19.5.2012 | 16:48
Efasemdastöðin sefur aldrei
Umhverfisráðaneytið sýndi gott frumkvæði með því að skipuleggja ráðstefnu um erfðabreyttar lífverur, sem haldin var 15. maí síðastliðinn. Fenginn var meira að segja erlendur sérfræðingur, til að fjalla um reynslu Dana og regluverk þeirra. Aðrir fyrirlesarar voru meðal annars sérfræðingar frá Umhverfisstofnun, Umhverfisráðaneytinu og Háskóla Íslands og Akureyrar.
Fjallað var um eiginleika erfðabreyttra lífvera, regluverk og rannsóknir sem hafa metið áhættuna af slíkum lífverum á heilsu og umhverfi. Því miður komst ég ekki á fundinn, vegna annara starfa, en viðmælendur mínir sögðu umfjöllunina hafa verið vandaða og skýra.
Eiríkur Steingrímsson fjallaði um mögulegar hættur af erfðabreyttum lífverum á heilsu. Hann tók sérstaklega fyrir vísindagreinar sem andstæðingar erfðabreyttra lífvera hafa haldið á lofti. Þeir halda að vísindarannsóknir þessar sanni að erfðabreyttar lífverur séu hættulegar heilsu fólks, en fara þar með staðlausa stafi. Þær rannsóknir sem um ræðir standast ekki gæðakröfur. Þær eru annað hvort illa skipulagðar (vantar t.d. viðmiðunarhóp), nota mælitækni á óviðeigandi hátt, oftúlka smávægileg eða óviðeigandi tilhneygingar í gögnunum. Því ályktar Eiríkur að erfðabreytt matvæli hafi engin áhrif á heilsu fólks (viðtal í 10 fréttum 15. maí 2012, byrjar um 7 mínútu).
Í umræðum eftir sem hófust að loknum fyrirlestrum fór hins vegar mikið fyrir andstæðingum erfðabreyttra lífvera, sem fannst þeirra rödd ekki hafa fengið að heyrast. Viðmælendur mínir segja að fum hafi komið á ráðherra umhverfismála, og hún hafi beðist afsökunar á því að rödd almennings hafi ekki fengið að heyrast (eftir því sem ég best veit, leiðréttið mig ef rangt er með farið)*. Grein eftir Svandísi (Leitin að samræðugeninu) birtist síðan í Fréttablaðinu 17. maí 2012. Þar segir m.a.
Þegar upp var staðið reyndumst við hafa skipulagt málþing, þar sem sérfræðingar og fulltrúar stjórnsýslu áttu sviðið - en sjónarmið almennings áttu ekki fulltrúa meðal frummælenda. Jafnframt reyndist á köflum of lítið gert úr afstöðu þeirra sem setja spurningarmerki við ýmsa þætti erfðabreyttrar ræktunar. Í kjölfarið hefur hluti umfjöllunarinnar verið gagnrýndur fyrir að umgangast andstæðar skoðanir ekki af nægjanlegri virðingu - og þar með gera þeim sem ekki aðhyllast sömu sterku vísindahyggjuna erfiðara að taka þátt í samræðunni.
Umhverfisráðuneytið leit alltaf á málþingið sem fyrsta skrefið í að móta ítarlega stefnu hér á landi um erfðabreytta ræktun. Við höldum ótrauð í það ferðalag, þó ekki hafi tekist nógu vel við fyrsta skrefið. Vonandi finnum við samræðugenið á leiðinni, svo okkur auðnist að gera ólíkum sjónarmiðum jafnhátt undir höfði við þá stefnumótun. [feitletrun AP]
Auðvitað er eðlilegt að almenningur, fræðimenn og stjórnsýslan ræði málin. Vandamálið er bara að velja fulltrúa almennings. Eins og staðan er hérlendis heldur frekar þröngur hópur hagsmunaaðilla (Slow foods hreyfingin, samtök lífrænna ræktenda og nattúra.is) uppi áróðri gegn erfðabreyttum lífverum. Segja má að andófið sé hluti af þeirra markaðssetningu, þeir skilgreina sinn "hreinleika" með því að taka einarða afstöðu gegn erfðabreyttum lífverum, og sérstaklega nytjaplöntum (rétt eins og Greenpeace öfluðu fylgi með mótmælum gegn hvalveiðum). Þessi hópur sem skírskotað er til í greininni sem almenningur, er það ekki heldur hagsmunahópur.
Á fundinum voru næstum eingöngu fræðimenn, fulltrúar stjórnsýslu og andstæðingar erfðabreyttrar ræktunar**. Það voru sárafáir, ef einhverjir "almennir" borgarar. Mér skilst einnig að engir fulltrúar fréttamiðla hafi setið allan fundinn. Hvernig í ósköpunum ætla fjölmiðlar að fjalla um svona mál ef þeir gefa sér ekki tíma til að hlýða á málflutninginn? Ef fréttamenn hafa brennandi spurningar um þetta mál, hefðu þeir átt að koma með þær og pumpa fyrirlesarana.
En víkjum aðeins að orðum ráðherra. Hún segir að fyrirlesarar hafi verið gagnrýndir fyrir að:
... umgangast andstæðar skoðanir ekki af nægjanlegri virðingu - og þar með gera þeim sem ekki aðhyllast sömu sterku vísindahyggjuna erfiðara að taka þátt í samræðunni.
Með öðrum orðum, vísindamenn eru hrokagikkir. Það er sannarlega satt að fæstir vísindamenn eru mjúkmálir sleikipinnar, sem geta pakkað hlutunum í silki og satínslæður. Það er ekki hluti af okkar starfslýsingu. Vísindamenn læra að greina vandamál, hanna tilraunir, framkvæma þær og draga ályktanir.
Orðalag vísindalegra ályktana ræðst af því hversu góðar niðurstöðurnar eru. Ef niðurstöðurnar eru óljósar eða misvísandi, er ályktunin varfærin. Ef niðurstöður margra rannsókna benda í sömu átt, þá er leyfum við okkur sterkara orðalag ályktunin. Dæmi um tvær sterkar staðhæfingar eru:
Sígarettur valda lungnakrabbameini.
Erfðabreyttar nytjaplöntur eru ekki hættulegar heilsu.
Ef þú heldur að sígarettur valdi ekki lungnakrabbameini, þá kann þér að virðast fyrri staðhæfingin vanvirðing við þína skoðun. En hún er það ekki. Hún er, eins nálægt og vísindin komast, staðreynd. Eigum við að virða skoðanir þeirra sem segja að sígarettur séu hollar?
Varðandi seinni hluta setingarinnar, þá held ég að ráðherra hafi sett fingurinn á mikilvægan punkt. Flestir almennir borgarar skilja ekki vísindalegar aðferðir og vísindalegar ályktanir. Þar er kannski brotalömin. Ástæðan fyrir því að umræða sem þessi blómstrar, og í samfélaginu vaði uppi meinvillur á borð við þá að erfðabreyttar lífverur séu hættulegar (sjá einnig, loftslagsefahyggju, afneitun helfararinnar, World Trade Center samsæriskenninar, bóluefnissamsæriskenningar o.fl.).
Deilan um erfðabreyttar lífverur er ekki vísindaleg í eðli sínu, heldur fjallar frekar um hræðslu við hið óþekkta, spurningar um siðfræði ræktunar og landbúnaðar, tortryggni gagnvart alþjóðlegum fyrirtækjum og umhyggju fyrir eigin skinni (og stundum náttúrunni).
Mér sýnist sem andstæðingar erfðabreyttra lífvera lifa samkvæmt djúpt greypti sannfæringu. Þeir grafa upp ótrúlegustu hluti sem röksemdir gegn erfðabreytingum, en hundsa fleiri hundruð rannsóknir sem hafa sýnt að erfðabreyttar lífverur eru ekki hættulegar. Michael Shermer (Skeptic society) fjallar slíkt í bókinni Believing brain. Þar segir m.a.
.. our most deeply held beliefs are immune to attack by direct educational tools, especially for those who are not ready to hear contradictory evidence.
Heilar okkar mannfólksins*** eru ekki þær fullkomnu rökvélar sem við höldum að þær séu. Heldur erum við lituð af tilfinningum og fyrri reynslu. Ef ég ældi eftir að hafa borðað lambasteik á 8 ára amælisdaginn, lá í rúminu í viku með óráði, er líklegt að ég þoli ekki lambakjöt****. Aðrar skoðanir okkar myndast á lúmskari hátt, en þegar þær hafa myndast höfum við tilhneygingu til að standa við þær. Eina verkfærið gegn okkar bjagaða heila er hin vísindalega aðferð. Hún gerir okkur kleift að meta tilgátur út frá gögnum, ekki persónulegri upplifun og skoðun. Shermer orðar þetta vel:
Im a skeptic not because I do not want to believe, but because I want to know. How can we tell the difference between what we would like to be true and what is actually true? The answer is science.
Það að efast og krefjast gagna er ekki náttúrulegt ástand mannsheilans. Einstaklingum er ekki eðlislægt að efast. En sem hópur getum við gert meiri kröfur. Þannig urðu vísindin til, og þau hjálpa okkur að meta óvissuna, eins og Shermer segir:
Belief comes quickly and naturally, skepticism is slow and unnatural, and most people have a low tolerance for ambiguity.
Með hliðsjón af umræðu um erfðabreyttar lífverur hérlendis má álykta að vísindamenn þurfa að vera duglegri að miðla almenningi af þekkingu sinni, en einnig reynslu af hinni vísindalegu aðferð og óvissunni. Samræðugenið mitt starfar annað slagið, en efasemdastöðin sefur aldrei.
*Bætt við 20. maí: (eftir því sem ég best veit, leiðréttið mig ef rangt er með farið).
**Leiðrétt 20. maí, áður stóð: "andstæðingar lífrænnar ræktunar"
***Leiðrétt 20. maí, áður stóð mannfólk, nú "okkar mannfólksins"
****Leiðrétt 20. maí, breytti frásögn úr annari persónu í fyrstu.
Ég vil þakka KP leiðréttingar.
Meginflokkur: Vísindi og fræði | Aukaflokkur: Erfðabreytingar og ræktun | Breytt 20.5.2012 kl. 13:37 | Facebook
Nýjustu færslur
- Eru virkilega til hættuleg afbrigði veirunnar sem veldur COVI...
- Grunnrannsóknir eina aðferðin til að skapa nýja þekkingu og e...
- Lífvísindasetur skorar á stjórnvöld að efla hlut Rannsóknasjó...
- Eru bleikjuafbrigði í Þingvallavatni að þróast í nýjar tegundir?
- Hröð þróun við rætur himnaríkis
- Leyndardómur Rauðahafsins
- Loftslagsbreytingar og leiðtogar: Ferðasaga frá Suðurskautsla...
- Genatjáning í snemmþroskun og erfðabreytileiki bleikjuafbrig...
- Fjöldi og dreifing dílaskarfa á Íslandi
- Staða þekkingar á fiskeldi í sjó
Athugasemdir
Góður pistill.
Þetta með "fulltrúa almennings" er fáránlegt í þessu samhengi. Af hverju er ekki kvartað yfir fulltrúaleysi almennings á ráðstefnum krabbameinslækna eða geimvísindamanna? Eða er það e.t.v. gert?
Gunnar Th. Gunnarsson, 19.5.2012 kl. 17:29
Nei. Fagfélög sem skipuleggja fræðilegar ráðstefnur bjóða yfirleitt ákveðnum fyrirlesurum, og aðrir fræðimenn geta sótt um að fá að halda erindi og kynna sínar rannsóknir.
Hins vegar, a ráðstefnum skipulögðum af stjórnvöldum er oft víðara þversnið, fagmenn, fulltrúar stjórnsýslu, stjórnmálahreyfinga og stundum hagsmunaaðilla (sbr. fundi um sjávarútveg).
Það er sjaldgæft að almenningur fái einn tilskipaðan fulltrúa, enda erfitt að velja fulltrúann(a)! En krafan er ekki ósanngjörn.
Arnar Pálsson, 19.5.2012 kl. 17:59
Það er ekki krafa almennings að kuklarar séu fulltrúar þeirra á vísindiráðstefnum. A.m.k. ekki mín og ég er dæmigerður almenningur
Gunnar Th. Gunnarsson, 19.5.2012 kl. 20:41
Rétt er að það komi fram að meðal þeirra, sem taldir eru vera "almenningur" eru vísindamenn, líffræðingar í þessu tilfelli, sem hafa lært vísindaleg vinnubrögð.
Ómar Ragnarsson, 19.5.2012 kl. 23:58
Gunnar
Það er gott að þú skulir meta niðurstöður og ályktanir vísindamannana svo mikils.
Reyndar er það þannig að við (mannfólk þ.e.a.s.) iðkum frábæra hentistefnu í þessum málum.
Fólk sem bölvar og ragnar erfðabreyttum lífverum, getur alveg meðtekið Insúlín úr erfðabreyttri bakteríu eða þegið lækningu sem þróuð var með aðstoð eða jafnvel framleidd í erfðabreyttri lífveru.
Ómar.
Hugmyndin er ekki að telja vísindamenn í hvorum flokki fyrir sig.
Heldur að meta gögnin, niðurstöðurnar og álykta frá þeim. Og það er margsannað að það er ekki nóg að vera með doktorspróf eða hafa gert eina rannsókn í einhverju fagi, til að geta metið rannsóknir í öðru fagi.
Á því prófi falla andstæðingar erfðabreyttra lífvera, þeir vísa í greinar sem eru gerðar af lélegum(eða kærulausum) vísindamönnum, rangtúlka þær og leggja ofuráherslu á hlægileg smáatriði.
Ef við snúum okkur aftur að dæminu með sígaretturnar, þá gæti öfgahópur sem vinnur á sömu nótum og andstæðingar erfðabreyttra lífvera rangtúlkað niðurstöður um áhrif reykinga. Ef það er t.d. sýnt fram á að þeir sem reyki séu léttari eða með lægri fituprósentu en hinir, þá gæti öfgahópurinn lagt ofuráherslu á þann punkt og ályktað:
Sígarettur létta fólk og eru því frábærar.
Arnar Pálsson, 20.5.2012 kl. 13:36
http://silfuregils.eyjan.is/2012/05/20/einfeldningslegar-fullyrdingar-um-erfdabreytta-raektun/ Ekki er ég á móti vísindum nema síður sé en leyfi mér að benda á þennan þráð því þar finnst mér ýmislegt athyglisvert.
Sigurður Þór Guðjónsson, 20.5.2012 kl. 13:54
Takk Sigurður
Mér var bent á þessa umræðu og féllust hendur.
Vísindamenn eru greinilega ekki að gera neitt rétt.
Við ættum að hætta þessu og fara og hanna nýja stóla eða reikna hagnað inn í einhvert skýjaborgarfyrirtækið.
Arnar Pálsson, 20.5.2012 kl. 16:26
"Vísindamenn eru greinilega ekki að gera neitt rétt."
Þú misskilur hrapalega.
Vísindamenn gera ekki allt rétt, bara vegna þess að þeir eru vísindamenn.
Jóhann (IP-tala skráð) 20.5.2012 kl. 17:55
Vandinn er líka sá að fólk setur allar erfðabreytingar undir sama hátt og fullyrðir að það eitt að erfðabreyta, sé varasamt. Það er auðvitað hægt að erfðabreyta plöntu þannig að hún verði baneitruð en það er ekki þar með sagt að erfðabreytingatæknin sé hættuleg sé slík.
Einnig er fólk bara almennt skeptískt yfir því að fiktað sé með erfðaefni á tilraunastofu í stað þess að kynbæta á náttúrurlegan hátt. Við vitum aldrei hvað gerist, eru rökin.
Emil Hannes Valgeirsson, 20.5.2012 kl. 20:35
Það að reiða sig öðrum fremur á þá, sem hafa hag af sínum uppgötvunum, gefst ekki alltaf vel, eins og dæmin sanna.
Jafnvel þó þeir búi yfir sérfræðiþekkingu.
Jóhann (IP-tala skráð) 20.5.2012 kl. 20:52
Jóhann
Ég hef aldrei haldið því fram að vísindamenn geri allt rétt.
Ég hef engann hag af starfsemi fyrirtækja sem nýta sér erfðabreyttar plöntur.
Rétt Emil
Það er hægt að búa til eitraðar plöntur með erfðabreytingum, en þeir sem búa til nytjaplöntur eru ekki nægilega vitlausir að búa slíkt til. Þeir vilja rækta þolnari og hraustari plöntur.
Ég skil svo sem að fólk sé skeptískt á nýja tækni, en legg einnig áherslu á að klassísk ræktun er líka blind hvað varðar öll smáatriði. Við vitum ekki hvaða gen flytjast inn í nytjastofninn, eða hvaða gen vantar.
Við vitum ekki hvað gerist í klassískri ræktun, en aðeins meira í erfðabreyttri ræktun (af því að við veljum gen eða samsætur til að flytja).
Arnar Pálsson, 21.5.2012 kl. 09:37
Mjög góður pistill. Mér finnst erfitt og flókið að lifa í samfélagi þar sem það er bara happa og glappa hvort fólk treystir vísindamönnum eða ekki.
Sem dæmi: Gunnar Th hér fyrir ofan. Í þessu tilfelli virðist hann sammála vísindamönnum. Hann er það ekki þegar það eru loftslagsvísindamenn.
Annað dæmi: Ómar Ragnarsson. Hann er sammála loftslagsvísindamönnum en mér sýnist hann ósammála vísindamönnum sem eru framarlega í erfðavísindum.
Ég gæti þó verið að mistúlka þeirra orð og biðst þá velvirðingar á því.
Því er gott að hafa menn eins og Arnar Pálsson. Takk Arnar.
Höskuldur Búi Jónsson, 21.5.2012 kl. 13:52
Ég vissi að það kæmi eitthvað svona skot frá öðum hvorum ykkar, þér eða Svatla. Var tilbúinn að veðja á það því þið eruð svo fyrirsjáanlegir.
Þetta er rugl í þér Höski minn. Ég trúi loftslagsvísindamönnum... bara ekki þeim sömu og þú tilbiður.
Gunnar Th. Gunnarsson, 21.5.2012 kl. 15:31
Gunnar, þetta er nákvæmlega eins að mínu mati - þó þú sjáir það ekki.
Höskuldur Búi Jónsson, 21.5.2012 kl. 15:50
Höskuldur
Það er ákkúrat þetta sem ég var að segja, við (fólk almennt) veljum og höfnum niðurstöður eftir því sem við trúum.
Í hverju fræðasviði er ákveðin tilgáta/kenning meðtekin af flestum ef ekki öllum (vísindaleg samrómur : consensus). Það fer eftir fræðasviðum hversu traust sú tilgáta er, ef hún er gríðarlega traust þá er hún kölluð kenning, eins og þróunarkenningin.
Í tilfelli erfðabreyttra lífvera, hefur ekkert komið fram sem bendir til þess að þær (sem hópur) séu hættulegri heilsu eða umhverfinu, en aðrar lífverur. Það er hinn vísindalegi samrómur. Í tilfelli loftslagsvísinda er samrómur að hiti á jörðinni sé að aukast vegna gróðurhúsalofttegunda sem maðurinn hafi losað.
Afneitum á þessum vísindalegum ályktunum fylgir ekki flokkslínum, hægri menn efast um loftslagsvísindin og vinstri menn um erfðabreyttar lífverur. En samt er gagnrýni þeirra ósköp svipuð og orðaræðan einnig (þegar inntak hennar er kannað).
Gunnar.
Þú stendur frammi fyrir sama vali og allir aðrir, hvaða ályktunum á ég að treysta?
Arnar Pálsson, 22.5.2012 kl. 09:45
Ég vildi bara troða mér inní þessa umræðu að nafninu til. Fyrir mér er það sem skiptir máli, er það gott á bragðið!! Carry on!! (hehe, ég á vísinda nafna..)
Arnar Pálsson (IP-tala skráð) 22.5.2012 kl. 15:42
Það er hættulegt að treysta vísindum á lýðræðislegum grunni. Það að meirihluti vísindamanna sé á tiltekinni "skoðun", gerir hana hvorki rétta né að hún sé hafin yfir gagnrýni.
Svatli og Höski verða reiðir þegar trúarbrögð þeirra eru gagnrýnd eða dregin í efa.
Gunnar Th. Gunnarsson, 22.5.2012 kl. 17:36
Vísindi eru vísindi Gunnar. Þínar skoðanir fara ekki eftir vísindalegum línum, heldur pólitískum.
Höskuldur Búi Jónsson, 22.5.2012 kl. 19:02
Gunnar
Athugasemd þín á við þegar einhver eða mikil óvissa er um tiltekna tilgátu. En í tilfelli loftslagsvísinda, þá er harla lítil óvissa um þátt mannsins í aukningu losunar á CO-2 (og hækkun á meðalhita).
Því miður ertu í sömu skóm og andstæðingar erfðabreyttrar ræktunar í þessu máli.
Efnahagsleg og pólitísk öfl sjá sér hag í að kasta rýrð á þessa almennu niðurstöðu í loftslagsmálum. Þetta er afhjúpað (m.a.) í nýlegum lögum sem repúblikanar settu fram og voru samþykkt í fylkisþingi Tennessee. Skv. umfjöllun NYTIMES:
Áherslurnar eru á þróun, uppruna lífsins, loftslagsmál og klónun, allt saman atriði sem hægri menn leggjast gegn (af pólitískum ástæðum, ekki vísindalegum).
NY Times Editorial Pseudoscience and Tennessee’s Classrooms Published: April 15, 2012.
Arnar Pálsson, 23.5.2012 kl. 09:45
Ég ætla nú ekki ræða þetta mikið hér, en það hefur verið bent á af vísindamönnum, sem væntanlega falla ekki inn í "normið" að mati einhverra, hversu margt er brogað við fullyrðingar hinna svokölluðu "loftslagsalarmista". Þetta eru ófullkomin vísindi á mælikvarða raunverulegrar þekkingar og sönnunarbyrðin virðist ansi léttvæg á köflum þegar þessi mál eru annars vegar. Sömuleiðis um afleiðingar hlýnunarinnar. Loftslagsvísindi, sjávarfræði og fl í þeim dúr skera sig úr vegna ónægrar þekkingar. Forsendurnar fyrir tilteknum rannsóknarniðurstöðum eru of oft ágiskanir til að bera þetta saman við t.d. erfðafræði að mínu mati.
Mér fannst ágætt sem Jay Leno sagði um daginn:
"According to a new U.N. report, the global warming outlook is much worse than originally predicted. Which is pretty bad when they originally predicted it would destroy the planet."
Mikil óvissa í mörgu s.s. varðandi jákvæða og neikvæða svörun lofthjúpsins við hitaaukningu. Einnig virðast menn ósammála um eða túlka á mismunandi hátt fornt veðurfar, orsakir og afleiðingar.
Ég get alveg fallist á það að pólitík og efnahagsmál spili inn í umræðuna, enda full ástæða til. Stjórnmálamenn viðra hugmyndir um aðgerðir til að sporna gegn losun róðurhúsalofttegunda. Sumar þeirra hugmynda ganga svo langt að skaða mannkynið meira en hugsanleg slæm áhrif hlýnunarinnar.
Það er óvísindalegt að berja niður efasemdir vísindamanna sem færa rök fyrir því að vísindalegar niðurstöður heimsendaspámanna séu ekki hafnar yfir vafa. Stundum segja fræðin eitt í dag og annað á morgun. Hysteríukenndur ótti á ekki að ráða ferðinni.
Snjöllustu stærðfræðiheilar 19. aldar og jafnvel fram á þá 20., töldu sig hafa sannað að maðurinn myndi aldrei geta flogið. Wright bræður neituðu að hlusta á það. Svo margar misheppnaðar tilraunir höfðu verið gerðar til flugs að fjölmiðlar voru u.þ.b. að missa áhugann og voru smeykir að fjalla um "Kitty Hawk" flugið sem heppnaðist.
Áhrif fjölmiðla eru mikil, ekki síst í loftslagsumræðunni. Stundum til góðs, stundum til ills.
Gunnar Th. Gunnarsson, 23.5.2012 kl. 14:38
Sæll Gunnar
Öll vísindi eru ónákvæm, allar spár eru ónákvæmar og óvissa er alltaf til staðar.
En óvissan minnkar eftir því sem fleiri rannsóknir benda í sömu átt. Og það er alveg viðbúið að einhverjar rannsóknir bendi í hina áttina, bara vegna lögmála tilviljunar!
Það er líka óvissa í erfðafræði, bæði í kortlagningu á sjúkdómum (sem ég þekki vel) og ræktun með aðferðum stofnerfðafræði (sem ég þekki enn betur).
Menn geta verið ósammála um smáatriði, hversu mikil aukning, hversu mikil bráðnun, hvernig breytast vinda og veðrakerfi, hversu sterklega svarar hafið hækkun hita, hvernig breytist sýrustig sjávar, hvernig bregðast plöntur við o.s.frv.
En það sama á við um veðurfræði. þess vegna getum við ekki spáð nema 5-12 daga fram í tímann. Það þýðir samt ekki að við þekkjum ekki þættina sem skipta máli.
Í loftslagsvísinum þarf því að kanna bestu, verstu og líklegustu niðurstöðu. Því fáum við hærri og lægri mörk á svörun kerfa hnattarins við losun gróðurhúsalofttegunda, og þau mörk eru víð. Afleiðingarnar verða veigamiklar og því finnst vísindamönnum við hæfi að hringja viðvörunarbjöllum...og þá kemur pólitíkin inn í.
Hvað ætlar samfélagið að gera með vísindalega þekkingu? Stinga henni undir stól, nýta hana til að plana fyrir framtíðina eða nýta hana til að reka einhverja pólitík.
Í þessu tilfelli tóku sumir stjórnmálamenn eftir (trúðu mér þeir eru blindir á svo margar hættur sem vísindamenn hafa reynt að benda á!), og hafa reynt að sporna við losun lofttegunda og hækkun hita (aðrar umhverfislegar og efnahagslegar ástæður eru líka fyrir því að nýta orku og auðlindir á skynsamari hátt en við gerum). Á vissan hátt þá hefur ofuráherslan á CO-2 kannski hamlað umhverfishreyfingunni, því við höldum áfram að sóða út, eyða skógum, náttúrulegum landsvæðum og ofnýta haf og aðrar auðlindir.
En olíulobbíið og ákveðin lönd hafa alla tíð spornast gegn þessu átaki, til að verja sína hagsmuni og efnahag.
Þetta er ein ástæðan fyrir því að ég fór ekki í umhverfisfræði, vísindin eru aldrei nóg, það þarf pólitík og samninga til að stöðva stórslysin.
Arnar Pálsson, 24.5.2012 kl. 09:57
Skógar hafa stækkað sl. 10-15 ár og nytjaskógar eru almennt sjálfbærir og jafnvel rúmlega það í dag, þó vissulega sé rányrkja á sumum svæðum.
Hlýnandi veðurfar mun auka gróðurvöxt á jörðinni, einnig aukning á CO2.
Gunnar Th. Gunnarsson, 24.5.2012 kl. 11:45
Ég væri vísindahyggjumaður, ef vísindasamenn störfuðu óháðir. Því fer nefnilega fjarri. Sem dæmi nefni ég að sá vísindamaður á ekki auðvelt uppdráttar sem mælir gegn viðtekinni skoðunn yfirboðara sinna, eða meirihlutans. Hversu margir vísindamenn hafa ekki verið útskúfaðir sem voga sér að gera það. Arnar, þú færð kannski ekki peninga frá ræktendum erfðabreyttra matvæla beint í vasann. Spurningin er, hversu sterk eru þau öfl sem eiga hagsmuna að gæta.
Benni (IP-tala skráð) 24.5.2012 kl. 19:13
Þeir sem alltaf ásaka aðra um að vera á mála hjá hinum og þessum, eins og Benni gerir, hljóta að vera með óhreint mjöl í pokahorninu sjálfir.
Hrekkjalómur
Hrekkjalómur (IP-tala skráð) 24.5.2012 kl. 22:11
Takk fyrir ábendinguna Hrekkjalómur. Þú kemur akkúrat að kjarna málsins, sem er, við erum öll einhverjum eða einhverju háð. Oftast er það vinnuveitandi. Ég játa það að ég gagnrýni vinnuveitanda minn síður en, konuna mína, hvað þá meira.
Benni (IP-tala skráð) 25.5.2012 kl. 03:21
Benni.
Enginn er óháður, við erum öll í neti samfélagsins, mótuð af skoðunum sambræðra okkar og umræðunni.
Þessir duldu hagsmunaárekstrar sem þú ýjar til hafa verið rannsakaðir í nokkrum tilfellum. Dæmið sem kemur upp í hugann tengist lyfjaávísunum lækna og upplýsingu(áróðri) mismunandi lyfjafyrirtækja. Áróðurinn virkar (læknar skrifa upp á meira af lyfjum viðkomandi fyrirtækis), en áhrifin eru samt frekar lítil (hliðrun um 10-20%).
En þess vegna skiptir máli að prófa einfaldar tilgátur, á skýran hátt (þannig að allir skilji hvað gert var og geti endurtekið rannsóknina). Ef margar slíkar prófanir benda allar í sömu átt, þá skipta skoðanir okkar ekki máli. Þá höfum við vísindalega lendingu í málinu.
Samkvæmt þinni skilgreiningu þá getur þú ekki verið vísindahyggjumaður, né nokkur annar. Ég tel að vísindahyggja sé skárri kostur en tilfinningahyggja eða háværasta-röddin-hyggja, því vísindi hafa allavega leið til að afsanna hugmyndir
Gunnar
CO-2 hækkun er ekki blessun, heldur mikið álag fyrir lífheiminn (sem er nú þegar aðþrengdur af mönnum). Hitahækkun mun breyta kjöraðstæðum plantna sem dregur úr hæfni þeirra (og margar tegundir hafa ekki hæfileika á að flytja sig 200 km norður á 50 ára tímabili).
Arnar Pálsson, 25.5.2012 kl. 09:20
Arnar. Viðbrögð þín eru einmitt partur af vandanum. Þú neitar að horfast í auga við staðreyndir, sem flestum eru augljósar. Það er ekki að ástæðulausu að almenningur er að verða afhuga vísindunum. Fólk er að átta sig á hagsmunatengslum fjármagnsins og vísinda. Og vittu til, sú umræða er rétt að hefjast. Er hagfræði t.d. Ekki vísindi. Leikskólabarn gæti leist fjármálavanda heimsins betur en svokallaðir hagvísindamenn.
Benni (IP-tala skráð) 25.5.2012 kl. 11:10
Takk Benni fyrir svarið.
Ég hef reyndar hugmyndir um það hvers vegna sum vísindi (eða sumar ályktanir vísindamanna) eiga ekki upp á pallborðið hjá fólki almennt.
Þær hugmyndir eru samt bara það, í besta falli vangaveltur og ég hef ekki lagt í heimildaleit til að kanna hvort að þeir þættir sem upp í hugan koma hafi þau áhrif sem mig grunar.
Þangað til verður þín vandaða (afsakaðu hæðnina) ályktun að duga.
Ég hafði reyndar miklar efasemdir um hagfræði sem fræðigrein, sérstaklega eftir hrunið. Mér fannst (aftur skoðun án ítarlegrar heimilda) að hagfræðin væri í raun tilgátur án gagna (hugmyndir sem ekki var búið að prófa vísindalega). En mig grunar að þar sé vandamál á ferðinni og í erfðafræðinni. Það er, að fólk notar fræði eða tækni til að reka sína stefnu eða fyrirtæki. Tæknin eða fræðin eru ekki í sjálfu sér hættuleg, bara það hvernig fólk notar hana. Tölvutækni er í sjálfu sér ekki slæm, en það er hægt að beita henni til að knésetja fyrirtæki og þjóðríki.
Arnar Pálsson, 26.5.2012 kl. 12:20
Af sömu ástæðu teljið þið trúarbrögð slæm. Af því að mannskepnan getur notfært sér trúarbrögð eins og hakkarinn tölfur. Sá sem notar trúarbrögð í slæmum tilgangi er ekki trúaður.
Benni (IP-tala skráð) 29.5.2012 kl. 21:32
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.