nýleg grein eftir Helgu Zoëga, Matthías Halldórsson og samstarfsmenn sýnir að við dælum geðlyfjum í börn okkar og unglinga. Með orðum Steindórs J. Erlingssonar:

Þegar horft er á einstaka lyfjaflokka þá hefur ávísun örvandi lyfja, sem notuð eru til þess að meðhöndla athyglisbrest og ofvirkni (ADHD), aukist gríðarlega á undanförnum tveimur áratugum. Í samanburði við Finna nota Danir, skv. annarri vísindagrein, tvisvar sinnum meira af þessum lyfjum, Svíar þrisvar, Norðmenn átta en Íslendingar 22 sinnum meira. ...
Ávísun geðlyfja til þessa aldurshóps er sú mesta sem þekkist í Evrópu, en er að einhverju leyti sambærileg við það sem tíðkast í Bandaríkjunum. Hvernig stendur á því? Erum við að selja langtímahagsmuni barnanna okkar fyrir skammtímagróða?

Úr morgunblaði dagsins grein  um börn og geðlyf.

Steindór hefur tekist á við geðsjúkdóma um nokkura ára skeið og skrifað um reynslu sína, og rýnt í vísindin á bak við sum af algengustu geðlyfjunum. Hann hefur komist að því að lyfjafyrirtækin hafa oft beitt óheiðarlegum vinnubrögðum til að láta lyfin líta betur út, og brellum til að halda þeim að læknum og neytendum.

Eins og við ræddum í gær og Kristinn Theódórsson í sínum pistli er nauðsynlegt að almenningur, fræðimenn og fréttamenn veiti lyfjafyrirtækjunum og nýaldarpostulunum aðhald. Fræðin munu sigra sérhagsmunina.

Ítarefni:

Psychotropic Drug Use among Icelandic Children: A Nationwide Population-Based Study Helga Zoëga, Gísli Baldursson, Birgir Hrafnkelsson, Anna Birna Almarsdóttir, Unnur Valdimarsdóttir, Matthías Halldórsson. Journal of Child and Adolescent Psychopharmacology. December 2009, 19(6): 757-764. doi:10.1089/cap.2009.0003.

Heimasíða Steindórs

Fleiri pistlar um þetta efni:

Þunglyndislyf og léleg tölfræði

Framhald um þunglyndislyf og lyfjarisa

Geðröskun og lyfleysa

Bæklingurinn dreginn til baka

Lyfjafyrirtæki og blekkingar

Neurosceptic fjallar um GSK á Íslandi


Fréttir, fréttamenn og ritskoðun

Opið samfélag byggir á góðri fréttamennsku, þar sem bent er á það sem aflaga fer, t.d. spillingu í stjórnsýslu, ofríki fyrirtækja, eða óeðlilegum hagsmunatengslum.

Það er mikilvægt að blaðamenn og almenningur geti kynnt sér mál, sett þau í samhengi og fylgt þeim eftir. Annars sleppa peningagráðugu ránfuglarnir úr snörunni. Gagnrýni á einstaklinga, fyrirtæki og félög sem halda fram bulli er skylda þegnanna og sérstaklega fréttamiðla.

Því miður erum við illa búin hérlendis. Fréttablöðin eru ekki með sérstaka vísindafréttamenn, og virðast  til í að prenta hvaða fréttatilkynningu sem er um hnykklækningar, olíumeðferðir, maðkasúpuseyði og detox (t.d.MMS steypuna). Það er meðvirkni.

Erlendis er sama barátta háð. Undanfarið ár hefur blaðamaðurinn Simon Singh staðið í málaferlum við bresku hnykklækningasamtökin sem voru ekki sátt við gagnrýni hans á auglýsingar samtakanna. Samtökin stefndu honum fyrir meiðyrði - en töpuðu málinu. Bendi á pistil Kristins Theodórssonar um þetta efni: Sigur vísindanna yfir kukli og ranghugmyndum og frétt the Telegraph Simon Singh wins key battle in alternative medicine libel case.

Þetta er ekki erlent vandamál, heldur fyrirbæri sem stuðlaði einng að hruni okkar. Það var þöggun í samfélaginu, og Kristinn G. Arngrímsson fyrrverandi blaðamaður tekur undir það: Morgunblaðið tók þátt í þögguninni.

Skylt efni:

högun tilrauna og smáskammta"lækningar"

nálastungur og pílukast.


Pastaóður Kristins

Þið verðið að kíkja á óð Kristins Theodórssonar til fljúgandi spaghetti skrímslisins.

Kveikjan að þessu er vitanlega skrif og samræður (frekar en rökræður!) Kristins og félaga við sköpunarsinna og "trúarfugla" eins og hann kallar þá (sjá t.d. Um heimildanotkun trúfugla - fyrsti hluti).

 

Lausnin er komin

Og hún er að drekka útþynnt DNA.

Það er fullt af fólki sem gerir út á vanþekkingu annara. Nýjasta dæmið er Homeovitality. Vefsíðan lítur vísindalega út, á henni er fullt af fræðiorðum. tilvitnanir í ritrýndar greinar og bækur virtra fræðimanna og í lokin nákvæmar efnislýsingar.

Það er bara eitt vandamál, Homeovitality er kristaltært skólp.

Ég las um þetta hjá PZ Myers More magic DNA snake oil : Pharyngula, og leyfi mér að vitna í hann:

Drink a DNA solution? Are they insane? That's just going to get broken down and do nothing, and besides, it's not as if your body contains some shortage of Klotho genes — every cell in your body has a copy. Of course, even that objection is pointless, because you aren't actually drinking any DNA. This is a homeopathic solution.

Homeovitality® products have also been succussed at each dilution stage so they will also help to promote desirable forms of hybrid vigour in a "like promotes like" mode of action involving some of the mechanisms (4) described by Dr. Kratz, (http://kulisz.com/how_does_homeopathy_work.htm).

Homeovitality® products are safe because firstly, they are used at similar dilutions to classical homeopathic disease remedies and secondly, hybrid vigour is a completely natural biological process that has been developed by nature over millions of years to enable all creatures to enjoy "super health" and disease resistance.

They're selling bottles of water and pretending it's medicine, with a cloud of pseudo-scientific hokum to justify it.

Þetta er ótrúlegt afrek. Fólk heldur að það sé að fá læknisfræðilega trausta vöru (Dr. Kay gerir mikið úr vísindaferli sínum á vefsíðunni sinni), en þú selur þeim aldagamla snákaolíu.

Þetta minir mig á snilldar frétt úr Lauknum: Revolutionary New Insoles Combine Five Forms Of Pseudoscience

Ef þið viljið frekar versla við innlenda aðilla - verslið þá við Grefilinn.


Á leið í framhaldsnám

Atli Harðarson aðstoðarskólastjóri við fjölbrautarskóla Vesturlands benti á að, 

það vita allir nokkurn vegin hvað bankamenn gera, en hafa afar óljósa hugmynd um hvað raunvísindamenn gera, flestir unglingar þekkja þessi störf lítið. Sjá pistilinn Raunvísindi og líffræði

Nám í líffræði við HÍ er kjörin leið til að kynnast því hvernig það er að stunda vísindalegar rannsóknir. Ekki er verra að M.S. gráða í lífvísindum eða skyldum greinum og sérstaklega birtar vísindagreinar, opnar fólki leiðir í framhaldsnám erlendis. Þetta var leiðin sem mín út. 

Það frábært tækifæri að fá að læra og starfa í bestu háskólum heims, kannski í iðandi stórborg eða spennandi háskólabæ. Nýverið komst Sara Sigurbjörnsdóttir líffræðingur inn í doktorsnám við sameindalíffræðistofnun Evrópu (EMBL). Hún fær að kynnast Heidelberg, einni af elstu og merkilegustu háskólaborg Evrópu.

Hún vann tvisvar í lottóinu, því hún fær að rannsaka þroskun og starfsemi gena í magnaðri tilraunalífveru, ávaxtaflugunni.

Fjallað var um þetta í fréttabréfi Verk og náttúruvísindasviðs HÍ.

Sara Sigurbjörnsdóttir, MS- nemi í líffræði við Líf- og umhverfisvísindadeild hlaut á dögunum fullan styrk doktorsnáms við EMBL í Heidelberg í Þýskalandi. EMBL er
skammstöfun á Sameindalíffræðistofnun Evrópu (European Molecular Biology Laboratory). EMBL er með starfsemi á fjórum stöðum í Evrópu og koma starfsmenn víðs vegar að úr heiminum. Innan EMBL eru nokkrar mismunandi rannsóknadeildir þar sem boðið er upp á skammtímaverkefni (t.d. sérverkefni í grunnnámi), doktorsnám, nýdoktorastöður (postdoc), hópstjórastöður sem og afbragðsaðstöðu fyrir rannsóknafólk sem kemur til skemmri tíma í heimsóknir.
Þeir sem lokið hafa eins til tveggja ára rannsóknatengdu framhaldsnámi eftir BS- próf (MS eða fjórða árs verkefni) sameindalíffræði, lífefnafræði, efnafræði, eðlisfræði eða
skyldum greinum, geta sótt um doktorsnám hjá EMBL. Nemendur, sem teknir eru inn í námið, fá framfærslustyrk á meðan á námi stendur. Öll aðstaða er til fyrirmyndar, m.a. góð aðstaða fyrir fjölskyldufólk og leikskóli á staðnum. Tekið er á móti umsóknum á eftirfarandi sviðum:
• Sameindalíffræði (Molecular biology)
• Líffræði stórsameinda (Structural biology)
• Frumulíffræði (Cell biology)
• Tölulegri líffræði (Computational biology)

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband