Leita í fréttum mbl.is

Nýliði á bleikjuslóð

Sem pjakkur fór ég oft með frændum mínum á Þingvöll til veiða. Það var hið mesta sport fyrir nýliða í veiðimennsku, fullt af smáfiski sem nartaði og beit. Ferðirnar á Þingvöll voru ákaflega skemmtilegar, en einhvernveginn náði veiðibakterían ekki fótfestu og ég lagði stöngina á hilluna á unglingsárum.

Síðan atvikaðist það fyrir nokkrum árum að samstarfsmenn mínir, líffræðingarnir Sigurður Snorrason og Zophonías O. Jónsson, stungu upp á rannsókn á erfðafræði bleikjunnar. Sigurður hefur rannsakað Þingvallableikjuna um árabil, ásamt Pétri M. Jónassyni og Skúla Skúlasyni, Hilmari Malmquist og fleira góðu fólki. Skólafélagi minn Bjarni K. Kristjánsson hafði fyrir nokkru hafið rannsóknir á dreifingu og vistfræði dvergbleikju á Íslandi. Saman tókst okkur að tvinna saman fjölþætt rannsóknarverkefni, með fjölbreytileika bleikjunar í forgrunni.

thingvallavatndwarfeggs2010.jpgVið lögðum upp með að finna erfðaþætti og þroskunarkerfi sem tengdust hinum mikla fjölbreytileika í útliti og stærð íslenskrar bleikju. Í Þingvallavatni má t.d. finna fjögur afbrigði af bleikju, dverg, kuðungableikju, sílableikju og hina goðsagnarkenndu murtu. Hrognum var safnað á vettvangi (sjá mynd), þau frjóvguð og alin upp á Hólum í Hjaltadal. Þar var ungviði murtu, dvergs og eldisbleikju safnað, á nokkrum þroskastigum, fyrir könnun á genatjáningu.

Ég viðurkenni auðmjúkur að ég er nýliði á bleikjuslóð, vistfræðingarnir eru sífellt að kenna mér eitthvað nýtt um fiskinn og búsvæði hans (t.d. um útlitseiginleika, hryggningarstöðvar og fæðuval). Einnig lærir maður helling af reyndum veiðimönnunum, í fjölskyldunni er t.d. einn þaulvanur Þingvallavatni sem einmitt kenndi manni að beita og kasta í denn.

Lífið fer sjaldnast í hring, en það er gaman að rifja upp fortíðina þegar tækifæri gefst.


mbl.is Bleikjustofnar gefa eftir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Viðurkenningar til vísindamanna

Akkuru stundar fólk vísindi? Fyrst ber að nefna forvitni. Við erum hnýsnar skepnur, spyrjum fólk regulega út úr, njósnum um nágranna okkar, veltu við steinum og fetum framandi stigu bara til að svala forvitni okkar. Þekkingarleit vísindanna byggir á þessari forvitni, en er kannski orðin aðeins skipulagðari og agaðari en nálgun rassálfanna í sögu Astridar Lindgren um Ronju Ræningjadóttir, sem spurðu linnulítið "Akkuru, akkuru, akkuru...". Leiðir okkar til að svala forvitninni hafa tekið breytingum í gegnum aldirnar og nú höfum við þróað aðferð vísinda, sett af reglum og leiðbeiningum sem beitt er í rannsóknum (saga þess er sérkapituli sem við víkjum vonandi að síðar).

Margir leiðast út í vísindi af hugsjón, þeir vilja skilja heiminn og gera hann betri. Margskonar hættur steðja að mannfólki, sjúkdómar, faraldrar, mengun umhverfis og hættur frá öflum jarðar og geims, og vísindin bæta okkur skilning á þessum fyrirbærum. Með eigum við möguleika á að meta hætturnar, eðli þeirra og orsakir, og e.t.v. finna leiðir til að stemma stigu við þeim (það er miserfitt, við getum e.t.v. komist fyrir flensufaraldra en tæplega stöðvað loftstein*).

Sumir fara í vísindi til að auðgast, en þar er ekki á vísan að róa. Vissulega eru laun háskólakennara yfir landsmeðaltali, en dreifingin er nokkuð víð. Hins vegar eru fáir vísindamenn með virkilega há laun, nema þeir sem starfa við bestu háskóla eða rannsóknastofnanir heims, hafa stofnað fyrirtæki, eða vinna hjá fyrirtækjum sem borga vel.

Því verður þó ekki að neita að aðrar ástæður eru fyrir því að fólk leggur fyrir sig vísindi. Þangað leita t.d. metnaðargjarnir einstaklingar, eilífðarstúdentar, sjálfstætt fólk sem illa þolir yfirmenn, furðufuglar, og siðblindir sérhagsmunaseggir**. Metnaður er oft sterkur þáttur, það að birta góða vísindagrein blæs lífi í köflótta egóið, sem og að vera valinn til að halda erindi eða yfirlitserindi á merkri ráðstefnu.  Og það að vinna til verðlauna eða hljóta viðurkenningar skiptir fólk einnig miklu máli. Stundum er talað um kapphlaup um Nóbelsverðlaun, t.d. um byggingu DNA eða einangrun HIV veirunnar.

Það er ekki eini tilgangur viðurkenninga að gæla við metnað vísindamanna, og hvetja þá áfram. Þær þjóna einnig þeim tilgangi að vekja athygli á því sem vel er gert, skilgreina lykil framlag og vekja athygli almennings á vísindastarfi.

Á undanförnum vikum hafa tvær merkar vísindakonur fengið verðlaun. Fyrst ber að nefna Þóru Ellen Þórhallsdóttur, sem hluat náttúruverndarviðurkenningu Sigríðar í Brattholti fyrir helgi. Þessi verðlaun eru veitt einstaklingum með mikilsvert framlag til náttúruverndarmála. Í fréttatilkynningu segir: 

Fram kom í máli umhverfisráðherra að Þóra Ellen Þórhallsdóttir væri vísindamaður sem hefði unnið merkar rannsóknir á gróðri Íslands og miðlað þekkingu sinni, ekki bara til stúdenta, heldur til þjóðarinnar allrar með fyrirlestrum og fjölmiðlaþátttöku. Hún væri óhrædd við að koma fram með vísindaleg rök til verndar náttúru Íslands, þó það hafi ekki alltaf fallið að ríkjandi skoðunum. Þá hafi vinna hennar við landslagsmat markað tímamót varðandi vernd náttúru hér á landi.**

Í fréttablaði dagsins í dag er sagt frá því að "Hilma Hólm framkvæmdastjóri klínískra rannsókna hjá Íslenskri erfðagreiningu, fékk verðlaun úr Verðlaunasjóði í læknisfræði sem afhent voru á ársfundi Landspítalans í gær [5. maí 2011]". Fréttablaðið birti langa og skemmtilega grein byggða á viðtali við Hilmu, þar sem hún segir meðal annars:

Þegar spurt er um rannsóknarverkefnið sem Hilma vinnur að um erfðafræði hjartasjúkdóma er ljóst að sú spurning hugnast henni betur en þær sem eru persónulegs eðlis. Eftir stutt en afar gagnlegt hraðnámskeið situr eftir í huga blaðamanns að ekki er um einstakt verkefni að ræða sem á sér endapunkt. "Við setjum okkur engar skorður og takmörkum okkur ekki. Við ákveðum ekki hvað finnst, heldur sjá náttúran og vísindin um það."

...En hvað finnst henni sjálfri um það lof sem á hana er borið? "Ég hef fyrst og síðast verið mjög heppin að hafa villst inn í þetta umhverfi og hafa þess vegna getað nýtt mína þekkingu á sjúkdómum í bland við erfðafræðina. Ef ég hefði ekki fengið tækifæri til að starfa með fólkinu hér innan dyra og öðrum samstarfsmönnum væri ég ekki í þessum rannsóknargeira. Hlutirnir hafa vissulega gengið vel og við höfum fengið margar greinar birtar sem lýsa okkar rannsóknarniðurstöðum. En það er eingöngu vegna samvinnu fjölmargra vísindamanna, þátttöku Íslendinga í okkar rannsóknarverkefnum og þeirrar vinnu sem búið er að vinna innan ÍE undanfarin áratug sem hefur lagt grunninn að öllum okkar rannsóknum. Hér er ekkert sem takmarkar mig, heldur hef ég þvert á móti tækifæri til að ná langt vegna þess umhverfis sem ég hef fengið að starfa í," segir Hilma. Hún bætir því við að auðvitað verði allir að hugsa um sinn eigin hag og sinn eigin starfsferil en þá sé hollt að hafa í huga að persónulegur frami sé háður því að njóta stuðnings annarra.

Hilma lagði áherslu á að vísindamenn þurfa að vinna saman til að ná árangri. Vísindin líða fyrir það ef metnaður einstaklings kemur í veg fyrir að hann vinni með öðrum, og deili af reynslu sinni og þekkingu.

Ég veit ekki hvað beindi Þóru Ellen eða Hilmu í rannsóknir, hvort það voru forvitni, hugsjónir eða metnaður. Hitt er ljóst að þær eru báðar góðar fyrirmyndir þeirra sem gætu hugsað sér rannsóknir í líffræði eða erfðafræði.

*En hver veit, í síðustu viku minntist Galen Gisler á planetary defense conference. Hann hélt erindi við HÍ á ráðstefnu um ofurtölvur í síðustu viku.

**Svartir sauðir finnast meðal vísindamanna, en þeir eru flestir dagfarsprúðir og tregir til að sprengja plánetur.

***Í frétt mbl.is misritaðist nafn vísindamannsins, fyrra nafn Þóru Ellenar datt út í einni línunni.

Leiðrétting: Í fyrstu útgáfu ruglaði ég saman rassálfum og grádvergum, og meðtek fordæmingu hlutaðeigandi af auðmýkt og iðrun.


mbl.is Fengu umhverfisviðurkenningar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Glímir geðlæknisfræðin við hugmyndafræðilega kreppu?

Við höfum fylgt eftir skrifum Steindórs J. Erlingssonar um geðlæknisfræðina, bæði hérlendis og erlendis. Steindór er vaskur vísindasagnfræðingur en hefur um áratugabil tekist á við þunglyndi. Undanfarin ár hefur hann einhent sér í rannsóknir á uppruna...

Erindi: Þjórsá, morgunbirta, hamir, selir og sýkimáttur

Nokkrir fyrirlestrar um líffræðileg málefni verða í höfuðborginni í þessari viku. Fræðslufundur HÍN verður fluttur í dag, mánudaginn 2. maí 2011 (kl 17:15 í stofu 132 í Öskju, náttúrufræðahúsi HÍ). Erindi Magnúsar Jóhannssonar vatnalíffræðings heitir...

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband