Leita í fréttum mbl.is

Smáskammtalækningar eru ekki studdar af vísindum

Í forneskju var ýmislegt reynt til að bjarga fólki frá sóttum eða lækna þeirra mein.

Til dæmis reyndu forfeður okkar margskonar meðferð til að slá á sýkingar, og ályktuðu að sumar þeirra virkuðu. Vandamálið var að sumar meðferðirnar virkuðu í raun, en aðrar ekki. Þær virtust bara virka vegna þess að það sem fer upp, mun koma aftur niður. Þetta er best útskýrt með dæmi.

Barn fékk hitasótt. Töfralæknirinn slátraði hænu, dansaði gólandi í kringum tjaldið og ákallaði heiðna anda, Guð eða tótem ættbálksins. Barninu rénaði* sóttin, og töfralæknirinn eignaði sér heiðurinn (og fékk að halda hænunni).

Hitinn fór upp og hitinn fór niður. Þetta þekkja tölfræðingar sem "Aðhvarf að meðaltali" eða "regression towards the mean". Töfralæknirinn og fornmennirnir okkar oftúlkuðu atburðina og héldu að sirkus töfralæknisins hefði læknað barnið. Þetta stef er alltaf að endurtaka sig, nú stíga töfralæknarnir (græðararnir) aðra dansa sem auðveldara er að trúa (setja heita steina, stinga nálum í orkupunkta, greina lithimnur o.s.frv.).

Leiðin til að greina á milli töfralækninga (óhefðbundinna lækninga) og raunverulegra lækninga er aðferð vísinda. Hún byggist á vandlegum tilraunum, þar sem bornar eru saman besta viðurkennda aðferð, og ný óreynd aðferð sem ástæða er til að halda að gæti gagnast.

Þannig fundu læknar og aðrir vísindamenn út að sýklalyf berja niður sýkingar, hvernig best er að framkvæma skurðaðgerðir og hvernig (sólar)ljós brýtur niður þvagefni þegar börn fá gulu.

Nú liggur fyrir alþingi tillaga til þingsályktunar um að kanna hvort 

Fyrir alþingi liggur þingsályktunartillaga um heildrænar meðferðir og græðara (141. löggjafarþing 2012–2013. Þingskjal 566  —  452. mál.):

Alþingi ályktar að fela velferðarráðherra að skipa starfshóp sem kanni hvort niðurgreiða skuli heildrænar meðferðir græðara til jafns við aðra heilbrigðisþjónustu og/eða undanþiggja þær greiðslu virðisaukaskatts.

Visindamenn hafa gagnrýnt þetta harkalega, m.a. með þeirri röksemd að flest af því sem fellur undir heildræna meðferð sé í raun töfralækningar eða afsannaðar tilgátur. Í seinni flokknum eru smáskammta"lækningar" - homopatía. Fjölmargir hafa tekið þessi gervifræði fyrir, sjá t.d. Högun tilrauna og smáskammta"lækningar" og grein í The Guardian (Ben Goldacre A kind of magic? 16. nov 2012) og ágætt yfirlit á Vantrú (2006).

Gunnlaugur Sigurðsson, lektor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands, kemur homopatíunni til varnar í grein í Fréttablaðinu 10. desember. Þar segir hann:

Læknirinn kallar hómópatíu „gervivísindi" án þess sýnilega að þekkja eða skeyta hið minnsta um þá skýru kenningu sem hómópatía byggir á, þá vísindalegu aðferðafræði sem notuð er við þróun lyfjakosts hennar eða þá nákvæmu greiningu á einkennum viðkomandi sem ráða vali á því lyfi (kallað „remedía") sem beitt er í hverju tilviki. 

En Gunnlaugur vísar ekki til neinna rannsókna, eða niðurstaðna sem styðja þá staðhæfingu að homopatía sé alvöru vísindi.

Magnús K. Magnússon læknir svarar Gunnlaugi á vísir.is (Af vísindalegri umfjöllun um verkan lyfja) 14. des. 2012.

En á hvaða fræðilega grunni byggir hómópatía? Það er raunar erfitt að setja þann grunn í rökrænt samhengi. Samkvæmt Organon, fagfélagi hómópata nota þeir „svokallaðar remedíur, örefni sem í stórum skömmtum myndu kalla fram hjá heilbrigðu fólki svipuð einkenni og þeim er ætlað að bæta. Þær eru unnar úr jurta-, dýra- og steinaríkinu og eru notaðar það mikið þynntar að ekki er talað um þær sem eiginlegt efni, heldur hvata."

Það þarf að gera meiri kröfu til orða en að þau hljómi vel, sérstaklega ef þeim er ætlað að skapa fræðilegan grunn. Gagnrýnin hugsun krefst gagnrýninna spurninga. Hvað eru remedíur? Þær eiga uppruna í náttúrunni líkt og fjölmörg lyf. Síðan eru þær þynntar út þangað til engin eða nær engin sameind er eftir í lausninni. Lausnin á síðan samkvæmt óútskýrðum hætti eða „minni vatnsins" að miðla áhrifum. Þessi orð hljóma því eins og töfrar. Fræði hómópata eru í vísindalegri mótsögn við þekkingu okkar í efnafræði, eðlisfræði og líffræði. Ef fræðigrunnur hómópata væri sannur og raunvísindin byggð á sandi, væri um algera umbyltingu að ræða. Kennihöfundar slíkra fræða ættu þá skilið Nóbelsverðlaun, og það fleiri en ein. Sú er enn ekki raunin. Það kemur því ekki á óvart að rannsóknir á hugsanlegri gagnsemi slíkra remedía til meðferðar hafa engum árangri skilað umfram það sem búast mætti við fyrir tilviljun. Þessu eru gerð góð skil í nýlegri skýrslu sem unnin var fyrir breska þingið (sjá: http://www.publications.parliament.uk/pa/cm200910/cmselect/cmsctech/45/45.pdf).

Samkvæmt öllum viðurkenndum skilgreiningum eru svokölluð fræði hómópata því ekki vísindi. Þau byggja ekki á tilraunum sem eiga stoð í raunheimum og það má því með sterkum rökum kalla þau gervivísindi, hjátrú eða ýmislegt annað. Þeir sem selja sjúklingum slíka vöru gera það á eigin ábyrgð, en í mínum huga kallast „remedía" ekkert annað en kötturinn í sekknum.

Textinn af yfirfarinn og leiðréttur (í hádeginu 17. des. 2012). Leiðréttingar voru smávægilegar en of margar til að tíunda.

*Í annari útgáfu stóð elnaði í stað rénaði. Það var skelfileg mistök af minni hálfu, ég hafði alveg misskilið orðið. Bestu þakkir Bjarni Gunnlaugur fyrir ábendinguna.


Máttur tómarúmsins togar þig inn

Ég stóð á hengiflugi. Upp þverhnípt bjargið blés ofsalegur vindur. Ef ég hallaði mér fram gat ég ekki dottið niður, þvílíkur var krafturinn.

Einstaka sinnum upplifum við augnablik þar sem öfl náttúrunnar gnæfa yfir okkur, og við finnum til smæðar, aðdáunar, gleði eða hræðslu. Mitt augnablik, lýst hér að ofan, var haustið 2010 þegar við vinnufélagarnar gengum upp á Esjuna vestan við Móskarðshnjúkana.

droppedimage_1_1184078.jpgSvipaða upplifun er hægt að fá af vel skrifaðri eðlisfræði. Þannig leið mér þegar ég las Sögu tímans eftir Stephan Hawking fyrst. Máttur tómarúmsins, higgseindin fundin (Higgs Discovery) eftir Lisu Randall fellur einnig í þennan flokk. Bókin lýsir meiriháttar uppgötvun í eðlisfræði, sem tilkynnt var 4. júlí 2012. Lisa Randall snaraði saman stuttri bók sem lýsir því hvernig Higgs eindin (eða eitthvað sem hegðar sér eins og higgs eind) var fundin.

Bókin er snaggarlega skrifuð og snýst að mestu um spurningar sem Lísa fékk frá fréttamönnum og almenningi í kjölfar þess að tilkynnt var um fund eindarinnar. Það, ágætur stíll höfundar, snyrtileg þýðing Baldurs Arnarsonar og inngangur Sveins Ólafssonar, tryggja að lykilatriðin komast til skila.

Maður fær að upplifa spennuna á tilraunastofunni, þegar ögurstundin nálgast. Tilraunin sem tók 10 ár í undirbúningi er að hefjast. Einnig því hvers eðlis gögnin eru sem ofurhraðallinn í CERN býr til, með því að dúndra saman eindum á gríðarlegum hraða.

Það er frekar sjaldgæft að gefnar séu út bækur um raunvísindi og náttúrufræði hérlendis. Í ár eru það bækurnar Tilviljun og nauðsyn eftir Jaques Monod (í þýðingu Guðmundar Eggertssonar, gefin út af HIB - sjá Tilviljun er nauðsyn) og  Upphafið, bók frá DK um upphaf og sögu lífsins á jörðinni sem JPV gefur út.

Því ber sérstaklega að fagna Mætti tómsins. Þeir sem vilja panta eintak geta fylgt slóð á vefsíðu Tifstjörnunar. Mynd er af sömu vefsíðu.


Að yngjast með aldrinum

Ríkisútvarpið birti nýlega frétt af dýri sem yngist í stað þess að eldast. Þar segir meðal annars. Turritopsis dohrnii er ljósum prýtt og gegnsætt sjávardýr, ekki ólíkt klukkulagaðri marglyttu, og heyrir til svokallaðra hydromedusa-sjávardýra, það er...

Græðarar í míní-pilsi á B5

Fyrir hinu háa alþingi liggur tillaga um þingsályktun sem hljómar svo: Alþingi ályktar að fela velferðarráðherra að skipa starfshóp sem kanni hvort niðurgreiða skuli heildrænar meðferðir græðara til jafns við aðra heilbrigðisþjónustu og/eða undanþiggja...

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband