Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Darwin og þróun

Amerískir kjúklingar

Sköpunarsinnar kvarta oft yfir þvi að vísindamenn séu með ofríki og að sumir þeirra halda því fram að samsæri sé gegn kirkjunni og lífskoðunum hinna trúuðu. Sköpunarsinnar (og jábræður þeirra sem boða vitræna hönnun) staðhæfa að lífverur séu afurð sköpunar og sumir krefjast þess að sköpunarsaga biblíunar sé kennd samhliða þróunarkenningunni í líffræðiáföngum. Líffræðingar og aðrir vísindamenn sætta sig ekki við yfirnáttúrulegar skýringar á fyrirbærum heimsins. Og þeir vilja alls ekki að yfirnáttúrulegar sögusagnir séu kenndar í raungreinum, það væri rétt eins og að leyfa kennslu á hugmyndinni um "vitrænt fall" samhliða kenningum Newtons.

Sköpunarsinnar og aðrir hófsamari fylgismenn þeirra eru sterkur þrýstihópur, sem sækja fram á mörgum vígstöðvum. Þeir reyna að fá kennsluskrám breytt í mörgum fylkjum, sýslum og minni byggðarlögum. Þeir dæla út einblöðungum, ríkulega myndskreyttum áróðursritum, myndböndum og hljóðsnældum (dáldið eins og álvöru nýaldarsinnar!). 

Þeir hafa ekkert til að standa á í fræðilegri umræðu, allar staðhæfingar þeirra hafa verið hraktar lið fyrir lið. Að auki falla þær allar á fyrsta þröskuldi, þeirra hugmyndir leyfa yfirnáttúrulegt inngrip í náttúruna, nokkuð sem vísindamenn hafa hafnað í 150 ár.

Barátta sköpunarsinnanna er ekki vísindaleg í eðli sínu, heldur samfélagsleg og e.t.v. pólitísk. Þetta er spurning um áhrif og "sálir", ekki sannleika eða framfarir. Markmiðið er ekki að sigra í fræðilegri umræðu, heldur slá ryki í augu fólks til að það haldi að einhver vafi sé á sannleiksgildi þróunarkenningarinnar (og þar með vonast þeir eftir því að allir komi hlaupandi í kirkjuna).

Ástæðan fyrir þessum pistli eru þau tíðindi að enginn dreifingaraðilli hafi fundist fyrir kvikmynd um æfi Darwins. Ástæðan er sögð vera sú að Bandaríkjamenn séu of viðkvæmir fyrir efninu. Ég myndi aldrei staðhæfa að þetta sé merki um ofsóknir gegn vísindunum, en undirstrika að slagurinn er ekki fræðilegur heldur pólitískur. 

Ítarefni:

Kenningar Darwins þykja of eldfimar visir.is

Charles Darwin film 'too controversial for religious America' Anita Singh, Daily Telegraph.


Heimsókn Grant hjónanna

Síðastliðinn föstudag komu Peter og Rosemary Grant í heimsókn til Íslands. Þau héldu tvö erindi laugardaginn 29 ágúst, annað um tegundamyndun og hitt um þróun finkanna á Galapagos. Bæði erindin voru framúrskarandi góð. Seinna erindið markaði formlegt upphaf fyrirlestraraðar í tilefni 200 ára afmælis Charles Darwin, sem gert hefur verið skil hér áður. Kristín Ingólfsdóttir rektor HÍ setti fyrirlestraröðina með sérlega skemmtilegum inngangi.

Finkur2009_1 Peter Grant, Rosemary Grant, Kristín Ingólfsdóttir og Hafdís Hanna Ægisdóttir, mynd A. Palsson.

Peter Grant hafði komið til Íslands sem unglingur meðal annars til að leita jurta. Síðar ákváðu þau hjónin að staldra hér við (fyrir um 35 árum) og rannsaka máfa sem rændu mat af lundum. Í Vík fundu þau annan ræningja, skjótari og liprari í lofti, kjóann. Einar Árnason sem vann með Grant hjónunum að rannsóknum á kjóa og sniglum í Vík í Mýrdal kynnti fyrirlesarana.

Grant hjónin lögðu áherslu á að þróun getur verið mjög ör. Einnig skipta einstakir atburðir oft miklu máli, hvort sem um er að ræða hamfarir eða happakast. Miklir þurrkar hafa áhrif á framboð fræja á eyjunum, og á hinn bogin getur aukin rigning í kjölfar El Nino valdið rótækum breytingum á gróðri og þar með fræsamsetningu. Finkustofnarnir eru nauðbeygðir til að svara þessum breytingum, líklega vegna þess að fæðuframboð skiptir mestu um afdrif einstaklinganna (það eru helst uglur sem stunda afrán á finkunnum, en ekki er vitað um sýkingar aðrar eða meindýr). Goggastærðin hefur breyst heilmikið á þeim rúmu 30 árum sem þau hafa vaktað finkurnar. Því fer fjarri að breytingarnar hafi verið stefnubundnar, sum árin eru stórir goggar heppilegir en í öðru árferði reynast litlir goggar betur. Sem undirstrikar eina af lykilályktunum þróunafræðinnar, þróun hefur enga stefnu.

Þau fræddu okkur einnig um vistfræði og atferli finkanna, hvenær ungfuglarnir læra söng foreldranna (sem ákvarðar síðan hvers konar maka þeir kjósa sér) og hvaða breytingar í tjáningu þroskunargena tengjast formi goggsins. Rannsóknir þeirra eru það margþættar og auðugar að ekki er mögulegt að gera þeim tilhlýðileg skil í pistli sem þessum.

Grant hjónin hafa verið á þeytingi betri part ársins, á ráðstefnum og fundum, með fyrirlestra og fræðslufundi. Næsta stopp þeirra er Oslóarháskóli, þar sem þau halda í fyrramálið erindi undir merki Kristine Bonnevie sem var fyrsti kvenprófessorinn í Noregi. Rannsóknasetur í þróunarfræði og vistfræði við Oslóarháskóla stendur ásamt öðrum fyrir mjög flottri röð atburða í tilefni afmælis Darwins.

Næsta erindi í fyrirlestraröðinni hérlendis verður 3 október, og mun Guðmundur Eggertson þar leita að uppruna lífs.

 


Haustdagar Darwins 2009

Charles Darwin og þróun hafa nokkrum sinnum verið til umræðu á síðu þessari. Fyrir utan brennandi áhuga minn á þróun og öðrum lögmálum og undrum lífræðinnar hefur ástæðan einnig verið sú að í ár eru 200 ár liðin frá fæðingu Darwins. Að auki verða nú í nóvember 150 ár liðin frá því að bók hans Um uppruna tegundanna...kom út.

DarwinVeggspjaldAð því tilefni höfum við ásamt góðu fólki staðið fyrir margskonar viðburðum (sjá darwin.hi.is).

Nú í haust verður haldin fyrirlestraröð sem spannar allt frá þróun kynæxlunar, til uppruna lífs, öldrunar og leyndardóma jarðsögunnar. Í sumar fengum við forsmekk með erindi Monty Slatkin um Neanderthalsmanninn. 

Fyrsti fyrirlestur haustsins verður erindi Peter og Rosemary Grant um finkur Darwins (13:00 laugardaginn 29 ágúst). Aðrir fyrirlestrar í röðinni verða auglýstir hér, en full dagskrá er eftirfarandi.

6 júlí - Montgomery Slatkin - Neanderthalsmaðurinn: erfðamengi og stofnerfðafræði

29 ágúst - Peter og Rosemary Grant - Finkur Darwins og þróun

3 október - Guðmundur Eggertsson - Uppruni lífsins*

24 október -  Ólafur Ingólfsson og Ingibjörg Svala Jónsdóttir - Steingervingar og þróun lífs

31 október - Joe Cain - Kenning Darwins*

7 nóvember - Hrefna Sigurjónsdóttir og Sigurður Snorrason - Þróun atferlis

14 nóvember - Einar Árnason - Náttúrlegt val vegna fiskveiða*

21 nóvember - Hafdís Hanna Ægisdóttir - Lífríki og þróun á eyjum

28 nóvember - Linda Partridge - Þróun og öldrun*

5 desember - Guðbjörg Ásta Ólafsdóttir og Bjarni K. Kristjánsson - Tegundamyndun

12 desember - Snæbjörn Pálsson - Þróun kynæxlunar

*Ekki eru komnir endanlegir titlar á alla fyrirlestrana, en við tilgreinum megin rannsóknarviðfangsefni viðkomandi vísindamanna.

Fyrirlestraröðin er styrkt af mörgum aðillum sem við erum ævinlega þakklát.

Menntamálaráðaneytið

Rektor Háskóla Íslands

Líffræðistofnun HÍ

Líf og umhverfisvísindadeild HÍ

Rannsókna og fræðasetur HÍ á vestfjörðum

Líffræðifélag Íslands

Vísindafélag íslendinga

Gróco ehf

Landbúnaðarháskóli Íslands

Hólaskóli


Þróun haustsins 2009

Í tilefni afmælis Darwins og þess að 150 ár verða í haust liðin frá útgáfu Uppruna tegundanna höfum við staðið fyrir margskonar atburðum. 12 febrúar héldum við málþing um manninn og eðli hans og ritgerðasamkeppni um Darwin og þróun lífsins með Hin íslenskanáttúrufræðifélagi og Hinu Íslenska bókmenntafélagi.

Í sumar og haust munum við standa fyrir fyrirlestraröð um þróun og Darwin. Fyrstur ríður á vaði Montgomery Slatkin, með erindi næstkomandi mánudag 6 júlí 2009 (sjá tilkynningu).Hann mun fjalla um erfðamengi Neanderthalmannsins sem verið er að raðgreina. Monty mun einnig halda fyrirlestur daginn eftir um rannsóknir sínar á arfgengi flókinna sjúkdóma.

Aðrir fyrirlestrar sem komnir eru á fast fyrir haustið er:

29 ágúst - Peter og Rosemary Grant - Finkur Darwins og þróun

3 október - Guðmundur Eggertsson - Uppruni lífsins*

31 október - Joe Cain - Kenning Darwins*

28 nóvember - Linda Partridge - Þróun og öldrun*

Við stefnum að því að bæta við innlendum fyrirlesurum og halda sérstaka ráðstefnu um þróun þetta haust. Auk þess verður einnig fjallað um innlendar rannsóknir á þróun, og aðrar rannsóknir í líf, læknis og umhverfisfræði, á Líffræðiráðstefnunni 6 og 7 nóvember 2009.

*Ekki eru komnir endanlegir titlar á alla fyrirlestrana, en við tilgreinum megin rannsóknarviðfangsefni viðkomandi vísindamanna.

Fyrirlestraröðin er styrkt af rektor Háskóla Íslands, líffræðistofnun HÍ og líf og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands.


Hraðari þróun í hitabeltinu

Fjölbreytileiki lífvera er meiri eftir því sem nær dregur miðbaug. Íslenskir ferðamenn kannast við að rekast á margskonar framandi form dýra og plantna þegar þeir halda suður á bóginn. Tegundafátækt norðurhjarans er alþekkt, þótt reyndar megi oft finna mörg afbrigði sömu tegundar er heildarfjöldi tegunda mun lægri þegar við fjarlægumst miðbaug.

Vistfræðingar hafa löngum velt fyrir sér orsökum þessa lögmáls, sem stundum er kennt við Von Humboldt. Tvennt af því sem nefnt hefur verið sem líklegar orsakir er hiti og fjöldi kynslóða. Vandamálið er þetta tvennt helst í hendur, á suðrænum slóðum er heitt og dýr komast í gegnum fleiri kynslóðir á ári en á norðurhjara.

Til að skilja á milli þessara þátta notuðu Gillman og félagar pör náskyldra tegunda, þar sem önnur tegundin lifir í hitabeltinu en hin í því tempraða. Þeir báru saman 130 slík tegunda pör, og athuguðu hversu hratt genin í þeim þróuðust. Til að staðla þetta enn frekar skoðuðu þeir sama genið, cytochrome b sem er skráir fyrir lykilhluta hvatberans.

Niðurstöðurnar eru afgerandi, genin þróast hraðar í þeim tegundum sem búa við hærra hitastig.

Reyndar eru ekki allir fyllilega sannfærðir um að fjöldi kynslóða geti ekki útskýrt munin (sjá umfjöllun í Science), en það þarf nákvæmari rannsóknir á þeim tegundum sem notaðar voru í rannsókninni til að skera úr um það.

Spurningin sem eftir situr er hvort að áhrifin séu vegna hitastigs eingöngu, eða hvort að um kapphlaup milli tegunda sé að ræða? Einskonar samþróun í anda Rauðu drottningar Van Valens?

Frumheimild: Latitude, elevation and the tempo of molecular evolution in mammals, Len N. Gillman, D. Jeanette Keeling, Howard A. Ross, Shane D. Wright, 2009 Proceedings of the Royal Society B

Evolution faster when it's warmer eftir Victoriu Gill, 24 júní 2009

Evolution Heats Up in the Tropics eftir Michael Price ScienceNOW 25 júní 2009

Um lögmál Von Humbolts

Ecology's oldest pattern? Bradford A. Hawkins Trends in Ecology & Evolution
Volume 16, Issue 8, 1 August 2001, Page 470

 


Kæra fjölskylda

Fyrir mánaðarmót sendi frænka mín bréf á alla fjölskylduna þar sem hún varaði við ræktun erfðabreytts byggs. Mér fannst ástæða til að svara fjölpóstinum, og er það svar grunnurinn að þessari færslu.

Líffræðin kennir okkur að erfðabreyttar lífverur eru ekki eins hættulegar og fólk segir.

Í náttúrunni blandast erfðamengi lífvera saman á hverjum degi, bakteríur taka upp gen, veirur skjótast inn í erfðamengi, systurtegundir æxlast og sambýlislífverur skiptast á genum. Lífverur eru náttúrulega erfðabreyttar, auk þess sem nýjar og ófyrirsjáanlegar stökkbreytingar verða til á hverri sekúndu. 50 erfðabreyttar byggplöntur eru dropi í þann sjó lífvera sem til er og hefur verið til. Og að segja að áhættan á skrímslum vegna 50 byggplantna sé meiri en áhættan í allri náttúrunni yfir milljarða ára er rangt.

Ræktendur hafa nýtt sér náttúrulegar uppsprettur erfðabreytileika í ræktun afbrigða og kynbótum í hundruð ef ekki þúsundir ára. Við skjálfum ekki á beinunum yfir kynbættum kartöflum eða vel æxluðum nautgrip, en þeir eru í sjálfu sér ekki svo fjarri "ónáttúrulega" erfðabreytta bygginu sem ORF líftækni ræktar. Í stað þess að nota handahófskenndar aðferðir og bíða eftir því að finna "náttúrulega" erfðabreytt bygg (með því að hella manna DNA á nægilega margar byggplöntur mun það takast á endanum!!), þá notar ORF nákvæmari tækni.

Erfðabreyttustu lífverur jarðar eru nytjaplöntur og húsdýr. Það eru ekki skrímsli sem eiga eftir að þurrka út annað líf á jörðinni eða drepa mannfólk unnvörpum. Nytjaplöntur og húsdýr eru í raun bæklaðar lífverur, vegna þess að við höfum valið fyrir ákveðnum eiginleikum (mjólkurnyt, kjötmagni, stærð kornsins) á kostnað náttúrulegrar hæfni lífverunnar. Þessar plöntur og dýr þarfnast margar hverjar okkar aðstoðar við að lifa af. Hveiti nútímans fellur ekki af axinu sjálft, sum evrópsk kúakyn geta var fædd kálfa án dýralæknis, og bananar eru einræktaða útgáfan af halta Pétri. Því er auðvelt að álykta að erfðabreytt bygg með insúlíngen mannsis er engin ógnun við lífríkið.

Margir setja jafnaðarmerki milli ORF líftækni og Monsanto. Við getum rætt Monsanto og áþekk fyrirtæki síðar, en ORF er með annarskonar framleiðslu. Það notar bygg sem efnaverksmiðjur. Það að hreinsa lífefni úr öðrum uppsprettum er bæði óskilvirkara og sóðalegra, og það að nýmynda slík efni með aðferðum lífrænnar efnafræði krefst margra lausna sem eru miður æskilegar. Ef valið er á milli þess að framleiða Insulín með byggi, eða hreinsa það úr svínavef þá myndi ég velja byggið. 

Áhættan af erfðabreyttu byggi er hverfandi, eins og við höfum rakið hér áður. Ef við viljum sýna náttúrunni og umhverfinu virðingu þá er margt annað sem við ættum að BANNA á undan erðabreyttu byggi (flugvélar, bíla, orkufrek hús með glerrúðum, malbik, dráttarvélar, farþegaskip, bækur, gosdrykki, umbúðir o.s.frv.).

Við verðum að forgangsraða í okkar lífi, t.d. með þvi að draga úr akstri, kaupa matvöru með litlum eða engum umbúðum og setja niður tré. Ég treysti ykkur alveg til að komast að eigin niðurstöðu um það hvernig við getum verndað náttúru Íslands og heimsins, en ég vona að þið dæmið ekki erfðabreytta byggið á röngum forsendum.

Með kveðju,


Baráttan fyrir lífinu í hrauninu

Þróunarkenning Darwins og Wallace sýndi fram á að í stofnum lífvera veljast sumar gerðir úr, alveg náttúrulega. Þetta er afleiðing þess að lífverur eru breytilegar, eiginleikar þeirra erfast og þær eignast mismörg afkvæmi. Ástæða þess að lífverur eignast mismörg afkvæmi er sú að þær eru misjafnlega hæfar til að takast á við umhverfi sitt. Umhverfi er mjög víðfemt hugtak, og getur táknað aðgang að fæðu, birtuskilyrði, hitastig, ásókn afræningja, geimgeisla og þar fram eftir götunum.

Baráttan fyrir lífinu er oftast rædd sem slagur bráðar og afræningja eða sýkils og hýsils, en getur tekið á sig fleiri myndir. Planta í gljúpum jarðvegi, þarf að berjast fyrir lífinu. Fræ sem lendir í mosaþembu þarf að berjast fyrir lífinu, og þar fram eftir götunum.

Í dag mun Jóna Björk Jónsdóttir flytja fyrirlestur um rannsóknir sínar á baráttum plantna fyrir lífinu, í Skaftáreldahrauni. Hún sýnir meðal annars fram á að mosamottan sem þekur hraunið aftrar landnámi háplantna. Ég sjálfur hélt að mosi myndi frekar búa í haginn fyrir aðrar plöntur í hrauninu en svo virðist ekki vera. 

Fyrirlestur Jónu er meistaravörn hennar frá líf og umhverfisvísindadeild HÍ, á rannsókn sem hún vann undir leiðsögn Þóru Ellenar Þórhallsdóttur og Kristínar Svavarsdóttur.

Erindið hefst kl 14:00 í stofu 132 í Öskju, náttúrufræðihúsi HÍ. Ágrip erindisins má nálgast á heimasíðu HÍ.


Snákadoktorinn

Frétt þessi er ekki nægilega vel unninn. Vinsamlegast lesið úttekt Baldvins Einarssonar og athugaemdir lesanda hans (þið munið reyndar sjá frumdrög þessara færslu þar líka).

Fréttin gæti verið dæmi um það hvernig forvitnilegum tíðindum er hvíslað í gegnum of mörg eyru. Upprunalega sagan virðist vera á huldu.

Rótin er samt grein í PNAS fyrr í mánuðinum um "eitur í komodo drekum" (hugmyndin um hættulegar bakteríur er samt alls ekki galin). Fyrsti höfundur er Bryan Fry við háskólann í Melborne, eiturdoktor eins og hann kallar sig (http://www.venomdoc.com/). Hann byrjaði á að draga í efa viðtekna þekkingu, að felstar eðlur gætu ekki myndað eitur. Hann hefur sýnt að eiturkirtlar eru mjög útbreiddir í hópi eðla og snáka, og að sumar lífverurnar mynda hægdrepandi eitur (eða sem sljóvga einungis bráð eða rándýr).

Bryan%26StonefishMyndin er af síðu Bryan Fry (http://www.venomdoc.com/).

Nálgun hans er bæði að rýna í erfðamengi lífveranna og finna genin sem skrá fyrir eiturprótínunum. Hann skoðar einnig bein og vefi höfuðsins. Þannig sýndi hann fram á að vissir hópar eðla eru með eiturkirtla og að í eldri lýsingum hafi fólk hreinlega ekki teiknað dýrin upp nægilega nákvæmlega. 

Ég sá hann flytja erindi einu sinni, og ég hefði getað svarið að mörkin milli vísindalegs fyrirlesturs og dýrasirkus voru orðin ansi óljós. Einn alskemmtilegasti fyrirlestur sem ég hef nokkurn tímann séð. Fyrir kvenfólkið var þetta mjög örvandi erindi, glansandi skalli, opin flaksandi skyrta og glitrandi snákahálsmen...gvöð.


mbl.is Drekaeðlur ráðast á fólk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Erindi: Íslenskar náttúruperlur og erfðamengi melgresis

Tvær meistaravarnir verða við líf og umhverfisvísindadeild HÍ í næstu viku.

Karen Pálsdóttir ræðir um rannsóknir sínar á íslenskum náttúruperlum. Hún leitaði leiða til að lýsa sjónrænum einkennum náttúruperla, flokka þær og bera við annað landslag. Þetta er mjög brýnt því við eigum svo erfitt með að meta fegurð landslags, nokkuð sem hefur flækst fyrir fólki sem vill meta á hlutlægan hátt áhrif framkvæmda. Rannsóknina vann hún undir handleiðslu Þóru Ellenar Þórhallsdóttur og Þorvarðar Árnasonar, og er hún til meistarprófs í umhverfis-og auðlindafræði.

Erindi Karenar verður mánudaginn 25 maí í Öskju, stofu 132. Það hefst kl. 16:00. Úr ágripi

Náttúruperlurnar áttu sameiginlegt háar einkunnir fyrir allar breytur sem við komu fjölbreytni. Þetta gerði það jafnframt að verkum að þær voru mjög ólíkar innbyrðis. Aðferðin greindi mun milli náttúruperla og annars "venjulegs" landslags (kerfispunktanna). Sumar náttúruperlur féllu inn í landslagsflokka ÍL, en aðrar röðuðust saman og mynduðu sinn eigin flokk. Niðurstöðurnar benda til þess að háar einkunnir fyrir fjölbreytileika, svo sem mikil fjölbreytni í formum, mynstrum, áferð og litum, greini náttúruperlur frá venjulegu landslagi. Einnig höfðu náttúruperlurnar oft meira vatn, fjölbreyttari birtingarmyndir vatns, og meiri straumþunga. Á hinn bóginn höfðu náttúruperlur að meðaltali svipaðan gróðurfjölbreytileika og minni gróðurþekju heldur en venjulegt landslag.

Ágrip á síðu HÍ.

Miðvikudaginn 27 maí heldur Sæmundur Sveinsson fyrirlestur um rannsóknir sínar á erfðamengi melgresis. Hveiti er ein helsta nytjaplanta heims. Ræktun nýrra afbrigða byggir oft á æxlunum við skyldar tegundir. "Samt sem áður er þekking á erfðafræði villtra tegunda innan hveitiættarinnar mjög takmörkkuð." Markmið rannsókna Sæmundar var að kanna fjölbreytileika melgresis og skyldra tegunda. Nálgunin var sú að einangra endurteknar raðir (örtungl) úr erfðamengjunum og finna sértæka lykla til merkja ákveðna hópa tegunda. Aðalleiðbeinandi var Kesara Anamthawat-Jónsson.

Erindi Sæmundar verður í Öskju, kl 14.00. Úr ágripi.

Nýlega einangruð fjölskylda af samfellt endurteknum satellite-röðum, nefnd Lt1, var skilgreind í þessari rannsókn.  Uppbygging Lt1 fjölskyldunnar og útbreiðsla hennar meðal meltegunda var könnuð með Southern þáttatengingu og staðsetning hennar á litningum kortlögð með flúrljómandi þreifurum.  Lt1 er fyrsta erfðamengis sérhæfða satellite-fjölskyldan sem aðskilur amerískar meltegundir frá evrópskum og asískum meltegundum.  Ljóst er að aukin þekking á erfðafræði villtra grastegunda eykur notkunarmöguleika á erfðaauðlindum fyrir kynbætur kornjurta.

Ágrip á síðu HÍ.


Hlekkur í ættarrunnanum

Páll Jónsson hefur nú þegar bent á að orðið týndi hlekkurinn, hefur oftast verið notað um sameiginlega forfeður manna og apa. Almennt séð er kannski hægt að tala um týnda hlekki í ættarkeðju forfeðra okkar, en það missir marks af einni lykil ástæðu.

Fæstir af þeim steingerðu mannöpum sem fundist hafa eru beinir forfeður  okkar, þeir eru lang flestir ættingar af hliðargreinum þróunartrésins.

Ímyndið ykkur tré sem líkingu af ættartré mannapa. Homo sapiens  er á einni grein, en Homo erectus á annarri, Homo habilis enn annari og svo mætti lengi telja. Mjög lítill hluti lífvera varðveitist í jarðlögum. 

Ef við höldum okkur við trjá líkinguna. Ef við finnum einungis 10 litla búta af stærðarinnar birkitré sem kubbaðist í óveðri, er er harla ólíklegt að allir bútarnir séu af sömu grein (t.d. þeirri sem maðurinn situr á). Líklegast er að við finnum búta af hinum og þessum greinum.

Reyndar hefur einnig verið bent á að ættartré okkar sé ekki mjög trjálaga, það sé líkar greinóttum runna.

Það sem er stórkostlegt við Idu er hversu mikill hluti beinagrindar hennar fannst. Fólk gerir sér ekki grein fyrir því hversu erfið vísindi steingervingafræði er, því mjög sjaldan finnast heilar grindur eða mörg bein úr hverjum einstakling. 

Púsl með 5000 stykkjum var það stærsta sem við barnabörnin kláruðum með ömmu. Steingervingafræðingarnir reyna að púsla saman úr 500.000 beinum, úr kannski 100.000 mismunandi einstaklingum (púsluspilum). Það er gestaþraut í lagi.

Ítarefni

http://www.revealingthelink.com/

Umræða um hlekki og skjaldbökur.
mbl.is Týndi hlekkurinn fundinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband