6.5.2010 | 12:16
Hvað hrærist í undirdjúpunum?
Þegar landafundirnir miklu voru að renna sitt skeið fór fólk að leita að nýjum áskorunum. Heimskautin, undirdjúpin og geimurinn voru eðlilega næst á listanum.
Rannsóknir á hafi og lífríki eyja tengdust í upphafi kortlagningu á meginlöndum og siglingaleiðum, leiðangurinn sem Charles Darwin fór í á Hvutta (HMS Beagle) var öðru þræði hafmælingaleiðangur.
Annað stórmenni vísindasögunnar Jean-Baptiste Charcot einbeitti sér að lífríki hafsins, sérstaklega við norðurheimskautið. Starf hans var stórmerkilegt og unnið af eljusemi og virðingu fyrir náttúru og mönnum samanber bók Serge Kahn um Charcot, sem gefin var út af JPV í þýðingu Friðriks Rafnsonar. Náttúran tvinnaði saman nafn Charcot og Íslands.
Þann 16. september 1936 fórst franski leiðangursstjórinn og landkönnuðurnn Jean-Baptiste Charcot með allri áhöfn utan einum á rannsóknaskipinu Pourquoi Pas? út af Mýrum í Borgarfirði* og átti þá að baki langt og merkilegt rannsóknarstarf á suður- og norðurpólnum ásamt mönnum sínum. Af vef HÍ.
Ég bendi fólki á að í Sandgerði má skoða sýningu um störf Charcot og félaga - Heimskautin heilla (mynd af Charcot er af þeim vef).
Einnig vill ég benda áhugafólki um lífríki hafsins og fræðimönnum á að 7-11 júni verður alþjóðleg ráðstefna um líf í undirdjúpunum. Um er að ræða 12. alþjóðlegu djúpsjávarráðstefnuna sem haldin er á vegum Líffræðistofnunar Háskóla Íslands og Háskólaseturs Suðurnesja í Sandgerði. Hún verður haldin í Öskju og samkvæmt tilkynningu frá skipuleggjendum.
Við sjáum fram á að geta boðið íslenskum vísindamönnum að taka þátt fyrir mjög hagstætt verð eða aðeins 16.000 kr. Innifalið í gjaldinu eru ráðstefnugögn (vegleg taska, ráðstefnubók ofl.), kaffi og léttur hádegisverður alla dagana, utan miðvikudagsins 9. júní en engir fyrirlestrar verða þann dag vegna ráðstefnuferðar. Framhaldsnemum er ennfremur gefinn kostur á mjög góðum afslætti (viðkomandi hafi samband beint við skipuleggjendur).
* Eins og Jóhannes, móðgaði mýrarmaðurinn, benti á eru Mýrar ekki í Borgarfirði. Borgarfjörðurinn stendur í skugga Mýranna...jafnvel þótt sunnar sitji.
Vísindi og fræði | Breytt 7.5.2010 kl. 09:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
4.5.2010 | 17:57
Í laufskálanum tifa maríuhænur
Fimmti þátturinn í röðinni lífið, sem Rúv sýnir flest mánudagskvöld, var í gærkveldi. Reyndar missti ég af fyrsta hlutanum en kom að þegar dvergflæmingjarnir* voru að sinna eggjum sínum og ungum, á upphlöðunum leirhraukum í steikjandi hita.
Þátturinn ætti í raun að heita aðlaganir, því hann fjallar öðrum þræði um þær fjölbreyttu lausnir sem hafa þróast á fleiri eða færri kynslóðum. Ef eitthvað atferli, eiginleiki eða kostur sem nýtist lífverum í baráttunni erfist á milli kynslóða, þá mun sú gerð veljast úr...alveg náttúrulega. Við þurfum ekki að notast við aðrar skýringar á því hvers vegna bein fugla eru hol (þeir forfeður fugla sem voru með léttari bein, voru hæfari en þeir sem voru með gegnheil bein) eða á því hvers vegna mörgæsirnar príla upp skriðuna til að mata ungana sína (þær mörgæsir sem ekki gera það eiga ekki afkvæmi í næstu kynslóð...og þar með deyr "vanrækslugenið" út).
Það var bæði átakanlegt og athyglisvert að sjá roðkanann (ákveðin tegund pelíkana) fljúga langa vegu til þess að ná í súluunga fyrir fjölskyldu sína. Ef ég skildi Attenborough rétt, þá sagði hann að þessi nýlendu roðkana sé að stækka á meðan aðrar byggðir þeirra séu að minnka. Það þýðir að það sé breytileiki í atferli mismunandi roðkana.
Það gæti einnig verið að þetta atferli, að fara og ræna súluungum, geri þessa einstaklinga að hæfustu roðkönum í heimi. Ef satt reynist er líklegt að atferlið muni breiðast út, svo lengi sem súlurnar endist.
Flottasta atriði þáttarins fannst mér vera um laufskálafuglana. Þeir flétta mjög haganlega skýli úr kvistum og greinum. Skálann skreyta þeir síðan með litríku skrauti úr náttúrunni, berjum, laufum, spörðum (sem reyndar breyttust í sveppabúgarð) og djúpgrænar maríuhænur. Þær voru alls ekki á því að enda sem skraut í kvennabúri einhvers glaumgosa og skriðu á braut. En hann tíndi þær samviskusamlega upp og raðaði aftur á "réttan" stað í skálanum.
Mynd af Vogelkop laufskálafugli af vef BBC.
*Í umfjöllun RÚV var talað um flamingóa (sbr. að neðan) en í þættinum var hefðbundnara íslenskt heiti notað, flæmingi.
Við .... dönsum með þúsund flamingóum í vötnum Afríku og fylgjumst með sérkennilegum tilburðum, kólibrífugla goða og laufskálafugla í tilhugalífinu.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 18:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.5.2010 | 10:54
Loftslag: Útdauðinn fyrir 250 milljónum ára
3.5.2010 | 13:13
Þorsteinn Vilhjálmsson og vísindavefurinn
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 13:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
Nýjustu færslur
- Eru virkilega til hættuleg afbrigði veirunnar sem veldur COVI...
- Grunnrannsóknir eina aðferðin til að skapa nýja þekkingu og e...
- Lífvísindasetur skorar á stjórnvöld að efla hlut Rannsóknasjó...
- Eru bleikjuafbrigði í Þingvallavatni að þróast í nýjar tegundir?
- Hröð þróun við rætur himnaríkis
- Leyndardómur Rauðahafsins
- Loftslagsbreytingar og leiðtogar: Ferðasaga frá Suðurskautsla...
- Genatjáning í snemmþroskun og erfðabreytileiki bleikjuafbrig...
- Fjöldi og dreifing dílaskarfa á Íslandi
- Staða þekkingar á fiskeldi í sjó