Leita í fréttum mbl.is

Finkurnar koma

Á Galapagoseyjum í Kyrrahafinu má finna 13 tegundir finka. Munurinn á milli þeirra liggur aðallega í byggingu og stærð goggsins. Einhver munur er einnig á stærð þeirra og atferli, en annars eru þær mjög áþekkar í byggingu. Charles Darwin heimsókti Galapagos á hringferð sinni um hnöttinn á skipi hennar hátignar HMS Hvutta. Hann veitti aðallega athygli sérstæðri jarðfræði eyjanna, þær eru eldfjallaeyjar eins og Ísland og Grænhöfðaeyjar og mismunandi skjaldbökum sem finna mátti á nokkrum eyjanna.

Það var eftir heimkomuna að hann áttaði sig á því að finkurnar voru, þrátt fyrir ólíka gogga allar af sama meiði. Þeim svipaði meira að segja til finka sem algengar eru á meginlandi Suður Ameríku. Það renndi stoðum um hugmynd hans um að allt líf væri af einni rót, þróunartré lífsins.

Hin megin stoð þróunarkenningarinnar er hugmyndin um náttúrulegt val. Darwin og náttúrufræðingurinn Alfred Wallace tókust á við þá spurningu af hverju margir eiginleikar lífvera eru aðlagaðir umhverfi þeirra. Til dæmis eru goggar finkanna á Galapagos mismunandi eftir því hverskonar fæðu þær neyta. Þannig eru sumar finkutegundirnar með mjóa  langa gogga sem henta vel til að ná skordýrum. Aðrar tegundir eru með breiða og stutta gogga sem nýtast vel til að brjóta skurn af hörðum fræjum.

31-finches-2Mynd af vefsíðu Harvard háskóla.

Þróunarfræðingarnir og hjónin Peter og Rosemary Grant við Princeton háskóla, hafa um áratuga skeið rannsakað fjölbreytileika finkanna á Galapagos. Þau hafa orðið vitni að hraðri þróun, þar sem goggar ákveðinna tegunda hafa breyst mjög hratt í kjölfar breytinga á fæðuframboði. Þau munu segja frá niðurstöðum sínum í yfirlitserindi er þau nefna "Finkur Darwins og þróun".

Erindið verður laugardaginn 29 ágúst kl 13:00. Það verður í hátíðarsal HÍ og er öllum opið.

Erindið eru hluti af fyrirlestraröð í tilefni afmælis Charles Darwin, sjá nánari dagskrá á darwin.hi.is.


Ofvirka apagenið

Breytingar í genum geta haft áhrif á eiginleika lífvera. Samt er dálítið sterkt í árinna tekið að segja að genin valdi einu eða öðru. SVS er reyndar vorkun því heimildin í BBC orðar þetta einnig dálitið óheppilega. Monkeys booze because of genes

Breytingar í genum falla í tvo megin flokka. Stökkbreytingar sem draga úr virkni gensins, t.d. með því að skadda virkni prótínafurðar þess eða með því að draga úr framleiðslu (eða stöðugleika) mRNA sameindanna. Þetta eru breytingar vegna minni virkni, oft kallaðar "loss of function" upp á engilsaxnesku. Hinn flokkur stökkbreytinga breytir virkni gensins eða eykur hana. Það getur gerst með því að prótínið verður ofvirkt, svona dáldið eins og þegar bíll festist með bensíngjöfina í botni, eða þegar tjáning gensins eykst eða flyst yfir í aðra vefi. Slíkar breytingar eru kallaðar "gain of function" af þeim enskumælandi.

Breytingin í corticotrophin releasing factor geninu sem gerir Makakaapa næmari fyrir alkahóli fellur í þennan seinni flokk samkvæmt rannsókn Christinu Barr og félaga í PNAS. Stökkbreytingin sem sterkust áhrif hefur breytir stjórnun gensins, og leiðir til þess að meira er framleitt af viðkomandi prótíni.

Mjög margar breytingar sem auka líkurnar á sjúkdómum raska stjórnun á virkni gena, en ekki byggingu prótínafurða þeirra.

Gagnrýni Brahim á fréttaflutninginn er einnig réttmæt, "segið okkur eitthvað nýtt".  Nýmæli rannsóknarinnar er að fundist hafa tengsl milli alkóhól-næmis og líffræðilegra ferla sem tengjast streitu og þunglyndi. Það hefði að ósekju mátt ræða ítarlegar.

Forsenda þessara rannsókna er sú staðreynd að Makakaapar eru náskyldir manninum og því miklar líkur á að sömu líffræðilegu ferli liggi að baki áfengisfíkn hjá báðum tegundum. Þróunarlegur skyldleiki skiptir miklu máli við val okkar á tilraunalífverum fyrir rannsóknir á sjúkdómum sem hrjá mannfólkið.

Heimildir:

Christina S. Barr, Rachel L. Dvoskin, Manisha Gupte, Wolfgang Sommer, Hui Sun, Melanie L. Schwandt, Stephen G. Lindell ,John W. KasckowStephen J. Suomi, David Goldman, J. Dee Higley, and Markus Heilig Functional CRH variation increases stress-induced alcohol consumption in primates PNAS 2009.

Frétt BBC, Monkeys booze because of genes eftir Sudeep Chand.

 

 


mbl.is Vínhneigðin í genunum?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Á mörkum himins og hafs

Yfirborð sjávar er hulið þunnri filmu sem er sérstök að mörgu leyti. Margir hafa veitt því eftirtekt að sjórinn virðist oft glampa eins olía. Ástæðan er sú að yfirborðsfilman er rík af kolvetnisríkum keðjum og örverum sem framleiða þær. Þarna á mörkum...

Vor nánasti frændi andaðist

Það fer ekki milli mála að Neanderthalsmenn voru ekki Homo sapiens . Þeir voru ekki forfeður okkar heldur náskyldur frændi. Samanburður á útliti og erfðaefni staðfestir að Neanderthalsmenn voru okkar náskyldustu frændur. Menn hafa reyndar lengi velt...

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband