Leita í fréttum mbl.is

Hver er hættan af erfðabreyttum lífverum?

Andstæðingar erfðabreyttra lífvera hafa tilhneygingu til að mála skratta á vegginn. Vandamálið er að þeir eru lélegir málarar, og líkjast skrattarnir oft slettuverkum Jackson Pollocks frekar en nákvæmri mynd af ógn.

Í vor tók ég þátt í umræðufundi á vegum Gaiu, nemenda í umhverfis og auðlindafræði við Háskóla Íslands. Yfirskriftin var líffræðilegur fjölbreytileiki og erfðabreyttar lífverur. Flestir frummælenda voru á móti erfðabreyttum lífverum, en enginn þeirra tilgreindi nákvæmlega hvaða hætta hlytist af þeim.

Margir voru mótfallnir erfðabreyttum plöntum vegna þess að stór amerísk fyrirtæki selja erfðabreytt fræ og skordýraeitur í sama pakka. Sömu fyrirtæki eru með svo gott sem einokunarstöðu á fræmarkaði og halda bændum í nokkurskonar vistarböndum. Þar sem erfðabreyttar plöntur eru hluti af viðskiptalíkani fyrirtækisins, þá eru þær slæmar. Með sömu rökum væri hægt að halda því fram að ritmál væri hættulegt, fyrst að Adolf Hitler, Josef Stalín og Pol Pot notuðu allir ritmál.

Við höfum áður rakið hvað felst  í erfðabreytingu og fært rök fyrir því að erfðabreyttar plöntur séu í eðli sínu ekki frábrugðnar öðrum lífverum. Ræktandi getur erfðabreytt plöntu með hefðbundnum aðferðum, með því að hella nægilega miklu af blóði sínu á milljónir fræja eða með því að beita erfðatækni. Afleiðingin er sú sama, erfðasamsetning plöntunar breytist og þar með getur einhver eiginleiki sem genin hafa áhrif einnig breyst (fræin verða þolin gagnvart skordýraeitri eða þyngd þeirra eykst um 0.001 g).

Hér með óska ég eftir almennilegri skilgreiningu á hættunni sem stafar af erfðabreyttum lífverum!

Hvað haldið þið að gerist ef erfðabreyttar plöntur dreifast út í náttúruna?

Jón Bjarnason virðist vera að bregðast við þrýstingi frá hagsmunahópum. Lífræni, hráfæðis, heilsuiðnaðurinn er vissulega minni í sniðum en hefðbundinn matvælaframleiðsla, en þeirra sölumennska gengur mikið til út á að kasta rýrð á venjulegan mat, og selja síðan þeirra sérútbúnu töfralausn (hvort sem hún er Acai-berjablanda, Ópal úr hvönn eða vallarfoxgras-vellingur í kældu staupi). Rökvillan er sú að, jafnvel þótt að neysluvenjur nútímamannsins geti kynnt undir "velmegunarsjúkdóma" þá er alls óvíst að "töfralausnin" færi fólki nokkra bót. Í mörgum tilfellum hefur verið sýnt að bætiefni hafi engin, eða jafnvel skaðleg áhrif (E - vítamín t.d.).

Gamaldags einfalt matarræði (blanda ávaxta, kornmetis og dýraafurða), hófsemi og hreyfing er hins vegar  erfiðari pakki að selja. Því er mikilvægt (fyrir heilsuspekúlantana) að flækja hlutina, þyrla upp ryki og vekja hræðslu, og vera síðan með bækur, snældur, diska, pillur, hálsklúta, eyrnakerti, kristalla, blóðögðuhúðflúr og HIV-drepandi sinnepssmyrsl fyrir forhúðina til sölu fyrir "sanngjarnt" verð*. 

Snúum okkur aftur að spurningunni "Hvað haldið þið að gerist ef erfðabreyttar plöntur dreifast út í náttúruna?"

Mitt svar er: ekki neitt.

Erfðabreyttar plöntur þurfa að berjast fyrir tilvist sinni eins og aðrar plöntur. Langflestar plöntur sem notaðar eru til ræktunar eru "bæklaðar" af ræktun fyrir ákveðnum eiginleikum, og þurfa að treysta á inngrip mannsins til að lifa af á akrinum. Ef maðurinn hyrfi af jörðinni er lang-lang-lang líklegast að rætkunarplöntur okkar (og þar með þær erfðabreyttu) hyrfu á nokkrum kynslóðum, þegar illgresi, tré og aðrar plöntur ryddust inn á akra okkar og tún.

Sojabaunaplanta sem hefur verið erfðabreytt og í hana sett gen sem gerir hana þolna gegn illgresiseyði er jafn illa stödd og venjuleg sojabaunaplanta sem notuð er í ræktun. Nema þegar viðkomandi illgresiseyði er sprautað.**

Ef við gerum ráð fyrir versta tilfelli (það eru mjög mörg EF á þeirri leið) gæti orðið til eitthvað illgresi sem myndi vaða yfir allt og þola allar gerðir illgresiseyða.

Illgresi þyrfti að ná mjög umtalsverðri útbreiðslu til að verða að einhverri hættu, því það eru ekki til neinar tveggja metra háar plöntur sem ganga og slá niður fólk með eitruðum fálmurum (sbr. The Triffids). Illgresi er til trafala, en það ógnar ekki heilsu fólks eða lífi. Ágengar tegundir ógna líffræðilegum fjölbreytileika, en myrða ekki fólk í húsasundum.

Ef versta tilfelli verður að veruleika, og illgresiseitrin virka ekki á hina "hættulegu" plöntu þá er tilvist okkar stefnt í voða, sjálfvirðing okkar og tign væri horfin því við gætum þurft að gera dálítið skelfilegt.

Krjúpa og reyta arfa.

*Sanngjarnt þýðir að þú fáir laun fyrir það erfiði að búa til virkilega flókna þjóðsögu og "heilstæða" heilsumynd.

Viðbót (gleymdist í fyrstu útgáfu pistils)

** Bandarískar rannsóknir hafa fundið dæmi um erfðabreyttar plöntur í náttúrunni. Nýverið fundust í vegkanti (þ.e. náttúrunni) erfðabreyttar Canolaplöntur - sem eru þolnar gagnvart Roundup - algengum illgresiseyði. Fjallað er um þetta í frétt NY Times Canola, Pushed by Genetics, Moves Into Uncharted Territories. Miðað við andstöðuna við erfðabreyttar plöntur er viðbúið að þessi tíðindi veki upp ákveðna móðursýki, og því fannst mér mikilvægt að ræða þetta mál áður en tilfinningarnar taka völdin.

Leiðrétting: Í fyrstu útgáfu stóð Krjúpa niður og reyta arfa. Ég veit ekki um neinn sem krýpur upp.

Eldri pistlar um erfðabreyttar lífverur:

Rangfærslur um erfðabreytt bygg

Nánar um rangfærslur um erfðabreytingar

Umræða um erfðabreyttar lífverur

Erfðabreyttar lífverur, efasemdum svarað

Kæra fjölskylda


mbl.is Skylda að merkja sérstaklega erfðabreytt matvæli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Búum til tegundir...

Í síðustu viku sat ég ljómandi skemmtilegan fund um tilurð tegunda (speciation). Uppruni og eðli tegunda er eitt af megin viðfangsefnum líffræðinga. Hvenær eru tvær hænur af sömu tegund og hvenær eru þær af ólíkum tegundum?

Á nítjándu öld héldu sumir því fram að kynþættir manna væru í raun afmarkaðar tegundir. Desmond og Moore færðu rök fyrir því að það hafi verið ástæðan fyrir því að Charles Darwin heillaðist af ræktuðum dúfum og fjölbreytileika hundakynja.

Á Hólum í Hjaltadal var í nýliðinni viku haldin fundur á vegum samevrópsks verkefnis sem heitir því töfrandi nafni FroSpects (öll EU verkefni verða að bera snaggarlega nöfn, með tilheyrandi atlögu að málvitund og velsæmi). Fundurinn var hinn fjörugasti, fjallað var um bleikjur og hornsíli og urriða og aðra fiska...og reyndar örlítið um marflær, snigla og finkur. Rauði þráðurinn var að vistfræðingar og þróunfræðingar huga nú meira að ferlum tegundamyndunar en mynstrum í breytileika tegunda og afbrigða ("from pattern to process" - var frasi fundarins). Sem erfðafræðingi fannst mér öll vistfræðin frekar loðin og erfitt að henda reiður á hlutfallslegt mikilvægi þeirra þátta sem ræddir voru (stofnstærð, valkraftar, umhverfissveiflur, stofnasögu o.s.frv.). Vonandi tekst okkur að nýta reynslu okkar í þróunarfræði til að læra eitthvað um bleikjuafbrigðin í Þingvallavatni.

Ásamt félögum okkar við HÍ og á Hólum komum við nú að rannsókn á vistfræði, erfðabreytileika og þroskun í íslenskra bleikjuafbrigða. Mér þykir það sérstaklega forvitnilegt að í íslenska bleikjustofninum virðast dvergafbrigði hafa þróast nokkrum sinnum (niðurstöður Bjarna Kr. Kristjánssonar, Kalinu Kapralovu og Sigurðar S. Snorrasonar). Það þýðir að náttúran hefur sett um endurtekna tilraun, sem við þurfum bara að kíkja á. Ein spurning sem brennur á okkur er: urðu dvergarnir til á sama hátt í öllum tilfellum? Ég hef ekki hugmynd um hvað mun koma upp úr krafsinu.


Hár af Elvis Presley hefur lækningamátt

Á plánetu langt í burtu, eftir milljarð ára og tilurð lífs, mannvera og rokktónlistar. Þær fregnir ganga fjöllum hærra að hár úr handakrika mesta klassíska tónskáldi Finnlandíu Elvinus Preiisleiiunomi hafi lækningamátt. Handakrikalækningafélagið tók...

Víkjandi brandari

Ég myndi krefjast erfðaprófs áður en ég prentaði þessa frétt í blaðinu mínu. The SUN er hins meira umhugað um að selja blöð en að gæta sannleikans. Það sama á við um miðla sem endurprenta slúður þeirra án gagnrýni. The SUN reyndi að gefa fréttinni blæ...

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband