Leita í fréttum mbl.is

Landnáma sexfætlinganna - ógna ný smádýr í íslenskri náttúru?

Námskeið á vegum Endurmenntunar HÍ.

Á námskeiðinu, sem ætlað er öllu áhugafólki um náttúru Íslands, verður fjallað um þær breytingar sem orðið hafa á undanförnum 10-20 árum með fjölda nýrra smádýrategunda sem numið hafa land á Íslandi. Þetta er einn angi af miklum breytingum á lífríki jarðar, sem orsakast af breytingum á veðurfari og öðrum breytingum sem maðurinn hefur valdið á umhverfinu. Suðlægar tegundir eru að færast norður á bóginn, breytingar eru að verða á lífsferlum smádýra og á samspili smádýra við aðra þætti vistkerfa.

Skráningarfrestur er til 13. september 2010.

Á námskeiðinu verður sagt frá nýjum tegundum smádýra á Íslandi, skógarmítli, rifsvespu, barrvefara, birkikembu, asparrana, rauðhumlu og fjölda annarra. Velt verður vöngum yfir nytsemi og skaðsemi, fegurð og ljótleika, sagt frá risafaröldrum skordýra í skógum erlendis, áhrifum aukinna skordýrafaraldra á matvælaframleiðslu í heiminum og breyttu mynstri skordýrafaraldra hér á landi. Hvaða áhrif hefur þetta á garðræktandann, sumarbústaðaeigandann, skógræktarmanninn og svo alla hina?

 


Í fréttum eða fokinn

Í vísindum er oft talað um að fólk verði að birta eða hverfa (publish or perish). Ástæðan fyrir því að lögð er áhersla á að vísindamenn birti ritrýndar greinar er sú að  hvetja fólk til að kynna niðurstöður sínar og miðla þeim með öðrum. Vísindamenn sem leysa stór vandamál, en segja engum frá því eru ekki þekkingarleitinni til gagns.

Vandamálið er að þetta hvetur fólk til að birta, jafnvel þótt að niðurstöðurnar séu ekki sérstaklega merkilegar, eða tilraunin óspennandi. Þetta hefur ýtt undir framleiðslu á  vísindagreinum, með tilheyrandi vandamálum (ræðum þau síðar!).

Nýjasta birtingarform þessarar stefnu er krafan um að niðurstöður rannsókna séu fréttnæmar, kynntar og auglýstar. Félagi Bjarni sagði mér að þetta væri kallað "Publicize or perish" upp á engilsaxnesku.

Katrín Jakobsdóttir mennta og menningarmálaráðherra ræðir um skyldur háskólafólks, í grein í Morgunblaðinu 2010 "Sjálfstæði háskóla, innan ramma laganna, felur ekki eingöngu í sér réttindi heldur einnig skyldur." Hún segir:

Í nágrannalöndum okkar er sums staðar nánar tilgreint í lögum hvað felist í þessu mikilvæga hlutverki og hvernig eigi að sinna því. Í sænskum lögum er fjallað um að starfsemi háskóla skuli standa vörð um trúverðugleika og siðferði rannsókna. Þar er jafnframt kveðið á um að háskólar stuðli að sjálfbærri þróun, vinni að jafnrétti kynjanna, stuðli að auknum skilningi á öðrum þjóðum og leggi upp úr því að ná til ólíkra þjóðfélagshópa við inntöku nemenda. Í norskum háskólalögum er sérstaklega kveðið á um að háskólar leggi sitt af mörkum til að tryggja að starfsmenn og stúdentar geti tekið virkan þátt í málefnum líðandi stundar í samfélaginu. Ekki er óeðlilegt að krafa um samfélagslegt hlutverk háskóla sé útlistuð þegar fjallað er um hlutverk þeirra í lögum. Nú í vor var lögum um opinbera háskóla breytt þannig að ekki er aðeins kveðið á um kennslu og rannsóknir sem meginmarkmið heldur einnig að háskólar miðli fræðslu til almennings og veiti þjóðfélaginu þjónustu í krafti þekkingar sinnar. Með þessu er skerpt á því hlutverki háskóla að þjóna samfélaginu og taka þátt í að byggja upp gagnrýnna, upplýstara og öflugra samfélag. [skáletrun mín]

Ég er fylgjandi því að vísindamenn ræði rannsóknir sínar og niðurstöður við hvern sem er. Þekkingin á ekki að vera bundin við eitthvað innrammað fræðimannasamfélag. Einnig er mikilvægt að vísindamenn reyni að leysa vandamál sem skipta samfélagið máli (því miður virðist samfélagið og pólitíkusar oft hundsa ráðleggingar vísindamanna).

Mér finnst hins vegar varhugavert að setja miðlun fræðslu á sama stall og kennslu og rannsóknir. Fólk elskar athygli, og því tel ég hætt við að vísindin verði undir ef þörfin fyrir sprikl í kastljósinu er sterk.

Samt er spurning hvort ekki megi rýmka stakk hins hefðbundna háskólamanns. Nú eru flestir neyddir til að vinna undir svipaðri starfslýsingu, 48% kennslu, 40% rannsóknir og 12% stjórnun.* Það hefur sýnt sig að sumir eru betri kennarar en aðrir, sem eru kannski öflugri í rannsóknum. Við ættum að geta sniðið háskólafólki mismunandi stakka - leyft sumum að kenna meira, öðrum að einbeita sér að rannsóknum og e.t.v. einhverjum að verja meiri krafti í miðlun og almannafræðslu.

Eftirskrift. Titill pistilsins er frekar stirð umorðun á orðatiltækinu "publicize or perish". Hugmyndin er að ef vísindamenn ná ekki að koma niðurstöðum nýjustu rannsóknar sinnar í fréttirnar, þá séu þeir búnir að vera.

* Leiðrétting. Svatli benti á villu í pistlinum. Í fyrstu útgáfu voru hlutföllin röng, samanlagt 104%. Ég vil þakka honum kærlega fyrir ábendinguna. Samkvæmt kjarasamningi frá 2006 milli ríkis og félags háskólakennara eru hlutföllin fyrir þrjár gerðir háskólakennara (grein 3.1):

  1. Starfsskyldur prófessora skiptast almennt í 48% kennslu, 40% rannsóknir og 12% stjórnun.

  2. Starfsskyldur lektora og dósenta í hálfu starfi eða meira skiptast almennt í 51% kennslu, 43% rannsóknir og 6% stjórnun.

  3. Starfsskyldur lektora og dósenta í minna en hálfu starfi skiptast almennt í 69% kennslu, 23% rannsóknir og 8% stjórnun.

Árið 2009 var samningnum breytt, þannig að starfskyldur lektora og dósenta er orðnar áþekkar skyldum prófessora.

Fingralöng á Madagaskar

Síðustu forvöð í kvöld, af því að Stephen Fry er goð. Af vef RÚV . Þriðji þáttur gerist á Madagaskar þar sem Douglas Adams og Mark Carwardine ákváðu að ráðast í gerð útvarpsþáttanna 1985. Á Nosy Mangabe fundu þeir náttfaralemúrinn aye-aye, Daubentonia...

Lofsöngur um Hólaskóla

Vonandi fyrirgefst manni að höggva í sama knérunn. Fyrir nokkru var haldin fundur á Hólum í Hjaltadal um rannsóknir á tilurð tegunda. Einn fundargesta, Andrew Hendry, heldur úti bloggi um vistfræði og þróunarfræði. Hann gerði fundinum skil í pistli...

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband