29.4.2014 | 09:47
Niðurskurður í raungreinum í framhaldsskólum
Íslenskt samfélag byggir á og er samofið náttúrunni. Við búum við heimskautsbaug og efnahagur okkar byggir á t.d. auðlindum sjávar, orku jarðar og óspilltri náttúrufegurð sem ferðamenn sækja í. Það er nauðsynlegt fyrir framtíð þjóðarinnar að við menntum fólk í raunvísindum, sem getur rannsakað þessar auðlindir og hjálpað okkur að nýta þær á sjálfbæran hátt. Einnig byggist þekkingarsamfélag framtíðar því á góðri vísinda- og tæknimenntun, sem byggir á góðu námi í grunn- og framhaldsskólum.
Samlíf, samtök líffræðikennara hvetja mennta- og menningarmálaráðherra eindregið til þess að gaumgæfa vel uppbyggingu í raungreinakennslu með áherslu á verklega kennslu til að tryggja að nemendur nái tilsettum hæfniviðmiðum og að Ísland dragist ekki aftur úr öðrum vestrænum þjóðum.
Við höfum áhyggjur af sívaxandi niðurskurði í skólakerfinu sem leiðir til stærri hópa. Stækkun í hópum bitnar á verklegri kennslu og þar með gæðum menntunar. Áhersla námskrár Mennta- og menningarmálaráðuneytis um hæfniviðmið er í andstöðu við stærri nemendahópa.
Mennta- og menningarmálaráðherra er einnig hvattur til að tryggja að ekki verði frekari niðurskurður í raungreinum í framhaldsskólum. Í námskrá (1999) fækkaði einingum úr 12 í 9 á bóknámsbrautum öðrum en náttúrufræðibraut. Á náttúrufræðibraut var einingum í raungreinum fækkað úr 36 í 21. Samlíf spyr hvort að fækkun raungreinaeininga í framhaldsskólum samræmist markmiðum um fjölgun nemenda í raungreina- og tækninámi? Mikilvægt er að tryggja að raungreinar (líffræði, efnafræði, eðlisfræði og jarðfræði) verði veigamikill hluti af námi í íslenskum framhaldsskólum.
Íslendingar framtíðar þurfa góða menntun, og eiga það skilið að metnaðarfullri námskrá sé fylgt eftir með gjörðum.
Reykjavík, 22. apríl 2014
Til: Mennta- og menningarmálaráðherra
Efni: Ályktun um niðurskurð í raungreinum í framhaldsskólum, ítrekun
Stjórn Samlífs Samtaka líffræðikennara
Ester Ýr Jónsdóttir, formaður
Rúna Björk Smáradóttir, gjaldkeri
Hólmfríður Sigþórsdóttir, ritari
Arnar Pálsson, meðstjórnandi
Eiríkur Örn Þorsteinsson, meðstjórnandi.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 09:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.4.2014 | 09:09
Gróður í Viðey í Þjórsá: áhrif beitarfriðunar og mögulegar ógnir
Gróður í Viðey í Þjórsá: áhrif beitarfriðunar og mögulegar ógnir
Anna Sigríður Valdimarsdóttir og Sigurður H. Magnússon flytja erindi á vegum Hins íslenska náttúrufræðifélags. Erindið verður flutt Í DAG mánudaginn 28. apríl kl. 17:15 í stofu 132 í Öskju, Náttúrufræðihúsi Háskóla Íslands. Aðgangur er öllum heimill og ókeypis.
Tilkynning frá Hinu íslenska náttúrufræðifélagi.
Ágrip af erindi:
Viðey í Þjórsá er stök ey suðaustan við bæinn MinnaNúp í Gnúpverjahreppi. Áin er þar djúp og straumþung og hefur eyin því notið nokkurrar verndar fyrir ágangi manna og búfjár. Í Viðey er gróskulegur birkiskógur sem ekki er að finna á bökkum árinnar. Lítið var vitað um annan gróður í eynni. Áform eru um að stífla Þjórsá ofan Viðeyjar vegna fyrirhugaðrar Hvammsvirkjunar. Rennsli Þjórsár meðfram Viðey myndi minnka mjög mikið við virkjun og jafnframt sú vernd sem áin veitir eynni. Meginmarkmið rannsóknarinnar var að kanna gróður í Viðey í Þjórsá og bera hann saman við gróður á svipuðu landi beggja vegna árinnar. Áhersla var lögð á að svara eftirfarandi spurningum: Hvaða gerðir gróðurs er að finna í eynni? Hver er þekja og tegundasamsetning plantna í mismunandi gróður og landgerðum í eynni og á svipuðu landi beggja vegna árinnar? Finnast í eynni sjaldgæfar plöntutegundir? Í rannsókninni voru lagðir út 13 reitir sumarið 2009; fjórir í Viðey, þrír á norðurbakka og sex á suðurbakka Þjórsár. Í Viðey finnast fjórar megingerðir gróðurs; birkiskógur, graslendi, strandgróður og mólendi. Í eynni fundust 74 tegundir háplantna, þ.á.m. tvær sem teljast sjaldgæfar á landsvísu, grænlilja og kjarrhveiti. Þekja og tegundasamsetning plantna í Viðey er mjög ólík þeirri á bökkum árinnar en í samræmi við það sem komið hefur fram í öðrum rannsóknum á beittum og beitarfriðuðum svæðum. Viðey var friðlýst árið 2011 til verndunar lítt snortins og gróskumikils birkiskógar og því lífríki sem honum fylgir. Auk verndunar erfðaeiginleika og erfðafjölbreytileika birkisins og annars gróðurs, þá er sérstaklega treyst vísinda og fræðslugildi eyjarinnar.
Anna Sigríður Valdimarsdóttir lauk B.S-prófi í náttúru- og umhverfisfræði frá Landbúnaðarháskóla Íslands vorið 2010 og hóf M.S-nám haustið 2011 við sama skóla. Sigurður H. Magnússon lauk B.S-prófi í líffræði frá Háskóla Íslands árið 1975 og Ph.D-prófi í plöntuvistfræði frá Háskólanum í Lundi í Svíþjóð árið 1994. Sigurður hefur starfað hjá Náttúrufræðistofnun Íslands frá 1997.
Vertu félagi HÍN á Facebook (www.facebook.com/hid.islenska.natturufraedifelag)
24.4.2014 | 11:19
Ný hátæknismásjá vígð
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 13:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.4.2014 | 08:57
Íslenskir framhaldsnemar í Evrópu
Nýjustu færslur
- Eru virkilega til hættuleg afbrigði veirunnar sem veldur COVI...
- Grunnrannsóknir eina aðferðin til að skapa nýja þekkingu og e...
- Lífvísindasetur skorar á stjórnvöld að efla hlut Rannsóknasjó...
- Eru bleikjuafbrigði í Þingvallavatni að þróast í nýjar tegundir?
- Hröð þróun við rætur himnaríkis
- Leyndardómur Rauðahafsins
- Loftslagsbreytingar og leiðtogar: Ferðasaga frá Suðurskautsla...
- Genatjáning í snemmþroskun og erfðabreytileiki bleikjuafbrig...
- Fjöldi og dreifing dílaskarfa á Íslandi
- Staða þekkingar á fiskeldi í sjó