6.2.2017 | 16:47
Fræðarinn Örnólfur Thorlacius
Flestar kynslóðir eiga sínar leiðastjörnur, einstakt fólk sem blása þeim dug og von í brjóst. Fyrir unnendur íslenkrar náttúru og vísinda var Örnólfur Thorlacius leiðarljós fyrir nokkrar kynslóðir. Starf hans sem kennari í menntaskólum og fræðari í sjónvarpi, opnaði fyrir mörgum okkur undraverðar veraldir og leyndardóma sem breyttu lífi okkar.
Nýjasta tækni og vísindi var sjaldgæf gersemi í íslensku sjónvarpi. Þáttur um nýjustu framfarir í rannsóknum og tækniframfarir margskonar, í umsjón Örnólfs Thorlacius og síðar Sigurðar Richter. Báðir stóðu þeir sig frábærlega í hlutverki fræðarans, töluðu skýrt og vandað mál, og miðluðu af natni og rólyndi (ekki látum og offorsi eins og margir vísindatrúðar nútímans).
Það viðurkennist að Örnólfur var ekki eini áhrifavaldurinn þegar ég valdi að innritast í Menntaskólann í Hamrahlíð, Snorri vinur minn og Linda frænka réðu líklega meiru. En það var verulega svalt að ganga í skóla þar sem Guðfaðir íslenskra vísinda og tækniáhugamanna kenndi.
Örnólfur var ákaflega duglegur penni og skrifaði m.a. fréttir og lengri pistla fyrir náttúrufræðinginn um árabil. Þar fjallaði hann um hin fjölbreytilegustu viðfangsefni, t.d. svartadauða, risaeðlur og fugla, og hesta í hernaði, Einnig sat hann í ritstjórn náttúrufræðingsins töluverða hríð. Skrif Örnólf voru mér innblástur, í viðleitan okkar að skrifa um líffræði og vísindi fyrir alþjóð. Vissulega gæti maður staðið sig betur á þeirri vígstöð, Örnólfur skrifaði bæði mun meira og skýrar. Blessunarlega fjallar ungt fólk um vísindi á vandaðan hátt (sbr. hvatinn.is, loftslag.is). Einnig finnst mér að náttúrufræðingurinn sé enn að bíða eftir einhverjum sem fylgi dæmi Örnólfs, og riti almenna pistla um vísindi og náttúru. Tímaritið er nútildags aðallega vísindatímarit, með einstaka greinum um almennari mál eins og t.d. bækur. Mér finnst sem það hljóti að vera rými fyrir vandaða vísindablaðamennsku á prenti hérlendis, og e.t.v. er náttúrufræðingurinn vettvangurinn?
Það er þungbært að heyra af andláti Örnólfs.
Í dag missti Ísland eina af sínum skærustu leiðarstjörnum.
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt 8.2.2017 kl. 10:16 | Facebook
Nýjustu færslur
- Eru virkilega til hættuleg afbrigði veirunnar sem veldur COVI...
- Grunnrannsóknir eina aðferðin til að skapa nýja þekkingu og e...
- Lífvísindasetur skorar á stjórnvöld að efla hlut Rannsóknasjó...
- Eru bleikjuafbrigði í Þingvallavatni að þróast í nýjar tegundir?
- Hröð þróun við rætur himnaríkis
- Leyndardómur Rauðahafsins
- Loftslagsbreytingar og leiðtogar: Ferðasaga frá Suðurskautsla...
- Genatjáning í snemmþroskun og erfðabreytileiki bleikjuafbrig...
- Fjöldi og dreifing dílaskarfa á Íslandi
- Staða þekkingar á fiskeldi í sjó
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.