5.11.2014 | 13:07
Verðmæti vísinda á mannamáli 18. nóvember
Ágústa Guðmundsdóttir, prófessor við Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands, fjallar um tilurð og vöxt líftæknifyrirtækisins Zymetech og tengsl þess við grunnrannsóknir í skólanum í öðru erindi fyrirlestraraðarinnar Vísindi á mannamáli sem Háskóli Íslands stendur fyrir. Erindið verður í Hátíðasal Háskóla Íslands þriðjudaginn 18. nóvember nk. kl. 12.10.
Vísindi á mannamáli er ný fyrirlestraröð Háskóla Íslands sem efnt er til að frumkvæði Lífvísindaseturs og Líffræðistofu Háskóla Íslands.
Markmiðið er að varpa ljósi á það hvernig vísindamenn háskólans reyna að afhjúpa leyndardóma náttúrunnar og hvaða þýðingu vísindarannsóknir hafa fyrir daglegt líf fólks, t.d. baráttu við sjúkdóma eða náttúruöflin eða til að auka lífsgæði og takast á við nýjar áskoranir tengdar breytingum í umhverfinu.
Líftæknifyrirtækið Zymetech byggist á rannsóknum Ágústu og Jóns Braga Bjarnasonar heitins, prófessors í lífefnafræði við Verkfræði- og náttúruvísindasvið Háskóla Íslands. Zymetech grundvallast á áratugarannsóknum við Háskóla Íslands á meltingarensímum úr þorski og hagnýtingu ensímanna í lækningavörur og snyrtivörur á markaði.
Fjallað verður um gildi grunnrannsókna í nýsköpunarferlinu og það hvernig djúp þekking á ensímum, örverufræði, matvælafræði, lífefnafræði, frumulíffræði og lyfjafræði nýtist beint í hagnýtri líftækni. Nýsköpunarferli líftæknifyrirtækja er langt og flókið. Alþjóðlegir markaðir líftækniafurða, eins og t.d. lækningavara, eru stórir, kröfuharðir og nýjungagjarnir. Því krefst þróun nýrra lækningavara fyrir slíka markaði sífelldrar uppbyggingar hugvits og aukinnar þekkingar. Kostnaður við einkaleyfi, skráningu lækningaafurða, erlenda ráðgjafa, markaðsmál, leyfisveitingar og fleira er mikill en nauðsynlegur fyrir alþjóðlega markaðssetningu.
Zymetech hefur átt gott samstarf við Háskóla Íslands og Landspítala háskólasjúkrahús um öflun rannsóknastyrkja, menntun framhaldsnema og birtingu vísindagreina. Einnig býður samstarfið upp á störf fyrir unga vísindamenn og aðgengi að sérhæfðri aðstöðu til grunn- og læknisfræðilegra rannsókna. Mikilvægi rannsóknasjóða fyrir nýsköpun og áframhaldandi uppbyggingu hugvits innan fyrirtækja á alþjóðamarkaði verður einnig rætt.
Um Ágústu Guðmundsdóttur
Ágústa Guðmundsdóttir lauk doktorsprófi í örverufræði og sameindalíffræði frá örverufræðideild Virginíuháskóla í Charlottesville í Bandaríkjunum árið 1988. Hún hefur verið gistiprófessor við skólann frá árinu 1989 og hefur jafnframt stundað rannsóknir við University of California, San Francisco og New York University. Frá árinu 1993 hefur Ágústa verið prófessor í matvælaefnafræði við Matvæla- og næringarfræðideild Heilbrigðisvísindasviðs en var dósent í sömu grein frá 19891993. Rannsóknir Ágústu hafa í vaxandi mæli beinst að notkun þorskaensíma gegn örverusýkingum og þróun lækningavara sem byggjast meðal annars á rannsóknum hennar í samstarfi við Zymetech. Ágústa hefur verið rannsóknastjóri Zymetech um árabil en rannsóknirnar hafa verið unnar í samstarfi við Háskóla Íslands. Hún hefur ritað fjölda vísindagreina og bókakafla um rannsóknir sínar og samstarfsmanna og leiðbeint fjölda doktors- og meistaranema. Auk þess hefur hún tekið virkan þátt í stjórnunarstörfum jafnt innan sem utan Háskóla Íslands.
Þetta er annað erindið í röðinni. Hið fyrsta var flutt af Jórunn E. Eyfjörð í október síðastliðinn.
Horfa má á fyrirlestur Jórunnar á vef HÍ - Brjóstakrabbamein og leitin að bættri meðferð.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 13:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.11.2014 | 11:25
Háskóli kaupir sér orðspor
Háskólar keppa sín á milli, um orðspor, starfsmenn og peninga. Þetta er sérlega áberandi í Bandaríkjunum og Evrópu, en einnig hafa lönd í Asíu hafa lagt púður í slíka samkeppni.
Nýverið gaf US News and World Report (USNWR) út lista um röðun háskóla eftir fagsviðum (USNWR global ranking of universities). Topp tíu listinn fyrir stærðfræði.
1. Berkeley
2. Stanford
3. Princeton
4. UCLA
5. University of Oxford
6. Harvard
7. King Abdulaziz University
8. Pierre and Marie Curie Paris 6
9. University of Hong Kong
10. University of Cambridge
Stærfræðingurinn og Íslandsvinurinn Lior Pacter, sem starfar við Berkley háskóla fjallar um málið í nýlegu bloggi. Hann bendir á að á topp 10 séu margar þekktar og viðurkenndar deildir, en eitt spurningamerki, háskóli King Abdulaziz í Saudi Arabíu.
Forseti deildarinnar er prófessor Abdullah Mathker Alotaibi, sem hlaut doktorspróf árið 2005 en hefur ekki birt eina einustu vísindagrein. Hvernig getur deildin verið svona viðurkennd alþjóðlega?
Listinn er byggður á orðspori vísindamanna, sem er reiknað út frá fjölda greina sem þeir birta og einnig fjölda tilvitnana í greinar þeirra. Hið síðara gefur til kynna að rannsóknir viðkomandi séu lesnar af mörgum og að þeir vísi í öðrum fremur.
Í ljós kemur að þessi háskóli stundar mjög merkilega starfsemi, sem tengist lítið rannsóknum í stærðfræði. Þeir bjóða virtum og virkum stærðfræðingum heiðurstarf við skólann með uþb. $72.000 árslaun, gegn því að viðkomandi merki greinar sínar með nafni skólans og deild.
Þeir sem þiggja þetta starf þurfa ekki að vinna við skólann, geta haldið áfram sinni venjulegu dagvinnu en fá tæpar 9 millur á ári fyrir að setja einn vinnustað í viðbót á vísindagreinarnar sínar.
Þannig að tilvitnanir í þessa menn auka KAU orðspor á alþjóðlegan mælikvarða (eins og það er mælt með mælistikum skriffinnana!).
Pacther rekur þetta í þaula í pistli sínum. Hann bendir á nokkra stærðfræðinga og líffræðinga sem hafa tekið beituna, og skreytt KAU með orðspori sínu fyrir nokkrar milljónir króna.
Það er augljóst að peningar kaup orðspor, jafnvel í vísindum.
E.s.
Ég veit ekki til þess að nein íslendingur hafi verið keyptur til KAU, og nei enginn íslenskur háskóli komst inn á lista USNWR.
Ítarefni:
Lior Pacther To some a citation is worth $3 per year October 31, 2014
Yudhijit Bhattacharjee fjallaði um þetta í Science árið 2011 Saudi Universities Offer Cash in Exchange for Academic Prestige
Vísindi og fræði | Breytt 5.11.2014 kl. 13:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
3.11.2014 | 09:59
Náttúra í jafnvægi? Veiðiskapur í Mývatni í 150 ár
31.10.2014 | 10:51
Upplýsingar um Ebólu á vísindavefnum
Nýjustu færslur
- Eru virkilega til hættuleg afbrigði veirunnar sem veldur COVI...
- Grunnrannsóknir eina aðferðin til að skapa nýja þekkingu og e...
- Lífvísindasetur skorar á stjórnvöld að efla hlut Rannsóknasjó...
- Eru bleikjuafbrigði í Þingvallavatni að þróast í nýjar tegundir?
- Hröð þróun við rætur himnaríkis
- Leyndardómur Rauðahafsins
- Loftslagsbreytingar og leiðtogar: Ferðasaga frá Suðurskautsla...
- Genatjáning í snemmþroskun og erfðabreytileiki bleikjuafbrig...
- Fjöldi og dreifing dílaskarfa á Íslandi
- Staða þekkingar á fiskeldi í sjó





