Leita í fréttum mbl.is

Komast á forsíður án þess að klóna loðfíl

Venjulega þurfa vísindamenn að birta greinar um merkilegar framfarir eða niðurstöður til þess að fréttmenn beini að þeim kastljósum. Japanskir og rússneskir vísindamenn hafa fundið sniðuga leið fram hjá þessu smáatriði. Þeir tilkynntu í upphafi árs að þeir ætluðu að freista þess að klóna loðfíl (íslenska þýðingin á mammút!). Galdurinn er semsagt ekki að framkvæma góða rannsókn, heldur að AUGLÝSA hugmyndina um svakalegt stórvirki.

Sölumennska og glansmyndir eru hluti af vopnabúri sumra vísindamanna sem reyna að afla fé til rannsókna sinna og nafni sínu frægð. Þetta er náttúrulega ekki eðlilegt, að vísindamenn þurfi (eða leyfi sér) að stunda þvílík vinnubrögð. Maður er því miður alvanur sölubrellum, rökvillum, smjörklípum og ryksprengjum í umræðu um stjórnmál og þjóðfélagið, en ætti sannarlega að vera öskuillur yfir sorglegri umræðuhefð og þroskaskorti. Lífið er ekki morfis, það eru til algild sannindi sem falla ekki úr gildi þótt að einhverjir trúðar þyrli upp moldviðri og sturti saur yfir andstæðinga sína.

Því miður grípa fjölmiðlarnir svæsnustu frasana, ýktustu fullyrðingarnar, svakalegustu slysin og bera á borð okkar. Við veljum að skoða fréttirnar um slysin, líkamspartana, rifrildin og uppgjörin, á meðan fjármagnseigendur og veltengdir velunnarar valdamanna (núverandi og fyrrverandi) maka krókinn í þögninni. Ég tel það enga tilviljun að Murdoch veldið gangi á mokstri á gulum fréttum, slúðri og hálfklámi sem duga fjarska vel til að draga úr þjóðfélagslegri virkni almúgans.

En er hægt að klóna loðfíl? 

Í janúar síðastliðnum ræddi ég þetta mál við Guðmund Pálsson og Frey Geirfugl Eyjólfsson í morgunútvarpi rásar 2. Þar ályktaði ég að:

...hæpið sé að hægt verði að klóna loðfíl. Ástæðurnar eru, i) klónun krefst mjög margra eggja og staðgöngu-mæðra (þúsundir eggja og kannski hundruðir fílakúa), ii) prótínin í loðfílskjarnanum er líklega skemmd ef ekki ónýt, iii) erfðaefnið í loðfílskjarnanum er örugglega brotið upp og e.t.v. einnig stökkbreytt. Sannarlega væri mikilfenglegt að sjá loðfíl rölta niður Skólavörðustíg, en bévítans óvissuþættirnir benda til að það sé ólíklegur möguleiki. 

Stutt leit á netinu bendir til þess að ósköp lítið hafi breyst frá því í janúar. Rússnesku vísindamennirnir fundu jú reyndar bein af loðfíl, sem þeir segja að sé heppilegt fyrir tilraunirnar sem þeir hafi í hyggju. Ég vildi óska þess að þeir gerðu eitthvað að viti í staðinn fyrir að senda endalausar fréttatilkynningar út í heim. Sem gera ekki annað en að glepja þýðendur vef"frétta"miðlanna. Kannski er þetta vísindafréttafræðileg tilraun, þar sem þeir dæla út tilbrigði við sama stef, á 8-12 mánaða fresti og sjá hversu lengi fjölmiðlar verða að fatta gabbið?

Heilagur Ra, það var ekki meiningin að vera svona neikvæður, mögulega er þetta svörun arfgerðar minnar við skelfilegum kulda. Hvíðið eigi, Barbapabbi mun bjarga málunum.

Tengt efni:

Hugmyndir um klónun loðfíla

Barbapabbi mun ekki bjarga lífinu á jörðinni


mbl.is Ætla að klóna mammút
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Eins og þú bendir á, þá er þetta nokkuð þekkt aðferð vísindamanna til að afla styrkja til að geta sýslað við rannsóknir. Stundum er féð fengið frá einkaaðilum, en oftast úr opinberum sjóðum, þ.e. skattpeningum almennings.

Mikil fjölgun hefur orðið í stétt háskólamenntaðs fólks. Þetta fólk titlar sig gjarnan sem vísinda og fræðimenn, nú eða sérfræðinga. Eitthvað verður þetta fólk að hafa fyrir stafni í samræmi við menntun sína. Ef ekki eru brýn verkefni í sjónmáli, þá má alltaf reyna að búa þau til og reyna að bjarga sér.

Ein aðferðin er að "uppgötva" einhverja vá og sannfæra svo einhvern um að það þurfi að rannsaka hana í þaula.

Gunnar Th. Gunnarsson, 7.12.2011 kl. 04:05

2 Smámynd: Arnar Pálsson

Takk Gunnar

Etv. er svarið ekki alveg í samræmi við hugleiðingu þína, en þú virðir það vonandi sem slíkt.

Þótt að tilfelli séu þekkt, þýðir það ekki að um faraldur blekkinga sé að ræða.

Vísindin byggja á endurtakanleika, það að tveir rannsóknarhópar geti komist að sömu niðurstöðu. T.d. að mislingar eru orsakaðir af veiru, en ekki skorti á bænahaldi eða áhrifum frá skipan himintungla.

Það sama á við um aðrar hættur sem steðja að mannkyninu. Farsælast er að við beitum vísindalegum aðferðum til þess að rekja orsakir þeirra og meta hlutfallslegt mikilvægi áhættuþátta.

Spurningin er náttúrulega hvað við skilgreinum sem hættulegt mannkyninu. Nú tildags sýnist mér fátt ógna mannkyninu, nema e.t.v. afleiðingar verka mannana, og finnst nokkuð eðlilegt að við beitum vísindalegum aðferðum til að skilja þær afleiðingar.

Arnar Pálsson, 7.12.2011 kl. 13:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband