2.11.2011 | 14:35
Erindi: kerfislíffræði, heiðursdoktorinn Margrét Guðnadóttir og líffræðiráðstefnan
Á næstu viku verður töluvert framboð á erindum á sviði líffræði. Á morgun, fimmtudaginn 3. nóvember 2011, mun kerfislíffræðisetur HÍ halda fund um efnaskipti hvítrablóðfruma. Það fer fram í húsakynnum Íslenskrar erfðagreiningar (frá 14:00 til 15:30). Nokkrir gestir frá læknadeild háskólans í Lúxemborg munu halda erindi, meðal annars um stjórn ónæmiskerfisgena á efnaskiptum frumunar.
10. nóvember næstkomandi mun Margrét Guðnadóttir veirufræðingur vera sæmd heiðursnafnsbót við Læknadeild HÍ. Að því tilefni verður haldið málþing henni til heiðurs, sem mun standa frá kl 15:00.
Margrét Guðmundsdóttir, prófessor emeritus við Læknadeild Háskóla Íslands, verður sæmd heiðursdoktorsnafnbót við Læknadeild Háskóla Íslands þann 10. nóvember nk. Nafnbótina hlýtur hún fyrir vísindaframlag á sviði veirufræði og greiningu veirusýkinga. Með rannsóknum sínum hefur hún um áratugaskeið lagt af mörkum mikla þekkingu á fjölmörgum veirusýkingum, m.a. rauðum hundum, mislingum, hettusótt og cytomegalo-veirusýkingum. Þá hafa rannsóknir hennar á hæggengum veirusjúkdómum í sauðfé, eðli visnu-mænuveikisýkingar og gerð bóluefnis við þeirri sýkingu skipað Margréti í röð fremstu vísindamanna og borið merki Háskóla Íslands hátt í hinum alþjóðlega vísindaheimi.
Daginn (11. nóvember 2011) eftir hefst síðan líffræðiráðstefnan. Fyrst verða þrjú yfirlitserindi í húsakynnum Íslenskrar erfðagreiningar og eftir hádegið hefjast samhliða málfundir í Öskju.
Yfirlitserindi verða flutt af Kára Stefánssyni forstjóra ÍE, Halldóri Þormar prófessor emeritus við HÍ og þriðju persónu.
Nánar verður skýrt frá dagskrá ráðstefnunar undir lok vikunnar.
31.10.2011 | 18:25
Fiskurinn í okkur
Fiskurinn í okkur (Your inner fish) eftir steingervingafræðinginn Neil Shubin er kominn út á íslensku.
Ég las bókina fyrir nokkru á engilsaxnesku, en nýt hennar engu síður á íslensku (í ágætri þýðingu Guðmundar Guðmundssonar). Ég mun birta ritdóm um bókina hér von bráðar.
Úr tilkynningu Ormstungu.
Hvers vegna lítum við út eins og raun ber vitni? Hvað á mannshöndin sameiginlegt með fluguvæng? Eru tengsl milli brjósta, fiskhreisturs og svitakirtla? Af hverju fáum við hiksta?
Til þess að skilja betur starfsemi líkamans og grafast fyrir um uppruna algengustu sjúkdóma þarf að leita að upptökunum í ótrúlegustu kvikindum eins og ormum, flugum og fiskum.Í þessari bók skyggnist höfundur milljónir ára aftur í sögu alls lífs, löngu áður en nokkur skepna gekk um á jörðinni, og skýrir hvernig nýjar uppgötvanir og aðferðir náttúruvísindanna bregða birtu á skyldleika manna við gerólíkar lífverur, eins og bakteríur, sæfífla, orma, flugur, fiska og marglyttur.
Fyrst er lýst hvernig menn bera sig að við að leita steingervinga og segir svo frá því hvernig Tiktaalik, týndi hlekkurinn milli lagar- og landhryggdýra, fannst árið 2006 á norðurslóðum Kanada nálægt 80. breiddargráðu. Fundurinn varpaði nýju ljósi á upphafið að þróun landhryggdýra og breytingarnar sem urðu á vistkerfi jarðar.
Steingervingarnir, ásamt DNA-athugunum, veita athyglisverðar vísbendingar um hvernig bein og vöðvar, sem mynda fiskugga, umbreyttust í ganglimi landhryggdýra. Gangverki þróunarinnar er lýst á ljósan og auðskilinn hátt, til að mynda hvað mannslíkaminn er nauðalíkur fiski.
Lesendur sjá sjálfa sig og umheiminn í algerlega nýju ljósi eftir lestur bókarinnar. Fiskurinn í okkur er vísindaskrif fyrir almenning eins og þau gerast best. Hrífandi og upplýsandi frásögn, aðgengileg og sögð af ómótstæð[u]ilegum eldmóði.
Ítarefni
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 22:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
27.10.2011 | 14:20
sá 77 milljarðasti í röðinni
26.10.2011 | 13:38
Erindi: Lifði af undir jökli
Vísindi og fræði | Breytt 16.11.2011 kl. 11:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Nýjustu færslur
- Eru virkilega til hættuleg afbrigði veirunnar sem veldur COVI...
- Grunnrannsóknir eina aðferðin til að skapa nýja þekkingu og e...
- Lífvísindasetur skorar á stjórnvöld að efla hlut Rannsóknasjó...
- Eru bleikjuafbrigði í Þingvallavatni að þróast í nýjar tegundir?
- Hröð þróun við rætur himnaríkis
- Leyndardómur Rauðahafsins
- Loftslagsbreytingar og leiðtogar: Ferðasaga frá Suðurskautsla...
- Genatjáning í snemmþroskun og erfðabreytileiki bleikjuafbrig...
- Fjöldi og dreifing dílaskarfa á Íslandi
- Staða þekkingar á fiskeldi í sjó