8.6.2015 | 09:24
Landnám grjótkrabba við Ísland 9. júní
Andmælendur eru dr. Erik Bonsdorff, prófessor við Åbo Akademi University í Turku í Finnlandi, og dr. Bernd Hänfling, vísindamaður við Háskólann í Hull í Bretlandi.
Leiðbeinandi var dr. Jörundur Svavarsson, prófessor við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands.
Auk hans sátu í doktorsnefnd dr. Snæbjörn Pálsson, prófessor við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands, og dr. Halldór Pálmar Halldórsson, forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Suðurnesjum.
Dr. Eva Benediktsdóttir, dósent og deildarforseti Líf- og umhverfisvísindadeildar Háskóla Íslands, stjórnar athöfninni.
Ágrip rannsóknar
Í doktorsverkefninu eru landnámi grjótkrabba (Cancer irroratus) við Ísland gerð skil, útbreiðslu hans við landið, þéttleika og erfðabreytileika. Grjótkrabbinn fannst fyrst við Ísland árið 2006 í Hvalfirði. Fundur grjótkrabbans hér við land er um margt áhugaverður, ekki síst fyrir þá staðreynd að þetta er í fyrsta skipti sem tegundin finnst utan sinna náttúrulegu heimkynna sem liggja meðfram austurströnd Norður-Ameríku, frá Suður-Karólínu til Labrador í norðri. Hér er landnámi grjótkrabbans lýst frá því hann fannst fyrst hér við land og hvernig hann hefur breiðst út til dagsins í dag, en rannsóknir á útbreiðslu og þéttleika hafa farið fram bæði á fullorðnum einstaklingum, sem og lirfum. Samhliða rannsóknum á grjótkrabba hafa fengist mikilvægar grunnupplýsingar um þéttleika tveggja algengustu krabbategundanna á grunnsævi við Ísland, þ.e. bogkrabba (Carcinus maenas) og trjónukrabba (Hyas araneus).
Niðurstöður rannsóknanna sýna að grjótkrabbi er orðinn algengasta krabbategundin á mjúkum botni á grunnsævi við Suðvesturland. Útbreiðsluaukning krabbans hefur verið mjög hröð og þekur samfelld útbreiðsla hans nú um 50% af strandlengjunni, frá Faxaflóa til Vestfjarða, auk þess sem hann finnst á blettum allt norður í Eyjafjörð. Erfðafræðilegur breytileiki grjótkrabbans var skoðaður bæði innan hans náttúrulegu heimkynna í Norður Ameríku og við Ísland en þetta er í fyrsta skipti sem erfðabreytileiki innan tegundarinnar er skoðaður.
Niðurstöður rannsóknanna sýndu fram á að erfðabreytileiki innan Íslands er svipaður og í Norður-Ameríku. Jafnframt kom í ljós að erfðafræðileg aðgreining er meðal stofna sunnan og norðan Nova Scotia í Norður-Ameríku sem líklega má rekja til atburða sem áttu sér stað í kjölfar síðasta jökulskeiðs. Landnám og útbreiðsla grjótkrabbans við Ísland hefur gengið hratt fyrir sig og virðist honum vegna vel við Ísland. Hár erfðabreytileiki, skortur á landnemaáhrifum, hröð útbreiðsla og hár þéttleiki bæði lirfa og fullorðinna einstaklinga benda til að tegundin þrífist vel við Ísland og sé komin til að vera.
5.6.2015 | 08:58
Brjáðæðislega sniðug leið til að greina síld
Hvernig er hægt að greina sundur stofna fiska?
Ein leið er að nota stofnerfðafræði og meta erfðafjarlægðir.
Önnur leið er að finna auðmælanlegan eiginleika sem háður er breytileika í mörgun genum, en sem kann einnig að endurspegla lífssögu einstaklingsins.
Kvarnir fiska eru staðsettar í innra eyra í höfuðkúpu þeirra (ég er ekki klár á hlutverki þeirra).
Lögun kvarna er breytileg milli tegunda og rannsóknir Lísu A. Libungan verðandi doktors (í dag 5. júní kl 14) sýna breytileika innan tegundar. Lísa rannsakaði síldarstofna og þróaði nýja aðferð (brjálæðislega fljótvirka og snilldarlega sniðuga) til að vinna myndir af kvörnum og greina mun á milli stofna.
Hér að neðan er mynd frá Lísu af síldarkvörn og nánari upplýsingar um doktorsverkefni hennar.
Föstudaginn 5. júní kl 14:00 í hátíðarsal HÍ, ver Lísa Anne Libungan doktorsritgerð sína í líffræði við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands. Ritgerðin ber heitið: Aðgreining síldarstofna (Identification of herring populations).
Andmælendur eru dr. Albert K. Imsland, prófessor við Háskólann í Bergen og sviðsstjóri fiskeldissviðs hjá Akvaplan Niva í Noregi, og dr. Henrik Mosegaard, prófessor við Tækniháskólann í Danmörku (DTU) og sviðsstjóri Sjávarnytjadeildar DTU Aqua.
Leiðbeinandi var dr. Snæbjörn Pálsson, prófessor við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands, en einnig sátu í doktorsnefnd dr. Guðmundur J. Óskarsson, sérfræðingur hjá Hafrannsóknastofnun, og dr. Gunnar Stefánsson, prófessor við Raunvísindadeild Háskóla Íslands.
Dr. Eva Benediktsdóttir, dósent og deildarforseti Líf- og umhverfisvísindadeildar, stjórnar athöfninni.
Ágrip
Þekking á stofnlíffræði fiskistofna er mikilvæg fyrir árangursríka fiskveiðistjórnun og fyrir skilning á útbreiðslu, farmynstri og til verndunar á líffræðilegum fjölbreytileika. Atlantshafssíldin (Clupea harengus) er ein af þeim tegundum í heiminum sem státar af mestum lífmassa allra sjávarfiska og hefur verðmæti hennar orðið til þess að áhersla hefur verið lögð á rannsóknir er snúa að stofnstærðarmati, lifnaðarháttum, líffræði og stofnlíffræði hennar. Líflandafræði síldarinnar er afar flókin og eru stofnar gjarnan skilgreindir út frá hrygningarsvæðum og hrygningartíma.
Í þessari rannsókn hef ég þróað tvær aðferðir sem hægt er að nota til þess að aðgreina síldarstofna: erfðamörk (örtungl) sem hægt er að nota í erfðarannsóknum og hugbúnað (shapeR) til að rannsaka útlitseinkenni kvarna. Umfangsmikil sýnataka var framkvæmd á tveimur tegundum af síld, Atlantshafssíld og Kyrrahafssíld (Clupea pallasii), víðs vegar í Norður-Atlantshafi, meðfram strandlengju Noregs, Rússlandi og í Kyrrahafi. Niðurstöður samanburðar sem byggði á örtunglum gat ekki greint erfðafræðilegan mun á milli stofna í Norður-Atlantshafi, hins vegar fannst munur á kvarnaútliti. Þennan breytileika var hægt að rekja til þriggja svæða á kvörnunum og var fylgni á milli útlitsbreytileika þeirra og hrygningartíma. Flokkari sem byggði á þessum útlitseinkennum gat greint í sundur stofna sem blandast á fæðuslóð, íslensku sumargotssíldina og norsk-íslensku vorgotssíldina, með 94% nákvæmni. Í tveimur rannsóknum á fjarðarstofnum í Noregi var hægt að nota kvarnaútlit til að aðgreina stofnana og í samanburði á stofnum meðfram strandlengju Noregs kom í ljós að stofnar sem voru nær hver öðrum í fjarlægð voru líkari í kvarnalögun en stofnar sem voru fjær. Þetta sýndi fram á að breytileiki í kvarnaútliti er tengdur breiddargráðu í fjarðarstofnunum í Noregi og líklegt er að þessir stofnar hafi takmarkað far og séu einangraðir. Kvarnaútlit var borið saman meðal tveggja síldartegunda, Atlantshafssíldar og Kyrrahafssíldar, og meðal undirtegunda Kyrrahafssíldarinnar.
Niðurstöður sýndu að síld í Beringshafi í NV-Kyrrahafi var líkari síld í N-Noregi og Barentshafi en síld í NA-Kyrrahafi, en þær niðurstöður eru í samræmi við erfðarannsóknir á þessum sömu stofnum. Niðurstöður þessara rannsókna sýna að hægt er að nota útlitseinkenni kvarna til að aðgreina síldarstofna, undirtegundir og tegundir á stórum og smáum landfræðilegum kvarða.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 09:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.6.2015 | 17:01
Ályktun um stuðning við Náttúruminjasafn Íslands
3.6.2015 | 11:37
Simpansar myndu elda, ef þeir hefðu tækifæri til þess
Nýjustu færslur
- Eru virkilega til hættuleg afbrigði veirunnar sem veldur COVI...
- Grunnrannsóknir eina aðferðin til að skapa nýja þekkingu og e...
- Lífvísindasetur skorar á stjórnvöld að efla hlut Rannsóknasjó...
- Eru bleikjuafbrigði í Þingvallavatni að þróast í nýjar tegundir?
- Hröð þróun við rætur himnaríkis
- Leyndardómur Rauðahafsins
- Loftslagsbreytingar og leiðtogar: Ferðasaga frá Suðurskautsla...
- Genatjáning í snemmþroskun og erfðabreytileiki bleikjuafbrig...
- Fjöldi og dreifing dílaskarfa á Íslandi
- Staða þekkingar á fiskeldi í sjó