Leita í fréttum mbl.is

Vísindamenn fylla þingpalla Alþingis

Vísindamenn eru andsnúnir skerðingu á rannsóknasjóðum, sem fyrirhuguð er í fjármálafrumvarpinu.

Í fyrra var fyrsta aukning á framlögum til rannsóknasjóðanna í fjölda ára, og var upphæðin svipuð miðað við krónutölu og árið 2005.

Menntamálaráðherra lagði til skerðingu upp á fleiri hundruð milljónir í drögum að fjárlagafrumvarpi sem dreift var í október.

Þar sem flest verkefni eru styrkt til þriggja ára, myndi skerðingin þýða að mjög fá verkefni fái brautargengi á næsta ári. Það yrði kuldakast í vísindageiranum, og líklegt að nemendur hætti. Og samkeppnishæfni íslenskra vísindamanna mun skaddast, ef þeir þurfa að liggja í saltpækli í heilt ár.

Samkeppnissjóðirnir voru til umræðu á Alþingi nú síðdegis, og var fjallað um málið á vef ríkisútvarpsins (Vísindamenn fylla palla alþingis). Þar sagði.

Vísindamenn fylla nú þingpalla í Alþingishúsinu á meðan fram fer sérstök umræða um framtíð rannsóknasjóða og nýsköpunar.

Svandís Svavarsdóttir er málshefjandi og hún sagði að örvænting hefði nú gripið um sig innan raða vísindafólks, þar vanti von og bjartsýni, og engin merki séu hjá stjórnvöldum um að bæta þá stöðu. Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra er til andsvara og hann segir grunnrannsóknir og nýsköpun skipta sköpum og beri að efla. Tekjuforsendur fjárlaga verði þó að hafa til hliðsjónar þegar sú framtíð sé rædd. Umræðan stendur enn.

Illugi sagði í umræðunni m.a. að íslenskir vísindamenn ættu að sækja um peninga erlendis. Sannarlega er hægt að komast í stóra styrki erlendis.

En til að eiga möguleika í þá styrki þarf vísindalega virkni og innlendan stuðning við ákveðin verkefni. Hvorutveggja byggir á úthlutum á innlendum styrkjum. Með öðrum orðum, viðkomandi þarf styrki frá Rannís til að geta sótt um erlendis.

Illugi segir sem sagt að íslenskir vísindamenn eigi að sækja um erlenda styrki, en hann lokar inni verkfærin sem nýtist okkur til að sækja um þá. Það er annað hvort kjánalegt eða hreinn fantaskapur.

Einnig var fjallað um málið í hádegisfréttum RÚV - 160 vísinda og fræðimenn mótmæla.


Til varnar rannsóknarsjóðum

Berist fjárlaganefnd Alþingis
Athugasemd vegna fjárlagafrumvarps 2014 varðandi niðurskurð til samkeppnissjóða RANNÍS.
Ágætu nefndarmenn,
Við undirrituð lýsum yfir áhyggjum af þeim niðurskurði á fjárlögum til vísindastarfs í landinu sem nú er yfirvofandi. Við teljum það alvarleg mistök að draga svo mjög úr framlögum til RANNÍS eins og gert er með núverandi fjárlagafrumvarpi.


Um 30% niðurskurður fyrirhugaður á nýjum styrkveitingum
Af gögnum á heimasíðu RANNÍS (http://rannis.is) má sjá að með óbreyttu frumvarpi munu nýjar styrkveitingar dragast saman um u.þ.b. 30% að heildarupphæð á milli ára. Þá er ekki tekið tillit til þess að nú voru þeir styrkir sem áður féllu sérstaklega undir Rannsóknanámssjóð auglýstir með úthlutun úr Rannsóknasjóði í huga. Sé það reiknað með er samdrátturinn enn meiri. Niðurskurður á nýveitingum rannsóknastyrkja bitnar sérstaklega hart á ungum vísindamönnum.


30-40 ársverk ungra vísindamanna munu tapast við þennan niðurskurð
Miðað við að áfram fari um 80% af úthlutunum RANNÍS í launagreiðslur liggur fyrir að a.m.k. 30-40 störf muni tapast úr íslensku vísindasamfélagi á næsta ári. Við höfum sérstakar áhyggjur af þessum samdrætti í nýveitingum styrkja þar sem hann mun hafa veruleg áhrif á unga vísindamenn í landinu. Atvinnuöryggi ungra vísindamanna er nú þegar mjög ótryggt og úthlutanir úr sjóðum RANNÍS er helsta leið ungra vísindamanna til framfærslu fyrstu 10-15 árin eftir að grunnháskólanámi lýkur.


Niðurskurður til RANNÍS þýðir niðurskurð á bestu rannsóknunum
RANNÍS hefur yfir að ráða öflugustu og mikilvægustu samkeppnissjóðum landsins. Öflugustu vísindamenn landsins keppa sín á milli um úthlutanir og verkefni eru aðeins styrkt standist þau og aðstandendur þeirra ströngustu alþjóðlegar gæðakröfur. Stuðningur úr samkeppnissjóðum er því besta leiðin til að stuðla að rannsóknum á heimsmælikvarða. Í ljósi þeirra miklu fjármuna sem er veitt til rannsókna og þróunar á Íslandi með öðrum hætti en gegnum samkeppnissjóði er það óskiljanleg ákvörðun að skerða mikilvægasta samkeppnissjóð landsins á sviði vísinda.


Margföldunaráhrif verða af tapi á mannauði
Tekið getur áratugi að byggja aftur upp það sem nú á að skera niður. Það er háalvarlegt mál að vísindasamfélagið verði fyrir slíkum skakkaföllum nú eftir viðvarandi niðurskurð undanfarins áratugar, enda hefur lengi legið fyrir að vísindakerfið á Íslandi hefur verið undirfjármagnað. Ekki verður staðar numið í uppbyggingu vísindastarfs tímabundið til að halda áfram þar sem frá var horfið nokkrum árum síðar. Fyrir hvert ár með skertu fjármagni verður margra ára afturför í vísindastarfi, m.a. vegna taps á mannauði úr samfélaginu.


Raunlækkun styrkja verður enn meiri en 30%
Hækkun sú er varð á framlögum úr ríkissjóði til RANNÍS á síðasta ári var leiðrétting á þeirri skerðingu sem sjóðirnir hafa orðið fyrir gagnvart launavísitölu. Eins og kemur fram að ofan rennur um 80% af úthlutunum úr Rannsóknarsjóði í laun. Miðað við launavísitöluþróun undanfarinna 10 ára, að viðbættum hækkunum á tryggingagjaldi, mun raunskerðing á fjárframlögum úr RANNÍS nema fimm prósentustigum árlega umfram ofangreindan niðurskurð.
Árið 2016 verða því nýjar úthlutanir komnar niður í um 60% af því sem þær voru árið 2005, og þó hefur alltaf staðið til að efla samkeppnissjóðina.


Niðurskurðurinn gengur þvert á stefnumótun Vísinda og tækniráðs
Þetta gengur þvert á stefnu Vísinda og tækniráðs, sem hefur gert ráð fyrir eflingu samkeppnissjóða á Íslandi með það að markmiði að fjármögnun rannsóknaháskóla úr samkeppnissjóðum nái sama hlutfalli og að meðaltali í OECD árið 2016. Til þess að það takist þarf að verða 4-7 földun á framlögum úr sjóðunum næstu 2-7 ár í stað þess niðurskurðar sem nú er boðaður. Nánar má lesa um þetta í skýrslu Forsætisráðuneytisins frá desember 2012, „Ný sýn - Breytingar á vísinda- og nýsköpunarkerfinu“.
Við viljum að lokum árétta að fjárfesting í grunnrannsóknum er forsenda hagvaxtar vestrænna þjóða, þar sem þekkingarsköpun styður við verðmætasköpun sem byggir á hugviti. Keðjuverkandi áhrif af niðurskurði í samkeppnissjóði geta því orðið mikil.

147 vísindamenn skrifa undir þessa athugasemd.

Vísindamenn skora á fjárlaganefnd að endurskoða fjárlög fyrir samkeppnissjóði Rannís


Fjöldauppsagnir á vísindamönnum

Í fjárlagafrumvarpi sem nú liggur fyrir Alþingi er fyrirhuguð skerðing á sjóðum sem styrkja rannsóknir hérlendis. Skerðingin er nokkur hundruð milljónir, í rannsóknasjóði, tækniþróunarsjóði og markáætlun Rannís, auk þess að rannsóknanámsjóður er lagður...

Grein um viku opins aðgangs

Nýliðin er vika opins aðgangs. Af því tilefni birtist grein eftir Hrafn H. Malmquist, Guðmund Á. Þórisson og Ian Watson á visir.is. Þar segir m.a. Vikan 21.-27. október er árleg vika opins aðgangs. Opinn aðgangur merkir að útgefið efni sem er afrakstur...

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband