20.5.2011 | 13:00
Segir lengd litningaenda til um fjölda ólifaðra ára?
Kæra völva, hversu lengi mun ég lifa?
Elsku vinur leyfðu mér að dreypa á blóði þínu....
Grunnhugmynd nokkura sprotafyrirtækja er að reyna að svara þessari spurningu, með því að mæla lengd litningaenda í frumum einangruðum úr blóði.
Litningaendar eru varðir af stuttum endurteknum röðum, í okkar tilfelli (TTAGGG en í Tetrahymena CCCCAA), sem eru myndaðir af ensím og RNA flóka sem kallast telomerasi. Þessi flóki er virkjaður í vissum frumum, mjög snemma í þroskun og líklega í einhverjum stofnfrumum, til að bæta endurtekningum við endana á litningum. Þetta er nauðsynlegt vegna þess að við eftirmyndun á DNA styttast litningarnir alltaf um nokkra basa (sjá skýringarmynd með pistli CCCCAA). Ef telomerasinn væri ekki til staðar myndu litningarnir alltaf styttast, og genin á endum þeirra skemmast eða jafnvel hverfa í heilu lagi.
Elizabeth Blackburn fékk Nóbelsverðlaunin 2009, ásamt Carol Greider og Jack Szostak. Elizabeth gerði fyrstu tilraunirnar og uppgötvaði telomerasann í frumdýrinum Tetrahymena, ásamt nemanda sínum Carol (Það hófst allt með frumdýri...). Jack vann við rannsóknir á gervilitningum í sveppum, og komst að því að þeir styttust alltaf. Honum og Elísabetu tókst að skeyta telómeraröðum á gervilitningana og gera þá stöðugri.
Ein rannsókn sýndi tengsl, marktæk en ekki sterk, á milli lengdar litningaendanna og lífslíka. Einnig fannst samband milli lengdar litningaenda og krabbameins. Meiri líkur voru á að fólk með styttri litningaenda fengi krabbamein en þeir sem höfðu lengri litningaenda.
Þessi tengsl er útgangspuntkur nokkura sprotafyrirtækja, sem bjóða kúnnum að senda inn blóðsýni, mæla meðallengd litningaenda í blóðfrumunum og spá út frá þeim fyrir um lífslíkur viðkomandi einstaklings. Eitt þessara fyrirtækja er hið spænska Life length, sem státar af frú Blackburn sem einum stofnanda.
Ekki eru þó allir vissir um að próf á litningaendum séu til mikils gagns. Carol Greider hefur meðal annars bent á að breytileiki í lengd litningaenda innan hverrar manneskju er mjög mikill. Viðkomandi getur verið með stutta litningaenda í vöðvafrumum en langa í blóði. Einnig er mikill munur á milli fruma innan hvers vefs. Það skiptir máli, sbr. orð hennar í viðtali við NY Times:
Dr. Greider said that there was great variability in telomere length. A given telomere length can be from a 20-year-old or a 70-year-old, she said. You could send me a DNA sample and I couldnt tell you how old that person is.
Einnig eru tengsl lengdar litningaenda og sjúkdóma eða lífslíka frekar veik. Það er vandamál við flest af þeim lífmerkja (biomarker) prófum sem nú eru í þróun. Þau hafa hvert um sig lítið spágildi...vonandi eitthvað aðeins betra en völvan (sem myndi líklega geta metið heilbrigði bráðarinnar út frá reynslu sinni).
Elizabet mun halda fyrirlestur í Háskóla Íslands laugardaginn 21. maí 2011, kl 14:00 í aðalbyggingu. Allir eru velkomnir og hvattir til að mæta. Það verður mjög forvitnilegt að sjá hvort hún minnist á Life length, og hvaða nálgun hún tekur í þeirri umræðu. Það væri sorglegt að sjá nóbelsverðlaunahafann axla hempu sölumannsins.
Ítarefni:
A blood test that offers clues to longevity
http://www.nytimes.com/2011/05/19/business/19life.html
Viðtal við Blackburn á Stöð 2 "Hægt að hægja á öldrun með einföldum hætti"
Erindi dr. Blackburn á myndbandi
Leiðréttingar, í fyrstu útgáfu misritaðist að litningaendar okkar (Homo sapiens sapiens) væru CCCCAA. Það er argasta kjaftæði, þeir eru TTAGGG (eða CCCTAA).
Vísindi og fræði | Breytt 23.5.2011 kl. 18:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
18.5.2011 | 17:50
Já takk - bönnum plastpoka
Hef enga sérstaka skoðun á ESB, en tel það ljómandi snjallt að banna plastpoka.
Plast er efni sem ekki brotnar niður í náttúrunni. Engar bakteríur borða það, fuglar geta ekki melt það, frumdýr fúlsa við því...þeir einu sem virðast geta nærst á því eru ofurmódel.
Plast í náttúrunni brotnar bara í minni einingar sem síðan safnast upp.
Í Kyrrahafinu er risastór flekkur af plastdrasli, á ströndum Bretlands eru heilmikið magn af plastögnum í sandinum, fuglar drepast því vömbin þeirra er full af plasti. Sjá t.d. fyrri pistil um plastfjallið.
Plast brotnar ekki svo gjörla niður, lang stærsti hluti þess plasts sem framleitt var fyrir 50 árum er ennþá til. Vitanlega brotna plasthlutir, en brotin leysast ekki upp í frumefni sín eins og pappír eða viður.
Richard Thompson við háskólann í Plymouth hefur rannsakað uppsöfnun plasts í fjörum og hafinu. Stórir hlutir eins og þeir sem skipverjarnir eru að tína upp, eru sýnilegir. En smáar plastagnir, brot úr stærri hlutum eru ennþá viðvarandi.
Rétt eins og plasthringir af "six-pack" geta kyrkt otra eða seli, geta smáar agnir fyllt upp í meltingarveg smærri dýra, jafnt fiska sem orma.
Áætlað er að 1000.000.000 tonn af plasti hafi verið framleidd frá lokum síðari heimstyrjaldar, og bróðurparturinn er ennþá til (í landfyllingum, fljótandi í höfunum, á botni þeirra og innan um sandinn á ströndum okkar).
Þennan vísdóm fékk að mestu leyti úr The World Without Us - Alan Weisman (sjá kápumynd af vef amazon) sem var gefin út hérlendis í þýðingu Ísaks Harðarsonar sem Mannlaus veröld. Ég er ekki búinn með bókina, en eftir að lesa kaflann um plastið leið mér verulega illa.
![]() |
ESB íhugar plastpokabann |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 17:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
17.5.2011 | 17:43
Nóbelsverðlaun fyrir að útskýra endurnýjun litningaenda
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 18:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.5.2011 | 12:31
Við erum ekki skyggn
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 12:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (49)
Nýjustu færslur
- Eru virkilega til hættuleg afbrigði veirunnar sem veldur COVI...
- Grunnrannsóknir eina aðferðin til að skapa nýja þekkingu og e...
- Lífvísindasetur skorar á stjórnvöld að efla hlut Rannsóknasjó...
- Eru bleikjuafbrigði í Þingvallavatni að þróast í nýjar tegundir?
- Hröð þróun við rætur himnaríkis
- Leyndardómur Rauðahafsins
- Loftslagsbreytingar og leiðtogar: Ferðasaga frá Suðurskautsla...
- Genatjáning í snemmþroskun og erfðabreytileiki bleikjuafbrig...
- Fjöldi og dreifing dílaskarfa á Íslandi
- Staða þekkingar á fiskeldi í sjó