Leita í fréttum mbl.is

... um vísindi, trúarbrögð og Carl Sagan

Eftir að hafa lesið pistil Róberts Björnssonar og hlustað á hugvekju Carl Sagans um litla blá depilinn (jörðina Pale Blue Dot) sá ég (í athugasemdum og á stjörnufræðivefnum) að ekkja Carl sagans mun halda fyrirlestur hérlendis 26. maí næstkomandi. Hvet alla til að mæta, og hvetja aðra til að mæta...og svo koll af kolli. Af vef Siðmenntar:

Fimmtudaginn 26. maí flytur Ann Druyan fyrirlestur um vísindi, trúarbrögð og Carl Sagan. Fyrirlesturinn verður haldinn í Háskólanum í Reykjavík (Bellatrix) og hefst klukkan 20:00. Aðgangur ókeypis og allir velkomnir.

Ann Druyan er bandarískur rithöfundur, fyrirlesari og framleiðandi sjónvarpsþátta. Hún hefur fjallað mikið um áhrif vísinda og tækni á siðmenningu okkar. Druyan skrifaði ásamt eiginmanni sínum heitnum, geimvísindamanninum og húmanistanum Carl Sagan handritið að Cosmos sjónvarpsþáttunum. Þessir þættir nutu mikilla vinsælda, unnu til fjölmargra verðlauna og voru sýndir í meira en 60 löndum.

Erindi hennar heitir „At Home in the Cosmos

Ann Druyan kemur til Íslands á vegum Siðmenntar í samstarfi við Háskólann í Reykjavík og heldur fyrirlestur um togstreituna á milli vísinda og trúarbragða og þau áhrif sem Carl Sagan hafði á almenna þekkingu og umræðu um vísindi.

 Tilkynning frá Siðmennt
mbl.is Leita að lífi á öðrum hnöttum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kreppa geðlæknisfræðinnar og svefnvandi þjóðar

Viðtal Unu Sighvatsdóttur við Steindór J. Erlingsson birtist í Morgunblaðinu fyrr í vikunni. Það birtist í framhaldi af grein Steindórs í tímariti námsráðgjafa, Glímir geðlæknisfræðin við hugmyndafræðilega kreppu? Um vísindi og hagsmuni.

Í viðtalinu segir meðal annars:

Að sögn Steindórs var það í kringum 1980 sem byrjað var að leggja aukna áherslu á líffræðilegu skýringarnar. Nýtt greiningarkerfi geðraskana var smíðað sem byggðist á flokkun ákveðinna einkenna í skýrt afmarkaðar raskanir. „Þeir sem bjuggu til þetta kerfi sáu fyrir sér að í framtíðinni myndu líffræðilegu skýringarnar finnast með aukinni tæki. Nú 30 árum síðar eru þær ekki komnar. Þannig að þetta kerfi lýsir bara einkennum, en greinir ekki orsakirnar.“

Flokkunarkerfið sem geðlæknisfræðin reiðir sig á virðist því vera hluti af vandanum, að sögn Steindórs, því það byggist á veikum vísindalegum grunni. Afleiðingarnar virðast m.a. vera þær að fjöldi þeirra einstaklinga sem hægt er að greina með geðröskun hefur aukist verulega, og lyf yfirgnæfa önnur meðferðarform geðraskana.

Í ljósi þess að ekki er vitað fyrir víst hvað það er sem veldur geðröskunum eins og t.d. þunglyndi, þarf heldur ekki að koma á óvart að ekki er með vissu vitað hvernig t.d. þunglyndislyfin virka í raun.

Steindór rekur einnig í grein sinni í Tímariti félagsráðgjafa að hvorki ríkir einhugur um mögulega virkni geðlyfja né hversu mikið beri að nota þau til að meðhöndla geðraskanir, en óvíða eru fleiri ávísanir á geðlyf en einmitt á Íslandi.

Vilhjálmur Ari Arason gerir grein Steindórs einnig að umtalsefni í pistli um Svefnvanda þjóðar. Þar segir hann:

Allt of auðvelt er að ánetjast svefnlyfjum, sérstaklega þar sem þau virðast við fyrstu sýn vera svo heppileg lausn við algengum vanda. En í upphafi skyldi endinn skoða, eins og á við um allar skyndilausnir. Of gott aðgengi og hvatning að skyndilausnum eins og svefnlyfjum getur í vissum tilvikum skýrt vandann sem við nú stöndum frammi fyrir. Svefnlyf geta nefnilega orðið eins og hækja sem viðkomandi þorir ekki að sleppa þótt hugsunin hafi verið að nota hana aðeins tímabundið. Stundum verður stressið við það eitt að ná ekki að sofna mesta vandamálið og því meira sem fólk hefur vanist að nota svefnlyf sem lausn. Og það getur líka verið ansi erfitt að losna undan viðjum vanans seint og um síðir.

Svefnlyf er því miður ekki eina skyndilausnin sem við ofnotum í heilbrigðiskerfinu. Lyfjakostnaður vegna tauga- og geðlyfja er hins vegar allmennt mjög hár á Íslandi miðað við Norðurlandaþjóðirnar og skipar hér 2. sætið, strax á eftir hjarta- og æðalyfjum. Hluti skýringarinnar er líklega ofnotkun og vert að benda á ágætis grein sem Steindór J. Erlingsson skrifaði í síðustu viku í Tímarit félagsráðgjafa um þátt lyfjafyrirtækja í lyfjanotkun og hugsanlega hugmyndafræðilega kreppu innan geðlæknisfræðinnar. Að mörgu leiti einkenna skyndilausnir hins vegar allt okkar þjóðfélag, hvert sem litið er og sjúklingurinn er að mörgu leiti þjóðfélagið sjálft.


Vísindadagatalið: Thomas H. Morgan og ávaxtaflugan

Vísindavefurinn heldur upp á aldarafmæli Háskóla Íslands með vísindadagatali . Þar er einn vísindamaður, erlendur eða íslenskur kynntur á hverjum degi. Mér hlotnaðist sá heiður að skrifa um Thomas H. Morgan, sem var vísindamaður mánudagsins 9. maí....

Erindi: Galapagoseyjar: lífríki og hættur

Síðasti föstudagsfyrirlestrar Líffræðistofnunar þetta vorið verður fluttur af Hafdísi Hönnu Ægisdóttur plöntuvistfræðingi og forstöðumanni Landgræðsluskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna . Fyrirlesturinn Galapagoseyjar: lífríki og hættur verður fluttur 13....

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband