Leita í fréttum mbl.is

Frá Kalahari út á sléttuna miklu

Þessar vikurnar erum við blessuð með náttúrulífsþáttum BBC á mánudagskvöldum. RÚV hefur alltaf sett fræðandi efni á oddinn, og þessi sería um Afríku er hreinasta yndi.

Í síðustu viku kynntumst við undrum Kalahari eyðimarkarinnar. Mér fannst alveg magnað upphafsatriðið, þegar flogið er inn yfir hrjóstrugt landið, sem er stráð merkilega reglulegum sandhringjum. Mynstrið minnir reyndar smá á feld blettatígurs eða hýenu, en orsakirnar eru enn á huldu.

Ekki síður stórbrotin voru myndskeið af Spitzkoppe fjallinu eða átökum gíraffatarfanna.

Í uppáhaldi hjá mér var athugunin á lífríki geysistórs neðanjarðarvatns sem fannst undir eyðimörkinni. Þetta minnti dálítið á vísindaskáldskap frá miðbiki síðustu aldar, þar sem Tarzan og félagar lentu kannski í týndum dal fullum af furðuverum og mannskrímslum. Líklega hefði Tarzan haft í fullu tré við Gullgrana í neðanjarðarhellinum, en skáldskapurinn veitir þessari ævintýraveröld enga keppni.

Í kvöld verður þáttur um Afrísku slétturnar, líklega Serengeti að einhverju leyti. Þar sem stórar hjarðir villidýra ferðast um gríðarstórt svæði í leit að fæðu og vatni. Jarðfræði svæðisins er einnig mögnuð, en lífríkið er í mikilli hættu vegna veiðiþjófa og ágangs mannsins.

http://www.bbc.co.uk/programmes/p010jc6p/episodes/guide


Kóngar og nafnlausir drengir

Við gerum mjög mikið úr muni á milli einstaklinga, kóngur eða smábóndi, knattspyrnuhetja eða saumakona. Samt er það ófrávíkjanleg staðreynd að menn eru af sömu tegund.

Sagan af Ríkharði III og beinum í Leicester

Fyrir rétt rúmlega ári sögðust vísindamenn við Háskólann í Leicester hafa fundið leifar Ríkharðs 3 konungs. Aldur og eiginleikar  beinagrindarinnar studdu tilgátuna, en flestir sannfærðust af erfðafræðilegum gögnum sem sýndu skyldleika við ættingja Ríkharðs.

Það sem fréttatilkynningin og vefsíða rannsóknarhópsins við Leicester háskóla sagði frá var að þeir hefðu grein hluta af hvatberalitningi úr höfuðkúpunni, og fundið að hún passaði við ættingja  sem rakti móðurlínu sína til móður Ríkharðs*.

En margir erfðafræðingar voru ekki sannfærðir. Þeim fannst of lítill bútur vera athugaður, ekki var sýnt fram á hversu algeng (eða óalgeng) að þessi gerð hvatbera-litningsins væri í fólki af bresku bergi?

Engin ritrýnd vísindagrein hefur birst um þessi erfðafræðilegu gögn. Samt finnst Wellcome trust og nokkrum öðrum aðillum ásættanlegt að verja 100.000 pundum í að freista þess að raðgreina erfðamengi úr þessari hauskúpu.

Í stuttu máli, er ég ekki sannfærður um að beinin séu úr Ríkharði.

Nafnlaus drengur kortleggur sögu Ameríku

Hins vegar bárust fréttir af niðurstöðum stórrar rannsóknar Eske Willerslev við Kaupmannahafnarháskóla og samstarfsmanna hans, sem varpa ljósi á sögu Ameríkubúa.

140212132807-largeMynd Sarah Anzick, af vef Science Daily.

Forsagan er sú að fyrir rúmum 50 árum fannst bein á Anzick landareigninni í Montana. Beinið fannst á sama stað og sérlega vandaðir steinoddar, sem kenndir eru við Clovis-menninguna. Clovis menningin er forvitnileg fyrir sögu Ameríku, því þar fundust fyrst háþróaðir spjótsoddar, sem hægt var að festa á kastspjót. Gripirnir eru um 13.000 ára gamlir, og finnast vítt og breitt um N. Ameríku. Í eldri jarðlögum finnast engar menjar um menn eða verkfæri. Því er talið að Clovis menn hafi verið fyrstu landnemarnir í Ameríku. Einnig hefur því verið haldið fram að Clovis fólkið hafi veitt og útrýmt mörgum stórum landdýrum sem fyrir voru í Ameríku (t.d. stórum letidýrum, amerískum hestum og sverðtígrinum).

Ýmsar hugmyndir voru um uppruna Clovis fólksins, t.d. að það hefði komið frá Síberíu yfir Beringseiðið, eða jafnvel frá Eyjaálfu eða Evrópu.

Raðgreining á DNA í Anzick beininu sýnir hins vegar að drengurinn er náskyldur núverandi íbúum Ameríku. Sérstaklega er mikill skyldleiki við ættbálka í S. Ameríku en einnig við frumbyggja N. Ameríku og austurhluta Síberíu. Gögnin duga ekki til að skera úr um hvort að Ameríka var byggð af einni holskeflu, eða hvort fleiri bylgjur fólks hafi numið þar land.

Erfðamengi úr beinum löngu látins fólks afhjúpar sögu þjóðanna.

Fyrir skilning okkar á sögu þjóðanna er eitt bein úr þessum um eins árs gamla  nafnlausa dreng mikilvægara en beinagrind sem fannst undir bílastæði í Leicester og eignuð hefur verið Ríkharði III.

*Ríkharður átti engin afkvæmi, og þar að auki erfast hvatberar bara frá móður til barna, aldrei frá föður

Pistill þessi er byggður á spjalli við Leif Hauksson í Sjónmáli, og nokkrum heimldum sem fylgja hér að neðan.

Rúv 14. feb. 2014. Frumbyggjar Ameríku komu frá Asíu

http://io9.com/5981784/richard-iii-identified-not-so-fast-say-dna-experts
http://www.theguardian.com/uk-news/2014/feb/11/richard-iii-dna-complete-genome-sequence-dna
http://www.le.ac.uk/richardiii/science.html
http://www.npr.org/2014/02/13/276021092/ancient-dna-ties-native-americans-from-two-continents-to-clovis
http://www.bbc.co.uk/news/science-environment-26172174
http://www.bbc.co.uk/ahistoryoftheworld/about/transcripts/episode5/
http://www.nature.com/nature/journal/v506/n7487/full/nature13025.html
Arnar Pálsson 5. feb. 2013. Tveimur sögum fer af fundi Ríkharðs konungs 

mbl.is Genamengi Ríkharðs 3. raðgreint
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hefði Darwin drepið gíraffann?

Í heimi vísinda er oft horft til vísindamanna sem uppgötvuðu stór lögmál, eða kollvörpuðu fornum kreddum. Charles Darwin eitt af afmælisbörnum dagisns er einn slíkur og fjölmörgum vísindamönnum (sérstaklega líffræðingum) finnst nauðsynlegt að vísa í hans...

Svín í tíma og rúmi

Hvað er hægt að læra af svínum? Það fer náttúrulega eftir því hvaða svíni þú fylgist með.* Sálfræðingar birtu árið 2009 rannsókn sem sýnir m.a. að svín geta notað spegla, til að finna mat og skynja umhverfi sitt. Aðrar rannsóknir og tilraunir hafa sýnt...

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband