18.3.2011 | 18:00
Erfðatæknin og vísindin
Í framhaldi af þingsályktunartillögu um skipan nefndar sem á að útfæra bann á útiræktun á erfðabreyttum lífverum á Íslandi ( "Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa starfshóp er vinni að breytingum á lögum og reglugerðum í þeim tilgangi að banna útiræktun á erfðabreyttum lífverum eigi síðar en 1. janúar 2012."), greinarskrifum 37 líffræðinga, lækna og erfðafræðinga (Athugasemd til Alþingis) skrifaði Gunnar Ágúst Gunnarsson grein í Morgunblaðið (9. mars 2011 - sjá viðhengi með pistli). Grein Gunnars er titluð vísindamenn í fjötrum sérhagsmuna. Slíkum aðdróttunum er ekki hægt að láta ósvarað, og að því tilefni tóku nokkrir af 37 menningunum sig saman og rituðu andsvar sem birtist í morgunblaði gærdagsins (17. mars 2011). Sú grein birtist hér að neðan í heild sinni.
Erfðatæknin og vísindin
Við lítum á það sem mikilvægt hlutverk fræðasamfélagsins að halda á lofti vísindalegum rökum í hverju máli svo að stjórnvöld og almenningur í þessu landi geti tekið upplýstar ákvarðanir.
Gunnar Ágúst Gunnarsson ritar harðorða grein í Morgunblaðið 9. mars s.l. þar sem hann vænir 37 vísindamenn við helstu fræðastofnanir þjóðarinnar um að ganga erinda sérhagsmuna. Það er þó erfitt að átta sig á því í hverju þessir sérhagsmunir eru fólgnir.
Tilefnið eru athugasemdir hópsins við þingsályktunartillögu um útiræktun á erfðabreyttum lífverum sem nú liggur fyrir Alþingi. Við vísum ásökunum Gunnars alfarið á bug. Þær eiga ekki við nein rök að styðjast og eru nánast ærumeiðandi.
Við lítum á það sem mikilvægt hlutverk fræðasamfélagsins að halda á lofti vísindalegum rökum í hverju máli svo að stjórnvöld og almenningur í þessu landi geti tekið upplýstar ákvarðanir. Því miður er greinargerðin með þingsályktunartillögunni að verulegu leyti byggð á misskilningi, vanþekkingu og fordómum og því teljum við það skyldu okkar að bregðast við. Er það bæði í anda þess sem hvatt er til í rannsóknarskýrslu Alþingis, sem gefin var út í kjölfar hrunsins, og laga um opinbera háskóla. Í 3. grein þeirra segir að háskólar skuli miðla fræðslu til almennings og veita þjóðfélaginu þjónustu í krafti þekkingar sinnar. Lög ætti aldrei að innleiða nema á grundvelli allrar þeirrar þekkingar sem til á hverjum tíma. Greinargerðin endurspeglar ekki slíka þekkingarþrá.
Hins vegar er ekki loku fyrir það skotið að sumir lífrænir ræktendur sjái sér hag í að þingsályktunartillagan nái fram að ganga enda er notkun erfðabreyttra lífvera og efna sem eru leidd af erfðabreyttum lífverum bönnuð í lífrænni ræktun, skv. reglugerð nr. 74/2002 um lífræna framleiðslu landbúnaðarafurða og merkingar. Gunnar Ágúst gleymir að geta þess að hann er framkvæmdastjóri Vottunarstofunnar Túns. Hann er sérlegur talsmaður þess að auka lífrænan búskap og hann hefur lífsviðurværi sitt af því að votta lífræna framleiðsluhætti.
Erfðatækni gerir okkur kleift að flytja erfðaefni milli óskyldra lífvera en um hana hafa staðið miklar deilur. Því hefur verið haldið fram að slíkt gerist ekki í náttúrunni og beiting hennar sé því andstæð ætlan guðs, eins og Karl Bretaprins komst eitt sinn að orði. Erfðabreyttar lífverur af öllu tagi séu þess vegna hættulegar bæði umhverfinu og öðrum lífverum. Gunnar vísar til nokkurra vísindagreina því til stuðnings að útiræktun erfðabreyttra lífvera sé hættuleg. Flestar þeirra hafa verið harðlega gagnrýndar (sjá t.d. http://academicsreview.org/). Aftur á móti hundsar hann mikinn fjölda greina sem hafa ekki fundið nein neikvæð áhrif. Slík vinnubrögð eiga meira skylt við áróður en fræðimennsku.
Það er samdóma álit þeirra vísindamanna sem gerst þekkja að áhætta af ræktun og nýtingu erfðabreyttra lífvera sé hverfandi. Í þessu sambandi er rétt að benda á ályktanir í nýlegri skýrslu á vegum Evrópusambandsins þar sem sjónum var beint að niðurstöðum rannsókna á öryggi erfðabreyttra plantna fyrir umhverfi, menn og skepnur (http://ec.europa.eu/research/biosociety/pdf/a_decade_of_eu-funded_gmo_research.pdf). Frá árinu 1982 hefur sambandið lagt í þessar rannsóknir rúmar 300 milljónir evra, eða um 48 milljarða króna, og niðurstaðan er klár og kvitt: Líftæknin sem slík, og þá einkum erfðabreyttar plöntur, hefur ekki meiri hættu í för með sér en t.d. hefðbundnar kynbótaaðferðir.
Mestur styr á liðnum árum hefur staðið um beitingu líftækni í landbúnaði. Hefur henni verið stillt upp sem andstæðu búskaparhátta er byggjast á að draga úr öllum aðföngum eins og kostur er. Þessar tvær leiðir útiloka ekki hvor aðra þvert á móti. Á næstu árum þarf að framleiða enn meiri mat án þess að ganga á gæði jarðarinnar frekar en orðið er. Til þess þarf að beita öllum tiltækum ráðum sem byggjast á vísindalegum grunni. Í stað þess að einblína á tæknina eða aðferðafræðina er langtum mikilvægara að leggja mat á hvort úrræðin séu gagnreynd (e. evidence based) og leiði til þess árangurs sem að er stefnt. Með sama hætti er nauðsynlegt að vega og meta hugsanlega áhættu af nýrri tækni í samhengi við hugsanlegan kostnað sem hlytist af því að nýta hana ekki í stað þess að vísa sífellt í grunnfærnislegar útgáfur af varúðarreglunni margumtöluðu.
Við gerum okkur engar vonir um að hinir eitilhörðu andstæðingar erfðatækninnar láti sannfærast af þessum skrifum okkar. Hins vegar treystum við því að þingmenn og almennir lesendur séu reiðubúnir að hlusta á rök frá hlutlausum sérfræðingum frá helstu fræðastofnunum þjóðarinnar á þessu sviði.
Arnar Pálsson dósent, Háskóla Íslands
Áslaug Helgadóttir prófessor, Landbúnaðarháskóla Íslands
Eiríkur Steingrímsson prófessor, Háskóla Íslands
Guðmundur Eggertsson, prófessor emerítus, Háskóla Íslands
Magnús Karl Magnússon prófessor, Háskóla Íslands
Már Másson, prófessor, Háskóla Íslands
Ólafur S. Andrésson, prófessor, Háskóla Íslands
Þórunn Rafnar framkvæmdastjóri krabbameinsrannsókna, Íslenskri erfðagreiningu
17.3.2011 | 12:17
Erindi: súrnun sjávar og lífríki hafsins
Hrönn Egilsdóttir er doktorsnemi við Líf og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands og Hafrannsóknarstofnun. Doktorsverkefni hennar lýtur að rannsóknum á áhrifum súrnunar sjávar á kalkmyndandi lífríki í hafinu við Ísland. Hún lauk BS prófi í líffræði frá Háskóla Íslands 2007 og meistaraprófi í sjávarlíffræði frá Háskólanum í Plymouth 2008. Úr grein hennar á loftslag.is.
Frá því iðnvæðing vesturlanda hófst fyrir 250 árum hafa orðið gríðarlegar breytingar á magni koltvíoxíðs (CO2) í andrúmslofti jarðarinnar. Eftir því sem iðnvæðingin hefur orðið hraðari og útbreiddari hefur þetta magn aukist hraðar. Ein afleiðing þessara breytinga er súrnun sjávar sem er ekki síður alvarleg þróun en hlýnun jarðar....
Súrnun sjávar getur haft áhrif á ýmis lífeðlisfræðileg ferli í lífverum en dýr og þörungar sem mynda kalk eru í mestri hættu vegna þess hve kalkmettun sjávar (ΩCaCO3) er nátengd sýrustigi sjávar. Mikill fjöldi tegunda í hafinu myndar kalk og koma kalkframleiðandi lífverur við sögu í flestum fæðukeðjum ásamt því að byggja upp búsvæði fyrir fjölda annara lífvera og má þar helst nefna kóralrif og rauðþörungabreiður.
Föstudagfyrirlestrar Líffræðistofnunar eru öllum opnir með húsrúm leyfir og eru fluttir á íslensku (nema annað sé tekið fram).
Þeir fara milli kl. 12:30 og 13:10, í stofu 131 í Öskju náttúrufræðahúsi HÍ. Þeir eru öllum opnir meðan húsrúm leyfir.
Fulla dagskrá má nálgast á vef Líf og umhverfisvísindadeildar HÍ.
3/18/11 Súrnun sjávar - Hrönn Egilsdóttir
3/25/11 Stofnvistfræði minks - Róbert A. Stefánsson
4/1/11 Tengsl búsvæða og svipgerðar í stækkandi fuglstofni - Tómas G. Gunnarsson
4/8/11 Stofnfrumur og þroskun lungna - Sigríður Rut Franzdóttir
4/15/11 DNA polýmerasar og viðgerð - Stefán Þ. Sigurðsson
4/29/11 Bakteríudrepandi prótín - Guðmundur Hrafn Guðmundsson
5/6/11 Selarannsóknir við Selasetur Íslands - Sandra Granquist
13/6/11 Galapagoseyjar: lífríki og hættur - Hafdís H. Ægisdóttir
14.3.2011 | 11:00
Fyrstu dýrin á jörðinni
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 11:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
11.3.2011 | 10:31
Erindi: Fæða minks
Vísindi og fræði | Breytt 28.3.2011 kl. 11:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Nýjustu færslur
- Eru virkilega til hættuleg afbrigði veirunnar sem veldur COVI...
- Grunnrannsóknir eina aðferðin til að skapa nýja þekkingu og e...
- Lífvísindasetur skorar á stjórnvöld að efla hlut Rannsóknasjó...
- Eru bleikjuafbrigði í Þingvallavatni að þróast í nýjar tegundir?
- Hröð þróun við rætur himnaríkis
- Leyndardómur Rauðahafsins
- Loftslagsbreytingar og leiðtogar: Ferðasaga frá Suðurskautsla...
- Genatjáning í snemmþroskun og erfðabreytileiki bleikjuafbrig...
- Fjöldi og dreifing dílaskarfa á Íslandi
- Staða þekkingar á fiskeldi í sjó