Leita í fréttum mbl.is

Stefnumót skilvirkni og breytileika - snertiflötur þroskunar og þróunar

Í aldanna rás hafa náttúruunnendur og fræðimenn heillast af margbreytilegum formum, atferli og lífsháttum ólíkra tegunda. Árið 1858 færðu Charles Darwin og Alfred Wallace rök fyrir mikilvægi náttúrulegs vals í mótun og viðhaldi fjölbreytileika lífvera. Kenningin um þróun vegna náttúrulegs
vals útskýrir samt ekki efnislegar rætur breytileikans; hvernig svartbakar þroskast og krónublöð sólblómanna taka sitt nákvæma form. Eiginleikar lífvera mótast af erfðum, umhverfi og tilviljun. Arfgerð einstaklings í viðeigandi umhverfi leiðir af sér svipgerð í gegnum flókið og fjölþætt ferli sem kallast þroskun. Hér verður fjallað um grundvallaratriði þroskunar og hvernig þau tengjast þróun lífvera. Greinin er þannig uppbyggð að fyrst eru svipfar og erfðir skilgreind, og samspil þeirra og umhverfisins rædd. Síðan verða lögmál þróunar útlistuð. Þroskun er kynnt sérstaklega, og samspil hennar við þróun, t.d. út frá vexti og sérhæfingu fruma. Einnig verður fjallað sérstaklega um örlagakort þroskunar og varðveislu þroskunarferla sem afhjúpa skyldleika lífvera. Að endingu verður rætt um hvernig þróun getur notað breytileika í þroskun, þrátt fyrir að þroskunin sé mjög stöðug.

------------------

ArfleifdDarwins kapa3Þetta er upphaf greinar sem ég skrifaði fyrir Náttúrufræðinginn, sem kom út nú í vikunni. Reyndar hófust skrifin árið 2009 þegar við nokkrir líffræðingar stóðum fyrir fyrirlestraröð um Darwin og útgáfu rigerðarsafns honum til heiðurs. Grein þessi var ekki tilbúin í tíma og varð því ekki hluti af Arfleifð Darwins, þ.e.a.s. bókinni sem kom út hjá Hinu íslenska bókmenntafélagi.

Í hefti Náttúrufræðingsins eru fjöldi áhugaverðra greina, og þegar efnisyfirlitið kemur á vefinn munum við endurprenta það hér.


Fögnum degi íslenskrar náttúru

16. september er dagur íslenskrar náttúru. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá um allt land og allir eru hvattir til að njóta náttúru lands og sjávar á ábyrgan hátt.

Yfirskrift dagsins í ár er hreint land - fagurt land, og er áherslan á bætt umgengni um náttúruna. Reyndar mætti segja að umgengni yfir höfuð mætti vera betri. Eftir að hafa ferðast um Ameríku í sumar, þá blöskraði mér ruslið í Reykjavík og annarsstaðar á höfuðborgarsvæðinu.  Sígarettustubbar, tyggjóklessur, plast og pappír um allt.

a_160.jpg

Í dag hvet ég alla til að skoða og velja eitthvað spennandi að skoða af þeim fjölmörgu viðburðum sem eru í boði. Hér að neðan eru bara nokkur atriði af höfuðborgarsvæðinu, en listinn í heild er aðgengilegur á vef Umhverfisráðuneytisins.

---------------------------------

10:00 - 19:00 Kópavogur Náttúrufræðistofa Kópavogs býður á sýninguna „Þríhnúkagígur og hraunhellar á Íslandi“ þar sem fjallað er um hella og umgengi fólks um þá, með áherslu á Þríhnúkagíg. Starfsmenn verða á staðnum til leiðsagnar og umræðu um umgengi og verndun vinsælla ferðamannastaða. Sýningin verður opin út október. Nánari upplýsingar.

12:15 Garðabær Náttúrufræðistofnun Íslands býður til hádegisgöngu um hraunið í nágrenni stofnunarinnar undir leiðsögn Sigmundar Einarssonar jarðfræðings og Ásrúnar Elmarsdóttur plöntuvistfræðings. Mæting er við hús Náttúrufræðistofnunar í Urriðaholti. Áætlað er að gangan taki um 45 mínútur. 

13:00 Reykjavík Hátíðarsamkoma umhverfis- og auðlindaráðherra á Umhverfisstofnun við Suðurlandsbraut. Afhending fjölmiðlaverðlauna umhverfisráðuneytisins og Náttúruverndarviðurkenningar Sigríðar í Brattholti.

14 - 17 Reykjavík Skrifstofur Náttúruminjasafns Íslands í gömlu Loftskeytastöðinni að Brynjólfsgötu 5 verða opnar almenningi milli kl. 14 og 17. Gestum býðst að skoða þetta glæsilega hús og forstöðumaður stofnunarinnar, dr. Hilmar J. Malmquist, spjallar við gesti um forsögu og framtíðarhorfur höfuðsafns þjóðarinnar á sviði náttúrufræða.

17:00 Mosfellsbær Mosfellsbær, Skógræktarfélag Mosfellsbæjar og Mosverjar bjóða til skógargöngu og grillveislu fyrir alla fjölskylduna við Hafravatn. Hjólað er frá miðbæjartorgi Mosfellsbæjar kl. 17 að Hafravatni eftir malarvegi. Skógargangan leggur upp frá Hafravatnsrétt kl. 18. Grillveisla að lokinni göngu við Sumargerði, hús Skógræktarfélags Mosfellsbæjar við Hafravatn. Allir velkomnir. Nánari upplýsingar

17:30 Reykjavík Fuglavernd býður til fuglaskoðunar í kirkjugarðinum í Fossvogi.  Skoðaðir verða glókollar og jafnvel barrfinkur og krossnefi. Þó þessi fuglar séu ekki einkennisfuglar íslenskar fuglafánu þá hefur glókollurinn numið hér land, er staðfugl og spjarar sig ágætlega þrátt fyrir að vera minnsti fugl Evrópu. Krossnefir hafa verpt hér síðan 2008 og barrfinkan er árlegur flækingur og líklegur landnemi.  Mæting á bílastæðið við Fossvogskirkju en gangan tekur um klukkutíma. Edward Rickson fuglaskoðari með meiru leiðir gönguna. Nánari upplýsingar.

--------------------

Mynd af mosa ofan á Esjunni - AP.


mbl.is Draga þarf úr sóðaskap
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ráðgáta lífsins á öldum ljósvakans

Í tilefni af útgáfu bókarinnar Ráðgáta lífsins ræddi Hanna G. Sigurðardóttir við Guðmund Eggertsson í Samfélaginu í nærmynd 10. september 2014. Viðtalið var kynnt á vef RÚV með þessum orðum: Hvernig gerðist það að lífvana efni jarðarinnar þróaðist í það...

Háskólaráð ósátt við fjárlög

Drög til fjárlaga voru kynnt í vikunni. Það er ánægjulegt að sjá að fyrri áætlanir um niðurskurð til samkeppnissjóða verða ekki framkvæmdar. Í staðinn á að efla stuðning við samkeppnis- og tækniþróunarsjóði og í nýsköpun, þótt að ég viti reyndar ekki...

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband