Leita í fréttum mbl.is

Samskipti lyfjafyrirtækja og lækna

Ég vil benda ykkur á framvindu máls. Skrifum Steindórs J. Erlingssonar um notaleg samskipti lyfjafyrirtækja og lækna hafa undið upp á sig. Úr fyrri pistli (Traust á vísindalegum niðurstöðum).

Því miður er að koma í ljós að lyfjafyrirtæki hafa stundað margskonar bellibrögð til þess að fegra niðurstöður lyfjaprófa og markaðsset lyf sem annað hvort virka illa eða hafa alvarlegar aukaverkanir. Þetta er einna skýrast í tilfelli geðlæknisfræðinnar. Steindór J. Erlingsson hefur skrifað ítarlega um þessi mál á undanförnum tveimur árum. Nú fyrir helgi birtist grein eftir hann á Pressunni, þar sem hann reifar þessi svik lyfjafyrirtækjanna og meðvirkni læknasamfélagsins. 

Morgunblaðið tók grein Steindórs í Pressunni (Ég er reiður) upp á sína arma - FLOTT hjá þeim - birti fréttaskýringu og fylgdi málinu eftir með viðtali við Landlækni, forstjóra Lyfjastofnunar og formann Læknafélagsins.

„Almennt eru læknar meðvitaðir um faglegar skyldur sínar og gagnvart samfélaginu,“ segir Geir [Gunnarsson landlæknir]. „Læknafélagið hefur sett ákveðnar reglur um samskipti lækna og lyfjafyrirtækja, en ég get ekki dæmt um hvort það er fullnægjandi. Læknar hafa farið í ferðir á kostnað lyfjafyrirtækja og mér finnst almennt að læknar eigi að vera á varðbergi gagnvart slíku, en við getum ekki bannað fólki að fara í slíkar ferðir. Oft eru þær skipulagðar til að afla frekari þekkingar á sérsviði viðkomandi læknis og í öðrum tilvikum er um hópa að ræða, sem eru taldir mikilvægir fyrir viðkomandi flokk sjúkdóma. [Feitletrun AP]

Getum við ekki bannað læknum að láta múta sér? Kannski er best að sjúklingar spyrji lækninn sinn.

  • Ertu viss um að þetta sé besta lyfið í stöðunni?
  • Hefur þú þegið málsverð, gjafir, ráðstefnuflugfargjald og með því frá framleiðanda(dreifingaraðilla) lyfsins sem þú vilt láta mig taka?

Úr frétt Morgunblaðsins (3 desember 2010) Siðareglurnar settar til að verjast áhrifum

Birna Jónsdóttir, formaður Læknafélags Íslands, segir að Evrópusamtök lækna hafi sett sér reglur um hvernig samskiptum lækna og lyfjafyrirtækja skuli háttað. Einnig sé slíkt ákvæði í siðareglum lækna. En hvað hefur Birna að segja um að læknar verði fyrir miklum áhrifum af lyfjakynningum sem gjarnan feli í sér boðsferðir og önnur hlunnindi? „Það er svo mörgu haldið fram. Ég hef ekki þurft að taka á málum þar sem samskipti lækna og lyfjafyrirtækja hafa verið óeðlileg. En auðvitað hefur margt breyst frá því sem áður var og það er ástæða fyrir því að settar voru reglur um samskipti lækna og lyfjafyrirtækja.“  

Siðareglur duga ekki, það þarf betri verklagsreglur um framkvæmd lyfjaprófa. Ben Goldacre hefur skrifað um þetta mál af mikilli yfirsýn. Kröfurnar eru eftirfarandi.

1. Lyfjafyrirtæki tilgreini FYRIRFRAM hvaða breytur á að skoða í hverju tilteknu lyfjaprófi. Það er því miður landlægt vandamál að lyfjafyrirtæki hefji leik með eina rannsóknaspurningu, en skipti síðan um spurningu í miðju sundi (líklega vegna þess að fyrstu niðurstöður reyndust þeim ekki hentugar). Það er mjög algengt að lyfjafyrirtækin leggi áherslu á jákvæð áhrif lyfs á skyldan þátt, en EKKI sjúkdóminn sjálfann (líklega vegna þess að lyfið hefur ekki merkjanleg áhrif á sjúkdóminn!).

2. Allar niðurstöður lyfjaprófa verði færðar í opinbera gagnagrunna. Þetta er til þess að hlutlausir aðillar geti greint frumgögnin og metið rannsóknatilgátur algerlega hlutlægt. Ef fyrirtækið þitt hefur fjárfest 100 milljón dollara í einhverri pillu, er erfitt fyrir þig að mæta á fund og segja að það virki ekki!

3. Upplýsingum um lyfjapróf sem hætt er við verður líka að setja í opinbera gagnagrunna. Þetta getur afhjúpað aukaverkanir og hliðareinkenni sem lyfjafyrirtækin stinga of oft undir stól. Sagan kennir okkur að flestir stóru lyfjarisanna hafa stungið niðurstöðum undir stól, til að verja markaðshluteild og sölu (en ekki líf sjúklinga).

Það dugir ekki að vísa í siðareglur og setja upp svip heilagleikans. Áhrif lyfjafyrirtækjanna eru of mikil, og angar þeirra teygja sig víða. Þau nota skuggapenna til að lofa vörurnar sínar og fengu Elsevier til að búa til "platvísindatímarit" til að markaðssetja lyf. Eins og í bankahruninu, getur venjulegt fólk ekki varið sig með siðgæðinu einu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta eru mjög áhugaverð skrif hjá þér upp á síðkastið um hvernig fjármagn og fjölmiðlar hafa áhrif á vísindin. Ég er á þeirri skoðun að algjörlega hlutlægur vísindamaður sé ekki til, ekki frekar en hlutlægur blaðamaður. Vísindamaður getur unnið á hlutlægan hátt eða eftir hlutlægum viðmiðum, en viðleitni hans og skrif verða alltaf a.m.k. lituð af einhverjum sál-félagslegum breytum eins og viðhorfi og öðru.

Þess vegna tek ég undir með þessum kröfum með Ben Goldacre. Og mér finnst jafnvel að það meigi ganga lengra og jafnvel hafa opin gagnagrunn fyrir öll vísindi. Því þó svo að hlutlægi vísindamaðurinn sé ekki til, þá eru gögnin hlutlæg. Og hafi hver sem er aðgang að öllum gögnum getur hver sem er rannsakað og skrifað út frá þeim í hvora áttina sem viðhorf hans eru lituð. Ég sé fyrir mér einhverskonar Wikipedíu vísindamannsins þar sem er samansafn allra gagna sem allir geta lagt til og unnið með.

En ég spyr samt, hvernig hyggist þú, Ben Goldacre eða aðrir ganga á eftir þessum kröfum? Þetta eru allavega góðar kröfur og það væri sorglegt að sjá þær ekki fara neitt lengra en að vera bara pælingar og bloggpistlar

Rúnar (IP-tala skráð) 8.12.2010 kl. 17:51

2 Smámynd: Arnar Pálsson

Sæll Rúnar

Fáir vísindamenn ná því að vera algerlega hlutlægir, en afrakstur hóps vísindamanna getur vel verið það, þótt stundum taki sinn tíma að ná lendingu í hverju álitamáli.

Í líffræði er mjög sterk krafa um birtingu gagna og að verklýsingum, efnum og tilraunadýrum sé deilt. Morgan og félagar sem byltu erfðafræði með rannsóknum á ávaxtaflugum innleiddu þá hugsun að allt ætti að vera uppi á borðinu, Morgan sendi flugustofna til allra sem fá vildu. Þeir gátu þá endurtekið tilraunir hans og sannreynt.

Nútildags liggur mestur fjársjóðurinn í stórum gagnasettum, um breytileika í erfðamengi mannsins, starfsemi fruma, þroskunarfræði ávaxtaflugna og orma, genatjáningu í heila músarinnar, sem eru lang flest aðgengileg á netinu í opnum grunnum. Sýn þín er nokkuð nákvæm, nema hvað til eru margir gagnagrunnar - ekki einn samhæfður. Það eru nokkrar undantekningar frá þessu, og það eru yfirleitt alltaf einkafyrirtæki sem reyna að sleppa frá því að deila upplýsingum.

Ben Goldacre skrifar pistla og bækur. Ég skrifa pistla og kannski greinar. Takk fyrir hvatninguna.

Arnar Pálsson, 9.12.2010 kl. 10:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband