Leita í fréttum mbl.is

Líf á flúor

Gosið í Eyjafjallajökli minnir okkur á þá staðreynd að við erum hluti af náttúrunni. Eldgos, flóð, fellibylir og farsóttir eru eðlilegur hluti af náttúrunni. Við lítum oft á okkur sem yfir náttúruna hafin, eða að hún komi okkur ekki við.

Við lifum á eldfjallaeyju. Lífríki Íslands hefur mótast af sögu eyjarinnar, eldvirkninni og ísöldunum.*

Skilningur á náttúrunni gefur okkur færi á að verja okkur fyrir hamförum af hennar völdum. Jarðfræðingarnir eru orðnir mjög góðir í að skilja eldfjöll, og í það minnsta vara okkur við gosum og flóðum af þeirra völdum. Líffræðingar og læknar vita að aska og flúor getur skaðað lífverur.

Fólk hefur eðlilega áhyggjur af flúormengun í öskunni frá Eyjafjallajökli. Áhrif flúors virðast aðallega vera á heilsu beina. Flúor bindur kalk, og of hár styrkur af því í líkama dýra leiðir til skemmda á beinum:

Dæmi eru um það hér á landi að nautgripir, sem fengu drykkjarvatn í fjósið úr volgri laug með 10-11 ppm af flúor hafi orðið haltir og heilsutæpir eftir fáa mánuði. Þeim batnaði, þegar þeir fengu á ný vatn ómengað af flúor.  (af vísindavefnum)

Kalk er einnig boðsameind í frumum og er nauðsynlegt fyrir starfsemi tauga og vöðva. Flúor í of miklum mæli getur því skaðað lífverur á nokkra vegu. Flúor hefur líka skaðleg áhrif á fiska og hryggleysingja, sérstaklega ferskvatns lífverur.

Vonandi ná bændur að bjarga bústofni sínum og ræktar landi. Gróður og villt dýr undir Eyjafjöllum og í Mýrdal munu að endingu hrista af sér öskuna, einhver afföll eru óhjákvæmileg. Ég óttast sérstaklega um brekkubobbana. Samkvæmt Einari Árnasyni hurfu bobbarnir úr Vestmannaeyjum við gosið þar, líklega því askan eyðilagði búsvæði þeirra.

*Það verður opinn dagur í Öskju, náttúrufræðihúsi HÍ, laugardaginn 24 apríl í tilefni dags umhverfisins. Þar verður fjallað um eldgos, lífríki landsins og hægt að skoða hvalbein, fugla, fiska og pöddur. Dagskrá frá 11-15 fyrir alla fjölskylduna.bobbi_ap.jpg

Mynd af Bobba, Arnar Pálsson copyright, tekin 2009 í vesturbæ Reykjavíkur.

Ítarefni:

Af vísindavefnum:

Hver eru helstu áhrif flúors á manninn?

Vísindavefurinn: Hvaða efni eru snefilefni?

Hver eru helstu einkenni bráðrar flúoreitrunar í skepnum?

Myndir Erlings Ólafssonar af sniglum og bobbum.

Camargo JA. Fluoride toxicity to aquatic organisms: a review. Chemosphere. 2003 Jan;50(3):251-64.


mbl.is Aukið flúormagn í öskunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband