Leita í fréttum mbl.is

Meðvirka genið

Í mörgum fjölskyldum, betri eða verri eftir því hvernig á það er litið, finnast meðvirkir einstaklingar. Þeir fyrirgefa sínum nánustu sérvisku og stundum fordóma, laga hegðun sína að þeirra til að halda friði. Björn Harðarsson skilgreinir meðvirkni á Vísindavefnum:

Meðvirkur einstaklingur er einstaklingur sem er "háður" öðrum einstaklingi eða einstaklingum. Þeim meðvirka finnst hann eða hún vera fastur/föst í sambandi, sem einkennist af misnotkun og stjórnsemi. Þetta eru oft einstaklingar sem hafa lélegt sjálfstraust og þurfa stöðugt á stuðningi og viðurkenningu annarra að halda, til að geta liðið vel.

En geta gen verið meðvirk? Vitanlega hafa gen ekki tilfinningalíf og geta ekki misnotað sjálfan sig. En áhrif sumra gena, strangt til tekið afbrigða ákveðinna gena, geta verið "háð" öðrum genum. Þetta er það sem erfðafræðingar kalla samvirkni eða "epistasis".

Nýlega birtist grein í tímaritinu Genetics eftir Ian Dworkin og félaga. Þeir skoðuðu áhrif stökkbreytingar í geninu scalloped, sem raskar þroskun vængs ávaxtaflugunnar. Þeir sáu að áhrifin voru mjög misjöfn eftir því i hvaða einstaklingi hún fannst.

wing_and_a_mutation.jpgBreytingin hafði mjög sterk áhrif á einstaklinga af Oregon stofni (miðmyndin) á meðan áhrifin voru mun vægar á einstaklinga úr stofni sem kallast Samarkand (hægra megin). Eðlilegur vængur er sýndur vinstra megin til samanburðar. Þetta sýnir á afgerandi hátt að áhrif meiriháttar breytingar á geninu geta oltið á öðrum genum í erfðamengi einstaklingsins.

Hví ættum við að hafa áhuga á slíku?

Jacque Monod sagði "það sem á við um E.coli á einnig við um fílinn" og við það getum við bætt að það sem á við um fluguna á einnig við um manninn. Þetta er ekki orðaleikur heldur líffræðilegur raunveruleiki.

Genið rhomboid, sem kemur m.a. að þroskun stoðæða í vængjum ávaxtaflugunnar, á sér hliðstæðu í bakteríum. Galla í rhomboid geni flugunnar má bæta upp með því að setja samsvarandi gen* úr bakteríu inn í staðinn.

Líffræðingar nýta sér þessa eiginleika til að finna gen sem taka þátt í þroskun og líffræði mannsins. Nýlegt dæmi er rannsókn Dr. Marcotte á genum sem tengjast Waardenburg heilkenni (syndrome - WS). WS er vegna galla á fari taugakambsfruma (neural crest cells) sem leiða til margvíslegra galla (m.a. heyrnaleysis og hvítra bletta í hári og húð). Dr. Marcotte og félagar sáu að nokkur gen sem tengjast þessum sjúkdómi vinna saman í plöntu (Arabidopsis thaliana - vorskriðnablómi). Í plöntunni eru genin nauðsynleg fyrir skynjun á þyngdarafli (gravity sensing). Þeir fundu fleiri gen í plöntunni sem tengjast þessu ferli og spurðu sig næst hvort að þau tengdust fari taugakambsfruma í hryggdýrum. Sú var raunin.

Það þýðir að gen sem tengjast skynjun á þyngdarafli í plöntum, geta hjálpað okkur að skilja heyrnaleysi í mönnum. 

Það er algerlega frábært.

*Samsvarandi þýðir að þau eru svipuð, en ekki alveg eins, kannski 70% amínósýranna eru eins.

Ítarefni:

Tina Hesman Saey - Mutation effects often depend on genetic milieu: other genes at least as important as environment, study shows. Science news, April 13th, 2010.

Ian Dworkin og félagar Genomic Consequences of Background Effects on scalloped Mutant Expressivity in the Wing of Drosophila melanogaster Genetics, Vol. 181, 1065-1076, March 2009

Björn Harðarson. „Hvað er meðvirkni, hvernig getur hún birst og hvað er til ráða?“. Vísindavefurinn 12.1.2002. http://visindavefur.is/?id=2043. (Skoðað 28.4.2010). 

Carl Zimmer The Search for Genes Leads to Unexpected Places New York Times, April 26, 2010.

Kriston L. McGary og félagar Systematic discovery of nonobvious human disease models through orthologous phenotypes PNAS


Frábært skref fyrir snáka

Mér finnst fátt stórkostlegra en þær margvíslegu og fjölbreyttu lífverur sem búa jörðina. Það eina sem tekur því fram er maðurinn, og þá sérstaklega forvitin manneskja. Það að fylgjast með börnum að sjá dýr eða framandi plöntur í fyrsta skiptir er stórkostlegt. Ég mun ætíð (ef Alzheimer og félagar leyfa) muna birtuna og gleðina í rödd sonar míns þegar hann hrópaði "Elephant" í fyrsta skipti sem hann sá fíl. Við bjuggum í Chicago á þessum tíma og nutum þeirra forréttinda að hafa þar tvo dýragarða (Lincoln park Zoo, Brookfield Zoo), grasagarð (Chicago botanical garden), vatna og sjávarlíffræðisafn (Shedd Aquarium), vísinda og tæknisafn (Museum of Science and Industry), og náttúruminjasafn (American Museum of Natural History).

bangsaslagur.jpgMyndina tók Arnar Pálsson í dýragarðinum í Kaupmannahöfn.

Á Íslandi vantar fleiri tækifæri fyrir borgarbúana til að upplifa náttúruna, sérstaklega skepnur sem ekki búa hérlendis. Við finnum það sérstaklega þegar við í líffræðinni opnum tilraunastofurnar, eins og á Háskóladaginn og á degi umhverfisins.

Náttúruminjasafn Kópavogs, önnur minni söfn úti á landi og Húsdýragarðurinn eru helstu athvörf náttúruþyrstra. Að örðum ólöstuðum þá hefur starfsfólk húsdýragarðsins staðið sig mjög vel, sérstaklega með því að búa til fiska og vísindatjaldið.

Það verður mjög gaman að koma og vitja um eðlurnar og snákana.


mbl.is Eðlur og snákar í Húsdýragarðinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vísindadagar Keldna og fyrirlestur um stofngerð í vatnasviði

Næstkomandi föstudag (30 apríl 2010) verður nóg um að vera. Haldnir verðar vísindadagar Keldna ( rannsóknarstöð Háskóla Íslands í meinfræði ) og Michael Morrissey heldur fyrirlestur um stofngerð lífvera sem búa í ákveðnu vatnasviði. Vísindadagana setur...

Erindi: Fortíð, nútíð og framtíð lundastofns Vestmannaeyja

Fortíð, nútíð og framtíð lundastofns Vestmannaeyja er titill erindis Erps Hansen, líffræðings við Náttúrustofu Suðurlands. Lundinn ( Fratercula arctica ) var ljósmyndaður af Sigríði R. Franzdóttur (copyright). Ágrip erindisins (úr fréttatilkynningu ):...

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband