Leita í fréttum mbl.is

Það á að draga línu

Ég er fylgjandi því að mannréttindaráð Reykjavíkur dragi skýra línu, og banni trúboð í skólum. Yfirlýst markmið flestra trúarbragða er að boða viðkomandi trú. Trúarbrögð sem gefa fólki val, eða hreinlega mæla gegn því að fólk gangi í félagið getur aldrei orðið ríkjandi trúarbrögð.

Deilan snýst um hvar trúboð megi fara fram. Kirkjan hefur ráðið almenningstengslafyrirtæki til að sjá um sín kynningarmál, aðallega moldviðrið í kringum meðhöndlun (klúður) kirkjunar á málum sem tengjast kynferðislegri áreitni og líklega einnig núverandi deilu um aðgang presta að skólabörnum. Ef tillögur mannréttindaráðs verða samþykktar, sem ég vona svo sannarlega, er purning hvort að næsta útspil þeirra sé að ráða frægt fólk eða íþróttahetjur til að fara í skólanna og minnast á guð og jesúm í framhjáhlaupi. Mörg stórfyrirtæki nota slíkt "namedropping" eða "product placement" til að selja sínar vörur. Hví ekki "vor" ríkiskirkja? 

Set einnig inn grein Guðmundar I. Markússonar úr Fréttablaði dagsins, reyndar að honum óspurðum, þar sem hann svarar skrifum Arnar Bárðar.

Viljum við markaðssetningu á trú til skólabarna?

Sæll aftur Örn Bárður. Í svargrein þinni til mín gerir þú lítið úr trúboði í skólum með því að segja að trúboð sé stundað víða. Þú spyrð hvort prestar séu meiri trúboðar en aðrir. Ég spyr: er Þjóðkirkjan evangelísk - boðberi fagnaðarerindisins? Þú talar um opið samfélag án þess að spyrja hinnar erfiðu spurningar: Hvar á að draga mörkin? Einhvers staðar hljóta þau að liggja. Tillögur mannréttindaráðs eru tilraun til þess að draga þessi mörk með hag skólabarna í huga.

Trúboð er markaðssetning lífsskoðana. Á heimasíðu Gídeonfélagsins má lesa að markmið þess sé "að koma orði Guðs í hendur fólks á sem flestum aldursskeiðum þess" (gideon.is). Stundum ganga fulltrúar þeirra lengra en að dreifa Nýja Testamentinu meðal skólabarna og höfða til trúartilfinninga þeirra og leiða þau í bæn (sjá t.d. orvitinn.com/2010/10/23/12.30). Í sumum leikskólum koma prestar í heimsókn mánaðarlega. Fyrir fáeinum árum fréttist af því að í grunnskóla einum væri ávallt farið með morgunbæn. Í mörgum skólum er dreift upplýsingum um barnastarf kirkjunnar. Ekki má gleyma tillögu sem liggur fyrir kirkjuþingi þar sem talað er um aukin tengsl kirkjunnar, bæði við leikskóla og grunnskóla (kirkjuthing.is/mal/2010/14). Þetta er ekkert annað en trúboð. Það skýrir hin sterku viðbrögð kirkjunnar - hún er að missa spón úr aski sínum.

En tryggjum við jafnræðið með því að hleypa fleiri trúboðum inn? Á eftir Gídeon gæti Imaminn dreift Kóraninum, og hvað með Mormónsbók? Þú spyrð hvort við viljum ekki opið samfélag? Vissulega. En hvar eiga mörkin þá að liggja? Viljum við að Vottar Jehóva og Aðventistar dreifi ritum til 10. bekkinga þar sem þróunarkenningin er dregin í efa? Og hvað með trúfélög sem gætu fengið opinbera viðurkenningu seinna meir? Vísindakirkjan, prýdd öllum sínum Hollywood-stjörnum, er viðurkennt trúfélag hjá frændum okkar Svíum. Myndum við opna fyrir þeim? Ég held ekki. Það þarf að draga skýra línu. Eina raunhæfa leiðin til þess er að tryggja að skólinn sé vettvangur fræðslu, ekki markaðssetningar.

Er það mismunun að allir nema tveir fari í kirkjuferð? Er það rétt, með velferð barnanna í huga, að skilja þau frá hópnum? Hér verður að hafa í huga að skólinn er opinber, lögbundinn, og fyrir alla. Auðvitað verður að vera svigrúm fyrir foreldra að fá frí við sérstakar ástæður. En við hljótum að vera sammála um að utanaðkomandi starfssemi trufli skólastarfið sem minnst. Þú virðist gefa þér að þjóðkirkjufólk vilji trúboð í skólum. En það fylgir ekki sjálfkrafa. Undanfarna daga hef ég heyrt í foreldrum sem vilja vera í Þjóðkirkjunni en eru samt andvígir trúboði í skólum. Þú virðist einnig telja að trúlausir kjósi að skilja börn sín út úr hópnum. Fólk fer ólíkar leiðir. Margir foreldrar kjósa að kyngja eigin sannfæringu og hlífa börnum sínum við því að vera skilin frá félögum sínum verða þar með stimpluð "öðruvísi".

En eru tillögur mannréttindaráðs atlaga að mannréttindum meirihlutans? Hvernig má það vera þegar öllum verður áfram tryggð lögbundin fræðslu um kristindóminn samkvæmt Aðalnámskrá? Tillögurnar snúa aðeins að sjálfri iðkun trúarinnar á skólatíma. Ef taka ætti fyrir fræðslu um kristna trú væri það að mínu viti ekki aðeins brot á mannréttindum meirihlutans heldur einnig minnihlutans. Sumir hafa snúið út úr trúfrelsinu þannig að það sé frelsi til trúar, ekki frá trú. En auðvitað felst líka í því rétturinn til trúleysis. Þetta á við í hinu opinbera rými þar sem skólinn er reistur, öllum til handa. Og þetta snýst ekki um miðstýringu. Að halda því fram að mannréttindi og trúfrelsi eigi að byggjast á því hverjir ráða í hverfum borgarinnar hverju sinni stenst ekki. Mannréttindi eru almenn og yfir slíkan hverfulleika hafin.

Og hvað svo um "þöggun"? Enginn hefur talað fyrir þöggun um kristna trú. Fyrir utan að vera óverjandi væri slíkt líka ómögulegt í ljósi Aðalnámsskrár - sem tryggir einnig að kristin trú fái meira pláss en önnur trúarbrögð. Allt tal um þöggun er því rangt og jafnframt vantraust á skólakerfið. Hitt er annað mál að fleira verður að koma til en kristin fræði eigi að tryggja menningarlæsi. Þræðir íslenskrar menningar eru fleiri en svo, og í besta falli umdeilanlegt að grunnstefið sé krosssaumur og vefstóllinn úr krossviði. Í nýlegum netpistli segir "að til að geta notið menningararfs þjóðarinnar og okkar heimshluta er mikilvægt að kennslu í samfélagsfræðum, bókmenntum, myndlist, tónlist sem og trúarbragðafræðum og öðrum tengdum námsgreinum sé sinnt með fjölbreyttum og metnaðarfullum hætti" (Fésbókin: Björn Kristjánsson: Þetta var bara misskilningur!). Bætt menningarlæsi hlýtur að byggjast á þekkingu, ekki trúboði.

Tölum um það sem skiptir máli. Hættum að gera öðrum upp skoðanir eins og "þöggun". Viljum við að hinn lögbundni, opinberi skóli sé vettvangur fyrir markaðssetningu trúarbragða? Viljum við að hann sé fyrir alla eða bara meirihlutann? Hér er ekki nóg að hver svari fyrir sig, eftir hverfulleika eigin þankagangs í sínu horni. Mannréttindi eru almenn og yfir slíkt hafin. Þess vegna þarf skýrar línur.


mbl.is Sjálfstæðismenn vilja samráð um trúmál
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta er ótrúlega erfitt hjá mínum flokki að taka af skarið og skera í sundur ríki frá kirkju og láta trúboð fara fram annarsstaðar en í skólakerfinu. Hvað er að fólki? Þetta liggur svo ljóst fyrir að það hálfa væri nóg!!!!!

Óskar (IP-tala skráð) 3.11.2010 kl. 17:46

2 identicon

Ég ætla mér aldrei að kjósa hvorki Samfylkinguna, Vinstri Græna né Besta Flokk fyrst þau hafa lysa á að eyða milljörðum í þetta fánýta þvaður um trúmál meðan gamalmenni eru borin út, sjúklingar fá ekki meðferð og börn gramsa í ruslinu eftir mat. Nú liggur valið um að gamall vinstrimaður fari að kjósa hægriflokkana, eða skila auðu.

Vilmundur (IP-tala skráð) 4.11.2010 kl. 01:57

3 Smámynd: Arnar Pálsson

Óskar

Ég vona að þinn flokkur freistist ekki út á sömu braut og republikanar í bandaríkjunum og tvinni trúmál og stjórnmál  svo þétt að vart má á milli greina.

Vilmundur

Hvaða milljarða ertu að tala um? Þetta er ein ákvörðun mannréttindanefndar, sem ef eitthvað er dregur úr hreinsunarkostnaði í skólum (það þarf ekki að taka niður gamlar tilkynningar um kirkjustarf) og getur e.t.v. aukið tíma sem börn geta varið við nám (þegar ekki er prestur að lesa yfir þeim). Það er ekki eins og það eigi að stofna skólalögreglu sem þarf að halda prestum með valdi út úr skólastofum!

En ég er sammála þér að margar áherslur Besta flokksins hingað til hafa orkað tvímælis. Það er augljóst að blessaður borgarstjórinn hefur ekki hugmynd um það hvað borgarstjórar eiga að gera. Það hefði verið betra ef Besti flokkurinn hefði ráðið óflokksbundinn bæjarstjóra til að stýra fleyinu á þessum erfiðu tímum.

Arnar Pálsson, 4.11.2010 kl. 09:08

4 Smámynd: Arnar

Ótrúlegt líka í allri þessari umræðu hvað fólk er illa upplýst um hvað mannréttindi þýðir í raun og veru.

Td. eru margir sem telja það brot á mannréttindum að meirihluta reglan sé ekki látin gilda.  Aðrir (en ótrúlega oft sömu aðilar) sem telja það mannréttindabrot að td. félagsskapur eins og Gideon fái ekki að mæta í skóla, gefa nýja testamenntið og lesa upp úr því yfir og með heilu bekkjunum.  Og svo eru kostulegir kvistir eins og Jón Valur að kvarta undan trúarofstæki í sömu orðum og hann heimtar að mannréttindaráð verði rekið í heilds sinni því þeirra skoðanir stangast á við hans trúarskoðanir.

Arnar, 4.11.2010 kl. 10:21

5 Smámynd: Arnar Pálsson

Arnar

Eru þetta ekki allt saman birtingarform sama vandamáls? Við íslendingar kunnum ekki að rökræða? Sem er dálítið undarlegt miðað við hvað okkur finnst gaman að rífast.

Það þarf yfirvegun og heiðarleika til að taka þátt í vandaðir rökræðu - ath. ekki það sama og umræðu. Ég stend sjálfan mig að því að nota léleg rök, stundum að því að orða hlutina ónákvæmt og jafnvel að klikka á staðreyndum. En ég held (eða allavega sannfæri sjálfan mig um) að ég geti tekið sönsum, ef slík mistök eiga sér stað.

Arnar Pálsson, 4.11.2010 kl. 10:51

6 Smámynd: Arnar

Rökræður ganga náttúrulega engan vegin upp ef hvorugur aðilinn er tilbúinn að viðurkenna að hann gæti hugsanlega haft rangt fyrir sér.  Landlæg þrjóska og þvermóðska íslendinga væri örugglega áhugavert verkefni fyrir mannfræðinga og/eða erfðafræðinga.

Arnar, 4.11.2010 kl. 12:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband