6.11.2013 | 15:32
Ritstjórinn um útlönd og atgervisflóttan
Hvaða gildi hefur menntun og þekking fyrir lítið samfélag? Íslendingar voru lengi vel sjálfum sér nægir um flest, nema kannski smíðavið. En í nútímanum byggir allt á viðskiptum og sérhæfingu. Ísland er fyrir löngu orðið að útflutnings og innflutningsþjóð, með því hagræði og verðmætasköpun sem því fylgir.
En hvað með þekkingu, erum við sjálfum okkur nóg um þekkingu um þau mál sem skipta Ísland máli? Nei aldelis ekki, við flytjum inn þekkingu og tækni í stórum stíl. Eitthvað flytjum við út af vörum og lausnum, sem útlendingar kaupa af okkur. Einnig er stór hluti afraksturs íslenskra vísindamanna aðgengilegur fræðasamfélagi heimsins. Og íslenskir vísindamenn byggja á niðurstöðum erlendra vísidnamanna.
En nú kreppir skóinn að vísindastarfi hérlendis, því að í fjárlagafrumvarpinu er margþættur niðurskurður á rannsóknasjóðum (sjá tengla neðst).
Þetta hefur alvarlegar afleiðingar, m.a. þær að nemendur flosna upp úr námi, verkefni stöðvast og Ísland missir menntað og viljugt fólk.
Ólafur Stephensen ritstjóri Fréttablaðsins talar um þetta í leiðara dagsins (6. nóvember 2013). Hann fjallar sérstaklega um þjálfun lækna, sem margir hverjir sækja sér sérfræðimenntun erlendis (og eru eða hafa verið á námslánum). Það að skulda viðkomandi til að borga lánin til baka með markaðsvöxtum, er ekki beinlínis hvatning fyrir fólk að koma heim (enda hét grein hans, Veriði bara í útlöndum).
Ólafur fjallar líka um vandamál fræðimanna og vísindafólks, sérstaklega yngri kynslóðarinnar.
Sama má segja um fólkið sem hefur helgað sig rannsóknum í framhaldsnámi sínu (oft á styrkjum frá erlendum stofnunum, fremur en á íslenzkum námslánum) og hefur hug á að snúa aftur til Íslands og nýta þekkinguna í þágu íslenzks atvinnulífs eða velferðarþjónustu. Staðan hér á landi er sú að vísindarannsóknir eru fjársveltar, nánast sama hvaða alþjóðlegur samanburður er notaður. Þar að auki er hlutfall samkeppnissjóða, þar sem vísindamenn keppa um styrki á grundvelli gæða rannsóknanna, miklu lægra en víðast hvar í nágrannalöndunum. Alltof stórum hluta opinbers rannsóknarfjár er úthlutað pólitískt, út frá hagsmunum hefðbundinna atvinnugreina, byggðarlaga og stofnana.
Hans Guttormur Þormar, vísinda- og uppfinningamaður, skrifaði grein á Vísi í gær, þar sem hann bendir á að ungir vísindamenn sem standi framarlega á alþjóðavettvangi viti að tvö til þrjú ár án nauðsynlegrar fjármögnunar rannsókna þeirra muni eyðileggja framtíð þeirra sem framsækinna vísindamanna, því að samkeppnin sé óendanlega hörð í heimi vísindanna. Þessir einstaklingar hafa margir hverjir því aðeins um tvennt að velja, fara úr landi eða hætta í vísindum og standa ekki framar að uppbyggingu vísinda- og tækniþróunar á Íslandi, skrifar Hans.
Með því að reka óbreytta stefnu hér á landi er í rauninni verið að segja við þetta fólk: Menntið ykkur í útlöndum og veriði svo bara þar. Íslenzkt samfélag þarf ekki á ykkur að halda.
Ég tek undir með Ólafi. Og íslenskt þjóðfélag þarf að taka afstöðu til þess hvaða stefnu skal taka. Viljum við samfélag sem viðurkennir gildi menntunar og þekkingar, eða viljum við ýta frá okkur vel þjálfuðu og duglegu fólk með meingallaðari forgangsröðun?.
Ítarefni:
147 vísindamenn Til varnar rannsóknarsjóðum
Hans Guttormur Þormar Aðför að nýsköpun og hagvexti
Stefna Vísinda- og tækniráðs 2010-2012
Erna Magnúsdóttir ofl. Gildi grunnrannsókna fyrir íslenskt samfélag
Apalsson Lítil von um hagvöxt, ef rannsóknum er fórnað
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 15:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.11.2013 | 16:48
Lítil von um hagvöxt, ef rannsóknum er fórnað
Í gær var umræða á Alþingi um fjármögnun samkeppnisjóða. Í fyrirliggjandi fjárlagafrumvarpi er fyrirhugaður um mikill niðurskurður á framlögum til samkeppnisjóðanna, og einnig annarskonar skerðing á nýsköpunarumhverfinu.
Styrkir eru veittir úr sjóðunum til 3 ára í senn, á grundvelli gæða verkefna.
Skerðingin þýðir:
100% lækkun á rannsóknanámssjóði. Hann var lagður niður og átti að sameinast rannsóknasjóði. Rannsóknanámsjóður fékk 95 millj. kr. í fyrra.50% lækkun á Markáætlun á sviði vísinda og tækni (um 200 millj. kr. - sem þýðir í raun enga nýja styrki, því sjóðurinn fær rétt nóg fyrir skuldbindingum frá fyrri árum).
22% lækkun á Tækniþróunarsjóði, um 283 millj. kr.
14% lækkun á rannsóknasjóði um 170 millj. kr. Ef miðað er við að rannsóknanámssjóður var sameinaður rannsóknasjóði eru áhrifin meiri, 19% og samanlagður niðurskurður 265 milljónir. Áhrifin eru einnig meiri en prósenturnar segja, því 2/3 sjóðsins er bundinn í skuldbindingar fyrri ára. Skerðing á heildarfjárhæð til nýrra styrkja verður því uþb 40%*.
Að auki liggur fyrir skerðing á skattaafslætti fyrir nýsköpunarfyrirtæki, um 25% sem á að færa 300 milljónir í ríkiskassann.
Lækkun á einum sjóði eða fjárlagspósti er kannski skiljanleg. En lækkun um tugi prósenta á flestum þáttum vísinda og nýsköpunarumhverfisins hérlendis er ekki verjanleg.
Umræða á alþingi um samkeppnissjóði
Svandís Svavarsdóttir hóf umræðuna og vildi útskýringar á fyrirhuguðum niðurskurði.
Í umræðunni svaraði Illugi Gunnarson fyrir hönd ríkistjórnarinnar, og sagði m.a.
Á undanförnum árum hefur framlagið til þessa sjóðs hlaupið frá 815 millj. kr. árið 2009, 2012 í 782, 2013 í 1.305 og verður nú 1.135 verði þetta frumvarp að lögum. Það er allur niðurskurðurinn.
Svarið við þessu má finna hér að ofan. Upptalningin hundsar stöðunun á sjóðnum frá 2009, og verðgildisrýrnunina frá 2005. Menntamálaráðherra sleppir því að ræða skerðingu á tækniþróunarsjóði, rannsóknanámssjóði, markáætlun og skattafslætti fyrir nýsköpunarfyrirtæki til nýsköpunar- og þróunarverkefna. Hér er ekki lækkun á einum sjóði, heldur kerfisbundin aðgerð.
Illugi sagði einnig:
Vísinda- og tækniráð ítrekar mikilvægi þess, og það hefur komið fram, að íslenskir vísindamenn sæki um í alþjóðlega samkeppnissjóði og byggi þannig upp alþjóðlega rannsóknarhópa.
Það er ekki hægt að sækja í alþjóðlega samkeppnisjóði þegar litlir eða fáir styrkir eru í boði hérlendis. Fjölmörg dæmi eru um að innlendir styrkir, helst stórir öndvegisstyrkir eða úr markáætlun, hafi verið lykilinn að því að íslenskir vísindamenn gátu sótt í alþjóðlega sjóði. Íslenskir styrkir eru forsenda þess að fá erlenda styrki. Maður stekkur ekki til himins úr djúpri gryfju.
Ráðherra virðist samt átta sig á heildarmyndinni:
Í dag er hlutfall samkeppnissjóða af framlagi til hins opinbera vísindastarfs um 15% og má segja að það sé frekar lágt. Í nágrannalöndum okkar er hlutfallið oft á bilinu 30-40%. Mikilvægt er að þegar fram í sækir muni þetta hlutfall hækka án þess að hægt sé að svara því nákvæmlega hvert það á að vera.
Hér er ég algerlega sammála ráðherra. Hann bendir á veigamesta vandamálið og hversu mikilvægt er að finna leið til að bæta úr. Aðrir sem tóku þátt í umræðunni töluðu á þessum nótum, og því ætti því að vera möguleiki á pólitískri lausn. Eins og Óttarr Proppe sagði, "[þ]að skiptir máli að við hugsum til framtíðar, að við tökum ekki ákvarðanir út frá því hvaðan hugmyndin kemur heldur hver hún er."
Ef ríkistjórnin ákveður að skerða ríkisframlög um flatt um 2% þá er lítið við því að segja. En mér finnst of mikið að skerða vísinda og nýsköpunarstarfið um tugi prósenta. Sérstaklega vegna þess að allir eru sammála um að rannsóknir í vísindum og tækni eru grunnforsenda hagvaxtar.
Ítarefni:
147 vísindamenn Til varnar rannsóknarsjóðum
Hans Guttormur Þormar Aðför að nýsköpun og hagvexti
Stefna Vísinda- og tækniráðs 2010-2012
Erna Magnúsdóttir ofl. Gildi grunnrannsókna fyrir íslenskt samfélag
Kristján Leósson eðlisfræðingur við Háskóla Íslands Vísindarannsóknir og fjárfestingar
Kristín Ingólfsdóttir rektor Háskóla Íslands Borðum ekki útsæðið
15. fundur 143. löggjafaþings. Sérstök umræða. Framtíð rannsóknarsjóða og nýsköpunar.
Fjallað var um málið í fréttum Rúv og stöðvar tvö 4. nóvember.Hádegisfréttir RÚV: Óttast að 40 ársverk tapist
Kvöldfréttir RÚV: Óttast að stjórnvöld standi við niðurskurð
Viðtal við Magnús Karl Magnússon í Speglinum
Sjónvarpsfréttir Stövar 2: Vísindamenn fjölmenntu á þingpalla
Sjónvarpsfréttir RÚV: Vísindamenn mótmæla niðurskurði
Morgunblaðið hefur ekki sagt neitt frá þessu máli og ekki heldur Eyjan (eftir því sem ég kemst næst).
* Talan veltur á heildarupphæð skuldbindinga fyrri ára og stærð styrkja sem veittir verða. Heildarstyrkir hafa verið 7.5 milljón krónur á ári, en miðað við 9. milljónir hámark í síðustu auglýsingu Rannís.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 16:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
5.11.2013 | 13:13
Aðför að nýsköpun og hagvexti
4.11.2013 | 17:13
Vísindamenn fylla þingpalla Alþingis
Nýjustu færslur
- Eru virkilega til hættuleg afbrigði veirunnar sem veldur COVI...
- Grunnrannsóknir eina aðferðin til að skapa nýja þekkingu og e...
- Lífvísindasetur skorar á stjórnvöld að efla hlut Rannsóknasjó...
- Eru bleikjuafbrigði í Þingvallavatni að þróast í nýjar tegundir?
- Hröð þróun við rætur himnaríkis
- Leyndardómur Rauðahafsins
- Loftslagsbreytingar og leiðtogar: Ferðasaga frá Suðurskautsla...
- Genatjáning í snemmþroskun og erfðabreytileiki bleikjuafbrig...
- Fjöldi og dreifing dílaskarfa á Íslandi
- Staða þekkingar á fiskeldi í sjó