20.2.2018 | 13:20
Þorskur í þúsund ár
Guðbjörg Ásta Ólafsdóttir líffræðingur og forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Vestfjörðum heldur erindi undir heitinu Þorskur í þúsund ár: vistfræði sjávar byggð á fornum þorskbeinum.
26. febrúar kl. 17:15, stofu 132 í Öskju, húsi náttúruvísinda við Háskóla Íslands.
Ágrip af erindi:
Við fornleifauppgröft á fornum íslenskum verstöðvum hefur fundist mikið magn fiskibeina, aðallega þorskbein. Í mörgum tilfellum eru elstu mannvistarlög verstöðvanna aldursgreind til fyrstu alda eftir landnám. Á síðustu fimm árum hafa sérfræðingar við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Vestfjörðum, í samstarfi við fjölda annarra vísindamanna, stundað þverfræðilegar rannsóknir á þessum beinum og öðrum fornleifafræðilegum efnivið frá verstöðvunum. Markmið rannsóknanna er að kortleggja breytileika í þorskstofninum og reyna að meta hvort loftslagsbreytingar og/eða veiðiálag hafi hvatað mögulegar breytingar á þorskinum á sögulegum tíma. Líffræðilegar rannsóknir á fornleifafræðilegum efnivið gefa ómetanleg tækifæri til að skilja breytingar á vistkerfi sjávar og fiskistofnum í kjölfar umhverfisbreytinga og aukinnar nýtingar fiskistofna. Þannig má kortleggja náttúrulegt, eða ósnert, vistkerfi sjávar sem er grunnur þess að meta umhverfisáhrif í nútíma.
Í þessum fyrirlestri mun Guðbjörg Ásta Ólafsdóttir draga saman þær vistfræðilegu niðurstöður sem þegar liggja fyrir úr verkefninu, t.d. greiningar á erfðasamsetningu, metla á fæðuvist með stöðugum efnasamsætum og rannsóknir á þorskkvörnum til að meta aldur, vöxt og tíðni vistgerða, þ.e. far- og staðbundinna þorska. Niðurstöðurnar benda til þess að breytingar hafi orðið á vistfræðilegum þáttum þorskstofnsins á tveimur tímabilum, annarsvegar á litlu ísöld, en það var líka tímabil mikillar aukningar í veiðiálagi, og í nútíma. Að lokum mun Guðbjörg Ásta setja niðurstöður um fornvistfræði þorsksins í samhengi við þorskveiðar Íslendinga, þróun verstöðva og upphaf fiskveiðisamfélagsins.
Dr. Guðbjörg Ásta Ólafsdóttir er líffræðingur og forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Vestfjörðum. Guðbjörg Ásta lauk PhD námi frá Háskólanum í St Andrews í Skotlandi árið 2005 og hefur síðan stundað rannsóknir á tilurð og viðhaldi líffræðilegs fjölbreytileika. Á síðustu árum hafa rannsóknir Guðbjargar Ástu í auknum mæli beinst að kortlagningu og áhrifum á líffræðilegan breytileika nytjastofna sjávar; í því augnamiði að auka þekkingu til viðhalds og verndunar stofnanna.
Sjá nánar á vef HÍN (http://www.hin.is/)
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 14:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.2.2018 | 11:30
Áhrif foreldra á afkvæmi með genum og umhverfi
Enn lifir sú meinloka að erfðir og umhverfi hafi aðskilin áhrif á eiginleika fólk og annarra lífvera. Gen hafa áhrif á svipfar okkar, en áhrifin eru háð umhverfinu sem við þroskumst og lifum í. Eins hafa umhverfisþættir ólík áhrif á fólk, eftir því hvaða erfðasamsetningu það hefur.
En hvers vegna lifir þessi tvíhyggja, um erfðir eða umhverfi? Ein ástæða er löngun mannshugans til að flokka og aðgreina hluti. Hún veldur því að við sjáum ekki veruleikann, samofna flókna heild sem til dæmis mótar eiginleika lífvera.
Erfðafræðingar hafa vitað frá þriðja áratugi síðustu aldar að áhrif gena velta á umhverfi. Við höfum einnig vitað að framlag erfða og umhverfis er mjög misjafnt eftir eiginleikum. Þetta framlag er metið með stærð sem kallast arfgengi (e. heritability). Mat á arfgengi er gert fyrir hóp lífvera, t.d. íslendinga eða ávaxtaflugur í Kansas. Matið byggir á því að heildarbreytileiki eiginleika í stofni er mætldu og svo er kannað hversu stórt framlag erfðaþáttsins er, sem hlutfall af heild. Arfgengi hleypur frá 0 og upp í 1. Sumir þættir, t.d. fingraför og vænglögun, eru með hátt arfgengi (0,7-0,9), en aðrir eiginleikar eins og frjósemi með næstum ekkert (0,01). Aðrir þættir sem útskýra breytileika í stofni eru umhverfi og tilviljun.
Arfgengi metur heildarframlag gena til einhvers eiginleika í tilteknum stofni, við þær umhverfisaðstæður sem stofninn lifir við. Ef við gætum metið arfgengi hæðar Íslendinga á sturlungaöld, þá er ólíklegt að það sé það sama og í nútímanum. Afleiðingin er sú að genin sem höfðu áhrif á hæð á sturlungaöld eru ekki endilega þau sömu og hafa áhrif á hæð í dag.
Við fáum fleira en gen frá foreldrum okkar. Foreldraáhrif hafa líka verið þekkt í meira en hálfa öld. Þau birtast þannig að foreldrar skaffa afkvæmum eitthvað til vaxtar, þroska og viðgangs. Augljósust eru móðuráhrif, t.d. með forða sem lagður er í egg eða næringu sem flyst um fylgju. Mæður leggja einnig í eggin efni sem nýtast fóstrum í þroska. Hjá mörgum dýrategundum er umönnun nauðsynleg til að ungviði komist á legg og standi sig vel í lífinu. Vitanlega mótast ólíkar gerðir foreldraáhrifa af tilstuðlan og samspili gena og umhverfis.
Kveikjan að pistlinu var ritstjórnargrein eftir Kjartan Hreinn Njálsson í Fréttablaði dagsins Erfðauppeldi
12.2.2018 | 09:15
Notkun erfðaupplýsinga í krabbameinsmeðferð
7.2.2018 | 10:06
Jane Goodall í Bíó paradís
Nýjustu færslur
- Eru virkilega til hættuleg afbrigði veirunnar sem veldur COVI...
- Grunnrannsóknir eina aðferðin til að skapa nýja þekkingu og e...
- Lífvísindasetur skorar á stjórnvöld að efla hlut Rannsóknasjó...
- Eru bleikjuafbrigði í Þingvallavatni að þróast í nýjar tegundir?
- Hröð þróun við rætur himnaríkis
- Leyndardómur Rauðahafsins
- Loftslagsbreytingar og leiðtogar: Ferðasaga frá Suðurskautsla...
- Genatjáning í snemmþroskun og erfðabreytileiki bleikjuafbrig...
- Fjöldi og dreifing dílaskarfa á Íslandi
- Staða þekkingar á fiskeldi í sjó