Leita í fréttum mbl.is

Nálarstungur í lithimnuna

Gagnrýni á vísindaumfjöllun fjölmiðla er einn meginþráðurinn í pistlum okkar. Af þeirri sögulegu ástæðu að blog.is liggur utan á www.mbl.is þá höfum við tilhneygingu til að agnúast frekar út í skrif MBL en annara fréttamiðla.

Í Fréttablaðinu birtast einnig slælega unnar fréttir af vísindum, innan um ágætlega unnar greinar. Veikasti hlekkurinn í Fréttablaðinu eru ALLT og EKKERT fréttirnar, sem birtast í aukablöðum, sérblöðum og "léttari" síðum blaðsins. Þar er allt löðrandi í nýaldar og gervivísindaþvaðri, sem ritstjórarnir verja líklega með skírskotun til skoðanafrelsis. Mest af þessu eru einhverjir nýaldar eða næringarpostular sem eru að reyna að selja sína "töfralausn", bók eða geisladisk. Mig grunar að margar þessara frétta séu skrifaðar af búðareigendum, heildsölum, græðurum eða heilurunum sjálfum, og endurprentaðar af Fréttablaðinu.

Nálarstungur verða vinsælli

Í helgarblaðinu fannst mér samt keyra um þverbak, þar sem blaðamaður setti nafn sitt á það sem var í raun auglýsing fyrir gervivísindin nálarstungu (Nálastungur verða vinsælli - Fréttablaðið 14. ágúst 2010).

Í fyrirsögn segir, "Þórunn Elísabet Bogadóttir kynnti sér nálastungur". Réttara er að "Þórunn Elísabet Bogadóttir kokgleypir allt sem Kolbein Steinþórsson segir henni um nálastungur". Í greininni er rætt við Kolbeinn Steinþórsson nálastungumeistara. Hann segir m.a.:

Á meðan vestræna kerfið byggir á línulegri hugsun, þar sem leitað er að orsök og afleiðingu og það er hugsað um að drepa eða fjarlægja ákveðna bakteríu eða orsakavald, þá erum við alltaf í þessu austræna að byggja á heildarskynjun á mannslíkamanum. Sem þýðir að allir þættir koma inn í, hvort sem er veðráttan úti eða tilfinningalegir eða matvælalegir þættir eða hvað sem er sem getur verið að hafa áhrif á eins ómerkilega hluti og jafnvel öxlina á þér.

 

Skilgreining hans á vestrænni læknisfræði (þ.e. vestræna kerfinu) er alröng. Vestræn læknisfræði þarf ekki að vita um orsök til að meðhöndla mein, við vitum ekki orsakir sjúkdóma í mörgum tilfellum. En við getum samt meðhöndlað sjúklinginn. Það sem mestu skiptir samt er að vestræn læknisfræði er á góðri leið með að verða gagnadrifin (evidence based medicine). Það þýðir að sýna þarf fram á með rannsóknum hvort að ný meðhöndlun (treatment) sé betri en eldri meðhöndlun. Til dæmis, í gamla daga var engin vörn gegn bakteríusýkingum, en rannsóknir sýndu fram á að þeir sem fengu sýklalyf læknuðust af slíkum kvillum frekar en þeir sem fengu ekki sýklalyf. Þannig verður þekking í læknisfræði til, með vönduðum rannsóknum, hlutlausri tilraunauppsetningu og heiðarlegri tölfræðilegri úrvinnslu.

Hinar mismunandi greinar læknisfræði og líffræði gera okkur kleift að finna þætti sem skipta miklu máli fyrir lífslíkur, framgang og í sumum tilfellum orsakir sjúkdóma. Núna er megináherslan samt á meðhöndlun, hvaða þætti getum við bætt til að bjarga lífi fólks, efla heilsu þess og lífsfyllingu. 

Mér finnst "frétt" Þórunnar ekki standa undir nafni sem slík, því nægar rannsóknir hafa sýnt fram á að fræðin á bak nálarstungur halda ekki vatni (Nálastungur og pílukast). Vera má að nálarstungur dugi til að sljóvga sjúkdómsskynjun, og sem slíkar held ég að þær eigi rétt á sér. En það er óþarfi að "selja" þær með því að bera á borð rangfærslur um nútíma læknavísindi. Því miður er það algeng aðferð hjá næringarprestum, að atast í lyfjafyrirtækjunum, til þess að beina fólki að vítamínblöndunni sem þeir eru að selja. Kaldhæðni örlaganna hagar því reyndar þannig að lyfjafyrirtækin eiga mörg hver stóran hluta í fæðubótaefnisfyrirtækjunum, þannig að þau græða á tá og fingri.

Lithimnugreiningar

Umfjöllun Fréttablaðsins er sem betur fer ekki alltaf svona léleg. Heilsíðu umfjöllun Óla Kristjáns Ármannssonar birtist 24 júlí 2010 í Fréttablaðinu "Augun sem spegill líkamans".

Þar hefur fréttamaðurinn kafað í málið, kynnt sér sjónarmið lækna og gagnrýni sem fram hafa komið á þessar "óhefðbundnu" lækningar. Hann segir:

Á lithimnukorti er meltingarvegurinn tengdur svæði sem innst liggur við augasteininn. Utar koma svo önnur líffæri og líffærakerfi. Yst eru svo hringrásarkerfi og húðin, ...[]... "Meltingin er því augljóslega miðpunkturinn."

Læknar og vísindamenn blása á þessi fræði og benda á að lithimna augans taki litlum sem engum breytingum yfir ævina. Þar með sé strax búið að kippa stoðunum undan fullyrðingum um að lesa megi eitthvað úr lithimnunni um breytilegt ástand líkamans.

Hann ályktar að:

Vandséð er að lithimnugreining verði kölluð hættuleg, þótt vissulega megi setja upp ímynduð dæmi þar sem einstaklingur með hættuleg einkenni leitar ekki læknis eftir að hafa fengið einhvers staðar ranga greiningu. Í slíku dæmi er þó heldur lítið gert úr skynsemi fólk og verður að teljast ólíklegt að einhver sem teldi sig haldinn sjúkdómi myndi leita til lithimnufræðings fremur en heilbrigðisþjónustunnar í landinu. Líklegra er að þeir sem leita þjónustu lithimnufræðinga geri það einhverri leit að betri almennri líðan. Ef þau ráð sem fólkið fær og fylgir virka þá er ekki nema gott eitt um það að segja. Virki þau ekki er ólíklegt að fólk haldi áfram að pínast áfram í að fylgja ráðleggingum sem ekkert fyrir það gerir.

Þannig að þessi fræði eru í besta falli gagnslaus. Það er semsagt allt í lagi að hafa fé að veiku fólki með segja því þjóðsögur um meltingarvegi, lithimnu og matarræði. Vitanlega geta ráðleggingarnar verið gagnlegar, hver hefur ekki gott af meiri hreyfingu, bættu matarræði og því að slaka á, en er ekki óþarfi að klæða þann einfalda boðskap í flókna heimsmynd sem á engin tengsl við raunveruleikann.

Saga mannsins og p-gildið

Í báðum greinunum nýta blaðamennirnir sér sögur einstaklinga sem iðka eða reynt hafa, nálarstungur eða lithimnugreiningu. Margir vísindamenn og blaðamenn vita að sögur af einstaklingum vekja miklu sterkari viðbrögð en tölulegar upplýsingar. Ein saga af krabbameinssjúklingi sem reykti burtu bæði lungun sín er áhrifameiri en leiðinda tafla eða prófstærð og p-gildi sem benda til aukningar á tíðni lungnakrabba meðal einstaklinga sem reykja. Þessi hugsanavilla er orsök margra deilna og veldur því að sumar þjóðsögur deyja seint eða aldrei.

Þeir sem hafa áhuga á hugsanavillum og veikleikum í umfjöllun fréttamiðla um vísindi er bent á bækurnar Ertu viss?, Brigðul dómgreind í dagsins önn (Thomas Gilovich) og Bad Science (Ben Goldacre).

Viðbót, Quackwatch - Be wary of Acuapuncture.


Hólategundir

Í síðustu viku minntist ég á ráðstefnu um tegundamyndun sem haldin var á Háskólanum á Hólum. Dagskrá ráðstefnunar var birt á vef Hólaskóla, ásamt einhverjum myndum og stuttri lýsingu.

Margir erlendu gestanna eru þungdarviktarmenn á sínu sviði, t.d. hefur Ulf Dieckmann birt töluleg líkön af myndun tegunda og einnig líkön sem lýsa því hvernig stofnar þróast vegna veiða. Hann hélt einmitt erindi hérlendis í fyrra um þetta efni (Mikilvægi líffræði þorskins fyrir fiskveiðistjórnun).

Andrew Hendry, við McGill háskóla í Kanada hefur lagt áherslu á samspil vistfræðilegra og þróunarfræðilegra þátta. Hann hefur rannsakað breytileika í nokkrum fiskitegundum, en einnig hraða þróun í finkunum á Galapagos.

Thomas B. Smith, við UCLA, hefur stundað rannsóknir á tegundum í hitabeltinu, með áherslu á varðveislu (conservation biology). Rannsóknir hans og félaga hans hafa sýnt að viststigar (ecotones) - svæði þar sem tvö búsvæði mætast (t.d. gresja og frumskógur) - virðast stuðla að myndun líffræðilegs fjölbreytileika. Þetta skiptir máli varðandi varðveislu tegunda og lífríkisins.

Kerstin Johannesson, við Gautaborgarháskóla, rannsakar breytileika og vistfræði nokkura fjörubobbategunda. Það var sláandi að sjá hversu mikill munur er innan tegunda, og hversu sterka fylgni afbrigðin sýndu við mismun í búsvæðum. Í klettóttri fjöru sem brimið brýtur á finnast aðallega litlir bobbar með léttar skeljar, þeir fela sig í glufum og holum í klettunum. Í stórgrýtisfjörunni og þanginu eru bobbarnir stærri og með miklu sterkari skel. Á því svæði er mikið um krabba sem veiða bobbana. Samt sem áður geta bobbarnir í klettafjöru og þangfjöru æxlast og eignast afkvæmi. Það er augljóst að vistfræðilegi þrýstingurinn, brimið og krabbarnir, eru það öflugur að eiginleikar stofnanna þróast mjög hratt.

Þetta var gegnum gangandi þema fundarins, ferlar vistfræði og þróunarfræði tvinnast saman oftar en okkur grunaði.


Einstakt tilfelli

Spurning er ekki hvort að sjáendur geti rambað á lík? Heldur hvort þeir séu líklegri til að finna lík en aðrir? Við höfum tilhneygingu til að muna sérstök tilfelli, og erum því miður tilbúin að álykta stórt í slíkum tilfellum. Fjallað er um þetta t.d. í...

Frétt af gerð 2

Vísindafréttum má skipta í nokkrar flokka. Í fyrsta flokki eru tíðnid af framfaraskrefum (maður á tunglinu, erfðamengi mannsins raðgreint, ný lækning við krabbameini). Í öðrum flokki eru hræðslufréttir (hættuleg padda, vírus, baktería eða sjúkdómur sem...

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband