Leita í fréttum mbl.is

Dæmdur kynvillingur vann stríðið, og leysti gátuna um tilurð fingra löngu eftir dauða sinn

Alan Turing er goðsögn meðal tölvunarfræðinga. Hann er álitin einn af upphafsmönnum tölvurnarfræðinnar, og vann sér inn góðan orðstír fyrir að leysa dulmál þýska hersins í seinni heimstyrjöldinni. Sumir ganga svo langt að fullyrða að hann hafi unnið stríðið með vasklegri framgöngu sinni á andlega sviðinu.

Alan Turing var einnig samkynhneigður og árið 1952 var hann dæmdur fyrir kynvillu. Hann var látinn gangast undir efna-geldingu, og lést 2 árum síðar. Dánarorsökin var eitrun, úrskurðurinn sjálfsmorð, líklega vegna andlegs álags.

Stephen Hawking og nokkrir aðrir fræðimenn hafa nú krafist þess að David Cameron forsetisráðherra Bretlands náði Turing. Þar segir m.a.

one of the most brilliant mathematicians of the modern era...

Yet successive governments seem incapable of forgiving his conviction for the then crime of being a homosexual, ...

We urge the prime minister to exercise his authority and formally forgive the iconic British hero.

Vitanlega á að náða karlinn. Það væri forvitnilegt að vita hvort einhver, og þá hversu margir, íslendingar hafi verið dæmdir fyrir þennan "glæp". 
 
En Alan Turing birtist einnig í fyrirsögn í vísindatímaritinu  Science í vikunni. Maria A. Ros og félagar hafa rannsakað þroskun fingra í músum. Mýs eru með svipaða uppröðun á fingrum og við, og genin sem stýra þroskun þeirra eru sameiginleg mönnum, músum og öðrum spendýrum.
 
Maria og samstarfsmenn unnu með hin forvitnilegu Hox gen, sem eru fjölskylda gena sem mynda stjórnprótín sem kveikja og slökkva á öðrum genum. Í erfðamengi mannsins eru nokkrir tugir hox-gena, en ávaxtaflugur eru með 8 stykki. Eldri rannsóknir höfðu sýnt að Hox genin voru nauðsynleg fyrir myndun fingra (auk þess sem þau eru nauðsynleg fyrir einkenni hryggjaliða og annara vefja).
 
Hvernig tengist Alan Turing tilurð fingra? Jú, sama ár og hann var dæmdur fyrir kynvillu gaf hann út greinina The Chemical Basis of Morphogenesis. Þar ræðir hann einfalt efnafræðilegt líkan tveggja þátta sem virka hvor á annan. Einn þáttur örvar framleiðslu á sjálfum sér, og á hinum þættinum. Hinn þátturinn bælir þann fyrri. Þessi einföldu skilyrði duga til að búa til reglulegt mynstur, eins og fingur eða bletti á hlébarða. Magn af hvorum þætti og styrkur samskipta þeirra á millum ákarðar hversu gróft mynstrið er (t.d. hversu stórir blettirnir á hlébarðanum eru - og hversu langt er á milli bletta).

Maria Ros og félagar sáu nefnilega að þegar þau drógu úr virkni hox gena í útlimavísi (með sameindaerfðafræðilegum aðferðum), þá urðu til fleiri fingur. Því fleiri Hox genum sem slökkt var á - því fleiri fingur mynduðust. Og það sem var sérkennilegast var að músa-"höndin" var alltaf jafn stór. Það var því ljóst að hox genin hjálpa til við að stilla Turing-stjórnkerfi í myndun fingra.
 
Reyndar er enn ekki vitað hvernig hox genin gera þetta, en vitað er að þau hafa áhrif á hundruð annara gena. En það er staðreynd að líkan Turings hefur verið mikill innblástur líffræðingum. Þessi nýjasta rannsókn er bætist við rúmlega 6000 vísindagreinar sem hafa vísað í grein hans.
 
Líkan Turings um hvernig magn og samskipti sameinda geta stýrt þroskun veldur því að líffræðingar taka undir með tölvunarfræðingum og hampa Alan Turing. Því er full ástæða til að taka undir með Hawking og félögum, sem krefjast þess að Turing verði náðaður. En, í krafti sanngirni og mannúðar ættum við einnig að krefjast þess að allir dæmdir kynvillingar verði náðaðir.
 
Viðbót:
Eftir ábendingar frá Sævari á Stjörnfræðivefnum og samskipti við Þorvald Kristinsson, þá er hægt að staðfesta að allavega einn Íslendingur hefur verið dæmdur fyrir kynvillu árið 1924. Glímukappinn Guðmundur Sigurjónsson Hofdal. Þorvaldur Kristinsson hefur kannað sögu hans og rakið í grein í tímariti Gleðigöngunar 2012 (Gaypride 2012), Glæpurinn gegn náttúrulegu eðli saga Guðmundar glímukappa (greinin er aftast í heftinu). (einnig má hlýða á viðtal við Þorvald í Íslendingasögum á Rás 1).
 
Þorvaldur rekur í greininni sögu Guðmundar og hið átakanlega mál gegn honum. Í greininni er tilvitnun í dómsskjölin:
Ákærður segist aldrei hafa gert mjög mikið að þessu en alltaf nokkurn veginn jafnt. Hann segir að fýsn sín til þessa sé eigi mjög sterk og hann geti vel látið á móti henni, en segist hafa álitið að þetta væri hvorki syndsamlegt né refsivert. Hann segist hafa fullkomna samræðishneigð til kvenmanna og hafa gert talsvert að því að hafa holdlegar samfarir við þá. Ákærður hefur neitað því að hafa nokkru sinni haft holdlegar samfarir við unglinga innan 16 ára aldurs og ekkert hefur komið fram í prófum málsins sem veikti þá neitun hans.
Guðmundur var dæmdur og fylgdi þessi smánarblettur honum alla tíð, þrátt fyrir að hafa fengið náðun konungs nokkru síðar. Í raun kom bara einn maður honum til varnar, læknirinn Guðmundur Thoroddsen. Þorvaldur setur mótbárur hans í samhengi við sjúkdómsvæðingu samkynhneigðar sem í kom kjölfarið:
Aðeins einn maður kom honum til varnar eftir að dómur féll, Guðmundur Thoroddsen læknir. Hann ritaði dómsmálaráðherra bréf og kvað sér ofboðið við að frétta að slíkir dómar væru dæmdir hér á landi. Fór hann hörðum orðum um yfirvald á villigötum í skjóli úreltra hegningarlaga og lagði til að nafni hans yrði náðaður. Það er athyglisvert að hér tekur læknir til máls, fulltrúi þeirrar stéttar sem um þetta leyti var að breyta samkynhneigð úr glæp í sjúkdóm og rækta þar nýja hjörð sjúklinga næstu áratugi. En Guðmundur Thoroddsen fer hér allt aðrar leiðir, hann tekur til máls sem róttækur talsmaður mannréttinda og forðast í bréfi sínu að sjúkdómsvæða hneigðir hins dæmda.
Sögur Guðmundar Hofdal og Alan Turing eiga erindi við okkur í dag.
 
Ítarefni:
A. M. Turing The Chemical Basis of Morphogenesis  Phil. Trans. R. Soc. Lond. B 14 August 1952 vol. 237 no. 641 37-72
 
Ítarefni:

The Telegraph The tragic story of Alan Turing 21. nóv 2011.

Hox Genes Regulate Digit Patterning by Controlling the Wavelength of a Turing-Type Mechanism Rushikesh Sheth,Luciano Marcon,M. Félix Bastida,Marisa Junco,Laura Quintana,Randall Dahn,Marie Kmita,James Sharpe, and Maria A. Ros Science 14 December 2012: 1476-1480.

Þorvaldur Kristinsson Glæpurinn gegn náttúrulegu eðli saga Guðmundar glímukappa Tímarit Gleðigöngunar 2012 (Gaypride 2012).

Viðtal við Þorvald í þættinum Íslendingasögur á Rás 1 (9. des. 2012). 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is)

Einn Íslendingur hefur verið dæmdur fyrir „kynvillu“. Það var Guðmundur Sigurjónsson Hofdal, glímukappi. Þorvaldur Kristinsson var með mjög fína umfjöllun um hann í þættinum Íslendingasögur á Rás 1

http://www.ruv.is/sarpurinn/islendingasogur/09122012-0

- Sævar

Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is), 19.12.2012 kl. 17:29

2 Smámynd: Arnar Pálsson

Takk fyrir Sævar, ég fer beint og hlusta á þáttinn.

Arnar Pálsson, 20.12.2012 kl. 10:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband