Leita í fréttum mbl.is

Arfleifð Darwins: ritdómar

Fyrstu tveir ritdómar um Arfleifð Darwins birtust á undangengnum vikum. Annar þeirra ritaði Brynjólfur Þór Guðmundsson á miðjunni (23. des. 2010), og hinn var í Bændablaðinu (1. tbl. 2011, bls. 24) - sem er aðgengilegt á vefnum (höfundur ritdóms er JVJ).

Lokaorð ritdóms bændablaðisins:

Ástæða er til að hvetja allt áhugafólk um þróun liffræðilegs fjölbreytileika til að kynna sér vel efni þessarar bókar. Hún sýnir vel að kenningar Darwins hafa staðist tímans tönn og eru grundvöllur hugmynda í náttúruvísindum. Hér er komið ákaflega vandað verk sem á næstu árum hlýtur að verða grundvallarrit í þessum efnum fyrir íslenska lesendur.

Brynjólfur segir á Miðjunni:

Guðmundur Eggertsson skrifar svo dæmi sé tekið ágæta grein um uppruna lífs og rekur þar ýmsar kenningar sem hafa verið settar fram í þá veru, sumar sem hafa verið slegnar af og aðrar sem mönnum finnst enn koma til greina. Sennilega eru fáir ef nokkrir betur til þess fallnir en Guðmundur sem sendi einmitt fyrir fáeinum árum frá sér þá mjög svo ágætu bók Leitin að uppruna lífs.

Steindór J. Erlingsson skrifar um hvernig þróunarkenningunni var tekið á Íslandi í fyrstu. Þar er meðal annars að finna þennan gullmola í samantekt þar sem hann fjallar um hvernig Þorvaldur Thoroddsen sneri frá stuðningi við þróunarkenninguna: „Þegar horft er til baka á hin snöggu og algeru umskipti í heimspekilegri afstöðu Þorvalds til náttúrunnar, er freistandi að álykta að hann hljóti að hafa orðið geðveikur.“ Steindór lýsir því reyndar yfir strax í næstu setningu að þetta sé að öllum líkindum ekki raunin heldur megi rekja breytinguna til þróana í eðlisfræði, auk þess sem ótímabært andlát dóttur Þorvalds kann þar að hafa haft áhrif. Er þessi ritgerð nokkuð áhugaverð lesning um móttökur þróunarkenningarinnar hérna og af hverju afstaða manna kann að hafa stjórnast.

Fleiri greinar mætti að ósekju nefna þó það verði ekki gert hér að svo stöddu.

All nokkuð er af skýringarmyndum í bókinni og er það gott því á köflum mega lesendur hafa sig við til að fylgja þræði þó bókin sé vissulega ætluð áhugasömum almenningi. Þetta er kannski ekki mjög hentug lesning fyrir sólarströndina en áhugaverð bók fyrir þá sem vilja kynna sér efnið nánar og gott framtak að leggja fram svona greinasafn sem hvort tveggja heldur arfleifð Darwins á lofti og skýrir hana um leið. Greinarnar eru sem fyrr segir fjölbreyttar og þó viðbúið sé að þær geti vakið misjafnlega mikinn áhuga hjá hverjum og einum gefa þær ágætis vísbendingu um fjölbreytileikann í þessum efnum.

Að lokum má svo geta þess að kápuhönnun Bjarna Helgasonar[tengill AP] er afar vel heppnuð.

Áhugasömum er bent á að nokkrir af kaflahöfundum munu taka þátt í námskeiði á vegum Endurmenntunar HÍ, þar sem farið verður í valda kafla í bókinni og rætt um Charles R. Darwin og þróunarkenninguna í víðu samhengi.

Ritdómur Bændablaðsins er einnig aðgengilegur á pdf-formi á vefsíðu Steindórs J. Erlingssonar. Þar misrituðust reyndar nöfn tveggja kaflahöfunda, "Steindór J. Eiríksson" á að vera Steindór J. Erlingsson, "Agnar Pálsson" á að vera Arnar Pálsson.


Nýju fötin háskólans

Í tilefni hundrað ára afmælis Háskóla Íslands verður mikið um dýrðir á þessu ári. Heilmikil dagskrá var sett saman, nóbelsverðlaunahafar og heimsfrægir gestir koma og halda fyrirlestra, opnir dagar verða á öllum sviðum, fuglaskoðunarferðir, sýningar, ráðstefnur, fundir, fyrirlestrar, sprengingar og blóðþrýstingsmælingar svo einhver dæmi séu tekin.

Meðal annars mun Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar Erfðagreiningar (útgáfu 2) halda fyrirlestur um mannerfðafræði (laugardaginn 15.janúar 2011 kl 15:00), sjónvarpsmaðurinn kunni David Suzuki heldur fyrirlestur 4. apríl um öfl náttúrunnar og Elizabeth Blackburn, sem fékk nóbelsverðlaun ásamt samstarfsmönnum sínum Carol Greider og Jack Szostak fyrir að uppgötva ensím-RNA-flóka sem verndar litningaenda, heldur fyrirlesturinn Telomerar og Telomerasar: Hvernig hafa þeir áhrif á heilsu manna og sjúkdóma? 21. maí.

Titill erindis Kára er hönnun manns – hvernig maðurinn skapast af samspili erfða og umhverfis. Mér finnst seinnihluti nafns fyrirlestursins betri en sá fyrri, vegna þess að samspil erfða, umhverfis og tilviljunar skipta mestu um eiginleika og afdrif lífvera. Sumir eiginleikar eru með hátt arfgengi en aðrir lágt, aðrir ráðast af umhverfi eða hreinni tilviljun. Ungt fólk skilgreinir sig gjarnan út frá tónlist, það er líklegra að ungur nútíma piltur hallist að rímum Erps eða Eminems en jafnaldri hans frá miðri síðustu öld varð líklega að skilgreina sig sem Elvismann eða Ólafs Gauks. Í öðrum tilfellum er það alger tilviljun hvað fólk hlustar á, heyrir í the Triffids í kvikmynd eða Grieg hjá rakaranum.

Vissulega hafa erfðaþættir áhrif, en byltingin í mannerfðafræði á síðasta áratug staðfestir það sem þróunarfræðin og erfðafræðingar vissu, að flestar stökkbreytingar hafa væg áhrif. Bróðurpartur þeirra gena sem fundist hefur á þessari gullöld mannerfðafræðinnar hefur lítil áhrif, eykur líkurnar um sjúkdóm kannski um nokkra tugi prósenta. ÍE, ásamt Broad Institute og Wellcome Trust hafa leitt þessa byltingu í mannerfðafræði, og saman hafa þessir aðillar fundið flest af þeim mannagenum sem skilgreind hafa verið á síðustu 5 árum.

Helsta framlag Decode (geymum umræðuna um kostnað) er samt ekki í fjölda gena, heldur í genakortinu og í byltingakenndri aðferð til að ráða í uppruna stökkbreytinga. Það er, þeir þróuðu aðferð til að finna út hvort að tiltekin stökkbreyting sem situr á ákveðnum litningabúti kom frá föður eða móður, án þess að skoða arfgerð foreldranna. Þetta nýtist meðal annars til þess að kortleggja erfðaþætti sem hafa mismunandi áhrif, eftir því hvort þeir koma frá móður eða föður. Foreldramörkun er þekkt í nokkrum tilfellum og tilraunalífverum en Augustine Kong og félagar hjá ÍE fundu leið til að skima fyrir slíkum áhrifum í öllu erfðamenginu.

Nú er ÍE að raðgreina erfðamengi nokkur þúsund íslendinga og stefnir á að samþætt þær upplýsingar gögnum um erfðasamsetningu 40000 einstaklinga og ættatré þeirra. Þetta er hluti af næsta skrefi í erfðafræði, þegar heil erfðamengi verða raðgreind og rannsökuð (e.t.v. á nokkrum dögum). Þá er mjög, mjög mikilvægt að átta sig á því að genin hafa lítil áhrif og að enginn er "dæmdur til hjartaáfalls" við það að vera arfhreinn um einn ákveðinn basa á litningi 9.

Nýju fötin háskólans 

Þegar drög að afmælisárinu voru kynnt starfsfólki HÍ var lögð áhersla á tvennt. Alla venjulega starfsemi sem fram fer innan skólans skal klæða í afmælisföt. Venjulegur föstudagsfyrirlestur Líffræðistofnunar verður fyrirlestur í tilefni afmælisárs HÍ. Háskólinn hefur undanfarin ár lagt auka fé í sjóð, til að geta staðið fyrir afmælisdagskrá - vegna þess að ríkið gefur ekkert til skólans að þessu tilefni. Í staðinn er fjárveiting til HÍ (eins og annara háskóla) skorin niður, um 15-25% á næstu þremur árum. Háskólarektor kynnir nýja stefnu, með glæsilegum markmiðum og glansandi yfirsýn - fjársjóð til framtíðar. Talað er um það langtímamarkmið að koma HÍ á lista yfir 100 bestu háskóla heims, sem er svona álíka raunhæft og plan ísfirskra heimsvaldasinna að ná völdum í Bandaríkjunum og leggja undir sig sólina. Þessi nýja stefna er ekkert nema glansmynd, svipuð því úttektum menntamálaráðaneytisins á fjármagni til rannsókn og þróunarstarfs hérlendis.

Það var rætt á kaffistofunni í gær að menntamálaráðaneytið hafi tvítalið fjármagn til rannsókna í samantektum um nýsköpun og rannsóknir á Íslandi. Þeir telja krónur sem Rannís útdeilir í rannsóknaverkefni og síðan aftur þær krónur sem HÍ, Matís eða HR fá til rannsókna (frá Rannís). Að auki hafa þeir til margra ára talið Hafrannsóknarstofnun með og allan fjáraustur ÍE (sem íslenskir tómstundafjárfestar borguðu glöðu geði).

Útlit en ekki innihald var uppskrift af hruni bankanna. Kannski erum við íslendingar eða mannfólk yfir höfuð svo grunnhyggin að glepjast af skrumi og skýjaborgum en látu hjá líðast að meta efnislegt innihald. Þessi pistill þróaðist öðruvísi en upp var lagt með. Nú er ég kominn í þunglyndi yfir íslenskum sýndarveruleika og sný mér að skemmtilegri hlutum, breytileika í stjórnröðum.


Hvað í skollans nafni er tegund?

Til að geta verndað líffræðilega fjölbreytni þurfum við að skilja öflin sem móta hann. Þetta er inntakið í samtali Péturs Halldórssonar og Bjarna Kr. Kristjánssonar í Tilraunaglasinu föstudaginn 7. janúar 2011 . Bjarni fjallar um skilgreiningar á...

RNA skák

Kjarnsýrurnar DNA og RNA eru með ótrúlegustu sameindum veraldar. DNA er örmjór þráður byggður úr tveimur sameindum sem tvinnast saman og parast með efnahópum (bösum). Það er DNA er tvíþátta. Í erfðamengi okkar eru 24 (25 í körlum) mismunandi litningar,...

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband