18.12.2013 | 09:48
Öflugir samkeppnissjóðir eru nauðsynlegir fyrir nýsköpun
Fátt er þjóðfélaginu mikilvægara nú en að skapa hagnýta þekkingu og skapa ný verðmæti. Þekkingin sem ný fyrirtæki eru byggð á er oftar en ekki afurð vísindalegra framfara. Og þær byggjast oftast á fyrirbæri sem landinn heyrir lítið um, svokölluðum opinberum samkeppnissjóðum.
Samkeppnissjóðir styrkja bæði grunnrannsóknir og tækniþróun með hagnýtingu og markaðssetningu að markmiði. Fyrirkomulagið er þannig að vísindamenn og frumkvöðlar keppa um fjármagn með því að senda inn ítarlegar áætlanir, sem metnar eru af fagfólki. Bestu hugmyndirnar, aðferðirnar og verkefnin fá styrki.
Grunnrannsóknir eru ákaflega mikilvægar vegna þess að þær skapa þekkingu sem er undirstaða hagnýtingar og annarra framfara. Miklu skiptir að hagnýtingin er sjaldnast augljós í upphafi. Með öðrum orðum, það er oftast ófyrirsjáanlegt hvaða grunnrannsóknir reynast stökkpallur fyrir hagnýtingu síðar meir. Lítið dæmi eru rannsóknir á frostþoli í skordýrum, sem síðar nýttust til að geyma líffæri fyrir ígræðslu. Ekki síður mikilvæg afurð grunnrannsókna er þjálfun fólks í að rannsaka og leysa vandamál.
Með því að styðja við samkeppnissjóði og rannsóknarháskóla græðir Ísland á nokkra vegu:
- Vísindamenn okkar geta uppgötvað nýjar staðreyndir eða lögmál, sem skipta okkur og umheiminn máli. Dæmi um þekkingu af þessu tagi má nefna nýlegar rannsóknir á eldgosum, krabbameinum og lífríki hafsins.
- Útskrifaðir nemendur með vísindalegan skilning og þjálfun geta tileinkað sér nýjustu framfarir í heimi vísinda og tækni. Slíkt fólk er forsenda þess að við getum hagnýtt erlenda þekkingu, heimfært hana upp á íslenskar aðstæður og jafnvel betrumbætt.
- Rannsóknarnám þjálfar nýja kynslóð vísindamanna sem getur tekist á við áskoranir framtíðar. Þær áskoranir eru margar ófyrirsjáanlegar og því nauðsynlegt að þjálfa fólk í vísindalegum vinnubrögðum, sem er aðferð til að takast á við opnar spurningar.
- Í rannsóknarháskólum kenna hæfustu einstaklingar landsins á hverju fræðasviði, sem hafa jafnan lært við bestu háskóla erlendis. Íslenskir nemendur kynnast bæði óleystum vandamálum og nýjustu aðferðum, sem eru kveikjan að nýjum lausnum og mögulega fyrirtækjum.
Í fjárlagafrumvarpi sem nú liggur fyrir Alþingi er fyrirhugaður margs konar niðurskurður í rannsóknum og nýsköpun, sérstaklega á samkeppnissjóðum um tugi prósenta milli ára.
Áframhaldandi niðurskurður er áætlaður næstu árin. Jafnvel alvarlegra er þó að þrátt fyrir að Íslendingar verji tiltölulega háu hlutfalli landsframleiðslu í rannsóknir (2,6%), þá setjum við einungis 14% þess í samkeppnissjóði. Til samanburðar fara 30 40% rannsóknarpeninga norrænna skattborgara í samkeppnissjóði. Til að bæta gráu ofan á svart hefur hlutfallslegt framlag okkar til rannsókna lækkað um 8% frá 2009 öfugt t.d. við Finna sem juku fjármagn til rannsókna og nýsköpunar í kreppunni fyrir aldamót. Finnar vissu að samkeppnissjóðir eru besta leiðin til að fjárfesta í rannsóknum og nýsköpun, líka á erfiðum tímum.
Íslensk vísindi og nýsköpun geta bætt efnahag og þjóðfélag landsins ef við berum gæfu til að verja (og stækka sem fyrst) samkeppnissjóðina og styðja við rannsóknarháskólana.
Pétur H. Petersen taugalíffræðingur og Arnar Pálsson erfðafræðingur, dósentar við HÍ
Greinin birtist í Fréttablaðinu 18. desember 2013 og á vefnum vísir.is - Öflugir samkeppnissjóðir eru nauðsynlegir fyrir nýsköpun
Ítarefni og skyldir pistlar
RÚV 5. des. 2013 Deila um framlög til rannsóknarsjóða
RÚV 5. des. 2013 Mótmæltu niðurskurði til vísindaVisir.is 5. des. 2013 Mótmæltu niðurskurði með spurningamerkjum
MBL.is 5. des. 2013 570 milljóna niðurskurður í lok árs
MBL.is 5. des. 2013 Pereat ungra vísindamanna
MBL.is 5. des. 2013 Ný stefna Vísinda- og tækniráðs gagnslaus
Lífvísindasetur HÍ Það er verið að gera grín að vísindamönnum
147 vísindamenn Til varnar rannsóknarsjóðum
Hans Guttormur Þormar Aðför að nýsköpun og hagvexti
Eiríkur Steingrímsson og Magnús K. Magnússon Háskólarannsóknir á tímum kreppu (2) Fjármögnun vísindarannsókna
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 09:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.12.2013 | 16:48
Hvað annað var sagt á fundinum?
Jón Gnarr er "klárlega snillingur" sem orðbragð er af. Hann er frábær listamaður og leikari mikill, þroskaheftur að eigin sögn en vel þroskaður grínisti, sem slær á mannlegar og djúpar nótur.
Fyrir mér er það samt örlítið vandamál (alls ekki persónulegt!!!!) að hann (sem og aðrir) getur tekið athyglina frá atriðum sem skipta þjóðfélagið rosalega miklu máli. Ég er þroskaheftur sagði Jón Gnarr, er sem sagt aðal fyrirsögnin af fundi um niðurstöður PISA könnunarinnar hérlendis.
Þær niðurstöður eru grafalvarlegar og boða ekki gott fyrir framtíð íslensks samfélags. Við þurfum að komast að því hvaða ástæður eru fyrir niðurstöðunni, og reyna að spyrna á móti. Við þurfum að breyta okkar hegðan, skólakerfinu og búa til jákvæðara og framsæknara þjóðfélag. Þar sem börn hafa gaman að námi, læra sér til gagns og gleði, og bæta samfélagið með viðhorfum sínum, hugmyndum, sköpunar- og framkvæmdakrafti.
Ég veit ekki hvaða þættir orsaka dapra útkomu í PISA könnuninni. Mig grunar að ein ástæðan sé (án þess að hafa gögn fyrir því) að offramboð á skemmtan og léttúð hafi rýrt gildi menntunar í augum barna og foreldra.
Ef svo er þá væri dæmigert að umfjöllun vinsælasta fréttavefs landsins af þessum fundi skuli einblína á skoplegar athugasemdir grínistans sem við kusum sem borgarstjóra. Og að hugmyndir eða greiningar á PISA niðurstöðunum skuli ekki einu sinni rata inn í fréttina. Ekki síður kaldhæðnislegt er að kvart menntamannsins skuli birtast á bloggi, en ekki í lesendablaði til Ísafoldar eða Kímblaðsins.
Viðauki 18. des.
Athugasemdum mínum er aðallega beint til fjölmiðilsins, og vitanlega okkar sem hvetjum þá áfram á sirkusbrautinni með því að opna og lesa "fréttir" með krassandi titla og lítið innihald.
![]() |
Ég er þroskaheftur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vísindi og fræði | Breytt 18.12.2013 kl. 09:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
17.12.2013 | 11:50
Gott skref í rétta átt
16.12.2013 | 11:07
Landinn fjallar um sumarexem í hestum
Nýjustu færslur
- Eru virkilega til hættuleg afbrigði veirunnar sem veldur COVI...
- Grunnrannsóknir eina aðferðin til að skapa nýja þekkingu og e...
- Lífvísindasetur skorar á stjórnvöld að efla hlut Rannsóknasjó...
- Eru bleikjuafbrigði í Þingvallavatni að þróast í nýjar tegundir?
- Hröð þróun við rætur himnaríkis
- Leyndardómur Rauðahafsins
- Loftslagsbreytingar og leiðtogar: Ferðasaga frá Suðurskautsla...
- Genatjáning í snemmþroskun og erfðabreytileiki bleikjuafbrig...
- Fjöldi og dreifing dílaskarfa á Íslandi
- Staða þekkingar á fiskeldi í sjó