24.2.2014 | 10:24
Fjársveltur Háskóli
Útskrift nemenda er sérstaklega ánægjulegur viðburður. Fólk sem hefur lagt hart að sér við nám kemst yfir marklínuna og heldur áfram á lífsins braut. Menntun er sérkennileg að því leyti að hún er ekki jafn áþreifanleg og önnur afrek manna. Það stendur ekki eftir bygging, rúllubaggastæða eða bretti af frosnum fiski. Menntun mótar bara einstaklinginn, en þannig óbeint samfélagið allt.
Kristín Ingólfsdóttir rektor HÍ ræddi við útskriftina 22. febrúar um stöðu HÍ, fjármögnun, velgjörðarmenn og hlutverk. Hún tiltók fjölmörg dæmi um mikilvægar rannsóknir sem stundaðar eru við HÍ, bæði hagnýtar og grunnrannsóknir (ekki tíunduð hér). Rektor ræddi sérstaklega um fjármögnun skólans, lagði áherslu á skort á stuðningi frá ríkinu og hina fjölmörgu velgjörðarmenn skólans. Rektor segir:
Ef við miðum tekjur Háskóla Íslands við meðaltal tekna háskóla í löndum OECD, skortir fimm milljarða króna árlega til að við stöndum jafnfætis. Ef borið er saman við Norðurlönd, er munurinn talsvert meiri. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir að ákvæðum í samningi um Aldarafmælissjóð Háskóla Íslands verði fylgt, en þar er kveðið á um stefnumótun til framtíðar um fjármögnun skólans. Fyrsta markmið er að tekjur skólans verði sambærilegar við meðaltal OECD-ríkja. Við fögnum vilja stjórnvalda til að helga sig þessari vinnu. Á móti skuldbindur skólinn sig til að afla þriðjungs þeirra tekna sem upp á vantar gegnum sjálfsaflafé, meðal annars með sókn í rannsóknastyrki úr erlendum samkeppnissjóðum. Við fögnum niðurstöðum nýrrar skoðanakönnunar Capacent um að meirihluti Íslendinga vilji auka framlög til háskóla. Fyrir rúmri öld gengum við sameinuð til verka og stofnuðum háskóla í bláfátæku samfélagi. Hvers erum við þá megnug í dag? Við skulum svara þeirri spurningu með því að láta verkin tala. Og samfélagið mun uppskera eins og til verður sáð.
En rektor bendir einnig á að fjárskorturinn hafi alvarlegar afleiðingar fyrir starf skólans. Hún tiltekur sérstaklega að skólinn sé ekki samkeppnishæfur við erlenda háskóla.
Háskóli Íslands keppir um verkefni og mannafla við fjárhagslega sterkar stofnanir um allan heim. Við sjáum þess sárgrætileg dæmi að öflugir vísindamenn og kennarar, sem vilja starfa við skólann, finna sér starfsvettvang annars staðar þar sem fjárhagur og starfsskilyrði eru betri.
Þetta á ekki að koma á óvart því það hefur ítrekað komið fram að íslenska háskólakerfið er stórkostlega undirfjármagnað. Það er þyngra en tárum taki að þurfa að horfast í augu við afburðafólk, fólk sem er tilbúið að leggja líf sitt í verkin, og geta ekki boðið viðunandi kjör og starfsskilyrði. Þetta er ekki bara missir fyrir Háskóla Íslands heldur samfélagið allt því uppbygging háskólastarfs leggur grunn að lífskjörum okkar í framtíðinni.
Þetta er allt satt og rétt. En það eru reyndar líka gallar á innra starfi HÍ sem hrekja fólk frá skólanum. Eitt dæmi er hversu veikur rannsóknasjóður HÍ er. Yfirvöld skólans vilja frekar deila afmælissjóðnum í önnur mál, en að styrkja grunnrannsóknirnar. Helga Ögmundsdóttir ræðir nokkur þessara atriða í Sjónmáli í síðusut viku.
Þar utan ræður meingallað punktakerfi að miklu leyti miðlun fjármagns til rannsókna innan skólans.
En í víðara samhengi, má einnig spyrja sig til hvers er menntun og hverjir eiga að fjárfesta í henni. Í síðustu viku ræddi Páll Skúlason um málið í Sjónmáli, og við lögðum út af því í litlum pistli (brot úr honum birtist hér).
Páll Skúlason lagði áherslu á að peningar mega ekki einir ráða ferðinni. Við verðum að meta menntun að eigin verðleikum. Og líka átta okkur á að hún er ekki einkamál nemanda, heldur skiptir hún líka samfélagið máli. Samfélagið fjárfestir í góðri menntun þegnanna, með það að markmiði að upplýsa fólk og gefa því tækifæri til að bæta sig í lífi og starfi. Samfélagið fjárfestir líka í menntun, til að skaffa atvinnulífi hæfa einstaklinga og til að næra grasrótina þaðan sem nýjar hugmyndir og fyrirtæki spretta.
Sannarlega eru peningar af skornum skammti, en það er algerlega misráðið að einblína á menntakerfið með augum aurasálarinnar. Í Bandaríkjunum hafa peningasjónarmið verið ríkjandi í rekstri margra háskóla, með mörgun alvarlegum aukaverkunum. Meðal þess sem Páll tíundaði er það að skólagjöld í BNA hafa tilhneygingu til að hækka langt umfram almennt verðlag. Þetta skilar sér ekki endilega í betri menntun, en örugglega í feitari bónus fyrir rektor viðkomandi háskóla. Afleiðingin er líka stéttaskipting. Bara hinir ríku komast í bestu skólana. Og þeir sem læra í bestu skólunum fá bestu vinnurnar.
Það er sérlega ánægjulegt að rektor skuli leggja spilin á borðið og segja frá því hversu fjársveltur HÍ er. En einnig er mikilvægt að við tökum til við að lagfæra það sem gallað er í innra starfi skólans.
Ítarefni og heimildir:
HÍ 22. febrúar 2014. Ræða rektors við brautskráningarhátíð
Rás 1. Sjónmál. 20. 2. 2014 Vilja búa hér en vinna erlendis
Rás 1. Sjónmál 17. 2. 2014 Háskólanám ekki einkafjárfesting nemandans
Ritdómur um University, Inc.: The Corporate Corruption of American Higher Education eftir Jennifer Washburn.
Arnar Pálsson 18.2.2014 Aðskiljum heim menntunar og heim peninga
![]() |
Tekjur þurfi að aukast um fimm milljarða |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 10:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.2.2014 | 16:54
Virðisauki með vísindum
Greinin Virðisauki með vísindum birtist í Morgunblaðinu 19. febrúar 2014.
-----------------
Fiskveiðiþjóð ætti að spyrja, hvernig nást fleiri krónur úr hverjum fiski? Verðmæti má auka á nokkra vegu. Til dæmis með því að veiða fiskinn þegar hann er verðmætastur, bæta vinnslu og geymslu. Eða með því að kortleggja markaði, vinna vörumerkjum orðspor og kynna vörurnar markvisst. Einnig má nýta afurðirnar betur, t.d. nota afganga í nýjar og verðmætar afurðir. Margt hefur áunnist á öllum þessum sviðum undanfarna áratugi. Til dæmis fara íslenskir sjómenn mun betur með fiskinn en norskir sjómenn, við tökum smærri holl og afhausum ekki. Hér verður aðallega fjallað um nýtingu fisksins og hvernig má ná verðmætum úr afskurði og því sem áður var hent.
Til að auka verðmæti þarf bæði hugvit og skipuleg vinnubrögð. Upphugsa þarf aðferðir eða nýjungar, og prófa hvort þær séu betri en eldri aðferðir. Með öðrum orðum, það þarf að vinna vísindalega. Í nýlegri skýrslu Sjávarklasans kemur fram að verðmæti sjávarafurða hefur aukist um marga milljarða með því að fóstra nýjungar og beita nákvæmum vinnubrögðum. Sem dæmi má nefna fyrirtækin Kerecis sem vinnur græðandi plástra úr roði, Iceprotein sem vinnur prótín úr afskurði, og Genís sem þróar bólgueyðandi lyf úr rækjuskel. Sammerkt þessum fyrirtækjum er að þau vinna vísindalega. Með því að þjálfa unga vísindamenn, þá bætum við framtíðarmöguleika þessara og annarra áþekkra fyrirtækja.
Hérlendis hafa samkeppnissjóðir alltaf verið veikir og umgjörð vísinda losaraleg. Í skýrslu Sjávarklasans segir "Það er enganveginn ásættanlegt að ætla veikum opinberum rannsóknasjóðum að útvega bróðurpart þess fjár sem þarf til rannsókna og þróunar í nýja sjávarútveginum". Hér eru forsvarsmenn sjávarklasans að biðla til annarra sjávarútvegsfyrirtækja, banka og stjórnvalda um meira fjármagn. En undirstrika um leið hve illa búið er að rannsóknasjóðum hérlendis.
Niðurskurður ríkistjórnarinnar á samkeppnisjóðum í síðasta fjárlagafrumvarpi og fyrirhugaður niðurskurður grefur undan framtíðarvexti í sjávarútvegi. Hann dregur úr nýliðun vísindamanna sem eru nauðsynlegir fyrir rannsóknir t.d. í sjávarlíftækni og matvælafræði. Á síðustu fjárlögum var Tækniþróunarsjóður lækkaður um 22%, Rannsóknasjóður um 19% og markáætlun um 50%. Boðaður áframhaldandi niðurskurður mun bæði draga úr þjálfun nauðsynlegs mannafla og hægja á klaki nýrra fyrirtækja.
Íslenskur sjávarútvegur er stærsta og sterkasta aflið í efnahag landsins og eðlilegt að hann leggi sitt af mörkum til að styrkja stoðir atvinnulífs. Stærstu fyrirtæki í sjávarútvegi þurfa að fjárfesta í hagnýtum rannsóknum. En þau þurfa líka að sannfæra stjórnvöld um að styrkja samkeppnissjóði og grunnrannsóknir, því þaðan kemur sérmenntað og fært starfsfólk. Með því að efla samkeppnisjóði Vísinda- og tækniráðs stuðlum við að nýsköpun og verðmæti í sjávarútvegi þjóðinni til heilla.
Arnar Pálsson erfðafræðingur, dósent við Háskóla Íslands
Ítarefni:
2 fyrir 1 Fullvinnsla aukaafurða og líftækni í sjávarklasanum 2013
http://www.sjavarklasinn.is/wp-content/uploads/2013/11/2fyrir1-2013-netutgafa.pdf
Fréttablaðið 4. okt. 2013. Milljarðar fyrir hausa, roð og bein
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 17:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.2.2014 | 13:25
Aðalfundur HÍN og plöntuerfðatækni
18.2.2014 | 11:45
Aðskiljum heim menntunar og heim peninga
Nýjustu færslur
- Eru virkilega til hættuleg afbrigði veirunnar sem veldur COVI...
- Grunnrannsóknir eina aðferðin til að skapa nýja þekkingu og e...
- Lífvísindasetur skorar á stjórnvöld að efla hlut Rannsóknasjó...
- Eru bleikjuafbrigði í Þingvallavatni að þróast í nýjar tegundir?
- Hröð þróun við rætur himnaríkis
- Leyndardómur Rauðahafsins
- Loftslagsbreytingar og leiðtogar: Ferðasaga frá Suðurskautsla...
- Genatjáning í snemmþroskun og erfðabreytileiki bleikjuafbrig...
- Fjöldi og dreifing dílaskarfa á Íslandi
- Staða þekkingar á fiskeldi í sjó