Leita í fréttum mbl.is

Stjórnvöld líta á steinsteypu sem menntun

Háskólar á Íslandi eru undirfjármagnaðir miðað við Háskóla á norðurlöndum og í norður Evrópu.

Í dýragarði George Orwell voru sum dýrin jafnari en önnur. Svínin sem stjórnuðu gerðu vel við sjálfa sig, á meðan hin dýrin höfðu það skítt.

Fyrir nokkru uppgötvaði einhver á alþingi Íslendinga, í ríkisstjórn eða fjármálaráðuneytinu snilldar brellu til að spara pening. Brellan felur í sér, að þegar ríkið semur um hærri laun tiltekins hóps, þá fylgir ekki nægt fé til stofnanna sem þeir vinna hjá. Þetta sést t.d. í Háskóla Íslands. Ríkið samdi við háskólakennara og prófessora um rúmlega 20% launahækkanir árið 2015. En í fjárlögum fyrir 2016 hækkaði framlag til Háskóla Íslands ekki í samræmi við kjarasamninginn. Því situr skólinn  upp með halla, hann verður vitanlega að borga starfsmönnunum hærri laun en skortir fjármagn til þess. Afleiðingin er sú að námskeið eru lögð niður, önnur kennd með 30% minna framlagi kennara, og verklegar æfingar og ferðir eru skornar niður, yfirvinna og nýráðningar bannaðar og lausráðnum starfsmönnum sagt upp.

Háskóli Íslands tók þátt í niðurskurði á ríkisútgjöldum eftir hrun, á sama tíma og hann tók við fleiri nemendum. Hann er rekinn fyrir mun minna fé en sambærilegir háskólar á norðurlöndum. Langvarandi svelti birtist bæði í í hrörnandi húsnæði, tækjabúnaði og kerfum, en einnig í versnandi kennslu, lélegra námsframboði, tærandi vinnuumhverfi og hrörnandi

Afleiðingin er lélegra nám til handa þeirri kynslóð sem nú nemur í háskólunum.

Í þessu ljósi er ágætt að rifja upp úrskurð kjararáðs, sem birtist eftir októberkosningarnar. Þar voru laun alþingismanna hækkuð um tæp 45%. Alþingi samþykkti fegrunaraðgerð á klúðrinu, en veruleikinn sem birtist í launahækkunum toppanna er annar en sá sem almenningur eða aðrir ríkisstarfsmenn lifa við. Fjárlög eða fjáraukalög til Alþingis verða örugglega næg til að standa fyrir þessum aukna launakostnaði. Meðal starfsmanna ríkisins eru því sumir jafnari en aðrir.

Nýjasta útspilið er svo áætlun um ríkisframlög til ársins 20120. Samkvæmt bókhaldinu á að auka fjárlög til háskólanna, en í tilfelli HÍ er aukningin eyrnamerkt Húsi íslenskra fræða. Með öðrum orðum, núverandi ríkisstjórn lítur á steinsteypu sem ígildi menntunar. Ég get alveg lofað því að steinsteypa getur ekki hjúkrað sjúklingi, menntað ungviði, reiknað úr stærð fiskistofna eða liðsinnt fórnarlömbum kynferðisofbeldis.

Jón Atli Benediktsson fjallaði um fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar í viðtali við Stundina. Þar segir:

Við teljum afar misvísandi og beinlínis ruglandi að Hús íslenskra fræða sé í áætluninni sett inn með framlögum til háskólanna. Öll hækkun framlaga í málaflokki háskóla fer til byggingar Húss íslenskra fræða fyrstu árin, þ.e. ekki er gert ráð fyrir hækkun framlaga til háskólanna fyrr en eftir að húsið hefur verið reist árið 2020. Þá munu losna um 700 milljónir króna og 1.500 milljónir árið 2021. Þetta þýðir að háskólastigið þarf að bíða í 4 ár eftir innspýtingu sem þó er mjög hógvær.

Menntun er undirstaða samfélags manna. Auðvitað þurfum við húsnæði fyrir kennslu og rannsóknir, en það er glapræði að taka það af rekstrarfé Háskólanna.

Eins og Alþingi fær örugglega næga fjárveitingu til að þingmenn fá örugglega sína 45% launahækkun er ólíklegt að næsta viðbygging við Alþingi leiði til fækkunar þingmanna eða lækkunar þingfararkaups. Napóleon og félagar passa sínar kökur, og bjóða ungu kynslóðinni steinsteypu í stað menntunar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Steinsteypa er valium stjórnmálamanna. Til að efla menningun á landsbyggðinni þá voru steypt upp "menningarhús" í öðru hvoru krummaskuði. Syningarsalir fyrir myndlist, sem standa tómir. En stjórnmálamönnum líður betur og telja sig hafa leyst þennan vanda.

Annrs varðandi fjármögnun háskólans, þá hefur hann fleiri tekjulindir en bara framlag ríkissjóðs. Háskólinn er líka löglegt spilavíti. Næst er að fá prívatsölu á fíkniefnum, þegar og þá það verður leyft.

Hvernig stæði annars Háskólastarf hér án þessara aukatekna? Eru fordæmi annarstaðar fyrir því að háskólastarf sé rekið með þessum hætti? Þegar borin eru saman fjármagn til Háskóla hér og t.d. á hinum Norðurlöndunum, er þá tekið tillit til þessara aukatekna? Eru Háskólar á norðulöndum kannski fjármagnaðir með sama hætti?

Engin illkvittni, bara forvitni.

Jón Steinar Ragnarsson, 4.4.2017 kl. 02:41

2 Smámynd: Arnar Pálsson

Ábendingin með happdrætttið og háspennusalina er beint í mark. Það er auðvitað fáránleg að haśkólar, eða hvert annað ríkisbatterí þurfi að standa í fjáröflun með þvílíkar afurðir.

Í Finnlandi kemur stór hluti af rannsóknarfé úr spilakassakerfi, og spilafíkn er viðvarandi vandamál þar. Í Ástralíu eru líka felstir einhentu bandítar í heiminum, held meira en helmingur þeirra í Nýja suður Wales. Þar er spilakassafíkn líka landlæg og steypir fólki í örbirgð.

Innan HÍ var undirskriftarsöfnun gegn spilakössunum, en ég veit ekki til þess að neinar úrbætur hafi verið gerðar.

Arnar Pálsson, 4.4.2017 kl. 11:49

3 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Það ljótasta við spilafíknina er að fórnarlömb hennar eru oftar en ekki fólk sem er lágtekjuffólk. Örvænt fólk með vonir um að lukkan leysi það úr fátækragildrunni. Ég hef tekið eftir að mikið af þessu fólki eru nýbúar af ýmsu þjóðerni ekki síður en íslendingar og kannski meir.

Þessi fíkn er ekki einkamál þeirra sem ánetjast henni frekar en áfengis og eiturlyfjafíklar. Þetta skemmir líf allra sem nærst standa og þá ekki síst barna.

Stofnun sem hefur strangar siðareglur og kennir siðfræði og boðar á ekki og má ekki standa að baki þessu. Virðing stofnunarinnar rýrist einnig af þessu. Stofnun sem á að styðja við og efla æðri menningu og nám er ábyrgust allra fyrir viðgangi þess lægsta og lágkúrulegasta í menningarlegu tilliti og kemur jafnvel í veg fyrir nám og þroska hjá fleirum en hún eflir.

Menn verða að ræða aðrar lausnir. Háskólar í usa lifa á framlögum hinna efnameiri og af samvinnu við stórfyrirtæki um vísindalegar lausnir og þróun í iðnaði t.d. Er það of mikill kapítalismi fyrir kommana hér. Áherslan virðist liggja miklu fremur í að prenta diplómu fyrir sem flesta á föstum akademískum grunni í stað þess að byggja upp merrit háskólans og þátttöku í raunverulegum úrlausnarverkefnum. Snýst meira orðið um að mjólka peninga í tilganslaus rannsóknarverkefni, sem engum er til gagns. Milljónir í að undirbúa ritgerðir um vers í biblíunni t.d.

Er ekki komið timi á málþing um þennan brest og gera stofnunina meira "hands on" í samfélaginu? Jafnvel í alþjóðlegu samhengi. Hvar er betra að næra nýsköpun og þróun en þar?

Ég held annars að  einn gallinn sé að prófessorar eru embættismenn og eru ekki ráðnir né reknir eftir verðleikum eða framlagi. Þeir eru launaáskrifendur ríkisins, æviráðnir og hvatalausir. Það blomstrar ekkert við slíkar aðstæður.

Jón Steinar Ragnarsson, 6.4.2017 kl. 14:12

4 Smámynd: Arnar Pálsson

Sæll Jón

Ég er þér algerlega sammála um að Háskóli Íslands þurfi að horfast í augu við þennan veruleika.

Rektor er hins vegar raunsæismaður, sem horfir á holun í bókhaldi skólans sem síðustu tvær ríkisstjórnir bjóða upp á (sbr. pistil að ofan). Ég býst ekki við neinum skrefum frá yfirstjórn skólans, sem geti leyst úr.

Ég er hins vegar ekki sammála þér um greiningu á gildi og rekstrarformi háskóla hérlendis og erlendis.

Síðustu ár hefur heilmikið verið skrifað um áhrif kapítalismans á rekstur háskólaí bandaríkjunum, og því miður eru þau ekki jákvæð. Skólarnir eru reknir meira út frá hagnaðarvon, þeir fjárfesta í allskonar bréfum, eignum og landi, kennarar eru metnir og ráðnir út frá því hversu mikla styrki þeir fá - ekki hversu góðar rannsóknir þeirra eru, nemendur lenda í hringiðu skólagjaldahækkanna sem hækka um 10% á ári, skólar leggja ofuráherslu á að skrá einkaleyfi og hagnýtingu niðurstaðna - en hafa ekki rétta samsetningu kennara né rétt faglegt umhverfi (eða pening) til að standa í frumkvöðlastarfsemi, og svo mætti lengi telja.

Ég er nefnilega þeirrar skoðunar að hlutverk háskólanna sé fyrst og fremst að mennta ungt fólk og svo einnig að stunda rannsóknir á óleystum ráðgátum. Ef akademískt frelsi þýðir að einhver prófessor vill rannsaka vers í biblíunni, lifun hrúðurkalla í súrum sjó, stofngerð bleikjunnar hérlendis eða dvala í múrmeldýrum þá má hún það. Því hinir kostirnir, markaðsdrifnar rannsóknir eingöngu - eða rannsóknir á viðfangsefnum sem alþingi þóknast það misserið eru ávísun á ógöngur.

Arnar Pálsson, 7.4.2017 kl. 09:13

5 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Sammála að markaðsdrifin fjámögnun ein og sér getur verið til skaða, en það er örugglega meðalvegur í þessu. 

Varðandi akademískt frelsi, þá hlýtur það að metast af hagnýti rannsókna. Allavega setja þær í ákveðna forgangsröð. Hvort það er einhver skylda skattborgara að borga duttlungafullar rannsóknir og hugarefni einstakra fræðimanna hlýtur að vera matsatriði sem réttlætt er af einhverskonar praktík.

Held að pólitísk rétthugsun og kynjapólitík vegi of þungt í starfi skólans. Einhverskonanr Jemtelov, sem segja að allir eigi sama rétt óháð pragmatískri skilgreiningu þess sem þeir eru að fást við, gæði, getu og hagnýtni. Þesskonar áhrifavaldar eiga ekki heima í háskóla. Það geta ekki allir verið sigurvegarar. 

Jón Steinar Ragnarsson, 7.4.2017 kl. 10:37

6 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Ég ímynda mér að ríkisreknir háskólar með prófessora sem teljast til opinberra embættismanna bjöða upp á stöðnun. Nýtt blóð kemst ekki að fyrr en menn detta niður dauðir.

Þú segir að þú búist ekki við neinum skrefum frá stjórn skólans til bóta. Það er raunsætt miðað við svona ráðningakerfi. Skólinn verður þá samtryggingu meðalmennskunnar og nepotisma að bráð. Launaáskrifendurnir verja eigin hag og afkomu og ýta frá öllum sem gætu varpað skugga á þá. Þetta er vandi í öllum ríkisstofnunum.

Það held ég að hái þessari stofnun mest.

Jón Steinar Ragnarsson, 7.4.2017 kl. 10:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband