Leita í fréttum mbl.is

Efasemdastöðin sefur aldrei

Umhverfisráðaneytið sýndi gott frumkvæði með því að skipuleggja ráðstefnu um erfðabreyttar lífverur, sem haldin var 15. maí síðastliðinn. Fenginn var meira að segja erlendur sérfræðingur, til að fjalla um reynslu Dana og regluverk þeirra. Aðrir fyrirlesarar voru meðal annars sérfræðingar frá Umhverfisstofnun, Umhverfisráðaneytinu og Háskóla Íslands og Akureyrar.

Fjallað var um eiginleika erfðabreyttra lífvera, regluverk og rannsóknir sem hafa metið áhættuna af slíkum lífverum á heilsu og umhverfi. Því miður komst ég ekki á fundinn, vegna annara starfa, en viðmælendur mínir sögðu umfjöllunina hafa verið vandaða og skýra.

Eiríkur Steingrímsson fjallaði um mögulegar hættur af erfðabreyttum lífverum á heilsu. Hann tók  sérstaklega fyrir vísindagreinar sem andstæðingar erfðabreyttra lífvera hafa haldið á lofti. Þeir halda að vísindarannsóknir þessar sanni að erfðabreyttar lífverur séu hættulegar heilsu fólks, en fara þar með staðlausa stafi. Þær rannsóknir sem um ræðir standast ekki gæðakröfur. Þær eru annað hvort illa skipulagðar (vantar t.d. viðmiðunarhóp), nota mælitækni á óviðeigandi hátt, oftúlka smávægileg eða óviðeigandi tilhneygingar í gögnunum. Því ályktar Eiríkur að erfðabreytt matvæli hafi engin áhrif á heilsu fólks (viðtal í 10 fréttum 15. maí 2012, byrjar um 7 mínútu).

Í umræðum eftir sem hófust að loknum fyrirlestrum fór hins vegar mikið fyrir andstæðingum erfðabreyttra lífvera, sem fannst þeirra rödd ekki hafa fengið að heyrast. Viðmælendur mínir segja að fum hafi komið á ráðherra umhverfismála, og hún hafi beðist afsökunar á því að rödd almennings hafi ekki fengið að heyrast (eftir því sem ég best veit, leiðréttið mig ef rangt er með farið)*. Grein eftir Svandísi (Leitin að samræðugeninu) birtist síðan í Fréttablaðinu 17. maí 2012. Þar segir m.a.

Þegar upp var staðið reyndumst við hafa skipulagt málþing, þar sem sérfræðingar og fulltrúar stjórnsýslu áttu sviðið - en sjónarmið almennings áttu ekki fulltrúa meðal frummælenda. Jafnframt reyndist á köflum of lítið gert úr afstöðu þeirra sem setja spurningarmerki við ýmsa þætti erfðabreyttrar ræktunar. Í kjölfarið hefur hluti umfjöllunarinnar verið gagnrýndur fyrir að umgangast andstæðar skoðanir ekki af nægjanlegri virðingu - og þar með gera þeim sem ekki aðhyllast sömu sterku vísindahyggjuna erfiðara að taka þátt í samræðunni.

Umhverfisráðuneytið leit alltaf á málþingið sem fyrsta skrefið í að móta ítarlega stefnu hér á landi um erfðabreytta ræktun. Við höldum ótrauð í það ferðalag, þó ekki hafi tekist nógu vel við fyrsta skrefið. Vonandi finnum við samræðugenið á leiðinni, svo okkur auðnist að gera ólíkum sjónarmiðum jafnhátt undir höfði við þá stefnumótun. [feitletrun AP]

Auðvitað er eðlilegt að almenningur, fræðimenn og stjórnsýslan ræði málin. Vandamálið er bara að velja fulltrúa almennings. Eins og staðan er hérlendis heldur frekar þröngur hópur hagsmunaaðilla (Slow foods hreyfingin, samtök lífrænna ræktenda og nattúra.is) uppi áróðri gegn erfðabreyttum lífverum. Segja má að andófið sé hluti af þeirra markaðssetningu, þeir skilgreina sinn "hreinleika" með því að taka einarða afstöðu gegn erfðabreyttum lífverum, og sérstaklega nytjaplöntum (rétt eins og Greenpeace öfluðu fylgi með mótmælum gegn hvalveiðum). Þessi hópur sem skírskotað er til í greininni sem almenningur, er það ekki heldur hagsmunahópur. 

Á fundinum voru næstum eingöngu fræðimenn, fulltrúar stjórnsýslu og andstæðingar erfðabreyttrar ræktunar**. Það voru sárafáir, ef einhverjir "almennir" borgarar. Mér skilst einnig að engir fulltrúar fréttamiðla hafi setið allan fundinn. Hvernig í ósköpunum ætla fjölmiðlar að fjalla um svona mál ef þeir gefa sér ekki tíma til að hlýða á málflutninginn? Ef fréttamenn hafa brennandi spurningar um þetta mál, hefðu þeir átt að koma með þær og pumpa fyrirlesarana.

En víkjum aðeins að orðum ráðherra. Hún segir að fyrirlesarar hafi verið gagnrýndir fyrir að:

... umgangast andstæðar skoðanir ekki af nægjanlegri virðingu - og þar með gera þeim sem ekki aðhyllast sömu sterku vísindahyggjuna erfiðara að taka þátt í samræðunni.

Með öðrum orðum, vísindamenn eru hrokagikkir. Það er sannarlega satt að fæstir vísindamenn eru mjúkmálir sleikipinnar, sem geta pakkað hlutunum í silki og satínslæður. Það er ekki hluti af okkar starfslýsingu. Vísindamenn læra að greina vandamál, hanna tilraunir, framkvæma þær og draga ályktanir. 

Orðalag vísindalegra ályktana ræðst af því hversu góðar niðurstöðurnar eru. Ef niðurstöðurnar eru óljósar eða misvísandi, er ályktunin varfærin. Ef niðurstöður margra rannsókna benda í sömu átt, þá er leyfum við okkur sterkara orðalag ályktunin. Dæmi um tvær sterkar staðhæfingar eru:

Sígarettur valda lungnakrabbameini.

Erfðabreyttar nytjaplöntur eru ekki hættulegar heilsu.

Ef þú heldur að sígarettur valdi ekki lungnakrabbameini, þá kann þér að virðast fyrri staðhæfingin vanvirðing við þína skoðun. En hún er það ekki. Hún er, eins nálægt og vísindin komast, staðreynd. Eigum við að virða skoðanir þeirra sem segja að sígarettur séu hollar?

Varðandi seinni hluta setingarinnar, þá held ég að ráðherra hafi sett fingurinn á mikilvægan punkt. Flestir almennir borgarar skilja ekki vísindalegar aðferðir og vísindalegar ályktanir. Þar er kannski brotalömin. Ástæðan fyrir því að umræða sem þessi blómstrar, og í samfélaginu vaði uppi meinvillur á borð við þá að erfðabreyttar lífverur séu hættulegar (sjá einnig, loftslagsefahyggju, afneitun helfararinnar, World Trade Center samsæriskenninar, bóluefnissamsæriskenningar o.fl.).

Deilan um erfðabreyttar lífverur er ekki vísindaleg í eðli sínu, heldur fjallar frekar um hræðslu við hið óþekkta, spurningar um siðfræði ræktunar og landbúnaðar, tortryggni gagnvart alþjóðlegum fyrirtækjum og umhyggju fyrir eigin skinni (og stundum náttúrunni).

Mér sýnist sem andstæðingar erfðabreyttra lífvera lifa samkvæmt djúpt greypti sannfæringu. Þeir grafa upp ótrúlegustu hluti sem röksemdir gegn erfðabreytingum, en hundsa fleiri hundruð rannsóknir sem hafa sýnt að erfðabreyttar lífverur eru ekki hættulegar. Michael Shermer (Skeptic society) fjallar slíkt í bókinni Believing brain. Þar segir m.a.

.. our most deeply held beliefs are immune to attack by direct educational tools, especially for those who are not ready to hear contradictory evidence.

Heilar okkar mannfólksins*** eru ekki þær fullkomnu rökvélar sem við höldum að þær séu. Heldur erum við lituð af tilfinningum og fyrri reynslu. Ef ég ældi eftir að hafa borðað lambasteik á 8 ára amælisdaginn, lá í rúminu í viku með óráði, er líklegt að ég þoli ekki lambakjöt****. Aðrar skoðanir okkar myndast á lúmskari hátt, en þegar þær hafa myndast höfum við tilhneygingu til að standa við þær. Eina verkfærið gegn okkar bjagaða heila er hin vísindalega aðferð. Hún gerir okkur kleift að meta tilgátur út frá gögnum, ekki persónulegri upplifun og skoðun. Shermer orðar þetta vel:

I’m a skeptic not because I do not want to believe, but because I want to know. How can we tell the difference between what we would like to be true and what is actually true? The answer is science.

Það að efast og krefjast gagna er ekki náttúrulegt ástand mannsheilans. Einstaklingum er ekki eðlislægt að efast. En sem hópur getum við gert meiri kröfur. Þannig urðu vísindin til, og þau hjálpa okkur að meta óvissuna, eins og Shermer segir:

Belief comes quickly and naturally, skepticism is slow and unnatural, and most people have a low tolerance for ambiguity.

Með hliðsjón af umræðu um erfðabreyttar lífverur hérlendis má álykta að vísindamenn þurfa að vera duglegri að miðla almenningi af þekkingu sinni, en einnig reynslu af hinni vísindalegu aðferð og óvissunni. Samræðugenið mitt starfar annað slagið, en efasemdastöðin sefur aldrei.

*Bætt við 20. maí: (eftir því sem ég best veit, leiðréttið mig ef rangt er með farið).

**Leiðrétt 20. maí, áður stóð: "andstæðingar lífrænnar ræktunar"

***Leiðrétt 20. maí, áður stóð mannfólk, nú "okkar mannfólksins"

****Leiðrétt 20. maí, breytti frásögn úr annari persónu í fyrstu.

Ég vil þakka KP leiðréttingar.


Vísindabloggarinn PZ Myers á Íslandi

Einn af uppáhalds bloggurunum mínum er PZ Myers, kennari við Minnesotaháskóla í Morris. Hann heldur úti síðu undir nafninu Pharyngula (www.pharyngula.com), sem er nafn á ákveðnu stigi þroskunar hryggdýra. Á því stigi sjást tálknbogar í fóstrunum, jafnvel þeim sem ekki eru með tálkn. Það undirstrikar hvernig greina má skyldleika lífvera, með því að rýna í þroskaferla þeirra. Tálknbogarnir eru sameinandi eiginleiki hryggdýra, rétt eins og seilin sem liggur undir taugapípunni á ákveðnu stigi þroskunar.

Myers skrifar jafnt um líffræðilegar rannsóknir um þróun og þroskunm, en einnig um snertifleti vísinda og samfélags. Hann er einarður gagnrýnandi sköpunarsinna og hindurvitna af öðru tagi. Pistlar hans eru á köflum óþarflega hvassyrtir, og stundum örlar á sleggjudómum í formi alhæfinga. En hann setur allavega puttann á mikilvæga togstreitu milli trúarlegra öfgamanna og vísinda. Pistlar hans kortleggja m.a. hina fjölskrúðugu og illskeyttu atlögu að vísindum og upplýstu samfélagi sem hægri öfgamenn og sumir evangelistar standa fyrir í Bandaríkjunum. Myers er þekktur fyrirlesari, og fékk meðal annars  alþjóðlegu Húmanistaviðurkenninguna 2011.

Nú hafa þau gleðilegu tíðindi borist að PZ Myers muni halda fyrirlestur hérlendis í lok mánaðar. Siðmennt stendur fyrir herlegheitunum, sem verða 29. maí 2012. Erindi Myers heitir Vísindi og trúleysi. Erindið verður klukkan 19:30 í stofu HT-102 á Háskólatorgi Háskóla Íslands. Aðgangseyrir 1000 krónur.

 

Nánari upplýsingar 

Darwin og lífsnautnin frjóa

Hvers vegna dansa fuglar? Hví ropa froskar? Hversvegna settu konur Viktoríutímans fjaðrir fugla í hattana sína? Hvers vegna mála menn veggi (á hellum og í húsasundum)? Listsköpun er sjaldan viðfangsefni líffræðinga, en ljóst er að víðfemasta kenning...

Ráðstefna um erfðabreytta ræktun 15. maí

Það er sérstaklega ánægjulegt að heyra ða umhverfisráðaneytið stendur fyrir ráðstefnu um erfðabreytta ræktun - 15. maí. 2012 (á Grand hótel kl 13:00-17:00, aðgangur ókeypis). Á ráðstefnunni munu tala fulltrúar ráðaneyta og háskóla, sem fara yfir...

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband