Leita í fréttum mbl.is

Sterk vísindahyggja

Í framhaldi af umræðu um erfðabreyttar lífverur skrifar Ólafur Stephensen ritstjóri Fréttablaðsins leiðara undir yfirskriftinni Hin "sterka vísindahyggja". Þar segir meðal annars:

 Hins vegar hljóta stjórnvöld að taka meira mark á sjónarmiðum sem studd eru vísindalegum rökum og vönduðum rannsóknum en öðrum viðhorfum. Það hlýtur raunar að eiga við í öllum málum.

Tökum þrjú dæmi til að setja málið í samhengi. Íslenzk stjórnvöld hafa þá stefnu að bólusetja eigi börn við hættulegum smitsjúkdómum. Þau hafa útbúið viðamikla áætlun um hvernig megi draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda þannig að Ísland leggi sitt af mörkum í baráttu gegn hlýnun loftslags. Þau líma á sígarettupakka viðvaranir til reykingamanna á borð við „Reykingar drepa."

Allt er þetta byggt á ráðgjöf og niðurstöðum vísindamanna. Víðtæk samstaða er í vísindasamfélaginu um að reykingar séu lífshættulegar, að loftslag hafi hlýnað af mannavöldum og að hægt sé að bjarga mannslífum með bólusetningum. Engu að síður eru allmargir „fulltrúar almennings" sem draga öll þessi vísindi í efa og telja þau jafnvel stórhættuleg. Sumir vísa til vísindarannsókna máli sínu til stuðnings. Meirihluti sérfræðinga á viðkomandi sviði telur þær rannsóknaniðurstöður hæpnar og gerir raunar lítið úr afstöðu þeirra sem styðjast við þær. Stefna stjórnvalda í þessum málum byggist á býsna „sterkri vísindahyggju".

Við stefnumótun um erfðabreyttar lífverur þarf að horfa til allra vísindarannsókna um efnið, en um leið hlýtur að þurfa að taka mark á áliti yfirgnæfandi meirihluta vísindasamfélagsins. Eins og í hinum málunum sem hér voru nefnd.

Rökstuðningur ritstjórans er áþekkur þeim sem settur var fram hér (Efasemdastöðin sefur aldrei).

Slæður og upptökur af málþingi Umhverfisráðaneytisins má nálgast á vef þess (http://www.umhverfisraduneyti.is/frettir/nr/2082).

Umfjöllun ARS technicia um Rotherham ræktunartilraunina. Þar er verið að rækta og kanna eiginleika erfðabreyttra plantna, með það að markmiði að draga úr eiturefnanotkun. (Blaðlúsahræða. Biðlað til andstæðinga erfðabreyttra lífvera)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Páll Jónsson

Ólafur er oftast ágætur, eins og hér. Ekki alltaf en oftast.

Páll Jónsson, 24.5.2012 kl. 23:46

2 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Ég er nú ekki hissa á ögn af efasemdum um efasemdir frá prestsyni og kirkjuvarnarmanni. Allavega finnst mér eitthvað blæða í gegn af nettu andófi við  "vísindahyggju" eins og það er kallað á þeim bæ.

Jón Steinar Ragnarsson, 25.5.2012 kl. 08:25

3 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Kann að vera misskilningur minn en ég finn allavega lykt af inniskónum hans Freud.

Jón Steinar Ragnarsson, 25.5.2012 kl. 08:26

4 Smámynd: Arnar Pálsson

Ég vildi ekki gera varnir hans fyrir kirkjuna og kristnina að máli hér.

En e.t.v. væri forvitnilegt að vita hversu sterk vísindahyggjan hans er þegar talað er um snertifleti vísinda og trúarbragða.

Arnar Pálsson, 25.5.2012 kl. 09:09

5 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Þetta eru andstæðir pólar að mínu mati og vert að taka það með í reikninginn þegar málflutningur er skoðaður. Það eru engar heilagar kýr hjá vísindamönnum í því samhengi, eða hvað?

Jón Steinar Ragnarsson, 25.5.2012 kl. 09:43

6 Smámynd: Arnar Pálsson

Það eru til trúaðir vísindamenn, sem hafa gert góða hluti á sínu fagsviði. Og mörg dæmi um vísindamenn sem uppgötva merkileg fyrirbæri á einu fagsviði, en falla síðan í einföldustu gildrur þegar þeir hætta sér á annað fagsvið (hér kemur sviðahaus upp í hugann).

Mér fannst málflutningur ritstjórans ekki merkilegur í málefnum kirkjunar eða varðandi reglur mannrettindanefndar Reykavíkurborgar, en rök hans í þessu máli eru skýr og einföld.

En vitanlega er gaman að vita í hvaða málum hann skilji við vísindahyggjuna (ef hann gerir það?)

Arnar Pálsson, 25.5.2012 kl. 10:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband