Leita í fréttum mbl.is

Spá um hrun fiskirís

Næsti fyrirlestur á Darwin dögunum 2009 verður fluttur af Einar Árnasyni. Erindið nefnist sterkt val á Pan I geninu í þorski vegna veiða: spá um hrun fiskirís.

 

Darwin kenndi okkur að skilja náttúrlegt val. Tæknivæddur, er maðurinn mikilvirkur afræningi og afrán hans getur virkað sem máttugur valkraftur. Það gildir um nútíma fiskveiðar. Pan I genið í þorski hefur tvö allel og arfgerðir gensins tengjast svipgerðum sem velja sér búsvæði eftir dýpi. Sterkt val vegna fiskveiða, sem beinast í ríku mæli að fiski á ákveðnu búsvæði, finnst á geninu. Valið er óbeint og verður vegna þess að fiskur velur sér búsvæði eftir arfgerð og fiskveiðar eru mestar í ákveðnu búsvæði. Mat á hæfnistölum er gerð. Hæfnismat er notað til að spá fyrir um breytingar á samsetningu stofnsins. Spáin er að arfgerðir fisks sem eru lagaðar að grunnsævi hverfi fljótt úr stofninum ef fram heldur sem horfir. Afleiðingin kann að verða hrun fiskveiða úr stofninum.

Einar Árnason er prófessor í þróunarfræði við Háskóla Íslands. Hann hefur rannsakað atferli kjóans, breytileika í brekkubobbum, náttúrulegt val í ávaxtaflugum, en mesta áherslu hefur hann lagt á rannsóknir á fjölbreytileika og erfðasamsetningu nytjastofna við Ísland og í Atlanshafi.

Erindið er hluti af fyrirlestraröð í tilefni 200 ára afmælis Charles Darwin sem fram fer haustið 2009. Dagskrá má nálgast á darwin.hi.is. Erindið er öllum opið og verður flutt á íslensku.

Stund: 14. nóvember 2009, kl. 13:00
Staður: Stofa 132 í Öskju, náttúrufræðihúsi HÍ.

Ítarefni:

Grein Einars og félaga í PLoS One Intense Habitat-Specific Fisheries-Induced Selection at the Molecular Pan I Locus Predicts Imminent Collapse of a Major Cod Fishery

Aðlögun að dýpi


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Var erindið um helgina bara upphitun hjá Einari?

Jóhannes (IP-tala skráð) 9.11.2009 kl. 18:17

2 Smámynd: Árni Gunnarsson

Ætli Einar Árnason geti skýrt hrun þorsksins fyrir Norðurlandi árið 1774?

Árni Gunnarsson, 9.11.2009 kl. 19:25

3 Smámynd: Arnar Pálsson

Erindi Einars á líffræðiráðstefnunni var eiginlega bara ágrip, flutt á fullu gasi og hæsta gír.

Árni, mér þykir líklegast að hann geti bara spekúlerað í því hvað olli hrunin 1774, því það eru ekki til sambærileg gögn fyrir það tímabil og síðustu áratugi.

Arnar Pálsson, 10.11.2009 kl. 09:11

4 identicon

Við eigum áreiðanlega ansi marga góða og færa vísindamenn, sem rannsaka lífríkið - sem og margt annað í náttúru lands og miða - og benda á margt sem betur mætti fara í umgengni okkar við náttúruna. Þeir sem ráða, fara hinsvegar sjaldnast eftir ráðum góðra vísindamanna, heldur eru það klíkur og spilling sem ræður för. - Þótt það komi erfðafræði ekki beinlínis við, þá hafa margir vísindamenn núna áhyggjur af því að öll þau ókjör eiturefna, sem sökkt hefur verið í Atlantshafið á síðustu öld, fari að leka út úr þeim umbúðum, sem þau voru sett í þegar umbúðirnar, oftast stáltunnur, fara að tærast í sundur. Lengi vel töldu menn að súrefnisskortur væri það mikill í hafdjúpunum, að stál myndi lítt tærast á dýpi, sem væri komið yfir 3000 metra, en þegar flakið af Titanic fannst sáu menn, að það var tálvon. Þetta held ég að sé eitt stærsta áhyggjuefni okkar Íslendinga.

Rosabaugur (IP-tala skráð) 10.11.2009 kl. 09:35

5 Smámynd: Arnar Pálsson

Rosabaugur

Takk fyrir að benda á aðra mjög mikilsverða ógn.

Sjórinn hefur lengi verið notaður sem ruslakista. nýjasti hryllingurinn er sá að mafían á Ítalíu hafi sökkt kjarnorkuúrgangi í Miðjarðarhaf.

Aðalvandamálið er það að fólk sér ekki sjóinn almennilega. Fólk sér skemmdirnar á Amazónskógunum, gerir sér grein fyrir uppblæstri við Heklu en hafdjúpin eru flestum hulinn.

Það sem maður sér ekki, hugsar maður ekki um.

Kannski er eina vonin að koma af stað neðansjávarferðamennsku, leyfa þeim að sjá kóralrif t.d. fyrir og eftir að troll var dregið í gegn.

Arnar Pálsson, 10.11.2009 kl. 10:57

6 Smámynd: Arnar

Óþarfi að kafa, ætti að duga að sigla með fólk í gegnum hið svokallaða North Pacific Plastic Sea.

Arnar, 11.11.2009 kl. 09:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband