12.5.2010 | 09:27
Erindi: Litnisumbreytiflókar í gersveppnum
Gen liggja á litningum. Um er að ræða keðjur af bösum (A, C, G og T), sem mynda DNA helixinn (sjá mynd af wikimedia commons). Hvert gen er samasett af röð hundruða eða þúsunda basa. Í ýktustu tilfellunum spanna gen milljónir basa.
Röð basanna ákvarðar eiginleika gensins. Hluti gensins er afritaður í RNA sem er mót fyrir myndun prótína. Hinn hlutinn eru raðir basa sem eru nauðsynlegar til að RNA sé myndað, á réttum tíma og stað í lífverunni. Þetta eru stjórnraðir.
Heilkjörnungar eru einnig með aðra leið til að stýra afritun og þar með tjáningu gena. Þeir pakka erfðaefni sínu í litni, sem bæði minnkar umfang þess og gerir það óaðgengilegt ensímum sem afrita DNA (svokölluðum RNA fjölliðurum). Þetta er ekki varanlegt ástand því fruman er einnig með ákveðna leið til að opna og pakka saman litni. Það eru svokallaðir litnisumbreytiflókar, kallaðir flókar af því að þeir innihalda mörg mismunandi prótín sem vinna saman.
Katrín Briem mun síðdegis halda fyrirlestur um meistaraverkefni sitt, sem fjallaði einmitt um þessa flóka, sem stýra m.a. aðgengi RNA fjölliðaranna að DNA og þar með afritun (einnig kallað umritun - transcription).
Fyrirlesturinn "Litnisumbreytiflókar í gersveppnum Schizosaccharomyces pombe" verður kl 16:00 í stofu 132 í Öskju, sbr tilkynningu:
Gott aðgengi að genum er hornsteinn genatjáningar í heilkjörnungum og nauðsynlegt til að umritun geti átt sér stað. Svo að gen verði aðgengileg þarf að opna litnið og breyta byggingu þess. Þessum breytingum er stjórnað af ýmsum ensímum sem yfirleitt starfa sem hlutar af stórum próteinflókum, svokölluðum litnisumbreytiflókum. Eftirmyndun DNA, eftirlit með varðstöðum og viðgerð á brotnum litningum er einnig háð því að gen séu aðgengileg. Margir litnisumbreytiflókar hafa verið skilgreindir í ólíkum lífverum, t.d. mönnum, ávaxtaflugunni og gersveppnum Saccharomyces. cerevisiae. Þessir flókar hafa ekki verið skilgreindir gersveppnum Schizosaccharomyces pombe en
S. pombe er mikilvæg tilraunalífvera og er mjög fjarskyld S. cerevisiae. Markmið verkefnisins var að skilgreina litnisumbreytiflókana INO80, SWR1 og NuA4 í gersveppnum S. pombe.
11.5.2010 | 11:09
Hnetur og hagsmunir
Rannsóknin var unnin af vísindamönnum við Loma Linda háskólann í Kaliforníu, og var styrkt af International Tree Nut Council Nutrition Research and Education Foundation.
Hnetur eru greinilega mikið mál hjá Loma Linda háskólanum, þeir halda út vefsíðu www.nutstudies.com.
Með hliðsjón af umræðu um hlutleysi vísindasamfélagsins, þá finnst mér samband næringarfræðideildar Loma Linda University og hnetubandalagsins dálítið náið.
Það væri heppilegt ef aðrir hópar, sem ekki fá styrki frá hnetubandalaginu næðu að staðfesta þessar niðurstöður. Samt held ég (án þess að hafa gögn!) að það sé allt í lagi að borða hnetur, en vitanlega er best að gera það í hófi (innan við 22 valhnetur á dag samkvæmt Allrefer).
Mér fannst frétt mbl.is vera dálitið klúðurslega orðuð.
Þannig kom í ljós að þeir sem mældust með hátt kólesterólmagn gátu lækkað það meira með hnetuneyslunni en þeir sem mældust með lágt magn. Sem sama hætti kom í ljós að áhrif hnetuneyslunnar var einnig meiri hjá einstaklingum í eða undir kjörþyngd. Að mati rannsakenda þarf að rannsaka betur hvers vegna hnetuneysla hefur miklu mun minni jákvæð áhrif hjá of þungum einstaklingum.
Þetta hefði mátt umorða
Áhrif hnetuneyslunar voru mest hjá þeim sem voru með háan LDL kólesterólstyrk, þeim sem voru í eða undir kjörþyngd og þeim sem neyta fituríkrar fæðu.
Rannsakendur benda á að frekari rannsókna sé þörf til að greina hvers vegna áhrifin eru svona mismunandi
Reyndar finnst mér dálítið erfitt að sjá hvernig blandað sýni af þessari stærð dugar til að greina marktæk áhrif af þessum breytum. Sérstaklega þegar minnkunin vegna hnetuneyslu virðist vera svona lítil. En frekari rannsóknir upplýsa það vonandi.
Ítarefni:
Joan Sabaté, Keiji Oda, Emilio Ros Nut Consumption and Blood Lipid Levels A Pooled Analysis of 25 Intervention Trials Arch Intern Med. 2010;170(9):821-827.
Eating Nuts May Help Cholesterol Levels: High calorie count, though, means restraint would be wise, expert says. Mon May 10, 2010, 16:00 By Ed Edelson health.allrefer.com
![]() |
Hnetur allra meina bót |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
10.5.2010 | 16:38
Skordýr á skjánum í kvöld
Vísindi og fræði | Breytt 11.5.2010 kl. 09:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
7.5.2010 | 11:14
Kynblöndun okkar og Neanderthalsmanna
Vísindi og fræði | Breytt 10.5.2010 kl. 10:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
Nýjustu færslur
- Eru virkilega til hættuleg afbrigði veirunnar sem veldur COVI...
- Grunnrannsóknir eina aðferðin til að skapa nýja þekkingu og e...
- Lífvísindasetur skorar á stjórnvöld að efla hlut Rannsóknasjó...
- Eru bleikjuafbrigði í Þingvallavatni að þróast í nýjar tegundir?
- Hröð þróun við rætur himnaríkis
- Leyndardómur Rauðahafsins
- Loftslagsbreytingar og leiðtogar: Ferðasaga frá Suðurskautsla...
- Genatjáning í snemmþroskun og erfðabreytileiki bleikjuafbrig...
- Fjöldi og dreifing dílaskarfa á Íslandi
- Staða þekkingar á fiskeldi í sjó